Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 99/2013

Mánudaginn 16. júní 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 23. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 18. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. apríl 2014. Ítrekun var send kæranda með bréfi 14. maí 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. nóvember 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kærandi er fæddur 1983 og er menntaður málari. Hann er búsettur í Noregi.

Að sögn kæranda má rekja greiðsluerfiðleika hans til ársins 2006 þegar hann keypti fasteignina B götu nr. 15a í sveitarfélaginu C ásamt móður sinni. Eftir afhendingu á fasteigninni hafi komið í ljós gallar sem þurft hafi að lagfæra með tilheyrandi kostnaði. Þau hafi ekki getað flutt í fasteignina fyrr en í september 2007. Fram að efnahagshruni 2008 hafi kærandi staðið í skilum með skuldbindingar sínar. Á árinu 2009 hafi lán sem voru tengd erlendum gjaldmiðlum hækkað sem og önnur lán sem tekin hafi verið í tengslum við framkvæmdir á fasteigninni. Endurbótum á eigninni sé enn ólokið þrátt fyrir mikinn tilkostnað.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 60.396.344 krónur. Þar af falla 1.112.777 krónur utan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga kæranda var stofnað á árunum 2004–2006.

Þann 22. nóvember 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum kæranda. Með bréfi umsjónarmanns 1. nóvember 2012 til umboðsmanns skuldara var lagt til að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., sbr. 15. gr. lge.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. maí 2013 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a- og b-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hans til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Fram kemur í tölvupósti föður kæranda til kærunefndarinnar 9. júlí 2013 að umbeðin gögn hafi verið afhent umsjónarmanni. Varðandi kröfu um sparnað hafi starfsmönnum lögmannsstofu umsjónarmanns verið fullkunnugt um að kærandi hafi lagt fyrir 1.500.000 krónur.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að umsjónarmaður hafi tilkynnt embættinu að kærandi hefði ekki framvísað gögnum um sparnað og hefði hann því brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. Við skoðun málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi komið í ljós að kærandi var búsettur í Noregi og hafði ekki þegið laun á Íslandi síðan í ágúst 2010. Umboðsmaður skuldara taldi að vegna skorts á upplýsingum um tekjur væri ómögulegt að leggja mat á hvort kærandi hefði uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 3. apríl 2013 hafi embættið óskað eftir skýringum og gögnum kæranda um búsetu, tekjur og sparnað áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í málinu. Engin gögn eða skýringar hafi borist frá kæranda en faðir kæranda hafi tjáð embættinu að ekki hefði tekist að safna saman þeim gögnum sem óskað hafi verið eftir en hann teldi líklegt að öflun þeirra yrði lokið fyrir 17. maí 2013. Ekki hafi verið óskað eftir frekari fresti til að skila gögnum og engin gögn hafi borist embættinu, hvorki frá kæranda né föður hans.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni skuldara hafi engar upplýsingar borist um tekjur kæranda þrátt fyrir að eftir þeim hafi verið kallað.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. komi fram að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar sem eigi lögheimili og séu búsettir á Íslandi. Frá þessu skilyrði megi víkja sé sá sem leitar greiðsluaðlögunar tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili eða verið búsettur á Íslandi í a.m.k. þrjú ár samfleytt, enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafi á Íslandi við lánardrottna sem eigi lögheimili á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá sé kærandi búsettur í Noregi og hafi þar lögheimili. Óskað hafi verið eftir gögnum sem sýndu með óyggjandi hætti hvort um tímabundna veru erlendis væri að ræða. Engin gögn hafi borist umboðsmanni skuldara. Samkvæmt úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 14/2011 þurfi gögn að sýna að umsækjandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram sé markaður ákveðinn tími. Ekki verði litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða sé staðhæfing um slíkt ekki studd gögnum.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld úr gildi samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a- og b-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., og b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili. Í b-lið 1. mgr. 6. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi sé búsettur erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta hans sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. enda hafi engin gögn verið lögð fram því til stuðnings. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var heimild sem kærandi hafði fengið til greiðsluaðlögunar því felld niður.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi 4. mgr. 2. gr. lge. verður líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða til þess að flutningurinn verði talinn tímabundin búseta. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef slíkar staðhæfingar eru ekki studdar viðhlítandi gögnum.

Í tilviki kæranda liggur fyrir að hann hefur verið með skráð lögheimili í Noregi frá 17. nóvember 2010, hefur verið búsettur þar frá sama tíma og er enn. Kærandi hefur ekki andmælt framangreindu eða lagt fram skýringar og gögn sem sýna fram á hið gagnstæða. Að mati kærunefndarinnar verður því ekki vikið frá skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. vegna búsetu kæranda erlendis.

Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar af framangreindum ástæðum og með vísan til 1. mgr. 15. gr. sömu laga er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta