Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 99/2012

Mánudaginn 16. júní 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 1. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. júní 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 13. júní 2012 þar sem honum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina og var erindið ítrekað með bréfi 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1984. Samkvæmt gögnum málsins býr hann ásamt vini sínum í leiguhúsnæði að B götu nr. 37 í sveitarfélaginu C. Hann er atvinnulaus og þiggur atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt útfylltu umsóknareyðublaði hjá umboðsmanni skuldara eru ráðstöfunartekjur kæranda samtals að meðaltali um 164.000 krónur á mánuði en það eru atvinnuleysisbætur annars vegar og leigutekjur af fasteign kæranda í sveitarfélaginu D hins vegar.

Á stöðluðu umsóknareyðublaði umboðsmanns skuldara er merkt við að helstu ástæður skuldasöfnunar kæranda séu atvinnuleysi og vankunnátta í fjármálum. Einnig kemur fram í umsókninni að leigjandi að fasteign kæranda hafi ekki greitt leigu um sex mánaða skeið og hafi kærandi í kjölfarið lent í vanskilum. Kveðst kærandi eiga í erfiðleikum með að fá vinnu þar sem hann sé á sakaskrá og hafi ekki bílpróf.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 25.980.140 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þá hefur kærandi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingu að fjárhæð 970.000 krónur en samkvæmt gögnum málsins er lánið í skilum. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 og 2009.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 15. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. maí 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Í kæru segir að kærandi hafi verið heimilislaus í tæp tvö ár. Hann hafi ekki haft ráð á að eiga síma eða hafa tölvupóstfang. Móðir hans hafi framsent til hans bréf frá umboðsmanni skuldara en þá fyrst hafi kærandi áttað sig á því að embættið vantaði gögn um mál hans. Kveðst kærandi búa við erfiðar aðstæður.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun hans um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði staðfest.

Í hinni kærðu ákvörðun eru samskipti starfsmanna umboðsmanns skuldara við kæranda rakin. Kemur þar fram að kæranda hafi verið sent bréf í ábyrgðarpósti á lögheimili hans 28. október 2011. Í bréfinu hafi verið óskað eftir þeim gögnum sem vantaði með umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Bréfsins hafi ekki verið vitjað. Hinn 3. apríl 2012 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur og hann inntur eftir gögnum á ný. Umbeðin gögn hafi ekki borist innan þess frests sem veittur var. Hinn 27. apríl 2012 hafi kæranda verið sent annað bréf í ábyrgðarpósti á skráð lögheimili hans þar sem óskað hafi verið eftir gögnum vegna umsóknar hans. Umbeðin gögn hafi ekki borist innan frests. Auk þessara bréfasendinga hafi verið reynt að hafa samband við kæranda í símanúmer sem uppgefið væri á umsókn hans í fjögur skipti; 26. apríl, 27. apríl, 11. maí og 14. maí. Símtölunum hafi ekki verið svarað. Hafi embættinu ekki þótt fyrirliggjandi gögn gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og/eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hafi kæranda á þessum grundvelli verið synjað um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar segir að við mat á umsókn beri embættinu að líta til þeirra aðstæðna sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. komi fram að umboðsmanni skuldara beri skylda til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki aðstæður sem lýst er í stafliðum ákvæðisins vera fyrir hendi. Í hinni kærðu ákvörðun sé synjun á umsókn kæranda rökstudd með vísan til þeirra ástæðna sem tilgreindar séu í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í málinu liggi fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir upplýsingum frá kæranda, sem hafi látið undir höfuð leggjast að skila umbeðnum upplýsingum. Þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir væru dagsett og undirrituð greinargerð þar sem ítarlega skyldi gera grein fyrir ástæðum greiðsluerfiðleika umsækjanda auk fjölskylduaðstæðna, atvinnu og fleira.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. lge. skuli skuldari leggja inn umsókn hjá umboðsmanni skuldara og í henni skuli koma fram þær upplýsingar sem tilgreindar séu í töluliðum 1 til 11. Telja verði að þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir frá kæranda séu embættinu nauðsynlegar til að unnt sé að leggja mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði laganna til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. 4. og 5. gr. þeirra, og enn fremur hvort tilefni sé til þess að synja umsókninni á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge.

Ítrekað hafi verið reynt að hafa samband við kæranda. Honum hafi verið sendir tölvupóstar, bréf í ábyrgðarpósti og reynt hafi verið að hafa samband við hann símleiðis án árangurs. Vekur embættið athygli á því að kæranda hafi fyrst verið sendur tölvupóstur með beiðni um upplýsingar 29. júlí 2011. Hafi kæranda því verið veittur ríflegur frestur til að skila umbeðnum gögnum enda hafi níu mánuðir verið liðnir frá fyrstu beiðni um upplýsingar þegar umsókn kæranda var synjað 14. maí 2012. Vísar umboðsmaður til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 6/2011 þar sem fallist hafi verið á það með umboðsmanni skuldara að ekki væri unnt að leggja fullnægjandi mat á fjárhagsstöðu skuldara á grundvelli fyrirliggjandi gagna en í því máli hafi kærandi haft tæplega fjóra mánuði til að skila inn umbeðnum gögnum þegar umsókn hans var tekin til formlegrar afgreiðslu og henni synjað.

Að lokum er af hálfu umboðsmanns bent á það að kærandi hafi notið sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa á meðan umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar var til meðferðar hjá umboðsmanni á grundvelli tímabundins ákvæðis í lge. um greiðsluskjól, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lge., sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt ákvæðinu skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér um að ræða skyldu umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Þá er átt við að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsinga sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir efni umsóknar um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 liðum um það sem koma skal fram í umsókninni. Upptalning 1. mgr. er ekki tæmandi, enda er gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Af gögnum málsins er ljóst að talsvert vantar upp á upplýsingagjöf kæranda, einkum sökum þess að kærandi hefur ekki látið umboðsmanni skuldara í té greinargerð um aðstæður sínar. Umboðsmaður skuldara óskaði ítrekað eftir greinargerðinni án þess að kærandi hafi orðið við þeirri beiðni.

Samkvæmt ítarlegum leiðbeiningum sem aðgengilegar eru á heimasíðu umboðsmanns skuldara, og sem sendar voru kæranda með beiðni embættisins um upplýsingar, kemur meðal annars fram að í greinargerð skuli gerð grein fyrir menntun og starfi umsækjanda, forsögu og ástæðum greiðsluerfiðleika, öllum eignum umsækjanda, hvenær og hvernig þeirra var aflað og hvert áætlað verðmæti þeirra sé í dag. Einnig skuli gerð grein fyrir eignum sem hægt væri að selja. Í greinargerðinni þarf jafnframt að greina frá hverri og einni skuldbindingu umsækjanda, hvers vegna hún er tilkomin og hvenær stofnað var til hennar, gera grein fyrir öllum tekjum umsækjanda og hvort horfur séu á breytingum á þeim. Hafi umsækjandi misst vinnuna þurfi að koma fram hvenær það gerðist og hverjar framtíðarhorfur í atvinnumálum séu. Jafnframt skuli greina frá því ef aðrir fjármunir en vinnutekjur verði til staðar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna, leigutekna, fjármagnstekna, arðgreiðslna eða fjárframlaga annarra. Segir í leiðbeiningunum að fjallað skuli um hvern tekjumöguleika fyrir sig. Þá skuli gerð grein fyrir þátttöku umsækjanda í atvinnurekstri, mögulegum riftanlegum ráðstöfunum og skuldbindingum annarra sem umsækjandi beri ábyrgð á.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Svo sem rakið hefur verið gerði umboðsmaður skuldara ítrekaðar tilraunir til þess að afla þessara upplýsinga hjá kæranda og nýtti hann til þess allar leiðir sem honum voru færar en án árangurs. Ljóst er að það er ekki á færi annarra að veita þær upplýsingar sem óskað var eftir og að þær eru nauðsynlegar til afgreiðslu umsóknar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Við meðferð málsins hjá kærunefndinni hefur kærandi hvorki gefið skýringar á því hvers vegna hann lagði ekki fram umbeðin gögn né heldur bætt úr þessum ágalla á umsókn sinni.

Með vísan til alls þessa telur kærunefndin að fallast beri á það með umboðsmanni skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar og er ákvörðun umboðsmanns því staðfest með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta