Hoppa yfir valmynd

Nr. 73/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 73/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120026

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. desember 2018 kærði maður er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. nóvember 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 29. janúar 2018 ásamt foreldrum sínum og yngri bróður. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 23. október 2018 og 15. nóvember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. nóvember 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. desember 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 7. janúar 2019 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust 14. og 30. janúar 2019. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda þann 30. janúar 2019. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. febrúar 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu að verða fórnarlamb heiðursmorðs í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi lagt á flótta frá [...] í heimaríki vegna ótta hans við að verða fórnarlamb heiðursmorðs. Kærandi hafi verið í sambandi með stúlku frá árinu 2015 og að þau hafi haft samfarir í júlí 2017. Í kjölfarið hafi bræður og frændi stúlkunnar hótað honum í gegnum síma. Eftir að kærandi hafi lagt á flótta hafi hann engar fréttir fengið af stúlkunni en síðar fengið þær fregnir að hún hafi verið myrt. Að sögn kæranda geti hann ekki leitað eftir aðstoð eða vernd hjá lögreglu í [...] þar sem ekkert sé tekið á heiðursmorðum og ef hann myndi snúa aftur þangað yrði hann drepinn.

Kærandi byggir á því að hann sé flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð er fjallað almennt um ástand mannréttindamála í [...]. Í greinargerð kæranda er greint frá aðstæðum á [...]. Kemur þar m.a. fram að [...] og að stjórnvöld þar séu kjörin með lýðræðislegum hætti. Í gegnum tíðina hafi ríkt spenna á milli [...] og að deilur hafi staðið um [...]. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum skorti löggæslu á mörgum stöðum [...] og að almenningur veigri sér við að leita til lögreglu eða dómstóla. Þá velti aðgengi að réttarkerfinu t.d. á því hvaða þjóðernis- eða trúarhópa sé um að ræða, hvaða ættbálki viðkomandi tilheyri og tengslum viðkomandi. Þannig sé mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir einstaklinga að leita réttar síns á eigin spýtur.

Í greinargerðinni segir að heiðurstengt ofbeldi sé algengt meðal [...] og er vísað í alþjóðlegar skýrslur því til stuðnings. Beri heimildir með sér að ætla megi að tilvik sem varði heiðurstengt ofbeldi séu á bilinu 300 til 600 á ári. Í skýrslu um heiðurstengt ofbeldi gagnvart karlmönnum í [...] segi m.a. að karlmenn séu í jafnmikilli hættu og konur að verða fórnarlömb heiðursglæps. Árið [...] þingið samþykkt lög vegna heimilisofbeldis sem geri ýmis ofbeldisverk saknæm, en lögin taki ekki til heiðursmorða. Þótt almennt sé talið unnt að leita verndar yfirvalda í [...] þá séu takmarkanir þar á og séu heiðursmál nefnd sem dæmi um slíkt. Heimildir beri vott um að yfirvöld neiti gjarnan að rannsaka slík mál og fari slík mál fyrir dóm hafi gerendur verið dæmdir til mun vægari refsinga, þ.e. ef refsing hafi verið ákveðin á annað borð. Fram kemur að stjórnmálaflokkar grípi oft inn í framgang réttvísinnar og komi í veg fyrir ákærur á hendur gerendum. Þá séu lög ættbálka oft sterkari en lög ríkisins og innleiðing laganna sé erfið í samfélagi sem sé stjórnað af heiðurslögum ættbálka. Heiðurstengt ofbeldi sé ekki tekið alvarlega af lögreglu og hún rannsaki ekki heiðurstengd mál þar sem þau séu álitin fjölskyldumál. Leiti karlmaður sem eigi á hættu heiðursofbeldi eftir aðstoð lögreglunnar muni honum mögulega verið boðin vernd. Hins vegar sé eini möguleikinn á að hann njóti raunverulegrar verndar ef hann væri í vörslu lögreglunnar sem geti aldrei talist raunhæf vernd til lengri tíma. Þá séu engin neyðarskýli fyrir karlmenn í þessari stöðu, sem eigi engan annan möguleika en að flýja land. Loks vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi með nýlegum ákvörðunum veitt karlmönnum frá [...] vernd vegna ástæðuríks ótta við heiðursmorð.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi bæði rekja til aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi, þ.e. þeirra sem hafa stefnt heiðri fjölskyldu sinnar og/eða stúlkunnar í hættu. Ótti kæranda við ofsóknir af hálfu fyrrnefndra aðila sé ástæðuríkur vegna þeirra hótana sem hann hafi þegar sætt af hálfu ættingja stúlkunnar, vegna þess að þeir hafi drepið stúlkuna og vegna gildandi menningar í [...]. Fái ótti kæranda stoð í fyrirliggjandi landaupplýsingum, en fjöldi heimilda taki fram að þegar stúlkur hafi verið myrtar geti karlmenn einnig verið í mikilli hættu af hálfu fjölskyldu stúlkunnar. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður í [...] telur kærandi að yfirvöld í [...] hafi hvorki vilja né getu til að veita honum vernd. Teljist kærandi því vera flóttamaður samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi rétt á vernd samkvæmt 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands síns. Kærandi sé í mikilli hættu á að verða tekinn af lífi og verða fórnarlamb heiðursmorðs og hann geti ekki treyst stjórnvöldum í heimaríki til þess að vernda hann gegn þeirri ógn sem að honum steðji. Þá vísar kærandi einnig til þess hve óstöðugt ástandið sé í landinu og telur ótímabært að líta svo á að stríðsástandi í landinu sé lokið eða að landið sé í öruggu bataferli, enda eigi átök við [...] landsins auk þess sem vopnaðir hópar séu valdir að mannréttindabrotum.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þeirri kröfu til stuðnings vísar kærandi til aðstæðna í heimaríki, en eins og áður greinir telur kærandi að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Þá kemur fram að andlegt ástand kæranda sé mjög slæmt og hafi farið versnandi eftir að hann hafi komið hingað til lands. Telur kærandi réttast að framkvæmt verði sálfræðimat á honum.

Í greinargerð gerir kærandi margvíslegar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar og telur m.a. að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu, andmælareglu og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati kæranda virðist sem skýrsla [...] sé látin kollvarpa fyrri framkvæmd Útlendingastofnunar og upplýsingum sem hún hafi áður byggt á varðandi heiðursmorð gagnvart karlmönnum í [...]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé margendurtekið að yfirleitt séu karlmenn ekki fórnarlömb heiðursglæpa. Hins vegar sé ljóst að ekki sé útilokað að karlmenn verði fyrir slíku enda hafi Útlendingastofnun áður kveðið upp ákvarðanir í slíkum málum og veitt karlmönnum vernd á þeim grundvelli. Þá vísar kærandi til umfjöllunar í ákvörðun Útlendingastofnunar um að aðstæður sem þessar hafi meira með hefnd eða afleiðingar blóðhefndar að gera frekar en heiður fjölskyldunnar. Í þessu sambandi byggir kærandi á því að þótt karlmenn séu ekki endilega álitnir sverta heiður fjölskyldunnar með gjörðum sínum eigi þeir á hættu hefndaraðgerðir á grundvelli heiðursdeilunnar. Verði að draga þá ályktun af landaupplýsingum að sömu sjónarmið eigi við að því er varðar möguleikann á vernd yfirvalda í báðum tilvikum.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar segi enn fremur að heimildir beri með sér að það þekkist ekki að karlmaður sem verði uppvís að sambandi við konu utan hjónabands sé drepinn en ekki konan. Vísi stofnunin til skýrslu frá [...] í þessu samhengi. Telur kærandi varhugavert að alhæfa á þann hátt sem Útlendingastofnun geri í ákvörðuninni, enda segi einungis í skýrslunni að örfáir heimildamenn sem rætt hafi verið við við gerð skýrslunnar hafi ekki þekkt til slíkra dæma. Þá gerir kærandi athugasemdir við staðhæfingar í ákvörðun Útlendingastofnunar um að karlmenn séu yfirleitt ekki fórnarlömb heiðursglæpa í [...], en karlmenn séu ekki undanskildir því að geta talist fórnarlömb slíkra glæpa þrátt fyrir að heimildir kveði á um að það sé algengara í tilfelli kvenna. Kærandi gerir einnig athugasemdir við ályktanir sem Útlendingastofnun hafi dregið t.a.m. af myndum sem kærandi hafi lagt fram af sér og stúlkunni sem og framburði um að viðbrögð lögreglu við tilkynningu hans um innbrot frænda hennar á vinnustað hans. Telur kærandi að allur vafi hafi verið metinn kæranda í óhag þegar Útlendingastofnun hefði með réttu átt að gefa kæranda kost á því að koma á framfæri andmælum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Gerir kærandi enn fremur athugasemdir við að Útlendingastofnun hafi talið ósamræmi vera í tímalínu í frásögn kæranda í viðtali hjá stofnuninni, en kærandi hafi ekki gefið upp nákvæmar dagsetningar. Jafnvel þótt einhverjum dögum skeiki skuli það ekki túlkað kæranda í óhag, enda hafi hann ekki verið spurður frekar út í þessi atriði. Með vísan til þess sem rakið sé í greinargerð mótmæli kærandi því harðlega að misræmi sé í frásögn hans og ósamræmi við fyrirliggjandi landaupplýsingar. Kærandi hafi þvert á móti lýst atburðum sem eigi sér stoð í landaupplýsingum og hafi athugasemdum Útlendingastofnunar við frásögn hans verið svarað. Loks byggir kærandi á því að niðurstaða Útlendingastofnunar í máli hans sé ekki í samræmi við fyrri ákvarðanir stofnunarinnar í fyrri málum, þar sem karlmönnum frá [...] hafi verið veitt vernd vegna ástæðuríks ótta við heiðursmorð, og vísar kærandi í þessu sambandi til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 30. janúar 2019, er m.a. vísað til þess að Útlendingastofnun hafi í nokkrum málum talið að karlmenn frá [...] hafi átt hættu á að sæta heiðursofbeldi og veitt þeim alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Gerir kærandi jafnframt athugasemd við að Útlendingastofnun byggi niðurstöðu sína að miklu leyti á skýrslu [...] og telur að stofnunin hafi dregið of víðtækar ályktanir af skýrslunni. Skýrslan sé aðeins byggð á viðtölum við nokkra einstaklinga en sé ekki ein og sér nákvæm eða tæmandi rannsókn á heiðursglæpum í [...]. Kærandi gerir enn fremur athugasemdir við skýrleika ákvörðunar Útlendingastofnunar, en í ákvörðuninni sé ekki útilokað að kærandi eigi á hættu að verða fyrir „áreiti“ í heimaríki vegna sambands og samfara við stúlkuna. Sé til að mynda ekki rökstutt hvernig stofnunin komist að því að kærandi eigi ekki á hættu að verða fórnarlamb heiðursmorðs en eigi samt sem áður hættu á að verða fyrir áreiti vegna sambands við stúlkuna utan hjónabands. Þá segir að andleg heilsa kæranda sé verulega slæm og að henni hafi hrakað mikið undanfarna mánuði. [...] hann hafi ekki fengið þá heilbrigðisþjónustu sem hann þurfi á að halda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi lagt fram ljósrit af [...] vegabréfi. Samkvæmt gögnum málsins gekk kærandi undir tungumála- og staðháttapróf. Með hliðsjón af niðurstöðum prófanna, trúverðugleikamats og frásagnar kæranda lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi væri frá [...]. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því byggt á því í málinu að kærandi sé frá [...]. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

• [...]

Samkvæmt framangreindum gögnum er [...] lýðræðisríki með rúmlega [...] milljónir íbúa. [...] Í framangreindum gögnum kemur fram að flestir [...]. Þrátt fyrir almennan óstöðugleika í mörgum öðrum landshlutum [...] á síðustu árum náð að viðhalda pólitískum stöðugleika, tryggja öryggi almennra borgara og auka hagvöxt innan svæðisins. Löggæsla sé mun markvissari í [...]. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir [...]. Fyrir utan hefðbundna lögreglu [...].

Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu [...]. Heiðursmorð sé yfirleitt morð á kvenkyns ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. [...] tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin menningunni. Séu konur í miklum meirihluta þeirra sem verði fórnarlömb heiðursglæpa og þá yfirleitt fyrir að hafa, að mati fjölskyldna þeirra, fært skömm yfir fjölskylduna með einhverjum hætti. Einnig séu heimildir um að karlmenn eigi á hættu að verða fórnarlömb heiðursglæpa en ástæður fyrir því séu einkum þegar karlmenn neiti að ganga í skipulögð hjónabönd, séu opinberlega samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir eða neiti að taka þátt í heiðurstengdu ofbeldi gegn öðrum. Í framangreindri skýrslu [...] segir m.a. að karlmenn sem eigi í samböndum utan hjónabands séu ekki taldir smána heiður fjölskyldunnar og að karlmenn í slíkum aðstæðum eigi oft auðvelt með að komast hjá deilum. Hins vegar séu karlmenn undir þrýstingi um að giftast og dæmi séu um að menn hafi verið drepnir. Þá segir að þegar karlmaður sé myrtur í heiðursdeilu eigi það frekar rætur að rekja til hefndar eða blóðhefndar en heiðurs fjölskyldunnar. Í slíkum málum séu báðar fjölskyldurnar vanalega samþykkar morðinu. Fram kemur að karlmenn geti mögulega fengið aðstoð lögreglu en kæra til lögreglu geti einnig stigmagnað ágreininginn við fjölskyldu konunnar. Í gögnunum kemur fram að heiðursglæpir séu algengari á dreifbýlli svæðum en í stærri borgum í [...]. Árið [...] hafi [...] yfirvöld breytt [...] hegningarlögum á þann veg að heiðursmorð eru skilgreind sem manndráp og gerendur því saksóttir á þeim grundvelli. Þá hafi verið samþykkt lög árið 2004 sem banni mildun refsinga fyrir heiðursglæpi. Hins vegar séu heimildir um það að [...] stjórnvöld hafi látið hjá líða að saksækja gerendur ofbeldisglæpa gegn konum, þar á meðal heiðursglæpa.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að verða þolandi heiðursmorðs þar sem hann hafi haft samfarir við stúlku utan hjónabands. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa búið í borginni [...]. Kærandi hafi kynnst stúlkunni í nóvember 2015 en hún hafi þá verið tæplega 21 árs gömul. Kvað kærandi stúlkuna hafa verið í 12. bekk í menntaskóla en að hún hafi setið eftir í náminu. Í viðtölunum kvaðst kærandi hafa hitt stúlkuna oft á tímabilinu frá 2015 til 2017 en hann hafi t.d. keyrt hana í og úr skóla. Eftir að fjölskylda stúlkunnar hafi komist að því að þau hafi haft samfarir hafi honum borist hótanir í gegnum síma frá bróður og frænda stúlkunnar. Í kjölfarið hafi kærandi lagt á flótta og farið til borgarinnar [...]. Þar hafi kæranda borist fregnir af því að bræður og frændi stúlkunnar hefðu brotist inn á verkstæði sem kærandi hafði starfað á og lagt það í rúst. Þá hafi kærandi fengið frekari hótanir frá frænda stúlkunnar. Eftir það hafi kærandi lagt á flótta frá [...] og flúið til Tyrklands. Bróðir stúlkunnar og frændi hennar hafi haldið áfram að hóta kæranda meðan hann hafi dvalið í Tyrklandi og sent honum ógnandi skilaboð. Meðan kærandi hafi dvalið þar í landi hafi hann spurst fyrir um afdrif stúlkunnar og fengið þær upplýsingar frá frænku hennar að hún hefði verið myrt. Í viðtalinu kvaðst kærandi ekki geta leitað aðstoðar lögreglu vegna málsins þar sem hún skipti sér ekkert af slíkum málum.

Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. febrúar 2019. Í viðtali hjá nefndinni var kærandi spurður um hvenær hann hafi kynnst stúlkunni og hvað stúlkan hafi þá verið gömul. Kom fram hjá kæranda að þau hafi byrjað að hittast þann 4. febrúar 2014. Þá kvað hann stúlkuna hafa verið fædda þann 9. september 1999 og að hún hafi verið í 3. eða 4. bekk í menntaskóla þegar þau hafi kynnst. Aðspurður hvort hann hefði heyrt frá frænku stúlkunnar frá því að hann lagði á flótta frá heimaríki svaraði kærandi því neitandi. Kvað kærandi að ekki væri hægt að ná sambandi við frænku stúlkunnar. Þá kom fram hjá kæranda að enginn vissi hvað hefði orðið um stúlkuna og að enginn hefði frétt af henni síðan í september 2017.

Af framangreindu er ljóst að töluvert misræmi er í framburði kæranda í viðtölum hjá kærunefnd og Útlendingastofnun. Samkvæmt framburði kæranda hjá kærunefnd hafi hann kynnst stúlkunni er hún hafi verið 14 ára gömul en í viðtali hjá Útlendingastofnun kvað kærandi stúlkuna hafa verið tæplega 21 árs. Þá skeikar tæpum tveimur árum í framburði kæranda um hvenær samband hans og stúlkunnar hófst. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa spurst fyrir um stúlkuna eftir að hann hafi lagt á flótta og fengið þær fregnir frá frænku stúlkunnar að stúlkan hafi verið drepin. Eins og áður segir kvað kærandi hins vegar í viðtali hjá kærunefnd að hann hefði ekkert heyrt frá frænku stúlkunnar eftir að hann hafi lagt á flótta og að enginn vissi hvað hefði orðið um stúlkuna. Telur kærunefnd að misræmi kæranda um þessi meginatriði í málinu dragi að verulegu leyti úr trúverðugleika hans að því er varðar samband hans við stúlkuna. Að mati kærunefndar er misræmið þess eðlis að ekki sé unnt að leggja til grundvallar að hann hafi átt í sambandi við umrædda stúlku og þar með sætt hótunum af hálfu fjölskyldumeðlima stúlkunnar vegna sambandsins eða eigi á hættu að verða fórnarlamb heiðurstengds ofbeldis.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Verði kærandi fyrir ofbeldi í heimaríki sínu bera skýrslur um aðstæður í heimaríki kæranda sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar það með sér að hann eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að einhverju leyti ábótavant er það mat kærunefndar ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld þar í landi vilji ekki veita kæranda vernd gegn ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að leggja ekki til grundvallar framburð kæranda af hótunum í hans garð vegna sambands við fyrrnefnda stúlku utan hjónabands. Verður því ekki talið að raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki af þeim sökum. Að því er varðar málsástæðu kæranda um að öryggisástand í [...] sé ótryggt benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að svæði [...] sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir [...] séu öflugar og vel búnar. Þá sé heimabær kæranda, [...], langt inni í landi [...] þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í [...], á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til skýrslna um aðstæður í heimaríki kæranda, að honum standi til boða vernd og aðstoð lögreglu í [...] telji hann sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi styður þrautavarakröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða m.a. við þau rök að ástandið í heimaríki hans sé óstöðugt. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Með vísan til fyrri umfjöllunar um öryggisástandið í [...] verður ekki talið að almennar aðstæður þar í landi séu þess eðlis að kærandi teljist hafa ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrirliggjandi upplýsingar um heilsufar kæranda benda til þess að kærandi hafi glímt við höfuðverki og svefnvandamál. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann glími við andlega erfiðleika. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heilbrigðiskerfið í [...] verður lagt til grundvallar að kærandi geti leitað eftir aðstoð þar vegna heilsufarsvandamála sinna. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar er lúta einkum að umfjöllun stofnunarinnar um þá hættu sem steðjar að karlmönnum sem eru aðilar að heiðursdeilum í [...] og mat á trúverðugleika frásagnar kæranda. Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að misræmi í viðtölum við kæranda leiði til þess að frásögn hans um hótanir og ótta við ofbeldi vegna sambands við fyrrgreinda stúlku verði ekki lögð til grundvallar í málinu. Við úrlausn málsins á kærustigi var því ekki tekin afstaða til aðstæðna karla í [...] sem telja sig eiga á hættu að verða fórnarlömb heiðursmorðs. Í ljósi þess að nefndin hefur ekki endurskoðað þann þátt málsins telur kærunefnd ekki tilefni til að gera athugasemdir við framangreind atriði í hinni kærðu ákvörðun. Af sömu ástæðu verður ekki tekin afstaða til þess hvort Útlendingastofnun hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins vegna mála þar sem stofnunin hefur veitt karlmönnum frá [...] alþjóðlega vernd vegna ótta þeirra við að verða fórnarlömb heiðursmorðs.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 29. janúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                 Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta