Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 82/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. janúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 82/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. júlí 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann sama dag fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 19. maí 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 31. júlí 2009.

Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 25. maí 2009, starfaði kærandi hjá X frá 1. júlí 2008 til 31. desember 2008 í 100% starfi. Henni var sagt upp vegna samdráttar. Samkvæmt öðru vottorði vinnuveitanda, dags. 20. maí 2009, starfaði kærandi hjá Y ehf. frá 1. janúar 2009 til 15. maí 2009 í 100% starfi og var henni einnig sagt upp þar vegna samdráttar. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 28. maí 2009, starfaði kærandi hjá Z frá 15. apríl 2008 til 31. maí 2009 í 20% starfi. Hún sagði starfinu upp sjálf.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda í bréfi, dags. 18. júní 2009, um frestun afgreiðslu umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur og óskaði eftir skriflegri afstöðu hennar á ástæðum uppsagnarinnar. Í tölvupósti kæranda til Greiðslustofu frá 2. júlí 2009 kemur fram að hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur fyrir um mánuði síðan. Hún hafi fengið sent bréf í pósti til baka þess efnis að um eigin uppsögn væri að ræða á einum vinnustað af þremur. Hún hafi verið í 20% vinnu á V þegar hún sagði þar upp. Á hinum tveimur vinnustöðunum hafi henni verið sagt upp vegna samdráttar. Kærandi kveðst engan veginn geta lifað á 20% vinnu á meðan hún væri að leita að annarri vinnu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. október 2009, er vísað í 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að í athugasemdum við greinina í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að erfitt gæti verið að meta hvað falli undir gildar ástæður í skilningi greinarinnar. Þar sem erfitt sé að takmarka slíkar ástæður í lögum og reglugerðum hafi verið lagt til að þessi lagaregla yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hvers máls. Í máli því er fyrir liggi segi kærandi upp vinnu sinni vegna þess að henni hafði verið sagt upp hjá öðrum vinnuveitendum. Telji kærandi sig engan veginn geta „séð það til enda að geta lifað á 20% vinnu“ þann tíma sem hún leitar atvinnu. Vinnumálastofnun segir að skv. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist launamaður hlutfallslega tryggður samkvæmt lögunum. Það sé ljóst að kæranda hafi verið mögulegt að halda starfi sínum og sækja um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna. Það sé mat Vinnumálastofnunar að ástæður starfsloka kæranda flokkist ekki sem gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. október 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 21. október 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Launamaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar telst sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi var á tímabilinu 1. júlí 2008 til 15. maí 2009 í 120% starfshlutfalli og þegar henni var sagt upp hjá Y ehf. vegna samdráttar var hún komin niður í 20% starfshlutfall. Við uppsögnina var hún ekki lengur launamaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og gat við þetta tækifæri sótt um fullar atvinnuleysisbætur eða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur. Hefði hún sótt um fullar atvinnuleysisbætur gætu þær hafa verið skertar í samræmi við 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hefði hún sótt um hlutfallslegar atvinnuleysisbætur hefði hún fengið þær skv. 17. gr. laganna. Kærandi kaus hins vegar að segja hlutastarfi sínu lausu eftir að hafa misst starf sitt hjá Y ehf. og að svo búnu sótti hún um atvinnuleysisbætur.

Þær skýringar sem kærandi hefur fært fram fyrir uppsögn sinni á hlutastarfinu geta ekki talist gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Óhjákvæmilegt var því að fresta bótagreiðslum um 40 daga sem nam því starfshlutfalli sem kærandi gegndi, þ.e. um 20%. Meiri vafi leikur hins vegar á hvort uppsögn á 20% starfi við þessar aðstæður eigi að leiða til þess að 40 daga biðtíminn eigi einnig að líða vegna hinna 80% sem hún ella hefði átt rétt til. Við úrlausn þessa atriðis verður að líta til þeirrar reglu að launamaður á ekki rétt á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum hafi hann sjálfur ákveðið að draga úr starfshlutfalli sínu, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þetta ákvæði á við um launamenn en kærandi var ekki slíkur í skilningi laganna þegar hún sagði sjálf upp störfum á Z. Því verður að gagnálykta frá téðu ákvæði á þá lund að kærandi hafi með réttu átt hlutfallslegan bótarétt þótt hún hafi sagt starfi sínu þar lausu. Komi ekkert annað til verður niðurstaðan á þann veg að kærandi eigi 80% bótarétt í 40 daga frá og með þeim degi sem hún sótti um atvinnuleysisbætur.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi verið erlendis á tímabilinu 6.–27. júní 2009. Vinnumálastofnun hefur fyrir úrskurðarnefndinni ekki byggt á því að takmarka eigi bótagreiðslur til kæranda af þessum sökum. Kærandi hefur ekki tjáð sig sérstaklega um þetta atriði. Svo afgreiðsla máls þessa dragist ekki enn frekar úr hömlu verður niðurstaðan sú að kærandi eigi 80% bótarétt frá og með umsóknardegi, þ.e. frá 19. maí 2009.

 

Úrskurðarorð

Sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 22. júní 2009 að fella niður bótarétt A í 40 daga er felldur úr gildi. A á 80% bótarétt frá og með 19. maí 2009.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta