Hoppa yfir valmynd

Nr. 195/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 195/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20010041 og KNU20010042

Kæra [...] og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. janúar 2020 kærðu einstaklingar er kveðast heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir K), og [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir M), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2020 um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra, [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir A), [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir B), og [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir C), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Þess er krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 19. október 2019. Við leit að fingraförum þeirra í Eurodac gagnagrunninum, þann 21. október 2019, kom í ljós að þau höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Hollandi. Þann 23. október 2019 var beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Hollandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá hollenskum yfirvöldum, dags. 28. október 2019, samþykktu þau viðtöku kærenda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 10. janúar 2020 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 14. janúar 2020 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 28. janúar 2020 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 6. febrúar 2020 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að hollensk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknirnar yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Hollands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærendur hefðu ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsóknir þeirra til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Hollands.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna A, B og C kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, útlendingalaga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Hollands.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í sameiginlegri greinargerð kærenda kemur fram að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi þau greint frá ástæðum þess að þau hafi flúið heimaríki sitt. Hafi K greint frá því að vera með stanslausa verki í hægri fæti eftir líkamsárás sem hún hafi orðið fyrir í heimaríki. Kvað hún þá alla fjölskylduna vera í slæmu andlegu ástandi eftir reynslu fjölskyldunnar í heimaríki. Kveða kærendur að þau hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki og hafi M sætt pyndingum og verið haldið gegn vilja sínum í þrjá daga. Kærendur hafi þá greint frá því að vera með litla reynslu af aðstæðum í Hollandi enda hefðu þau eingöngu dvalið þar í einn mánuð. Þá kváðu kærendur sig óttast að maður sem hafi ofsótt þau í heimaríki gæti náð til þeirra í Hollandi.

Kærendur gera athugasemdir við hinar kærðu ákvarðanir í greinargerð sinni. Kærendur gera athugasemd við að í ákvörðunum Útlendingastofnunar sé einungis að finna almennar tilvitnanir um ástand mála í Hollandi og að ekki verði séð að einstaklingsbundnar aðstæður þeirra hafi verið rannsakaðar. Þá sé í ákvörðunum Útlendingastofnunar staðhæft að af heimildum megi ráða að löggæslumálum sé stýrt með árangursríkum hætti í Hollandi án þess að vísað sé til heimilda. Í ljósi þess að á síðasta ári hafi komist upp um spillingu innan lögregluembætta þar í landi telji kærendur varhugavert að halda slíku fram. Þá mótmæla kærendur þeirri staðhæfingu að umsækjendum um alþjóðlega vernd standi fullnægjandi og aðgengileg heilbrigðisþjónusta til boða í Hollandi. Kærendur telji ljóst að biðtími umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir læknisþjónustu sé verulegur þar í landi og vísi til þess að eftir mánaðardvöl þar í landi hafi þau ekki haft vitneskju um það hvort slík þjónusta stæði þeim til boða. Kærendur séu byrjuð í sálfræðimeðferðum hér á landi og taki bæði svefnlyf. Þá hafi K lýst ofbeldi sem hún og M hafi orðið fyrir í heimaríki. Telji kærendur ljóst að þau muni þurfa á sérhæfðri sálfræðimeðferð að halda til að vinna úr reynslu sinni og mótmæla þeirri niðurstöðu að þau séu ekki talin í viðkvæmri stöðu. Þá mótmæli kærendur m.a. þeirri niðurstöðu að ekkert sé talið benda til þess að mál þeirra fái ekki vandaða og efnislega málsmeðferð í Hollandi. Kærendur vísi til heimilda um að stefna hollenskra stjórnvalda í málefnum flóttamanna hafi verið gagnrýnd. Fjöldi fólks í varðhaldsmiðstöðvum fyrir innflytjendur hafi aukist og hollensk stjórnvöld hafi verið gagnrýnd fyrir að beita varðhaldi í of ríkum mæli. Telji kærendur ljóst að slæmar aðstæður þar í landi myndu hafa slæm áhrif á andlega heilsu þeirra og svefn í ljósi svefnleysis sem þau eigi bæði við að etja.

Kærendur gera kröfu um að mál þeirra verði tekið til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem sérstakar ástæður séu uppi í málinu í skilningi ákvæðisins. Kærendur vísa m.a. til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og eldri úrskurða kærunefndar útlendingamála. Kærendur telji margt benda til þess að þau teljist vera einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærendur kveði sig þjást af miklum ótta og vanlíðan vegna reynslu sinnar í heimaríki. Þá hafi þau bæði greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að vera þunglynd en hafi ekki verið spurð nánar út í einkenni eða áhrifa á daglegt líf þeirra. Í ljósi þess ofbeldis sem M hafi orðið fyrir telji kærendur vísbendingar fyrir því að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þá bendi ýmislegt til þess að K og börn þeirra séu í viðkvæmri stöðu í ljósi þess ofbeldis sem K hafi orðið fyrir og börnin hafi orðið vitni að.

Í greinargerð kærenda er jafnframt vísað til sérstakra réttinda þriggja barna kærenda sem séu á aldrinum [...]. Vísi kærendur til þess að börn teljist ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd hvort sem þau séu í fylgd umönnunaraðila eður ei. Þá vísa kærendur m.a. til þess að íslenskum stjórnvöldum beri ávallt að hafa það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess, skv. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 19/2013. Þá vísi kærendur til tilgreinds úrskurðar kærunefndar og nýlegrar fréttatilkynningar dómsmálaráðherra þar sem fram hafi komið að taka bæri sérstakt tillit til hagsmuna barna við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barna kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærendur K og M eru hjón og eiga saman börnin A, B og C sem eru á aldrinum [...]. Kærunefnd hefur farið yfir gögn málanna, þ. á m. viðtöl við K og M hjá Útlendingastofnun. Það er mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A, B og C sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A, B og C verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin A, B og C eru í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Hollands á umsóknum kærenda er byggð á b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærendur séu með umsóknir um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja hollensk stjórnvöld um að taka við kærendum, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Hollandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Hollandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, Country Report: Netherlands (European Council on Refugees and Exiles, 2. apríl 2020);
  • Amnesty International Report 2017/18 - Netherlands (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Freedom in the World 2019 - Netherlands (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • World Report 2020 - European Union (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices – The Netherlands (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Asylum Information Database, Housing out of reach. The reception of refugees and asylum seekers in Europe (European Council on Refugees and Exiles, 29. maí 2019);
  • ECRI Report on the Netherlands (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 4. júní 2019);
  • Upplýsingar af vefsíðu upplýsinganets um menntun í Evrópu (Eurydice, https://eacea.ec.europa.eu/national-policies/eurydice);
  • Upplýsingar af vefsíðu hollenska öryggis- og dómsmálaráðuneytisins, (www.government.nl/topics/asylum-policy);
  • Upplýsingar af vefsíðu COA (The Central Agency for the Reception of Asylum Seekers, www.coa.nl/en) og
  • Upplýsingar af vefsíðu hollensku útlendingastofnunarinnar (www.ind.nl/en).

Í framangreindum skýrslum kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd eru sendir til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þá býðst þeim að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd þegar við komu til landsins. Á Schiphol flugvelli í Hollandi er umsóknarmiðstöð (h. Aanmeldcentrum) þar sem skráning umsókna um alþjóðlega vernd fer fram og er hún í höndum löggæsluyfirvalda (h. Koninklijke Marechaussee) þar í landi. Útlendingastofnun Hollands (h. Immigratie- en Naturalisatiedienst (IND)) ber ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Í hefðbundnu umsóknarferli fara umsækjendur um alþjóðlega vernd í tvö viðtöl, með aðstoð túlks sé talin þörf á því, áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra. Umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni hjá IND geta kært niðurstöðuna til héraðsdómstóls og þeim dómi er í kjölfarið unnt að áfrýja til æðsta stjórnsýsludómstóls ríkisins (h. Afdeling Bestuursrechtspraak de Raad van State). Umsækjendum sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd eiga að auki möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn hjá IND. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjenda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður talið að hollensk yfirvöld uppfylli skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð til handa umsækjendum um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Um leið og umsókn hefur verið tekin til meðferðar hjá útlendingastofnun Hollands eiga umsækjendur rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð þar til ákvörðun hefur verið tekin í máli þeirra. Ákveði umsækjendur að bera synjun á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd undir dómstóla þá eiga þeir að auki rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð á meðan áfrýjunarferlinu stendur. Uppfylli umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki ákveðin skilyrði löggjafar um útlendinga í Hollandi, s.s. að geta sýnt fram á gild skilríki eða vegabréfsáritun sem heimili þeim inngöngu í landið eða að almenningi stafi ekki ógn af þeim, geta yfirvöld ákveðið að úrskurða þá í varðhald í ákveðinn tíma. Að meginreglu er enginn hópur umsækjenda undanþeginn því að geta sætt varðhaldi, sé skilyrðum þess uppfyllt, en fjölskyldur með börn þurfa þó almennt ekki að sæta varðhaldi. Þá eiga umsækjendur sem sæta varðhaldi rétt á heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Umsækjendur geta borið lögmæti varðhaldsúrskurðar undir dómstóla og eiga þeir jafnframt rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð við þá umleitan.

Holland er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Hollandi kemur fram að umsækjendum séu tryggð búsetuúrræði og fjárhagsleg aðstoð fyrir nauðsynlegum útgjöldum, s.s. matarinnkaupum, sé þörf á því. Eftir að skráningu umsóknar um alþjóðlega vernd er lokið eru umsækjendur fluttir í móttökumiðstöðvar þar sem þeir dvelja þar til leyst hefur verið úr umsókn þeirra.

Um fjórðungur þeirra sem búa í móttökumiðstöðvum í Hollandi eru börn undir 18 ára aldri. Skólaskylda er í landinu fyrir börn á aldrinum fimm til 16 ára og gildir hún einnig um börn umsækjenda um alþjóðlega vernd. Móttökumiðstöðvarnar eru í samstarfi við nálæga skóla og fara börn annað hvort þar í skóla eða innan miðstöðvarinnar. Foreldrar barna geta þó valið að senda börn sín í aðra skóla ef þeir svo kjósa. Börn á aldrinum 12 til 18 ára fara þó í sérstakan bekk við komu sína til landsins þar til þau læra næga hollensku. Þá er börnum heimilt að hefja almenna skólagöngu við fjögurra ára aldur.

Umsækjendur fá aðgang að atvinnumarkaðnum í Hollandi sex mánuðum eftir að umsókn um alþjóðlega vernd hefur verið lögð fram. Vinnuveitandi verður þó að sækja um atvinnuleyfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd áður en þeir geta hafið störf og hefur það því reynst erfitt fyrir umsækjendur að finna sér störf. Öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd er tryggt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Börn í móttökumiðstöðvum njóta sömu heilbrigðisþjónustu og hollensk börn. Við meðferð umsókna er að auki tekið tillit til þarfa einstaklinga sem teljast vera í viðkvæmri stöðu.

Undanfarin ár hefur mátt greina aukna andúð í viðhorfi gagnvart innflytjendum í Hollandi, þ. á m. gagnvart múslimum. Frá árinu 2009 hefur verið komið upp 38 skrifstofum um landið sem starfa gegn mismunun (e. Anti-Discrimination Bureaus) og veita þolendum mismununar aðstoð og ráðgjöf ásamt því að skrásetja tilvik þar sem einstaklingar hafa orðið fyrir mismunun. Mannréttindastofnun Hollands (e. The Netherlands Institute for Human Rights) ákvarðar í málum þar sem hvers konar mismunun er til skoðunar og gefur út óbindandi álit sem er að meginstefnu farið eftir. Stofnunin hefur að auki vald til að fara með mál fyrir dómstóla sem hún telur að geti haft fordæmisgildi. Þá eru mál, þar sem ofbeldi sem rekja má til kynþáttafordóma er til skoðunar, saksótt með skilvirkum hætti séu þau tilkynnt til löggæsluyfirvalda. Þá benda framangreind gögn jafnframt til þess að löggæsluyfirvöld í Hollandi hafi yfir að ráða fullnægjandi úrræðum til að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð óttist þeir tiltekna einstaklinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Samkvæmt gögnum málanna eru kærendur hjón á [...]. Kærendur komu hingað til lands með þremur börnum sínum sem eru á aldrinum [...]. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindu kærendur m.a. frá því að hafa sætt ofbeldi í heimaríki. Í gögnum um heilsufar kærenda sem þau hafa lagt fram við meðferð málsins, kemur m.a. fram að K og M séu almennt heilbrigð, sbr. framlögð gögn frá Göngudeild sóttvarna, dags. 15. nóvember 2019. Þá hafi M m.a. greint frá áverkum eftir sprengjuárás sem hann hafi lent í sem barn að aldri og K m.a. fengið ráðgjöf vegna verkja í fæti. Samkvæmt framlögðum gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 30. janúar 2020, kemur m.a. fram að K og M hafi leitað sér aðstoðar vegna andlegrar vanlíðanar og að bókaðir hafi verið tímar fyrir þau hjá sálfræðingi. Þá hafi þau átt við svefnvandamál að stríða og báðum verið ávísað svefnlyfjum hér á landi.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K fyrst frá því að börn þeirra væru í slæmu andlegu ástandi. Nánar aðspurð um andlega heilsu A greindi hún frá því að þau hafi ekki rætt atburðina í heimaríki við börnin af því að þau vildu að börnin gleymdu þeim. Síðar í viðtalinu sagði K þó að hún teldi andlega heilsu B og C vera í lagi. M greindi einnig frá því að andleg heilsa A væri í lagi en að M og K hlakki til þess að hann geti byrjað í skóla af því að þá myndi atvikið í heimaríki þeirra kannski gleymast. Samkvæmt framlögðum gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 15. nóvember 2019, var óskað eftir því að pantaður yrði tími hjá tannlækni fyrir A. Að öðru leyti bera þau gögn um heilsufar barna kærenda, þeirra A, B og C, sem lögð hafa verið fram við meðferð málsins ekki annað með sér en að börnin séu við góða heilsu.

Kærunefnd tekur fram að kærendum var leiðbeint í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dags. 4. nóvember 2019, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar sem kærendur telji hafa þýðingu fyrir mál sitt og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls þeirra hjá Útlendingastofnun. Þá var kærendum jafnframt leiðbeint með tölvupósti kærunefndar þann 30. apríl 2020 um framlagningu frekari gagna í málinu, t.a.m. heilsufarsgagna væri þeim til að dreifa, t.d. um þær sálfræðimeðferðir sem vísað væri til í greinargerð kærenda til kærunefndar. Engin frekari gögn bárust frá kærendum. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að málið sé nægilega upplýst með tilliti til heilsufars.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum K, M og barna þeirra hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að gögn málsins bendi ekki til þess að heilsufar kærenda eða barna þeirra sé með þeim hætti að þau teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. reglugerðar um útlendinga. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kærenda eða barna þeirra geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Kærendur hafa ekki lagt fram frekari gögn um heilsu sína en þau sem áður hefur verið vísað til þrátt fyrir leiðbeiningar þar um. Framangreind gögn um heilbrigðisþjónustu í Hollandi benda til þess að kærendur og börn þeirra hafi aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærendur eða börn þeirra muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að þau geti af sömu ástæðu vænst þess að staða þeirra verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. áðurnefnd viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda m.a. til þess að telji kærendur sér mismunað eða óttist þau um öryggi sitt að einhverju leyti geti þau leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma jafnframt fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast.

Af ofangreindum gögnum verður ráðið að í viðtökuríki sé leyst úr umsóknum fjölskyldna m.t.t. meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og að gögn bendi ekki til þess að fjölskyldur séu aðskildar. Að öðru leyti og með vísan til niðurstöðu í málum kærenda og umfjöllunar um aðstæður barna sem sækja um alþjóðlega vernd í Hollandi er það mat kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Hollands samrýmist hagsmunum barnanna þegar litið er m.a. til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir barna kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda þau til Hollands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barna kærenda að umsóknir þeirra verði ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi.

Við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kærenda hljóti efnismeðferð hér á landi hefur kærunefnd litið til þeirra aðstæðna sem nú eru uppi vegna Covid-19 faraldursins. Fjölmörg ríki hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Felast aðgerðirnar m.a. í ferðatakmörkunum og ferðabönnum. Í því sambandi hafa mörg aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins lokað tímabundið fyrir endursendingar einstaklinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og liggur ekki fyrir hvenær endursendingar muni hefjast að nýju. Á þetta við um Ísland og ríkir því ákveðin óvissa hér á landi um það hvenær framkvæmd á endursendingum hefjist að nýju. Yfirvöld í Hollandi hafa jafnframt gripið til aðgerða til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar, m.a. með ferðabanni til og frá landinu (m.a. að undanskildum ferðum ríkisborgara ríkja Evrópusambandsins og ferðum sem talist geta nauðsynlegar), auk þess sem takmarkanir á samkomum eru við lýði, veitingastöðum var lokað og skólahald lagðist af. Í búsetuúrræðum umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur dagskrá verið takmörkuð og íbúar hvattir til að vera í herbergjum sínum. Hlé var gert á móttöku og afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd en umsóknir þess í stað skráðar og umsækjendur vistaðir í neyðarúrræði á vegum hollenskra stjórnvalda. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að líta svo á að þær takmarkanir sem við líði eru vegna Covid-19 faraldursins séu tímabundnar. Er aflétting takmarkana t.a.m. þegar hafin í Hollandi og hafa stjórnvöld kynnt áætlun sína að því marki. Til að mynda hófst skólahald að nýju frá 11. maí sl., með takmörkunum, og áætlað er að næsta skref afléttingar takmarkana verði 1. júní nk. Þá hefur hollenska Útlendingastofnunin hafið prófun á notkun fjarfundabúnaðar til viðtala við umsækjendur og tekur nú við umsóknum um alþjóðlega vernd.

Af skýrslum er ljóst að viðtökuríkið býr við stöðuga stjórnarhætti og sterka innviði. Að mati kærunefndar er ekkert sem bendir til þess að það tímabundna ástand sem nú ríki komi til með að hafa teljandi áhrif á getu eða vilja viðtökuríkisins til að taka á móti og afgreiða mál kærenda þar í landi þegar takmörkunum verður aflétt og veita þeim nauðsynlegan stuðning og viðeigandi aðbúnað á meðan mál þeirra eru þar til meðferðar.

Í því sambandi er rétt að árétta að Dyflinnarreglugerðin gerir ráð fyrir því að samstarfsríkin hafi almennt sex mánuði frá því að lokaákvörðun er tekin um kæru umsækjanda um alþjóðlega vernd til að flytja umsækjanda til viðtökuríkis, sbr. 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að álykta að endursendingar til viðtökuríkisins verði ekki hafnar áður en umræddur frestur rennur út.

Þá lítur kærunefnd einnig til þess að skv. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að fresta flutningi á umsækjanda ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Er það mat kærunefndar að tímabundnar takmarkanir á endursendingum til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geti ekki, eins og hér stendur á, leitt til þess að sérstakar ástæður mæli með því að umsóknir kærenda og barna þeirra verði teknar til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi hefur kærunefnd sérstaklega litið til sterkra innviða viðtökuríkisins og þess frests sem aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins hafa til að endursenda umsækjendur til viðtökuríkis og fjallað var um hér að framan.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kærenda og barna þeirra að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendur kváðust í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. nóvember 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málanna sem bendir til þess að þau hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í málum kærenda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að þau sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi, en þau lögðu fram umsóknir sínar þann 19. október 2019.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Hollandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kærendur hafi raunhæf úrræði í Hollandi, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kærenda við ákvarðanir Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerðu kærendur athugasemdir í greinargerð sinni við ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra, þ. á m. við mat Útlendingastofnunar á aðstæðum í Hollandi.

Kærunefnd hefur farið yfir hinar kærðu ákvarðanir og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Þá hefur kærunefnd endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kærenda.

Frávísun

Kærendur komu hingað til lands þann 19. október 2019 og sóttu um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kærendum því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærendur skulu flutt til Hollands eins fljótt og unnt er, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kærenda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í málum þessum hafa hollensk stjórnvöld fallist á að taka við kærendum og umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi og senda þau til Hollands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru því staðfestar.

Athygli kærenda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd á grundvelli lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin, m.a. ef afleiðingar Covid-19 faraldursins muni vara lengur og vera alvarlegri en gera má ráð fyrir nú.

Athygli kærenda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                       Ívar Örn Ívarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta