Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 123/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 123/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að A, hér eftir nefndur kærandi, sendi erindi, dags. 30. október 2013, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þar sem hann taldi að sér hefði verið hafnað um greiðslu atvinnuleysisbóta. Úrskurðarnefndin sendi Vinnumálastofnun erindi kæranda til umsagnar með bréfi sínu, dags. 1. nóvember 2013, og barst greinargerð stofnunarinnar vegna málsins, dags. 15. janúar 2014, þar sem farið var fram á að málinu væri vísað frá.

Í kæru, dags. 30. október 2013, bendir kærandi á að eftir að hann hafi svarað bréfi frá Vinnumálastofnun, 9. október 2013, um umbeðnar upplýsingar vegna námsloka með tölvupósti til Greiðslustofu þann 17. október 2013, hafi kæranda borist bréf, dags. 23. október 2013, þar sem hann var beðinn um upplýsingar vegna vinnu á tímabilinu sem hann var í skóla og atvinnulaus eftir það. Samkvæmt símtali við Greiðslustofu 30. október 2013 hafi kærandi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum vegna þess að hann hætti á bótum 2011 og fór í nám og hafi þar með fyrirgert rétti sínum til bóta.

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið búinn að vera á atvinnuleysisbótum í um það bil eitt og hálft ár þegar hann fór í nám í janúar 2011 eftir hvatningu meðal annars frá Vinnumálastofnun og hætti þar með á atvinnuleysisbótum. Eftir að hafa lokið námi í júní 2013 hafi kærandi skráð sig ekki strax á atvinnuleysisbætur og verið nokkuð bjartsýnn á vinnu sem hafi ekki gengið eftir og skráði kærandi sig á atvinnuleysisbætur 21. ágúst 2013.

Við umsókn um atvinnuleysisbætur sé beðið um staðfestingu á skólavist og loknum einingum og þegar umsókn er afgreidd þá skipti það ekki máli. Þegar kærandi hafi borið þetta undir fulltrúa Greiðslustofu hafi hann sagt það skrýtið að starfsfólk Vinnumálastofnunar væri að biðja um þessi vottorð ef þau skiptu ekki máli. Þá hafi honum verið sagt að þjónustufulltrúar væru ekki með heildarmyndina og sem sagt nám gilti ekki við umsókn um atvinnuleysisbætur.

Þannig liggi fyrir kæranda að það hafi átt að hafna honum um bætur, fyrst vegna náms en þegar kærandi hafi svarað því þá eigi að hafna honum um bætur af því hann var ekki að vinna á sama tíma og hann var í námi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. janúar 2014, kemur fram að skv. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sé aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segi svo að ákvörðun, sem ekki bindi enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.

Vinnumálastofnun bendir á að með kæru til úrskurðarnefndinnar hafi fylgt tvö bréf frá Vinnumálastofnun þar sem kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um efni máls áður en stofnunin tók ákvörðun í því. Bæði bréf stofnunarinnar sem hafi verið tilefni kæru til úrskurðarnefndarinnar feli í sér frestun á máli kæranda þar sem Vinnumálastofnun óskaði eftir upplýsingum skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Ekki sé því um að ræða ákvörðun sem bindi enda á mál kæranda. Vinnumálastofnun hafi ekki, á þeim tíma er kæra barst úrskurðarnefndinni, tekið ákvörðun í máli kæranda sem uppfyllti skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Ekki verði séð að umræddar beiðnir Vinnumálastofnunar séu kæranlegar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Jafnframt upplýsti Vinnumálastofnun að 11. nóvember 2013 var umsókn kæranda samþykkt og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. febrúar 2014. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

Þá var kæranda sent bréf úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. janúar 2014, þar sem honum var tilkynnt að afgreiðsla máls hans myndi tefjast og að ástæða þess væri gríðarlegur fjöldi kærumála hjá úrskurðarnefndinni. Þá stæði til að ljúka máli þessu sem fyrst.

2. Niðurstaða

Líkt og fyrr greinir er kæra í máli þessu dagsett 30. október 2013 en á þeim tíma var mál kæranda í vinnslu hjá Vinnumálastofnun á grundvelli skýringa stofnunarinnar og gagna eins og fram hefur komið. Vinnumálastofnun samþykkti umsókn kæranda 11. nóvember 2013 og greiddi honum atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt hans.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Samkvæmt bréfum Vinnumálastofnunar, dags. 9. og 23. október 2013, var ekki tekin ákvörðun í máli kæranda heldur var verið að inna hann eftir gögnum með umræddum bréfum. Jafnframt greindi Vinnumálastofnun frá því að tekin hefði verið ákvörðun í máli kæranda þann 11. nóvember 2013 og var umsókn hans um atvinnuleysisbætur samþykkt í samræmi við rétt hans. Af þeim sökum að ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun Vinnumálastofnunar verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 30. október 2013, er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta