Hoppa yfir valmynd

650/2016. Úrskurður frá 20. september 2016

Úrskurður

Hinn 20. september 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 650/2016 í máli ÚNU 16010012.  

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 19. janúar 2016 kærði A, f.h. B, synjun tollstjóra á beiðni um aðgang að gögnum um afskipti embættisins af kæranda við komu til Íslands frá [...]. 

Í kæru segir að óskað hafi verið eftir öllum gögnum sem tollstjóri hefði safnað eða skráð um kæranda vegna málsins þann [...]. Afskiptin hefðu falist í því að leitað hafi verið í farangri kæranda og á honum sjálfum án þess að neitt ólöglegt kæmi fram. Þá hafi hann jafnframt verið spurður persónulegra spurninga um vímuefnanotkun. Tollvörður hafi tjáð kæranda að engin skýrsla yrði skráð um afskiptin. Nokkrum vikum síðar hafi kærandi mætt til skýrslugjafar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem borið hafi verið undir hann að tollayfirvöld hafi haft afskipti af honum. Af þessu megi ráða að tollstjóri hafi áframsent lögreglu gögn, m.a. mjög persónuleg, um afskipti af kæranda og því einnig ljóst að tollstjóri hafi í vörslum sínum gögn um afskiptin. 

Beiðni kæranda var synjað með tölvupósti þann 11. janúar 2016. Þar var vísað á lögreglu um afhendingu gagnanna. Kærandi kveður lögreglu ekki hafa afhent nein gögn um afskipti tollstjóra. Kærandi kveður rétt að beina beiðninni til tollstjóra með vísan til 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga. Ekki verði séð að embættið geti vísað ábyrgðinni til lögreglu og ekki verði heldur séð að takmarkanir upplýsingalaga eigi við gögnin. 

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 1. febrúar 2016 var tollstjóra kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum.  

Í umsögn tollstjóra dags. 8. mars 2016 segir að beiðni kæranda hafi í upphafi verið vísað til lögreglu þar sem embættið taldi ekki á sínu forræði að veita umbeðnar upplýsingar. Ástæða þess hafi verið sú að lögreglan hafi óskað eftir upplýsingunum vegna máls sem sé til meðferðar. 

Tollstjóri kveður umbeðnar upplýsingar hafa verið skráðar í dagbók tollgæslu um afskipti af kæranda við komu til landsins frá [...]. Þá sé í vörslum tollstjóra einnig að finna upplýsingar um afhendingu þeirra til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Upplýsingarnar séu hluti af greiningarstarfi tollstjóra sem sé eitt af lögbundnum hlutverkum embættisins, sbr. 8. tl. 40. gr. tollalaga. Nauðsynlegt sé að slíkar upplýsingar fari leynt og séu þær undanþegnar upplýsingaskyldu samkvæmt persónuverndarlögum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar komi t.d. fram að 18. gr. laganna gildi ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem varða almannaöryggi, landvarnir, öryggi ríkisins og starfsemi ríkisins á sviði refsivörslu, auk þess sem einnig eigi við sjónarmið um almannaöryggi, landvarnir og öryggi ríkisins.   

Í umsögn tollstjóra kemur fram að umbeðin gögn hafi að geyma skjámyndir af gagnagrunnum sem tollgæslan vinni með og þar sé einnig að finna vísbendingar um hvernig unnið er með upplýsingar í greiningarstarfi. Afhending slíkra upplýsinga myndi stefna í hættu vinnu við að tryggja öryggi ríkisins. Tollstjóri, löglærðir fulltrúar hans og tollverðir fari með lögregluvald samkvæmt 4. tl. 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Að mati embættis tollstjóra falla umbeðin gögn undir undantekningarákvæði 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga þar sem þau geymi upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni, sbr. 10. gr. laganna, einkum 1. tl. Fallist úrskurðarnefnd ekki á þau sjónarmið gerir tollstjóri þá varakröfu að kæranda verði veittur aðgangur að greinargerð um efnislegt innihald gagnanna þar sem af þeim sé hægt að sjá upplýsingar um hvað sé skráð við leit á farþegum. Þá sé í gögnunum mynd af farþegaupplýsingum sem Tollstjóri hafi aðgang að á grundvelli 3. mgr. 30. gr. og 51. gr. a. tollalaga nr. 88/2005. Þær kunni að hafa viðskiptalegt gildi fyrir flugfélag, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.  

Umsögn tollstjóra var kynnt kæranda með bréfi dags. 13. mars 2016 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 18. mars 2016, er fjallað um skilyrði 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Að mati kæranda hefur umsögn tollstjóra aðeins að geyma almennar hugleiðingar þess efnis að aðgangur geti skaðað tiltekna almannahagsmuni á þeim grundvelli að skjámyndir sem sýni persónulegar upplýsingar um kæranda afhjúpi starfsaðferðir tollstjóra. Af athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga verði ráðið að slík sjónarmið dugi ekki til að koma í veg fyrir aðgang. Um 1. tl. 1. mgr. 10. gr. segir kærandi mikilvægt að hafa í huga að ákvæðið taki einungis til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn og út á við. Vandséð sé hvernig eftirlit með vöruinnflutningi geti fallið þar undir. Loks segir kærandi að hafa verði til hliðsjónar að tollverðir hafi sagt ósatt um skráningu á umbeðnum upplýsingum. 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum tollstjóra um afskipti embættisins af kæranda á Keflavíkurflugvelli. Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum er tekið fram að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fara tollstjóri, löglærðir fulltrúar hans og tollverðir með lögregluvald á sínu starfssviði og þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu. Í 1. mgr. 183. gr. tollalaga nr. 88/2005 segir að tollstjóri annist rannsókn brota gegn refsiákvæðum laganna að svo miklu leyti sem slík rannsókn sé ekki í höndum lögreglu. Skuli hann hvenær sem þess gerist þörf hefja rannsókn út af rökstuddum grun eða vitneskju um refsivert brot. Samkvæmt 4. mgr. fer um rannsókn eftir lögum um meðferð sakamála.  

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni umbeðinna gagna og telur hafið yfir vafa að þau lúti að rannsóknum sakamála í skilningi 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að teknu tilliti til hlutverks embættis tollstjóra samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Því verður réttur til aðgangs að þeim ekki reistur á ákvæðum upplýsingalaga og ber að vísa kæru vegna synjunar tollstjóra frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 

Það athugast að í afriti umbeðinna gagna, sem úrskurðarnefndin fékk afhent á grundvelli 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, var búið að afmá nöfn starfsmanna tollstjóra og lögreglu sem komu að málinu. Til þess stóð engin heimild, þar sem afhendingarskylda ákvæðisins nær til allra þeirra gagna sem kæra tekur til.  

Úrskurðarorð:

Kæru A, f.h. B, vegna synjunar tollstjóra á beiðni um aðgang að gögnum um afskipti embættisins af kæranda þann [...], er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta