Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 142/2013

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 142/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun skerti bótarétt kæranda, A, þar sem hann hefði ekki skilað inn greiðsluáætlun vegna greiðslna frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna í upphafi ársins 2013. Kærandi vildi ekki una því og kærði þá skerðingu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, mótt. 29. nóvember 2013. Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna kæranda og honum beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 15. október 2012. Umsókn kæranda var samþykkt á fundi stofnunarinnar 2. nóvember 2012 og reiknaðist hann með 100% bótarétt. Hefur kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn frá 15. október 2012.

Þann 2. janúar 2013 mætti kærandi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og skilaði tilkynningu um tekjur vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir árið 2012 og greiðsluáætlun vegna ársins 2013.

Þann 14. júní 2013 barst Vinnumálastofnun tilkynning í gegnum „mínar síður“ um tilfallandi tekjur kæranda frá B. Stofnuninni barst önnur tilkynning vegna tekna kæranda frá sama fyrirtæki þann 2. júlí 2013. Þann 20. júlí tilkynnti kærandi að hann væri í hlutastarfi hjá B en skilaði ekki inn, þrátt fyrir beiðni frá Vinnumálastofnun þess efnis, upplýsingum um starfshlutfall eða áætlun vegna launagreiðslna. Þann 30. september 2013 skilaði kærandi inn vottorði vinnuveitanda frá B og samkvæmt því var kærandi í 60% starfshlutfalli frá 13. maí til 27. september 2013. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra var þó um að ræða tilfallandi vinnu kæranda hjá fyrirtækinu og var því kærandi ekki afturvirkt skráður í hlutastarf hjá fyrirtækinu heldur var vinna hans hjá fyrirtækinu talin tilfallandi vinna. Á tímabilinu 1. ágúst til 8. nóvember 2013 var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta endurreiknaður með hliðsjón af tekjum hans frá B skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Enn fremur skilaði kærandi þann 10. desember 2013 inn tilkynningu um tilfallandi vinnu hjá B í október 2013.

Þann 8. október 2013 skilaði kærandi til Vinnumálastofnunar staðfestingu á greiðslum frá Sameinaða lífeyrissjóðnum og greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins vegna ársins 2013. Þann 8. nóvember 2013 endurreiknaði Vinnumálastofnun rétt kæranda til atvinnuleysisbóta með hliðsjón af þeim greiðslum sem hann hafði fengið frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna samkvæmt upplýsingum úr tölvukerfi ríkisskattstjóra, á tímabilinu október 2012 til október 2013. Sama dag hafði kærandi samband við stofnunin þar sem hann taldi að hann hefði skilaði inn gögnum í byrjun ársins um greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna. Var mál hans í kjölfarið skoðað hjá stofnuninni.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar var að kærandi hefði ekki skilað inn greiðsluáætlun vegna lífeyrissjóðsgreiðslna frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna í upphafi ársins 2013 heldur aðeins vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og Sameinaða lífeyrissjóðsins. Komu því greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna frá október 2012 til október 2013 til skerðingar á atvinnuleysisbótum kæranda á því tímabili. Skuld kæranda í dag, vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna tekna hans frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna október 2012 til október 2013 og frá Steinum verktökum ehf. maí til október 2013, standi í 121.539 kr.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, mótt. 29. nóvember 2013, að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur um nokkurn tíma, einnig lífeyrissjóðsbætur og örorkustyrk vegna veikinda sinna. Svo hafi kæranda boðist atvinna sem hann þáði, frá um miðjan maí 2013. Kærandi hafði fljótlega samband við Vinnumálastofnun og voru um tíma tveir starfsmenn á stofnuninni að hjálpa honum við afgreiðslu málsins svo hann fengi ekki neina bakreikninga vegna bóta og atvinnunnar sem var 60% vinna, sem hafi komið honum mjög á óvart. Samkvæmt símtali við yfirmann Greiðslustofu Vinnumálastofnunar hefðu þetta alfarið verið mistök Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. febrúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði þá ákvörðun stofnunarinnar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem leiddi til skuldamyndunar.

Kærandi hafi hafið störf hjá B þann 13. maí 2013 og starfað þar til september 2013 í 60% starfi og starfað svo við tilfallandi vinnu hjá fyrirtækinu í október 2013. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi þó vinna kæranda verið tekin fram sem tilfallandi vinna allan tímann og því skráð sem slík hjá Vinnumálastofnun. Þar sem kærandi hafi ekki skilað inn tekjuáætlun til Vinnumálastofnunar hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 13. maí til 27. september 2013 og vegna október 2013. Enn fremur hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu október 2012 til október 2013 vegna tekna sem hann hafi fengið frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna á sama tíma. Fjárhæð ofgreiddra atvinnuleysisbóta sem kærandi fékk voru 439.782 kr. sem kæranda beri að endurgreiða í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir liggi að kærandi hafi greitt 318.243 kr. með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laganna.

Meginregluna um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé að finna í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gert sé ráð fyrir því að hvers konar tekjur eða greiðslur úr öðrum tryggingakerfum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Sé tekið fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta.

Skerðing vegna tekna sé síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirra fjárhæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda.

Í máli þessu hafi verið staðið að skerðingu með framangreindum hætti. Meðal gagna í máli kæranda sé yfirlit frá kæranda til B og Greiðslustofu lífeyrissjóðanna ásamt tveimur greiðsluseðlum sem birtir voru kæranda á „mínum síðum“ hans á vef Vinnumálastofnunar. Verði ekki séð að ranglega hafi verið staðið að greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda á tímabilinu og beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á meðan hann þiggi áfram greiðslu atvinnuleysisbóta.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 7. mars 2014. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur er kærandi þáði annars vegar á tímabilinu 13. maí til 27. september 2013 og vegna október 2013 vegna vinnu hjá B og hins vegar á tímabilinu október 2012 til október 2013 vegna tekna frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna. Kærandi taldi sig hafa tilkynnt tímanlega um tilfallandi 60% vinnu og kveður Greiðslustofu Vinnumálastofnunar hafa fullvissað sig um að hann fengi ekki bakreikning. Vinnumálastofnun kveður kæranda hafa skilað inn greiðsluáætlun aðeins vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og Sameinaða lífeyrissjóðnum en ekki frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna.

Í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skerðingu atvinnuleysisbóta og er 1. mgr. svohljóðandi:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Samkvæmt tilvitnaðri 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru atvinnuleysisbætur einstaklinga í hlutastörfum skertar þannig að fyrst er starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Skerðing vegna tekna er síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki er dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann á rétt á. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem nær umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndar skerðingu atvinnuleitanda. Samkvæmt framanskráðu nam heildarskuld kæranda við Vinnumálastofnun 11. febrúar 2014 alls 121.539 kr., en að auki liggur fyrir að kærandi hefur þegar greitt 318.243 kr. með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laganna. Á greiðsluseðlum frá Vinnumálastofnun, dags. 8. nóvember og 2. desember 2013, sem eru meðal gagna málsins, má sjá hvernig skerðing kæranda er reiknuð út samkvæmt framangreindri lagagrein. Kæranda ber, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, að endurgreiða Vinnumálastofnun 121.539 kr. og er hin kærða skerðing staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um að skerða atvinnuleysisbætur hans og krefja hann um endurgreiðslu eftirstöðva ofgreiddra atvinnuleysisbóta alls að fjárhæð 121.539 kr. er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta