Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 121/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. ágúst 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 121/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. ágúst 2013, var fjallað um mál kæranda, A, en hún sótti síðast um atvinnuleysisbætur 28. febrúar 2011. Tekin var ákvörðun um að stöðva greiðslur til hennar á grundvelli 1. gr., 2. gr., a-liðar 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún taldist hvorki vera í virkri atvinnuleit né atvinnulaus þar sem hún var í vinnu við eigin rekstur. Kæranda var með sama bréfi gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 12. apríl 2012 til 31. júlí 2013 samtals að fjárhæð 2.289.693 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki var gerð krafa um greiðslu álags á fjárhæðina vegna mistaka sem Vinnumálastofnun hafði gert við meðferð málsins. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 29. október 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 28. febrúar 2011.

Í skráningu í samskiptasögu Vinnumálastofnunar vegna kæranda 17. maí 2011 kemur fram að kærandi ætli að stofna eigið fyrirtæki. Í samskiptasögunni 12. apríl 2012 er skráð að kærandi fari ekki á námskeið þar sem hún sé að stofna bændagistingu. Í samskiptasöguna er skráð 16. ágúst 2013 að kærandi hafi stofnað B í mars 2012. Hafi hún látið vita að hún kæmi ekki á námskeið 12. apríl 2012 vegna þess að hún væri að stofna fyrirtæki. Fram kemur að ákveðið sé að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur hjá kæranda skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar frá 12. apríl 2012 til 31. júlí 2013, en án álags vegna mistaka stofnunarinnar. Mistökin hafi falist í því að afskrá kæranda ekki strax.

Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 7. ágúst 2013, vegna þess að samkvæmt gögnum frá aðilum vinnumarkaðarins hafi kærandi verið við störf hjá fyrirtækinu B 6. júní 2013. Stofnunin óskaði eftir því að kærandi skilaði inn skýringum og athugasemdum vegna þessa. Vinnumálastofnun barst tölvupóstur frá kæranda 12. ágúst 2013 með skýringum hennar og óskaði kærandi jafnframt eftir frekari skýringum á máli hennar. Starfsmaður Vinnumálastofnunar svaraði tölvupósti kæranda 13. ágúst 2013. Kærandi óskaði svara við frekari spurningum sínum í tölvupósti 15. ágúst 2013 sem Vinnumálastofnun svaraði með tölvupósti 16. ágúst 2013.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi hjá Vinnumálastofnun 15. ágúst 2013. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda þá ákvörðun sína að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta með vísan til þess að skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væru ekki uppfyllt. Kæranda var jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 2.298.693 kr. án álags.

Í kæru gerir kærandi í fyrsta lagi athugasemd við skort á upplýsingum af hálfu Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi aldrei verið tjáð að það að stofna eigið fyrirtæki þýddi að hún mætti ekki þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi látið þess getið í fyrsta viðtali hjá Vinnumálastofnun að hún vonaðist til að þurfa ekki að þiggja bætur til langs tíma því hún hafi ætlað að stofna eigið fyrirtæki og um leið og hún fengi einhver laun þar þá þyrfti hún ekki lengur á bótum að halda. Við þetta hafi engin athugasemd verið gerð. Kærandi hafi átt samtöl við nokkra aðra starfsmenn Vinnumálastofnunar og sagt frá stofnun fyrirtækis hennar og aldrei hafi henni verið bent á að hún væri að brjóta lög. Einnig hafi hún farið á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar, stofnun og rekstur smáfyrirtækja, og það hafi verið markvisst í þeim tilgangi að setja upp heimagistingu. Hvergi hafi þess verið getið að stofnun eigin fyrirtækis afnæmi bótaréttinn. Í þessu sama viðtali í byrjun mars 2011 hafi kærandi látið þess getið að hún hygðist heimsækja dóttur sína til C. Þá hafi henni verið tjáð að hún mætti ekki ferðast úr landi. Þar af leiðandi hafi kærandi fyrst fengið bætur í maí 2011. Einnig hafi kæranda verið tjáð að hún fengi engar bætur í veikindum en aldrei minnst á að stofnun fyrirtækis ylli bótamissi.

Í annan stað bendir kærandi á að hún hafi sagt í bréfi til Vinnumálastofnunar að fyrirtæki hennar sé enn smátt í sniðum og hún hafi ekki þegið af því laun, enn sem komið sé. Nú viti hún til þess að fólk hafi mátt þiggja laun allt að 53.000 kr. frá vinnuveitanda án þess að það skerði bótaréttinn, en í tilviki kæranda hafi bótaréttur fallið niður sökum þess að hún starfi launalaust hjá eigin fyrirtæki. Veltir kærandi fyrir sér hverjar forsendur Vinnumálastofnunar séu fyrir slíkri mismunun.

Í þriðja lagi vísar kærandi til ársreikninga fyrirtækis síns en þar séu upplýsingar um stöðu þess og starfsemi.

Í fjórða lagi bendir kærandi á að aðgangi að síðum Vinnumálastofnunar hafi verið breytt og nú komist hún ekki inn á „mínar síður“ til að sækja launaseðla eða önnur gögn.

Loks gerir kærandi athugasemdir við það að henni beri að undirrita kærueyðublað til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sem sé réttmætt, en hins vegar virðist það ekki gilda um þá sem sendi bréf í nafni Vinnumálastofnunar. Á þeim bréfum sem kærandi hafi móttekið sé aðeins stimpill og ólæsilegt klór. Kærandi telji það lágmarkskurteisi við viðtakanda að hann viti nafn þess sem riti bréfið.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að í kæru sinni hafi kærandi sagt að stofnunin hefði ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína þar sem kærandi hafi ekki fengið nægar upplýsingar frá stofnuninni. Kærandi hafi tekið fram að hún hafi margsinnis tjáð starfsfólki Vinnumálastofnunar að hún væri að stofna eigið fyrirtæki og að henni hefði aldrei verið tjáð að hún mætti ekki þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta á sama tíma. Jafnframt hafi kærandi tekið fram að starfsemi fyrirtækisins sé smá og að hún hafi ekki þegið nein laun, enn sem komið sé.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 28. febrúar 2011. Þann 12. apríl 2012 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og tilkynnt að hún gæti ekki mætt á námskeið þar sem hún væri að stofna bændagistingu. Kæranda hafi verið leiðbeint um að kynna sér vinnumarkaðsúrræðið „eigið frumkvöðlastarf“ vegna þessa. Í samskiptasögu kæranda við Vinnumálastofnun sé ekki að finna neina aðra færslu er varðar vinnu kæranda við uppbyggingu bændagistingar. Stofnuninni bárust engar upplýsingar um vinnu kæranda við Edda‘s Farmhouse in Town fyrr en upplýsingar bárust frá eftirlitsaðilum vinnumarkaðarins um að kærandi hefði verið við störf hjá fyrirtækinu 6. júní 2013.

Vinnumálastofnun bendir á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Tilgangur laganna um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. laganna sé það skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit. Í 1. mgr. 14. gr. laganna sé nánari grein gerð fyrir því hvað felist í virkri atvinnuleit.

Af ákvæðinu megi sjá að strangar kröfur séu gerðar til þeirra er þiggi greiðslur atvinnuleysisbóta um að vera virkir í atvinnuleit. Uppfylli sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum augljóslega ekki skilyrði þess að teljast virkur í atvinnuleit í skilningi ákvæðisins á sama tíma og málsaðili sinnir rekstri fyrirtækis eða umsjón með bændagistingu, hvort sem slík störf séu launuð eða ekki. Í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi enn fremur að lögin skuli gilda um þá sem verði atvinnulausir og í 2. gr. laganna sé tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Ljóst sé að kærandi hafi starfað í þágu fyrirtækis í eigin eigu við rekstur bændagistingar. Sé því ráðningarsamband til staðar milli kæranda og einkahlutafélags í hennar eigu. Kærandi hafi tilkynnt til Vinnumálastofnunar 12. apríl 2012 að hún væri að stofna bændagistingu. Samkvæmt hlutafélagaskrá hafi fyrirtæki hennar verið stofnað 29. febrúar 2012. Þann 6. júní 2013 hafi kærandi verið við störf hjá eigin fyrirtæki, þ.e. B. Ekki sé hægt að fallast á að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og teljist atvinnulaus í skilningi laganna á sama tíma og hún hafi sinnt störfum hjá gistiheimilinu. Vinnumálastofnun hafi því tekið þá ákvörðun á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda.

Í bréfi sínu til Vinnumálastofnunar 13. ágúst 2013 hafi kærandi sagt að fyrirtækið hafi ekki getað greitt henni nein laun. Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skal maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi reikna sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starfið en hann hefði haft sem laun fyrir það hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Það að kærandi hafi ekki greitt sér laun fyrir starf sitt við bændagistingu í þágu eigin fyrirtækis leiði því ekki til þess að hún teljist ekki hafa verið í ráðningarsambandi við fyrritækið. Það sé mat Vinnumálastofnunar að með bréfi kæranda, dags. 13. ágúst 2013, hafi hún staðfest það að hún væri við störf fyrir fyrirtæki sitt og styðji það niðurstöðu Vinnumálastofnunar um að kærandi geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Sé ofangreind niðurstaða Vinnumálstofnunar jafnframt í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 154/2011.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. febrúar 2014. Jafnframt var kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. janúar 2014, tilkynnt að afgreiðsla máls þessa myndi tefjast vegna mikils málafjölda hjá nefndinni.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfum, mótt. 13. og 21. febrúar 2014. Í athugasemdum kæranda kemur meðal annars fram að hún telji að gögn sem fylgdu greinargerð Vinnumálastofnunar eigi að leiða líkur að sekt hennar í málinu. Greinilegt sé að frá fyrsta degi hafi hún ekki verið talin æskilegur skjólstæðingur samkvæmt því sem fram kemur í samskiptasögu Vinnumálastofnunar þar sem sagt sé að kærandi hafi verið mjög ósátt við að fá ekki bætur á meðan hún væri hjá dóttur sinni á C. Því mótmæli kærandi en hún hafi verið ósátt við framkomu tiltekins starfsmanns stofnunarinnar sem hún ræddi við um ferðina til C. Við aðra starfsmenn stofnunarinnar hafi kærandi átt þægileg samskipti.

Kærandi ítrekar í athugasemdum sínum að Vinnumálastofnun hafi vitað frá 28. apríl 2011 af ætlun hennar að stofna eigið fyrirtæki. Jafnframt hafi engum dottið í hug að benda kæranda á að við stofnun fyrirtækis ætti hún ekki rétt á bótum. Kærandi veltir fyrir sér hver sé upplýsingaskylda Vinnumálastofnunar gagnvart skjólstæðingum sínum. Þá hafi heldur aldrei verið vikið að því á námskeiðinu sem kærandi sótti að eigendur lítilla fyrirtækja mættu ekki þiggja bætur.

Kærandi bendir á að því sé þannig farið að þótt fyrirtæki sé stofnað og skrásett og öll leyfi fengin þá byrji ekki peningar að streyma samstundis inn. Fyrirtæki kæranda hafi verið stofnað í lok febrúar 2012 og fyrstu gestir komið í hús 12. júlí það ár. Eins og eðlilegt sé með ný fyrirtæki af þessu tagi hafi það verið rekið með tapi fyrsta árið og enn sem komið sé hafi kærandi ekki getað greitt sér laun.

Þá bendir kærandi á að í samskiptasögu Vinnumálastofnunar sé ritað að það séu mistök stofnunarinnar að hafa ekki afskráð kæranda strax, þ.e. 12. apríl 2012, þegar hún hafi látið vita að hún kæmist ekki á námskeið þar sem hún væri að stofna heimagistingu. Kærandi telur ekki rétt að hún sé látin gjalda fyrir þessi mistök. Kærandi kveðst ekki hafa verið viljandi að hlunnfara Vinnumálastofnun, hún hafi veitt allar umbeðnar upplýsingar og gert grein fyrir ætlunum sínum.

Jafnframt biður kærandi enn og aftur um að gerð sé grein fyrir því hvers vegna fólk sem skráð sé í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun hafi mátt þiggja laun allt að 53.000 kr. til viðbótar við fullar atvinnuleysisbætur og af hverju fólki sé mismunað, en hún hafi engin svör fengið við þessu.

Kærandi veltir því fyrir sér, þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki afskráð hana strax í apríl 2012, hvers vegna hún hafi ekki verið afskráð 6. júní 2013 þegar hún í sakleysi sínu hafi boðið fólki frá aðilum vinnumarkaðarins að skoða gistiaðstöðu sína. Telji kærandi að það gæti verið sökum þess að tiltekinn eftirlitsmaður hafi ekki látið vita af því þá strax. Kærandi hafi boðið þremur fulltrúum inn til sín þennan dag, 6. júní 2013. Þeim hafi hún sýnt kvittanahefti sitt og henni hafi verið bent á að ganga með nafnspjald á sér merktu fyrirtækinu. Síðar í ágúst sama ár hafi tveir fulltrúar komið sem hún hafi ekki veitt inngöngu og hafi átt óskemmtileg samskipti við þá, en telur að ef hún hefði komið fram eins og þeir vildu þá hefði það getað flokkast sem mútur sem sé henni ekki að skapi.

Kærandi ítrekar að það hafi aldrei verið ætlun hennar að hlunnfara Vinnumálastofnun. Það sé sárt að missa vinnuna en kærandi hafi ekki átt í önnur hús að venda til að lifa af. Kærandi telur að ef starfsmenn Vinnumálastofnunar hefðu sinnt starfi sínu eins og þeim hafi borið þá þyrfti hvorki hún né þeir að standa í þessu stappi. Kærandi telur það ekki geta verið réttlætismál að hún beri ein allan skaða af annarra mistökum.

Kærandi sendi afrit af tölvupósti sem hún hafi sent Vinnumálastofnun þar sem það hafi verið látið liggja að því í greinargerð stofnunarinnar að hún hafi ekki svarað tölvupósti.

Kærandi telur Vinnumálastofnun ekki greina rétt frá varðandi það að stofnuninni hafi ekki borist neinar upplýsingar um vinnu kæranda við B og vísar til þess sem fram komi í samskiptasögu Vinnumálastofnunar dagana 11. apríl 2012 og 28. apríl 2011. Þá hafi kærandi líka látið vita af störfum sínum þegar hún skilaði ferilskrá í lok febrúar 2013.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að Vinnumálastofnun telur kæranda hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 12. apríl 2102 til 31. júlí 2013 að fjárhæð samtals 2.289.693 kr. sem henni beri að endurgreiða þar sem hún hafi á þeim tíma hvorki talist vera í virkri atvinnuleit né atvinnulaus því hún hafi verið við vinnu við eigin rekstur, sbr. a-lið 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar, 12. apríl 2012, hafði kærandi látið vita að hún kæmi ekki á námskeið vegna þess að hún væri að stofna fyrirtæki. Áður, eða 28. apríl 2011, hafði kærandi tilkynnt að hún ætlaði að stofna eigið fyrirtæki. Vinnumálastofnun lét eigi að síður hjá líða að ganga úr skugga um, í kjölfar fenginna upplýsinga 12. apríl 2012, hvort kærandi væri ennþá atvinnulaus eða í atvinnuleit.

Samkvæmt bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 7. ágúst 2013, hafði kærandi verið við störf hjá fyrirtækinu B 6. júní 2013 samkvæmt upplýsingum aðila vinnumarkaðarins samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Í framhaldi af því skilaði kærandi upplýsingum þess efnis að B væri skráð fyrirtæki í hennar eigu og á hennar heimili og væri hún að setja á laggirnar heimagistingu. Samkvæmt gögnum málsins var opnað virðisaukaskattsnúmer 1. mars 2012 hjá ríkisskattstjóra. Hún tók fram að fyrirtækið hefði ekki haft ráð á að greiða henni laun. Á grundvelli þessara upplýsinga tók Vinnumálastofnun ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda um tveggja mánaða skeið, sbr. 1. gr., 2. gr., a-lið 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem hún var hvorki talin hafa verið í virkri atvinnuleit né atvinnulaus á þeim tíma sem hún var í vinnu hjá eigin rekstur. Voru greiðslur til hennar stöðvaðar og henni jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 2.289.693 kr. sem hún hafði fengið greiddar frá 12. apríl 2012.

Samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Þá segir í 2. gr. laganna að markmið laganna sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er það eitt af skilyrðum þess að launamenn fái atvinnuleysisbætur að þeir séu í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr., en ljóst er af gögnum málsins að kærandi var ekki í virkri atvinnuleit þegar hún réðst í að stofna bændagistingu, þ.e. frá 12. apríl 2012, og uppfyllti þar af leiðandi ekki skilyrði 13. gr. laganna.

Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru talin upp skilyrði sem þarf að uppfylla til að teljast vera í virkri atvinnuleit. Meðal þessara skilyrða er að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa launamanni til boða, sbr. h-lið 1. mgr. 14. gr. Kærandi í máli þessu hafnaði þátttöku á námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar sem er vinnumarkaðsúrræði á vegum stofnunarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna skal hinn tryggði tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar. Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti kærandi til Vinnumálastofnunar um að hún ætlaði að setja á fót bændagistingu 12. apríl 2012. Á þeim tímapunkti hefði verið rétt af Vinnumálastofnun að afskrá kæranda af atvinnuleysisskrá og stöðva þá þegar greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Það gerði hins vegar Vinnumálastofnun ekki heldur greiddi kæranda atvinnuleysisbætur til 31. júlí 2013. Allan þann tíma þáði kærandi greiðslur atvinnuleysisbóta og þrátt fyrir að kærandi hafi ekki verið upplýst um að ekki megi stofna eigin rekstur og þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma þá liggja fyrir upplýsingar um að slíkt sé óheimilt, bæði í lögum um atvinnuleysistryggingar, sbr. 13. og 14. gr., á heimasíðu Vinnumálastofnunar og jafnframt er upplýst um slíkt á kynningarfundum stofnunarinnar sem öllum skráðum atvinnuleitendum ber að sækja. Ekki er unnt að fallast á að kærandi geti athugasemdalaust allan þennan tíma þegið greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að gera sjálf við það athugasemd við Vinnumálastofnun, en henni hefði verið það í lófa lagið, sér í lagi eftir að fyrstu gestirnir komu í hús 12. júlí 2012, enda hafi henni mátt vera ljóst að óheimilt væri að þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma og hún var sjálfstætt starfandi.

Samkvæmt öllu framangreindu og rökstuðningi Vinnumálastofnunar fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á umræddum tíma að fjárhæð 2.289.693 kr. sem henni ber skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að endurgreiða.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. ágúst 2013 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hennar í tvo mánuði og um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta að fjárhæð 2.289.693 kr. er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta