Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 86/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. janúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 86/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. júlí 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnuninni væri kunnugt að hann hefði verið erlendis í júlímánuði 2009. Að lokinni rannsókn málsins hjá Vinnumálastofnun lá fyrir að kærandi hafði verið erlendis 2.– 30. júlí 2009 og var sá tími dreginn frá því tímabili sem kærandi hefði annars fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 6. ágúst 2009, og krefst þess að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir umrætt tímabil. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi farið til útlanda í atvinnuleit vegna slæmrar stöðu á vinnumarkaði hér á landi. Áður en hann fór hafi hann haft samband við Vinnumálastofnun og hafi honum verið tjáð að hann mætti vera erlendis í atvinnuleit í þrjá mánuði. Honum hafi ekki verið tjáð í þessu samtali að hann þyrfti að fylla út nokkur eyðublöð. Hann hafi farið til útlanda í góðri trú um að allt væri með felldu. Í kringum 20. júlí 2009 hafi hann skráð sig erlendis í gegnum netið. Hann kveðst hafa starfað sem tölvuráðgjafi og honum sé vel kunnugt um að hægt sé að sjá að hann hafi verið erlendis út frá IP-tölunni. Hann hafi ekki verið að fela neitt því hann hafi ávallt verið 100% heiðarlegur í öllum sínum gjörðum og í góðri trú um að allt væri í lagi því að hann hafi ekki ætlað sér að vera lengur en þrjár vikur í atvinnuleit erlendis en ekki í þrjá mánuði.

Nú sé honum tjáð að hann muni ekki fá bætur þann tíma sem hann hafi verið erlendis. Hann segir að sér hafi verið sagt annað í samtalinu sem hann hafi átt við starfsmann Vinnumálastofnunar. Einnig hafi honum verið tjáð að slík mál hafi komið upp, viðkomandi hafi „skroppið“ til útlanda og hafi Vinnumálastofnun horft framhjá því. Honum hafi enn fremur verið tjáð að ef til vill hafi manneskja í sumarafleysingum hjá Vinnumálastofnun rætt við hann.

Kærandi vonar að kæra hans verði skoðuð út frá mannlegum sjónarmiðum og honum verði ekki refsað fyrir heiðarleika sinn og tilraunir til að bæta sína stöðu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. október 2009, kemur fram að eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu að einstaklingur sem þiggi atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Þessi ákvæði er lúti að virkri atvinnuleit hafi verið túlkuð svo að þeim sem þiggi atvinnuleysisbætur sé ekki heimilt að dveljast erlendis enda komi það í veg fyrir að þeir fullnægi nefndum skilyrðum laganna. Þessi túlkun sé í samræmi við áralanga framkvæmd stofnunarinnar á þessu sviði. Fram kemur að Vinnumálastofnun geri miklar kröfur um að umsækjendur um atvinnuleysisbætur séu í virkri atvinnuleit. Þrátt fyrir aukna tæknivæðingu verði því ekki haldið fram að atvinnuleit geti farið fram á rafrænan hátt.

Vinnumálastofnun hafnar því að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar um atvinnuleit erlendis og kveður ekkert í gögnum málsins renna stoðum undir þá fullyrðingu kæranda. Vinnumálastofnun tekur einnig fram að þeir einstaklingar sem sæki um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni fái afhentan kynningarbækling þegar þeir undirrita umsókn sína. Þar sé að finna almennar upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra sem þiggi atvinnuleysisbætur. Þá séu umsækjendur um atvinnuleysisbætur boðaðir á kynningarfund hjá Vinnumálastofnun, þar sem meðal annars sé farið ítarlega yfir þær reglur sem lúta að atvinnuleit erlendis og svokölluð E-303 vottorð sem séu nauðsynleg þeim einstaklingum sem hyggja á atvinnuleit erlendis. Þær upplýsingar séu til þess fallnar að koma í veg fyrir að skjólstæðingar stofnunarinnar glati rétti sínum vegna misskilnings eða vankunnáttu. Kærandi hafi mætt á kynningarfund stofnunarinnar þann 11. desember 2008. Vinnumálastofnun hafnar þeirri fullyrðingu kæranda að honum hafi ekki verið tjáð að sækja þyrfti um heimild til atvinnuleitar erlendis og telur sig hafa veitt honum nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1003.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. október 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. nóvember 2009. Kærandi nýtti sér það ekki.

2.

Niðurstaða

Lög um atvinnuleysistryggingar hafa það meginmarkmið að tryggja launamönnum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þannig er það eitt grundvallarskilyrði þess að launamenn njóta greiðslu bóta úr sjóðnum að þeir séu búsettir hér á landi, sbr. c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Svo atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit þarf hann að vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. d-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Frá þessu skilyrði er hægt að veita undanþágu að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar meðal annars um atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Jafnframt verður að líta til þess að skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sá í virkri atvinnuleit sem er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og ber atvinnuleitanda án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt þessum málslið, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Það er tekið fram í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. laga nr. 97/2009, að sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar um slíkar bætur skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skal tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og skal tilkynningin gerð með sannanlegum hætti og taka skal fram ástæður þess að atvinnuleit var hætt, sbr. 10. gr. laganna.

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var óumdeilt að kærandi myndi dvelja erlendis á tímabilinu 2.–30. júlí 2009. Á því tímabili var ómögulegt fyrir kæranda að geta talist í virkri atvinnuleit hér á landi. Sér til afsökunar hefur kærandi vísað til þess að sér hafi beinlínis verið tjáð af starfsmanni Vinnumálastofnunar að hann mætti dvelja erlendis í allt að þrjá mánuði við atvinnuleit án þess að bætur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta myndu skerðast. Þessi fullyrðing í kæru kæranda stangast á við upplýsingar í greinargerð Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi sótt kynningarfund um réttindi hans til greiðslu atvinnuleysisbóta hjá stofnuninni og á slíkum fundi séu nýir bótaþegar upplýstir um réttindi og skyldur bótaþega, ætli þeir að dveljast erlendis um einhvern tíma. Þá fer framangreind fullyrðing kæranda enn fremur í bága við þær upplýsingar Vinnumálastofnunar að hver og einn bótaþegi fái kynningarbækling við upphaf greiðslutímabils úr atvinnuleysistryggingasjóði. Þessu hefur ekki verið mótmælt af hálfu kæranda og ekkert liggur fyrir í málinu sem bendir til þess að kærandi hafi ekki fengið slíkan kynningarbækling í upphafi greiðslna hans hjá Vinnumálastofnun. Ekki er fallist á þau rök kæranda að sök þess að hann fór erlendis án þess að afla sér nauðsynlegrar staðfestingu Vinnumálastofnunar á veitingu leyfis þess efnis, geti verið hjá starfsmanni Vinnumálastofnunar. Því er lagt til grundvallar að á tímabilinu 2.–30. júlí 2009 hafi kærandi ekki getað verið í virkri atvinnuleit og hafi því ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu.

Á grundvelli framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til A frá 2.–30. júlí 2009 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta