Hoppa yfir valmynd

Mál 22/2015.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. nóvember 2015

í máli nr. 22/2015:

Sparri ehf.

gegn

Ríkiskaupum,

Isavia ohf. og

HUG-verktökum ehf.

Með kæru 3. nóvember 2015 kærir Sparri ehf. útboð varnaraðila Ríkiskaupa og Isavia ohf. (hér eftir vísað til sem „varnaraðila“) nr. 20168 auðkennt „Endurbætur á þjónustuhúsi Isavia á Kef“. Kærandi krefst þess að samningsgerð varnaraðila við HUG-verktaka ehf. verði stöðvuð. Jafnframt er þess krafist að ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í útboðinu verði felld úr gildi og lagt verði fyrir þá að bjóða verkið út að nýju. Þá krefst kærandi álits á skaðabótaskyldu varnaraðila, auk þess sem krafist er málskostnaðar. Af hálfu varnaraðila er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að sjálfkrafa banni við samningsgerð verði aflétt. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Af gögnum málsins verður ráðið að í september 2015 hafi varnaraðilar boðið út verk sem fólst í endurbótum og lagfæringum innan og utandyra á þjónustuhúsi Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli. Í grein 0.1.3 í útboðsgögnum var gerð sú krafa að bjóðandi skyldi hafa starfað við aðalverktöku á byggingarsviði í minnst fimm ár. Tekið var fram að heimilt væri að taka tillit til hæfni og reynslu stjórnenda, eigenda og annarra tilgreindra aðila við mat á því hvort skilyrði þessu væri fullnægt. Samkvæmt grein 0.4.6 skyldi velja lægsta tilboðið sem bærist í útboðinu. Kærandi tók þátt í útboðinu auk varnaraðila HUG-verktaka ehf. og fleiri fyrirtækjum. Á opnunarfundi 6. október 2015 kom í ljós að HUG-verktakar ehf. áttu lægsta tilboðið en kærandi það næstlægsta. Hinn 26. október  var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að velja tilboð HUG-verktaka ehf. í útboðinu. Kærandi byggir einkum á því að HUG-verktakar ehf. hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna um hæfi þar sem fyrirtækið hafi ekki starfað við aðalverktöku á byggingarsviði í minnst fimm ár.

 Niðurstaða

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun varnaraðila frá 26. október 2015 að velja tilboð HUG-verktaka ehf. í hinu kærða útboði. Verður því að miða við að komist hafi á sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013. Er því ekki tilefni til að taka til greina kröfu kæranda um að samningsgerð varnaraðila verði stöðvuð um stundarsakir samkvæmt 1. mgr. 96. gr. sömu laga. Af sömu ástæðu verður ekki fallist á það með varnaraðilum að kærufrestur í máli þessu hafi verið liðinn við móttöku kæru.

Samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga um opinber innkaup er kaupanda heimilt að gera ýmis konar kröfur til tæknilegrar getu fyrirtækis. Í grein 0.1.3 í útboðsgögnum kemur fram að bjóðandi skuli hafa starfað við aðalverktöku á byggingarsviði í minnst fimm ár. Bar bjóðanda að leggja fram lista yfir unnin nývirki fyrir sambærileg verk síðastliðin fimm ár og geta tengiliðs eigenda verkanna. Í sama ákvæði var tekið fram að við mat á hæfni og reynslu bjóðanda samkvæmt ákvæðinu væri verkkaupa heimilt að taka tillit til hæfni og reynslu eigenda, stjórnenda, lykilstarfsmanna, undirverktaka og sérstakra ráðgjafa bjóðanda af verklegum framkvæmdum og leggja slíka hæfni og reynslu að jöfnu við hæfni og reynslu bjóðandans sjálfs, þótt reynsla viðkomandi aðila hafi áunnist í öðru fyrirtæki en hjá bjóðanda. Útboðsgögn voru því skýr um að heimilt væri að horfa til reynslu annarra aðila en þess fyrirtækis, sem leggur fram tilboð, við mat á því hvort viðkomandi krafa um tæknilega getu væri uppfyllt.  Af fyrirliggjandi gögnum verður meðal annars ráðið að stjórnandi HUG-verktaka ehf. hafi meira en fimm ára reynslu af aðalverktöku á byggingarsviði. Að þessu virtu og með hliðsjón af framangreindu ákvæði útboðsgagna er það álit nefndarinnar, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt samkvæmt 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun samningsgerðar á grundvelli kæru Sparra ehf. vegna útboðs varnaraðila Ríkiskaupa og Isavia ohf. nr. 20168 auðkennt „Endurbætur á þjónustuhúsi Isavia á Kef“, er aflétt.

                                                                                    Reykjavík, 18. nóvember 2015

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                    Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta