Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 125/2012

Mánudaginn 16. júní 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 3. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 25. júní 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir voru felldar niður á grundvelli 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi 17. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. september 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 12. september 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Erindið var ítrekað 24. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1970 og 1972. Þau búa             ásamt fjórum börnum sínum í eigin húsnæði að C götu nr. 38 í sveitarfélaginu D. Samkvæmt gögnum málsins starfar kærandi A sem sölumaður hjá X hf. og kærandi B er leikskólakennari í fæðingarorlofi. Ráðstöfunartekjur kærenda eru samkvæmt gögnum málsins að meðaltali 555.267 krónur á mánuði og samanstanda af launatekjum kæranda A, greiðslum úr fæðingarorlofssjóði til kæranda B, vaxtabótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 83.308.775 krónur og þar af falla 78.668.517 innan samnings, sbr. 3. gr. lge. Til helstu skuldbindinga var stofnað við kaup á húsnæði árið 2004 og með gerð tveggja bílasamninga árin 2006 og 2007. Að mati kærenda má meðal annars rekja greiðsluerfiðleika þeirra til tekjulækkunar beggja og hækkunar gengistryggðra lána. Að sögn kærenda hafa þau fullreynt önnur vægari greiðsluerfiðleikaúrræði.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. maí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Í janúar 2012 leitaði umsjónarmaður samþykkis kröfuhafa fyrir kaupum kærenda á bifreið. Mótmæli bárust frá einum kröfuhafa. Kannaði umsjónarmaður í kjölfarið hvort kærendur hefðu sinnt skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 12. gr. lge. Með bréfi 23. janúar 2012 tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil og að það væri mat hans að fella bæri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 5. mars 2012 var kærendum gefinn kostur á að andmæla hugsanlegri niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Kærendur svöruðu bréfi umboðsmanns skuldara 8. mars 2012 þar sem þau gerðu grein fyrir fjárhag sínum á liðnum misserum. Áttu kærendur í kjölfarið í nokkrum skriflegum samskiptum við umboðsmann skuldara þar sem þau létu embættinu í té skýringar og gögn.

Með ákvörðun 25. júní 2012 felldi umboðsmaður skuldara heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar niður með vísan til 15. gr. lge. og a-liðar 12. gr. sömu laga.

II. Sjónarmið kærenda

Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þau krefjist þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Í bréfi sínu til umboðsmanns skuldara 8. mars 2012 segja kærendur að þau hafi verið í góðu sambandi við umsjónarmann með greiðsluaðlögunarumleitunum og að það hafi verið skilningur þeirra að málið væru í réttum farvegi. Þau hafi gert umsjónarmanni grein fyrir því að þeim væri erfitt að leggja fyrir þar sem kærandi B væri í fæðingarorlofi. Hún hafi ekki byrjað að vinna fyrr en síðla árs 2011 en þá hafi þau getað byrjað að leggja fyrir. Þetta hafi umsjónarmaður vitað. Þrátt fyrir að hafa fengið heimild til þess að nota 350.000 krónur til bifreiðakaupa hafi þeim tekist að safna 512.000 krónum. Kærendur segjast öll af vilja gerð til þess að greiðsluaðlögunin gangi eftir.

Kærendur segjast í einu og öllu hafa farið eftir fyrirmælum og þau hafi skilað bíl sínum til Lýsingar þegar þess hafi verið óskað. Þau fari því fram á að mál þeirra „haldi sínu striki“, að aðlögunarferlið hefjist, þ.e. samningar samkvæmt því sem lagt var upp með og allir kröfuhafar hafi verið búnir að samþykkja. Segjast kærendur geta staðið við afborganir að fjárhæð 239.294 krónur eins og greiðslugeta þeirra sýni. Gangi greiðsluaðlögunin ekki eftir blasi gjaldþrot við kærendum.

Í öðru bréfi til umboðsmanns skuldara sem einnig er dagsett 8. mars 2012 komi fram að bifreið kærenda hafi orðið fyrir tjóni og viðgerð hafi kostað um 493.000 krónur. Þá hafi kærendur skuldað tryggingariðgjöld sem þau hafi þurft að greiða auk þess sem kærandi A hefði fengið fyrirframgreidd laun sem hann hafi þurft að vinna upp. Auk þessa hafi þau staðið í skuld vegna tómstunda barna sinna og einnig hafi þau þurft að kaupa sérsmíðuð gleraugu handa syni sínum. Þau hafi síðan eignast barn í september 2010 og hafi það sett strik í reikninginn.

Í kæru kemur fram að kærendur hafi sótt um greiðsluaðlögun í október 2010. Hana hafi þau fengið samþykkta og hafi litið út fyrir að hún myndi bjarga fjármálum þeirra. Þau hafi þá þegar gert umsjónarmanni grein fyrir því að þau hefðu ekki getað lagt jafn mikið fyrir og til væri ætlast. Segja kærendur að þegar þau hafi sótt um greiðsluaðlögun hafi ástandið verið svo slæmt að skuldir hefðu hrannast upp og það ekki aðeins í bönkum, heldur „allstaðar í kringum þau“. Eftir að þau hafi sótt um greiðsluaðlögun og komist í greiðsluskjól hafi tekið þau langan tíma „að komast á skrið“ aftur og hafi fyrstu mánuðir tímabilsins farið í að greiða upp smáskuldir sem hafi ekkert með bankana að gera. Þá hafi kærendur eignast barn í september 2010 eins og fram er komið.

Kærandi A kveðst hafa fengið aðstoð frá vinnuveitanda sínum með fyrirframgreiðslu launa. Sýni gögn málsins því fram á laun sem kærandi A hafi ekki haft. Sú skuld sé nú greidd. Kærunni fylgdu launaseðlar til stuðnings þessum skýringum kærenda.

Kærendur benda á að þau hafi ekki staðið í neinum fjárfestingum heldur hafi þau einungis reynt að halda heimili fyrir börnin sín. Þau hafi reynt að vinna eins mikið og þau gætu og gert allt til þess að reyna að leggja fyrir. Sumarfríi, tómstundum og tannlækningum hafi þau sem dæmi haldið í lágmarki til þess að draga sem mest úr útgjöldum.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna stendur yfir. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður skuldara bendir sérstaklega á að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hjá embættinu hafi verið sent bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 12. maí 2011. Hafi kærendum því mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi kærendur haft ríflegar tekjur frá því þau lögðu inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 28. október 2010. Frá því í byrjun nóvember til loka árs 2010 hafi kærendur haft 1.266.331 krónu í tekjur. Árið 2011 hafi þau haft alls 7.394.988 krónur í tekjur að frádregnum skatti. Þá hafi kærendur frá ársbyrjun 2012 haft 3.567.226 krónur í heildartekjur að frádregnum skatti, sé miðað við lok maímánaðar 2012. Verði lagt til grundvallar að kærendur hafi alls haft 12.228.545 krónur í tekjur. Tekjur kæranda B hafi verið breytilegar. Hafi hún lengstan hluta árs 2011 verið í fæðingarorlofi og hafi tekjur hennar skerst af þeim sökum. Við mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. lge. hafi verið tekið tillit til þessa.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Þau viðmið byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar, og miðist við vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort umsækjendur um greiðsluaðlögun hafi sinnt skyldum sínum á meðan frestun greiðslna stendur yfir sé þeim jafnan veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því skuli miða við að framfærsluþörf kærenda hafi verið að jafnaði 417.451 króna á mánuði á meðan frestun greiðslna stóð yfir, að teknu tilliti til óvæntra útgjalda. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum júnímánaðar 2012.

Samkvæmt framansögðu verði að ganga út frá því að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að geta lagt fyrir 4.296.984 krónur frá því að frestun greiðslna hófst í október 2010, eða alls í 19 mánuði. Að sögn umsjónarmanns hafi kærendur einungis náð að leggja til hliðar 350.000 krónur miðað við 10. janúar 2012. Kærendur hafi þó lýst því yfir símleiðis við embætti umboðsmanns skuldara 21. júní 2012 að þau hefðu þá lagt fyrir sem nemi um 1.052.000 krónum frá því að frestun greiðslna hófst.

Kærendur hafi lagt fram ýmis gögn sem þau telji að skýri hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar meira fé á meðan frestun greiðslna hefur staðið yfir. Á meðal þeirra gagna séu yfirlit tryggingagreiðslna til Sjóvá-Almennra trygginga hf. á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2010, alls að fjárhæð 459.077 krónur. Við nánari athugun verði þó að áætla að kærendur hafi einungis greitt sem nemi um 26.265 krónum eftir að frestun greiðslna hófst 28. október 2010. Það komi því ekki til álita að meta framlögð gögn sem sönnun um aukin útgjöld á meðan frestun greiðslna hefur staðið yfir og hafi þegar verið gert ráð fyrir umræddum kostnaði í framfærsluviðmiðum.

Alls hafi kærendur lagt fram gögn um kostnað vegna bílaviðgerða að andvirði 589.758 krónur. Að teknu tilliti til fullyrðinga kærenda um ýmis óvænt útgjöld verði þó ekki litið framhjá því að töluverður mismunur sé á þeirri fjárhæð sem kærendum hefði að öllu óbreyttu átt að vera unnt að leggja til hliðar, þ.e. 4.296.984 krónur, og því fé sem kærendur hafi lagt til hliðar, þ.e. 1.052.000 krónur. Að teknu tilliti til kostnaðar vegna bifreiðakaupa að fjárhæð 350.000 krónur, bifreiðaviðgerða að fjárhæð 459.077 krónur, kaupa á barnavörum að fjárhæð 180.000 krónur auk gleraugnakaupa að fjárhæð 60.000 krónur hafi kærendur enn ekki gert grein fyrir því hvers vegna þeim hafi ekki verið unnt að leggja fyrir um 2.184.807 krónur á meðan frestun greiðslna stóð yfir.

Þyki því liggja fyrir að kærendur hafi ekki lagt fyrir nægilegt fé af tekjum sínum á meðan frestun greiðslna hefur staðið yfir. Kærendur hafi borið því við að heimiliskostnaður þeirra hafi almennt verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara segi til um, en slíkar fullyrðingar hafi kærendur ekki stutt fullnægjandi gögnum. Þá skuli umsjónarmaður ávallt notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við aðra og hærri framfærslu en þá sem reiknuð hafi verið fyrir kærendur með tillit til fjölskyldustærðar.

Í kæru taki kærendur fram að fyrstu mánuðina sem þau nutu greiðsluskjóls hafi þau greitt niður smáskuldir sem safnast hafi upp hjá þeim. Telja verði að slík háttsemi feli í sér brot á skyldum skuldara í greiðsluskjóli, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því sé ekki hægt að líta svo á að þetta atriði styðji kröfu kærenda um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Fyrir kærunefndina hafi kærendur lagt ný gögn. Samkvæmt launaseðli kæranda A frá desember 2011 hafi endurgreiðsla fyrirframgreiddra launa numið 1.110.000 krónum á árinu 2011 og frá launum hans hafi verið dregnar 173.555 krónur vegna vöruúttekta. Samkvæmt launaseðli kæranda A frá apríl 2012 hafi endurgreiðsla fyrirframgreiddra launa numið 200.000 krónum á árinu og frá launum hans hefðu verið dregnar 600.000 krónur vegna vöruúttekta. Líta verði svo á að umræddar fjárhæðir hafi verið hluti af heildarráðstöfunartekjum kærenda, sem miðað verði við þegar metið er hversu mikið megi gera ráð fyrir að þau hefðu átt að geta lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls, líkt og gert var í hinni kærðu ákvörðun.

Til nánari skýringar á þessu sé rétt að komi fram að almennt verði litið á fyrirframgreiðslu launa sem lán vinnuveitanda til launþega. Við slíka fyrirframgreiðslu launa eignist vinnuveitandi kröfu á hendur launþega sem venjulega sé greidd með þeim hætti að vinnuveitandi dragi umsamda fjárhæð frá launum við reglulegar útborganir launa. Í slíkum tilvikum verði vinnuveitandinn talinn einn af kröfuhöfum launþegans. Með því að krafa vinnuveitandans hafi verið greidd upp með þessum hætti verði að telja að kröfuhöfum launþegans hafi verið mismunað. Þannig verði ekki hjá því komist að líta svo á að það fé sem dregið var af launum kæranda A til endurgreiðslu fyrirframgreiddra launa, sem og vegna vöruúttekta, hafi verið hluti af heildarráðstöfunartekjum kærenda. Athugasemdir kærenda í rökstuðningi með kæru hvað þetta atriði varðar fái því ekki breytt forsendum hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verið staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu þeirra á sama tíma og þau nutu greiðsluskjóls. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lge. hófst tímabundin frestun greiðslna strax við móttöku umsóknar um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara fram til 1. júlí 2011. Samkvæmt 5. mgr. sama ákvæðis eiga skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. laganna við þegar umsókn hefur verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið í samræmi við ákvæðið.

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur ítarlega upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt tilkynningu umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 23. janúar 2012 um mögulega niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda nam sparnaður þeirra 350.000 krónum. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. júní 2012 kemur fram að sparnaður þeirra sé 1.052.000 krónur. Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 4.296.984 krónur á því tímabili sem um ræðir samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá því að frestun greiðslna hófst, eða allt frá 28. október 2010.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar fylgdi greiðsluáætlun en þar kemur fram að greiðslugeta kærenda á mánuði hafi verið 351.282 krónur. Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 23. janúar 2012 er greiðslugeta kærenda sögð 239.294 krónur á mánuði að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og taka kærendur undir þá útreikninga í kæru.

Hvað varðar fyrirframgreiðslu launa kæranda A og vöruúttektir verður að taka undir það með umboðsmanni skuldara að líta verði svo á að umræddar fjárhæðir hafi verið hluti af heildarráðstöfunartekjum kærenda sem miða verði við þegar metið er hversu mikið kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir á tímabili því sem um ræðir.

Kærendur byggja einnig á því að fyrstu mánuðina sem þau nutu greiðsluskjóls hafi þau ekki getað lagt fyrir þar sem þau hafi þurft að greiða niður ýmsar smáskuldir sem safnast hafi upp. Telja verður að slík háttsemi feli í sér brot á skyldum skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að þær greiðslur geti því almennt ekki komið til skoðunar sem ráðstafanir sem skuldari þarf að gera til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt framangreindum forsendum bar kærendum að leggja til hliðar samtals að minnsta kosti um 4.200.000 krónur frá upphafi greiðsluskjóls fram að hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara. Gengið er út frá því í ákvörðun umboðsmanns skuldara að sparnaður kærenda sé 1.052.000 krónur. Kærendur hafa tilgreint kostnað vegna bifreiðakaupa að fjárhæð 350.000 krónur, vegna bifreiðatjóns um 493.000 krónur, um 180.000 krónur vegna fæðingar barns þeirra í september 2010 og um 60.000 krónur vegna gleraugnakaupa. Jafnvel þótt tekið yrði tillit til alls þess viðbótarkostnaðar sem kærendur hafa tilgreint en einungis stutt gögnum að hluta, samtals að fjárhæð um 2.135.000 krónur, er ljóst að talsvert vantar enn upp á sparnað kærenda eða um 2.000.000 króna.

Með vísan til alls framangreinds fellst kærunefndin á sjónarmið umboðsmanns skuldara um að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta