Nr. 455/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 25. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 455/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18080033
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 28. ágúst 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. ágúst 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, hvað varðar brottvísun og endurkomubann, verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. maí 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 16. janúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 13. ágúst 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. ágúst 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. september 2018 ásamt fylgigögnum. Þá bárust frumrit tiltekinna gagna bárust kærunefndinni þann 18. október 2018.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í […] vegna trúarbragða sinna.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í viðtali við Útlendingastofnun þann 16. janúar sl. kvaðst kærandi vera […] og upprunalega frá […], borg í norðausturhluta […] við landamæri […]. Á umræddum landamærum […] og […] séu samfélög […]. Kærandi hafi verið barn að aldri þegar hann hafi flutt frá […] og hafi hann búið fyrst í Tyrklandi en síðan í […] þar til hann hafi yfirgefið landið. Faðir kæranda sé […] í […] sem sé eins konar kennari […]. Vandræði kæranda séu einkum þau að hann eigi í útistöðum við fjölskyldu sína vegna þess að hann hafi tekið upp […] trú jafnframt sem hann óttist ofsóknir í heimaríki af sömu ástæðu. Þá hafi kærandi lent í vandræðum vegna stjórnmálaþátttöku bróður síns en það hafi verið ástæða þess að hann hafi yfirgefið […] í upphafi. Í viðtali við Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa búið nokkur ár í Bretlandi eða allt frá árinu 2008, en hann hafi þurft að snúa aftur til […] í lok árs 2014 vegna veikinda móður sinnar sem hafi dvalið á spítala í […] í […].
Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi tekið upp […] trú og sé […]. Eftir komuna til Íslands kveðst kærandi hafa sótt […] hvern laugardag og hafi kærandi lagt fram skriflega staðfestingu á […] máli sínu til stuðnings.
Kærandi heldur því fram í greinargerð að rangar upplýsingar hafi komið fram í máli hans hjá Útlendingastofnun og sé hann með skýringar á misræminu. Í hinni kærðu ákvörðun geri Útlendingastofnun athugasemdir við trúverðugleika kæranda. Í fyrsta lagi sé trúverðugleiki kæranda dreginn í efa af hálfu Útlendingastofnunar vegna þess að hann hafi gefið upp nafn og fæðingardag við komu sína til Íslands sem stangist á við þær upplýsingar sem stofnunin hafi fengið frá Bretlandi. Kærandi greinir frá því að hann hafi gefið upp annað nafn þegar hann kom ungur til Bretlands þar sem smyglarar sem hafi aðstoðað hann hafi skipað honum að gefa upp viðkomandi nafn og fæðingardag. Vegna ótta við smyglarana hafi kærandi gengið undir því nafni og fæðingardegi í Bretlandi. Sá fæðingardagur sem Útlendingastofnun hafi fengið uppgefinn hjá Interpol, þ.e. […], sé ekki réttur. Fæðingardagur kæranda sé […], en að kröfu föður kæranda hafi honum verið breytt með dómi árið 2004. Þá hafi kærandi lagt fram afrit af dómsniðurstöðunni auk enskrar þýðingar máli sínu til stuðnings. Kærandi hafi einnig lagt fram fæðingarvottorð sem hafi verið gefið út í kjölfar dómsins og afrit skilríkja sem sýni upprunalegan fæðingardag kæranda. Í öðru lagi komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin hafi orðið þess áskynja við meðferð málsins að ríkisfang kæranda sé […] en ekki […] eins og kærandi hafi haldið fram. Í greinargerð vekur kærandi athygli á því að samfélög […] séu á samliggjandi svæðum í […], […] og […]. Ganga megi út frá því að þau landamæri sem skilji hin eiginlegu ríki að sem hafi verið ákveðin í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar hafi í gegnum tíðina ekki verið virt af […]. Kærandi viti ekki nákvæmlega hvar fjölskylda hans hafi dvalið við fæðingu hans en að þau hafi í kjölfarið búið í […]. Kærandi hafi enga hagsmuni af því að segja ósatt um ríkisfang sitt. Í þriðja lagi leggi Útlendingastofnun til grundvallar að kæranda hafi verið brottvísað frá Bretlandi í nóvember 2015. Kærandi heldur því aftur á móti fram að hann hafi farið til […] sjálfviljugur vegna veikinda móður sinnar. Með greinargerð hafi kærandi lagt fram bréf framburði sínum til stuðnings, um sé að ræða staðfestingu læknis á veikindum móður kæranda, dags. 20. nóvember 2014. Kærandi kveðst hafa aflað bréfsins til að leggja grunn að beiðni sinni um að yfirgefa Bretland sjálfviljugur. þá heldur kærandi því fram að hann hafi undirritað skjal hjá breskum yfirvöldum þess efnis. Að teknu tilliti til þeirra skýringa sem komi fram í greinargerð og leiðréttingar á áður framkomnum upplýsingum telji kærandi rétt að frásögn hans af ótta sínum verði lögð til grundvallar. Kærandi hafi snúið frá […] og tekið upp […], en einstaklingar í slíkri stöðu hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttir í […]. Í þessu sambandi vísar kærandi í skýrslu Flóttamannastofnunar um trúverðugleikamat og 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2011/95/ESB, en þar séu ýmsar viðmiðunarreglur varðandi trúverðugleikamat umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í skýrslunni komi m.a. fram að trúverðugleiki skuli ekki dreginn í efa nema um sé að ræða ósamræmi í kjarna frásagnar umsækjanda.
Í greinargerð er fjallað almennt um stöðu mannréttindamála í […]. Þá er einnig fjallað um stöðu […] í […] sem og stöðu […] sem hafi tekið upp […]. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til trúarbragða, skv. b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Sem […] einstaklingur í […] sem lúti ekki þeim hefðum og siðum sem […] mæli fyrir um þá skeri kærandi sig úr hvað varðar lífsviðhorf og framkomu sem sé til þess fallið að skapa honum aukna óvild og útskúfun í samfélaginu. Kærandi hafi lýst ýmiskonar mismunun og áreiti sem […] verði fyrir í […] í greinargerð. Þá hljóti þeir sem hverfi frá […] ekki lagalega viðurkenningu á trú sinni. Enn fremur stafi […] sífelld ógn af [...]. Kærandi geti ekki iðkað trú sína nema í fullkominni leynd enda eigi hann annars á hættu að vera beittur ofbeldi í heimaríki. Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé sur place flóttamaður, en samkvæmt skilningi Flóttamannasamningsins geti þeir sem ekki séu flóttamenn þegar þeir yfirgefi heimaríki orðið það síðar. Kærandi hafi hafnað […] eftir dvöl sína í Bretlandi og hafi hann fundið samsömun í […]. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu stjórnvalda, fjölskyldu sinnar og […] vegna trúarskoðana sinna. Hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt ríki til að snúa ekki nokkrum […], sem komi frá svæðum í […] sem séu undir áhrifum stríðsátaka, aftur til heimaríkis gegn vilja sínum. Í heimildum sé ástandinu í landinu lýst sem óstöðugu og óvissu jafnframt sem það geti versnað snögglega. Þá séu [...] mjög líkleg til að reyna að gera árásir í landinu. Af þessu telji kærandi ljóst að raunhæf hætta sé á að hann muni sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga við komu til heimaríkis.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti útlendingur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.a.m. vegna almennra aðstæðna í heimaríki. Í greinargerð heldur kærandi því fram að langvarandi stríðsástand hafi ríkt í heimaríki kæranda allt frá árinu [...]. Viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í ríkinu og […] yfirvöld veiti þegnum sínum ekki nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Kærandi heldur því fram að hann sé útskúfaður af samfélaginu sökum trúar sinnar jafnframt sem hann standi frammi fyrir félagslegri einangrun verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Hvað varðar flutning innanlands bendir kærandi á að ekki sé mögulegt fyrir hann að búa annars staðar í heimaríki. Við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig og almennt séu ekki forsendur til þess að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Við matið þurfi að skoða leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og athugasemdir við 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf. Þá sé þess ekki krafist að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimaríki áður en hann sæki um alþjóðlega vernd. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í gildandi afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í tengslum við möguleika á innri flutningi í […] sem og úrskurðar kærunefndarinnar nr. 306/2018. Að öllu ofangreindu virtu og með hliðsjón af aðstæðum kæranda verði að telja að krafa um innri flutning geti hvorki talist raunhæf né sanngjörn fyrir hann.
Varðandi þrautaþrautavarakröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi hvað varðar brottvísun og endurkomubann kemur fram sú afstaða kæranda að ákvörðun stofnunarinnar sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti skv. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Enn fremur hafi stofnuninni verið óheimilt að ákvarða kæranda brottvísun með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá hafi Útlendingastofnun brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að fella niður frest kæranda til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur, enda sé sú ráðstöfun verulega íþyngjandi úrræði. Hafa beri í huga að brottvísun útlendings úr landi og ákvörðun um endurkomubann tengist réttindum hans til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og njóti slíkt verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og að leysa yrði úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Útlendingastofnun bárust upplýsingar frá breskum yfirvöldum um auðkenni kæranda og samkvæmt þeim upplýsingum sé kærandi frá […]. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari […].
Fylgigögn bárust kærunefnd ásamt greinargerð kæranda þann 12. september 2018 og þar var m.a. um að ræða afrit af enskri þýðingu af dómsniðurstöðu um skráningu fæðingardags kæranda dags. 16. september 2015. Í skjalinu kemur m.a. fram að kærandi sé fæddur í borginni […]. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé […] ríkisborgari. Að öðru leyti er óljóst hver kærandi sé.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum: […]
Í ofangreindum gögnum kemur fram að flestir […] í […] búi í norðurhluta landsins í […]. […]. Á síðastliðnum árum hafi stjórn […] náð að koma á pólitískum stöðugleika og aukið hagvöxt á svæðinu. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir […] en ekki […]. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé […] einnig með öryggissveit sem nefnist […]. […] sé talið tiltölulega öruggt svæði þökk sé […] hernum sem nefnist […]. Her […] og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn […]. Samkvæmt skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins frá árinu […] ríki spenna í […] eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í lok ársins […] þar sem […] hafi kosið um sjálfstæði frá […]. Óljóst sé hvaða afleiðingar hin pólitíska spenna á milli […] og yfirvalda í […] muni hafa í för með sér en fyrrgreind skýrsla kveði á um að ástandið í […] sé almennt talið stöðugt jafnframt sem yfirvöld í […] veiti borgurum sínum almennt vernd gegn ofbeldisbrotum. Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins geti einstaklingar sem séu upprunalega frá […] snúið aftur án vandkvæða.
Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins frá árinu […] kemur fram að staða minnihlutahópa í […] sé erfið. Þá séu aðstæður einstaklinga sem tilheyri minnihlutahópi mismunandi eftir landssvæðum og af þeim sökum sé nauðsynlegt að skoða aðstæður minnihlutahópa á hverju svæði fyrir sig. Almennt séu þeir sem hafi vikið frá […] í hættu á að verða fyrir árásum í […]. […] sé næststærsta trúin í […]. Í skýrslu bandarískrar nefndar um alþjóðlegt trúfrelsi kemur fram að trúarleg fjölbreytni sé hvað mest í […] miðað við önnur landssvæði í […], en meirihluti […] í […] dvelji á þessu svæði. Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir að trúfrelsi sé virt í […] þá séu dæmi um að trúarlegir minnihlutahópar verði fyrir mismunun í samfélaginu. Stjórnvöld í […] hafi tekið til sérstakra ráðstafana til að bæta stöðu […] í […], sem dæmi hafi yfirvöld […] aðstoðað við að byggja […] á svæðinu. Samkvæmt skýrslu sænsku útlendingastofnunar frá árinu […] hafi margir […] leitað athvarfs í […] jafnframt sem mikil fjölgun hafi orðið á […] á svæðinu á síðastliðnum árum. Flestir […] sem hafi verið vegalausir innan ríkisins hafi fundið skjól í […] og leigi húsnæði á svæðinu. Fjárhagstaða þeirra sé oft erfið þá sérstaklega hjá þeim sem hafi haft tekjur af starfsemi í heimabæ sínum. Til að ná endum saman sé algengt að […] fjölskyldur deili húsnæði. Þá hafi […] og […] þakkað stjórnvöldum […] fyrir að veita […] griðastað í […].
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Eins og að framan greinir óttast kærandi um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til […]. Kærandi hefur borið fyrir sig að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki af hálfu stjórnvalda og samfélagsins í heild vegna trúarskoðana sinna. Kærandi lagði fram gögn til stuðnings frásögn sinni af þeirri atburðarrás sem hann hefur lýst.
Í trúverðugleikamati Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að framburður kæranda stangist á við upplýsingar sem stofnunin hafi undir höndum frá Bretlandi. Í fyrsta viðtali við Útlendingastofnun þann 18. maí 2017 kvaðst kærandi heita […], fæddur þann […] og vera […] ríkisborgari. Kærandi hafi verið boðaður í annað viðtal hjá Útlendingastofnun og gefið færi á að breyta framburði sínum í ljósi nýrra upplýsinga sem Útlendingastofnun hafði fengið frá breskum stjórnvöldum. Kærandi kvaðst fyrst ekki vilja breyta framburði sínum en í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 19. janúar 2018 hafi kæranda verið bent á að í gögnum frá Bretlandi komi fram að nafn hans sé […], hann sé fæddur þann […] og sé […] ríkisborgari. Kærandi kvað að ástæða þess að hann sé þekktur undir því nafni hjá breskum stjórnvöldum sé að hann hafi þurft að útbúa fölsuð ferðaskilríki til þess að komast úr landi. Í gögnum frá Bretlandi hafi einnig komið í ljós að kærandi hafi gerst brotlegur við bresk hegningarlög og hlotið fangelsisrefsingu þar í landi. Af þeim sökum hafi kæranda verið brottvísað frá Bretlandi. Aðspurður kvaðst kærandi ekki kannast við umrædd brot. Í kjölfarið hafi kærandi rætt einslega við talsmann sinn og eftir það hafi kærandi viðurkennt að hann hafi einu sinni verið handtekinn fyrir [...]. Kæranda var þá bent á af fulltrúa Útlendingastofnunar að samkvæmt gögnunum hafi hann verið dæmdur í [...]. Kærandi kvað umrætt brot hafi verið fellt niður. Í kjölfarið hafi kærandi rætt einslega við talsmann sinn og eftir það hafi kærandi viljað breyta framburði sínum að því leyti að hann hafi verið dæmdur í fangelsi en að honum hafi ekki verið brottvísað frá Bretlandi í kjölfarið. Þá ítrekaði kærandi að hann væri ekki frá […].
Í kjölfar viðtals Útlendingastofnunar við kæranda þann 19. janúar 2018 sendi stofnunin beiðni til Interpol í Bretlandi þar sem óskað var eftir staðfestingu á auðkenni kæranda og þeim upplýsingum sem höfðu áður borist stofnuninni. Svar Interpol barst þann 20. apríl 2018 þar sem staðfestar voru fyrri upplýsingar um auðkenni kæranda og rakið að kærandi hafi verið þekktur í Bretlandi undir nokkrum nöfnum, m.a. […], […], […] og […]. Þá hafi kærandi einnig gefið upp mismunandi fæðingardaga. Þann 20. maí 2018 barst Útlendingastofnun yfirlýsing frá dönsku lögreglunni um að í þeirra haldi sé einstaklingur sem kvaðst heita […], en við rannsókn á auðkenni hans hafi komið í ljós að um væri að ræða kæranda. Kærandi hafi verið sendur aftur til Íslands þann 12. júní 2018 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.
Af ofangreindu er ljóst að frásögn kæranda hefur tekið talsverðum breytingum eftir því sem leið á meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum. Verulegt misræmi hafi verið í henni og hún stangast á við gögn sem Útlendingastofnun hafi aflað m.a. frá breskum stjórnvöldum. Þá hefur kærandi engin gögn fært fram sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af aðstæðum hans í heimaríki hans. Það er því mat kærunefndar að framangreint misræmi í frásögn kæranda, skortur á vilja til samstarfs í ljósi gagna frá breskum yfirvöldum sem samræmast ekki frásögn hans, og skortur á gögnum til stuðnings öðrum þáttum frásagnar hans leiði til þess, heildstætt metið, að framburður hans og lýsingar á ástæðum flótta verði ekki lögð til grundvallar í máli hans.
Kærunefnd telur að við mat á trúverðugleika frásagnar kæranda varðandi trúskipti hans verði ekki litið framhjá því verulega ósamræmi sem hefur verið á frásögn kæranda varðandi aðra þætti málsins, sem sum hver hafa snúist um kjarna þeirra málsástæðna sem varða rétt til alþjóðlegrar verndar. Verður því ekki talið að frásögn kæranda um trúskipti geti talist trúverðug. Því verður ekki byggt á þeirri frásögn við úrlausn málsins.
Allt að einu telur nefndin að gögn málsins, þ.m.t. landaupplýsingar, gefi ekki til kynna að […] einstaklingar verði sérstaklega fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda […] eða samfélagsins sem nái því marki að teljast ofsóknir. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í […] benda til þess að flestir […] í […] dvelji á þessu svæði og að trúarleg fjölbreytni sé hvað mest í […]. Þá fær sú staðhæfing kæranda að […] einstaklingar fái enga vernd frá lögreglu eða öðrum yfirvöldum í […] heldur ekki stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdunum er einnig fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Kærandi byggir á því að hans bíði bæði erfiðar almennar og félagslegar aðstæður í heimaríki vegna trúarskoðana sinna. […].
Líkt og komið hefur fram verður frásögn kæranda varðandi trúskipti ekki lögð til grundvallar í málinu. Af áðurnefndri skýrslu Flóttamannastofnunar frá 14. nóvember 2016 verður ráðið að einstaklingar sem eru endursendir til […] geti komið til landsins í gegnum flugvelli þess, m.a. í […], að því gefnu að þeir hafi tiltekin gögn. […] ríkisborgarar sem eru á leið til […] geta aflað nauðsynlegra gagna hjá […] sendiráðum. Á síðustu misserum hefur færst í aukana að yfirvöld í hverju héraði fyrir sig setji ströng skilyrði fyrir inngöngu og búsetu í héruðunum. Skilyrðin eru mismunandi eftir héruðum en algengt er að einstaklingar þurfi að gangast undir öryggisskimun og fá samþykki frá heimamönnum á endursendingarsvæði, þ. á m. hersveitum sem hafa yfirráð yfir svæðinu, yfirvöldum á svæðinu og ættbálkum auk þess sem einstaklingar þurfa í sumum tilvikum að hafa styrktaraðila í héraðinu. Til viðbótar framangreindum skilyrðum eru dæmi um að fólki sé hafnað um inngöngu á grundvelli sjónarmiða er lúta að þjóðerni, trúarskoðunum, uppruna og fjölskyldusamsetningu. Með vísan til framangreinds mætti draga þá ályktun að erfitt gæti orðið fyrir kæranda að komast inn í heimaríki sitt verði hann endursendur. Áðurnefnd skýrsla Flóttamannastofnunar bendir þó til þess að síðan um mitt árið 2015 hafi […] í auknum mæli snúið aftur heim til […] frá Evrópu. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi ferðast til […] í lok árs 2014, þá eigi kærandi frænda á svæðinu sem hafi veitt honum húsaskjól og aðstoðað hann við að komast aftur til Evrópu. Með vísan til gagna málsins og skýrslu Flóttamannastofnunar má því ætla að kærandi muni komast aftur inn í heimaríki sitt, að því gefnu að fái nauðsynleg gögn hjá […] sendiráði.
Fjallað hefur verið um aðstæður kæranda í heimaríki en hann kvaðst jafnframt í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Brottvísun og endurkomubann og málsmeðferð Útlendingastofnunar
Svo sem fram hefur komið byggir kærandi m.a. á því að Útlendingastofnun hafi brotið rökstuðningsreglu stjórnsýslulaga við ákvörðunartöku í máli hans. Kærandi hefur borið fyrir sig að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé ekki að finna neinn rökstuðning fyrir hinni íþyngjandi ákvörðun stofnunarinnar um að brottvísa kæranda og að ákvarða honum endurkomubann. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. ágúst 2018, er kæranda brottvísað frá landinu eins fljótt og verða má með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. En samkvæmt ákvæðinu má vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef umsókn hans um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hefur verið hafnað þar sem hún þykir bersýnilega tilhæfulaus eða vegna þess að veittar hafi verið rangar eða villandi upplýsingar. Þá var kæranda einnig veitt endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. laga um útlendinga.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun 13. ágúst 2018 var kæranda gerð grein fyrir því að kæmi til synjunar yrði honum gefinn tiltekinn frestur sem hann hefði til að yfirgefa landið en að til endurkomubanns gæti komið yrði sá frestur ekki virtur. Var kærandi svo spurður hvort hann hefði athugasemdir við að slíkt endurkomubann yrði lagt á ef til kæmi. Kærandi tók þá fram að hann andmælti brottvísun og endurkomubanni. Ekki verður því séð að kæranda hafi verið kynnt að til stæði að veita honum endurkomubann, heldur var verið að kynna honum að til þess kynni að koma ef hann virti ekki frest til að yfirgefa landið. Kærunefnd telur að leiðbeiningar Útlendingastofnunar hafi verið ófullnægjandi að þessu leyti, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal í rökstuðningi stjórnvalds vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Þá kemur jafnframt fram í 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga að þar sem ástæða er til skal rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn máls.
Um er að ræða mjög íþyngjandi úrræði fyrir kæranda og er því gerð sú krafa að Útlendingastofnun rökstyðji hana með fullnægjandi hætti, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga og kynni með eðlilegum hætti fyrir kæranda. Ekki verður séð að Útlendingastofnun hafi með nokkrum hætti rökstutt af hverju kæranda hafi verið brottvísað og þar af leiðandi fengið endurkomubann eða á hvaða réttarreglum sú ákvörðun byggi. Er það því mat nefndarinnar að málsmeðferð Útlendingastofnunar er snýr að brottvísun og endurkomubanni kæranda hafi ekki verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga.
Með vísan til ofangreinds eru ekki forsendur til að staðfesta þann hluta ákvörðunar Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 4. maí 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn um alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Felld er úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um brottvísun og endurkomubann. Kæranda er vísað frá landinu.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar umsókn um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er staðfest. Felld er úr gildi ákvörðun um brottvísun og endurkomubann. Kærandi skal yfirgefa landið innan 30 daga.
The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection, residence permit on humanitarian grounds is affirmed. The Directorate’s decision on expulsion and re-entry ban is vacated. The appellant shall leave the country within 30 days.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Árni Helgason Þorbjörg Inga Jónsdóttir