Úrskurður nr. 74/2015
Þann 11. júní 2015 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 74/2015
í stjórnsýslumáli nr. KNU15010018
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru sem barst innanríkisráðuneytinu þann 7. júní 2013 kærði [...] hdl., f.h. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2013, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.
Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 13. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti kærandi fyrst um dvalarleyfi hér á landi þann 15. mars 2011 á grundvelli hjúskapar síns við íslenskan ríkisborgara. Þeirri umsókn var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. apríl 2012, á grundvelli þess að fullnægjandi gögn hefðu ekki borist stofnuninni. Þann 28. ágúst 2012 óskaði kærandi eftir endurupptöku máls síns hjá stofnuninni og varð stofnunin við þeirri beiðni þann 25. september 2012. Kæranda var synjað um heimild til dvalar hér á landi á meðan mál hennar væri til umfjöllunar hjá stofnuninni. Með ákvörðun sinni, dags. 10. maí 2013, synjaði Útlendingastofnun kæranda um dvalarleyfi hér á landi.
Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til innanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 5. júní 2013. Kærandi lagði ekki fram sérstaka greinargerð með máli sínu, en málsástæður eru ítarlega reifaðar í kæru.
Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. laga um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014.
Kærunefnd útlendingamála barst þann 19. janúar 2015 bréf frá talsmanni kæranda, dags. 14. janúar 2015, þar sem þess er krafist að mál kæranda hljóti flýtimeðferð og að kæranda verði heimiluð dvöl á landinu á meðan kærumál hennar væri til meðferðar hjá nefndinni.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að rökstuddur grunur sé á að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað til málamynda. Þau atriði er stofnunin tiltekur sérstaklega hvað það mat varðar eru m.a. að ósamræmi sé á lýsingu eiginmanns kæranda á atvikum í viðtali og greinargerð sem og öðrum gögnum. Kærandi og eiginmaður hennar gengu í hjúskap stuttu eftir að [...]. Fyrri maki eiginmanns kæranda sé þar að auki [...] kæranda og hafi haft milligöngu um kynni þeirra. Ennfremur að til hjúskapar kæranda var stofnað að lokinni mánaðardvöl eiginmanns hennar á [...] og hafi hjónavígslan farið fram sama dag og hann fór úr landi. Eiginmaður kæranda þekki auk þess ekki nöfn foreldra umsækjanda. Þá bendi afrit af símagögnum til þess að samskipti þeirra hjóna hafi verið lítil og ekki í samræmi við framburð eiginmanns kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun.
Með vísan til þess sem að framan greinir var það mat stofnunarinnar að rökstuddur grunur væri á að til hjúskapar hefði verið stofnað til málamynda líkt og greinir í 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga og ekki hafi verið sýnt fram á annað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru er gerð sú krafa að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.
Kærandi byggir kröfu sína á því að hún og maki hennar séu í raunverulegum hjúskap og að Útlendingastofnun hafi ekki sýnt fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað með slíkum hætti að um málamyndagerning sé að ræða. Gögn málsins fullnægi ekki 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga og þær röksemdir sem stofnunin byggi ákvörðun sína á séu byggðar á haldlausu mati starfsmanna stofnunarinnar og óbeinum sönnunargögnum. Stofnunin hafi ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að umsækjandi hafi gengið í hjúskap með maka til þess eins að sækja um dvalarleyfi.
Þá byggir kærandi á því að viðtal það sem eiginmaður kæranda fór í hjá Útlendingastofnun hafi verið óvinalegt og honum verið lögð orð í munn. Þar sem engin upptaka sé til af viðtalinu, utan fyrstu 15 mínútna þess, sé ekki hægt að byggja á því í máli kæranda. Allan vafa um slíkt verði að túlka kæranda í hag. Þá hafi eiginmaður kæranda skrifað undir útprentun af viðtali í góðri trú, en hann þekki ekki til framkvæmdar slíkra viðtala og hafi ekki haldið að slíkt gagn yrði notað gegn umsókn þeirra hjóna.
Hvað varðar meint ósamræmi í frásögnum byggir kærandi á því að það eigi sér eðlilegar skýringar, þ.e. greinargerð lögmanns sé skrifuð út frá samskiptum við kæranda og eiginmann hennar og geti því einstaka atriði skolast til, þar að auki sé langt um liðið síðan aðilar hófu samskipti.
Þá hafnar kærandi þeirri málsástæðu Útlendingastofnunar að kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki hist fyrr en þau giftu sig. Hið rétta sé að eiginmaður kæranda hafi dvalið um mánaðarskeið hjá henni áður en þau hafi ákveðið að ganga í hjónaband. Þar að auki er því hafnað að eiginmaður kæranda hafi reynt að fela þá staðreynd að þau hafi gengið í hjónaband sama dag og hann fór heim frá [...]. [...]
Kærandi hafnar því að eiginmaður hennar þekki ekki til nafna tengdaforeldra sinna. Hið rétta sé að hann hafi í viðtali við Útlendingastofnun sagt að hann gæti hvorki borið þau fram né skrifað. Ekki hafi verið gengið frekar eftir því í viðtalinu að kærandi bæri fram nöfn tengdaforeldra sinna. Því sé staðhæfing stofnunarinnar órökstudd.
[...]
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er því haldið fram að samskipti kæranda og eiginmanns hennar séu erfið. Kærandi bendir á að þau talist reglulega við á ensku, hafi eytt mánuði saman á [...] áður en þau gengu í hjónaband og séu nú í reglulegu sambandi. Kærandi geti með engu móti sannað ást, umhyggju, væntumþykju og vinskap hennar við eiginmann sinn.
Þá heldur kærandi því fram að ef tilgangur umsóknar hennar hefði eingöngu verið sá að afla sér dvalarleyfis hér á landi, hefðu samskipti milli hennar og eiginmanns hennar ekki þurft að vera með þeim hætti sem þau eru, þ.e. þau hefðu ekki þurft að tala reglulega saman. Þá hefði kærandi sótt strax um dvalarleyfi ef það hefði verið ásetningur hennar, en ekki rúmu ári eftir að hún gekk í hjónaband.
Að lokum bendir kærandi á að eiginmaður hennar hafi stutt hana fjárhagslega nær mánaðarlega frá því í maí 2009. Sú skýring Útlendingastofnunar að um fjárhagslegan stuðning til ættingja sé að ræða sé haldlaus, órökstudd og lýsi viðhorfi stofnunarinnar í málinu, þar sé staðreyndum snúið á hvolf og þær settar fram í þeim tilgangi að fella grun á kæranda og maka hennar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara vegna gruns um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis.
Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 13. gr. útlendingalaga og 47. gr. reglugerðar um útlendinga er að finna heimild til að veita maka íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum hinum almennu skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. útlendingalaga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. útlendingalaga ásamt hinum almennu skilyrðum 11. gr. laganna til að unnt sé að fallast á útgáfu dvalarleyfis henni til handa. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.
Í 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga er kveðið á um að ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti það ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. einnig 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Í athugasemdum í frumvarpi við 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2004 um breytingju á lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að skilyrði þess að synjað verði um dvalarleyfi sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað eingöngu til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, fellur það í hlut umsækjanda að sýna fram á annað.
Synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um dvalarleyfi er byggð á því að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi.
Kærandi byggir eins og áður segir á því að hún og eiginmaður hennar séu í raunverulegum hjúskap og að Útlendingastofnun hafi ekki sýnt fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað með slíkum hætti að um málamyndagerning sé að ræða. Kærandi mótmælir þeim ástæðum sem Útlendingastofnun leggur til grundvallar því mati sínu að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis.
Við mat sitt á því hvort um málamyndahjúskap sé að ræða fjallar Útlendingastofnun ítarlega um málavöxtu alla og grundvallast mat stofnunarinnar á heildarmati á gögnum málsins. Við mat sitt leggur stofnunin m.a. út frá því að kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki hist áður en til hjúskapar hafi verið stofnað, kærandi kveður hið rétta vera að hún og eiginmaður hennar hafi hist um mánuði áður en þau gengu í hjúskap. Í viðtali hjá Útlendingastofnun segir eiginmaður kæranda frá því að samskipti þeirra hjóna fari að mestu fram í síma. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu um símasamskipti hans og kæranda má ráða að slík samskipti hafi ekki verið mikil. Aldursmunur með kæranda og maka er [...] ár. Þá ber einnig að nefna að kærandi og fyrrum maki eiginmanns kæranda [...]. Misræmi er nokkurt í frásögn eiginmanns kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun en það er að nokkru leyti útskýrt í upplýsingum þeim sem kærandi lagði fram með kæru til innanríkisráðuneytisins. Þá bendir kærandi líkt og áður segir á að eiginmaður hennar hafi styrkt hana fjárhagslega frá maí 2009. Kærunefndin getur ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að starfsmenn Útlendingastofnunar hafi lagt eiginmanni kæranda orð í munn í viðtali þar sem engin upptaka sé til af viðtali því sem tekið var við hann hjá Útlendingastofnun. Eiginmanni kæranda gafst tækifæri til að lesa yfir endurrit af viðtalinu og gera athugasemdir við það, en engar athugasemdir voru hafðar uppi af hans hálfu.
Þá fjallar Útlendingastofnun einnig um ýmis önnur atriði í heildarmati sínu á því hvort til hjúskapar kæranda og eiginmanns hennar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi.
Líkt og áður segir er í greinargerð með útlendingalögum fjallað um leiðbeinandi sjónarmið þegar sú staða kemur upp að grunur leikur á að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda. Þau atriði sem að framan greinir varðandi samband kæranda og eiginmanns hennar, eru samkvæmt þeim leiðbeinandi sjónarmiðum, talin geta verið vísbending um að um málamyndahjúskap sé að ræða. Þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að afla einstaklingi dvalarleyfis hér á landi er Útlendingastofnun ekki heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins nema sýnt sé fram á með óyggjandi hætti að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga.
Í ljósi gagna málsins er það niðurstaða kærunefndar að það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur sé um að til hjúskaparins hafi verið stofnað til þess eins að afla kæranda dvalaleyfis sé á rökum reist. Þá fellst kærunefndin einnig á það með stofnuninni að ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti. Það er því mat kærunefndar að umræddur hjúskapur veiti ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga.
Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar útlendingamála að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi hér á landi og ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Í ljósi niðurstöðu málsins verður ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kæranda að fá að dveljast á landinu á meðan mál hennar er til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. maí 2013, um að synja [...], ríkisborgara [...], um útgáfu á dvalarleyfi er staðfest. Kröfu kæranda um dvöl á landinu á meðan málsmeðferð stendur er vísað frá.
The decision of the Directorate of Immigration, of 10 May 2013, [...] citizen of [...], regarding the denial of residence permit is affirmed. The applicants demand for tolerated stay in Iceland, while her application is reviewed, is dismissed.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Oddný Mjöll Arnardóttir
[...]