Hoppa yfir valmynd

Nr. 280/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 280/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060025

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. júní 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júní 2020, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi þann 5. febrúar 2016 á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Var leyfið endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 18. maí 2020. Þann 24. apríl sl. sótti kærandi um endurnýjun á leyfinu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, 8. júní 2020, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar þann 16. júní sl. en kæru fylgdi greinargerð. Viðbótargögn bárust kærunefnd frá kæranda dagana 22. og 26. júní sl. og 6. og 25. ágúst sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að þann 1. janúar 2020 hafi verið skráð í þjóðskrá að maki kæranda væri fluttur erlendis og að lögheimili hans væri skráð á [...]. Vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga skuli makar og sambúðarmakar hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili. Af gögnum málsins mætti ráða að maki kæranda hefði fasta búsetu á [...] og væri réttur til fjölskyldusameiningar hér á landi ekki fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 69. gr., sbr. 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að eiginmaður hennar þjáist af sykursýki og of háum blóðþrýstingi og hafi verið mjög veikur síðustu ár. Hafi hann tekið þá ákvörðun að flytjast tímabundið til [...] í heitara loftslag þar sem hann telji það henta veikindum sínum betur auk þess sem hann hafi verið óánægður með meðferð lækna hér á landi við veikindum hans. Vísar kærandi til þess að hún starfi hér á landi og hafi ekki haft tök á því að ferðast með eiginmanni sínum til [...]. Hafi þau ekki gert sér grein fyrir því að þessi ráðagerð myndi draga dilk á eftir sér en þau hafi einungis haft heilsu hans í fyrirrúmi og gert það sem væri honum fyrir bestu. Hafi eiginmaður hennar dvalið á [...] það sem af er ári, hann hafi veikst af Covid-19 þar í landi og því hafi hann ekki getað flust til baka þótt hann sjálfur vildi. Óskar kærandi eftir því að framangreint verði tekið til skoðunar, að horft verði framhjá tímabundnum lögheimilisflutningi eiginmanns hennar og að henni verði ekki gert að yfirgefa landið líkt og ákvörðun Útlendingastofnunar kveði á um. Byggir kærandi á því að um tímabundið ástand sé að ræða en ráðgert sé að eiginmaður hennar komi til landsins þann 15. júlí nk. Að framangreindu virtu telur kærandi að það sé bersýnilega ósanngjarnt að synja henni um dvalarleyfi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 7. mgr. 70. gr. laganna kemur fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi. Í athugasemdum við 7. mgr. 70. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að í ákvæðinu sé það skilyrði sett að hjón þurfi að búa saman og skuli halda saman heimili. Borið hafi á því að umsækjendur búi ekki saman en segist eigi að síður vera í hjúskap. Í sumum tilvikum geti það verið eðlilegt vegna atvinnu annars eða beggja hjóna. Þegar slíkt sé uppi sé heimilt að veita undanþágu frá því að hjón eða sambúðaraðilar búi saman ef einungis um tímabundið ástand sé að ræða, t.d. vegna náms eða vinnu. Undanþáguna skuli túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur og eigi hún ekki við um tilvik þar sem aðstandandi hér á landi sæti eða muni sæta fangelsisrefsingu.

Þann 1. janúar 2019 tóku gildi lög um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018. Í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna segir að lögheimili sé sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Í 2. mgr. 2. gr. segir að með fastri búsetu sé átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 1. mgr. 5. gr. segir að hjón eigi sama lögheimili en hjónum sé þó heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum. Þá segir í 1. mgr. 11. gr. laganna að einstaklingum sé heimilt að halda lögheimili sínu á Íslandi þrátt fyrir dvöl erlendis vegna veikinda. Framvísa þarf vottorði, útgefnu af lækni með starfsleyfi á Íslandi, hjá Þjóðskrá Íslands um nauðsyn dvalar erlendis vegna veikindanna og tilkynna um aðsetur erlendis.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi þann 5. febrúar 2016 á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara og var leyfið endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 18. maí 2020. Þann 7. mars 2019 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi og með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. febrúar sl., var umsókninni synjað en ákvörðunin var ekki kærð til kærunefndar. Kærandi sótti svo um endurnýjun á fyrra dvalarleyfi þann 24. apríl sl.

Líkt og greinir í hinni kærðu ákvörðun var lögheimili maka kæranda flutt úr landi þann 1. janúar 2020, þ.e. til [...]. Ljóst er hins vegar að kærandi er enn með lögheimili hérlendis. Samkvæmt framlagðri flugáætlun kom maki kærandi hingað til lands þann 3. ágúst sl. og hélt aftur út til [...] þann 10. ágúst sl. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á fyrirhugaðan flutning maka hennar til Íslands. Í tölvupósti frá maka kæranda til kærunefndar, dags. 25. ágúst 2020, greinir hann frá því að hann viti ekki hversu lengi hann muni dvelja á [...]. Í áðurgreindri 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um þá meginreglu að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við lög um lögheimili og aðsetur. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi og maki hennar hafa ekki haft fasta búsetu á sama stað frá því 1. janúar 2020. Ljóst er að Covid-19 stendur því ekki í vegi að maki kæranda flytji lögheimili sitt á ný til Íslands, enda hefur hann komið hingað til lands á meðan málið hefur verið til meðferðar hjá kærunefnd en snúið til baka til [...]. Þá liggja ekki fyrir gögn sem leiða í ljós að maki kærandi hyggist aðeins tímabundið leita sér heilbrigðisaðstoðar á [...]. Í ljósi þessa fær kærunefnd ekki séð að sérstakar tímabundnar ástæður liggi því til grundvallar að kærandi og maki hennar séu ekki með fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. máls. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og þá eiga undantekningar ákvæðisins ekki við í máli hennar.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar staðfest.

Kæranda er leiðbeint um að hún geti lagt fram dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Kærunefnd bendir jafnframt á að með reglugerð nr. 830/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingi sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er að lokinni skráningu hjá Útlendingastofnun, heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til 10. nóvember 2020. Skráning skal hafa farið fram fyrir 10. september 2020 og með beiðni um skráningu þarf að leggja fram afrit af vegabréfi og vegabréfs­áritun þegar það á við. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir                                                                                                    Gunnar Páll Baldvinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta