Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 188/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 188/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. nóvember 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á fundi sínum 21. nóvember 2012 á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur þar sem hann hafi ekki starfað að minnsta kosti í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að ákvörðun um viðurlög skv. 60. gr. sömu laga var tekin 10. janúar 2011. Kærandi fer fram á að ákvörðunin verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 23. júní 2010.

Þann 3. september 2010 skrifaði kærandi undir bókunarblað á námskeiðið ljósmyndun hjá Miðstöð símenntunar í Hafnarfirði – Námsflokkum Hafnarfjarðar. Á blaðinu koma meðal annars fram upplýsingar um tímasetningar námskeiðsins og að mikilvægt sé að uppfylltar séu kröfur um mætingarskyldu á námskeiðið, annars geti það varðað viðurlögum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Einnig er tekið fram að forföll skuli tilkynna með góðum fyrirvara. Samkvæmt upplýsingum frá námskeiðshaldara, dags. 25. október 2010, mætti kærandi illa á námskeiðið. Í kjölfarið var haft samband við kæranda þar sem óskað var eftir skýringum frá honum vegna lélegrar mætingar. Skýringarbréf kæranda barst með tölvupósti þann 8. nóvember 2010 þar sem segir meðal annars: „[...] og svo ofan á þetta allt saman var ég í smávægis svörtu hlutastarfi, sem ég var smeykur á að segja frá því ég hef heyrt um fólk sem þarf að greiða bætur til baka útaf einhverju svona [...].“


 

Á grundvelli þessara upplýsinga í skýringarbréfi kæranda var honum sent bréf, dags. 19. nóvember 2010, þar sem honum var tilkynnt um frestun á afgreiðslu máls síns og óskað eftir frekari upplýsingum um ótilkynnt hlutastarf hans. Var kærandi jafnframt upplýstur í bréfinu um að brot hans á upplýsingaskyldu sinni við Vinnumálastofnun gæti varðað viðurlögum skv. XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar.

Mál kæranda var svo tekið fyrir á fundi hjá Vinnumálastofnun þann 17. desember 2010 og aftur fjallað um það á fundi 10. janúar 2011. Þar sem engar skýringar bárust frá kæranda varðandi hina „svörtu atvinnu“ var það mat stofnunarinnar að kærandi hefði aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti, enda hefði hann starfað á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fengi greiddar atvinnuleysisbætur. Því var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 28. janúar 2011, að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi sendi Vinnumálastofnun tölvupóst 3. janúar 2011 þar sem hann tók fram að hann gæti ekki aflað vinnuveitendavottorðs vegna októbermánaðar en óskaði eftir því að nóvember og desember yrðu afgreiddir. Vinnumálastofnun mat umrætt bréf kæranda sem svo að um endurupptökubeiðni á máli hans væri að ræða og var málið tekið fyrir á fundi þann 19. janúar 2011 og með bréfi, dags. 26. janúar 2011, var kæranda tilkynnt að endurupptökubeiðni hans væri hafnað. Í því bréfi var kæranda jafnframt leiðbeint um rétt sinn til skriflegs rökstuðnings fyrir ákvörðun stofnunarinnar sem og um kæruheimild hans til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar rann út þremur mánuðum frá því að kæranda barst bréf stofnunarinnar, eða 26. apríl 2011.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 19. október 2012. Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vinnuveitanda frá B ehf. ásamt yfirlýsingu frá fyrirtækinu um að kærandi hefði starfað hjá því sumarið 2012. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda hafði kærandi starfað hjá fyrirtækinu á tímabilinu 1. júní til 1. september árin 2010, 2011 og 2012. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að svipta kæranda rétti til atvinnuleysisbóta þar til hann hefði starfað í að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði var tekin á fundi 10. janúar 2011 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 25. janúar 2011. Töldu því aðeins þeir mánuðir sem hann starfaði á innlendum vinnumarkaði á árunum 2011 og 2012 inn í þá tólf mánuði sem hann þurfti að starfa til að öðlast að nýju rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Þar sem kærandi hafði einungis starfað í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði uppfyllti hann ekki skilyrði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hafnaði því Vinnumálastofnun umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta á fundi stofnunarinnar 21. nóvember 2012. Var kæranda tilkynnt ákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 23. nóvember 2012. Í því bréfi var kæranda jafnframt leiðbeint um heimild sína til að krefjast endurupptöku málsins, rétti sínum til skriflegs rökstuðnings fyrir ákvörðun stofnunarinnar sem og um kæruheimild hans til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Í kæru, dags. 7. desember 2012, bendir kærandi á að brotið sem um ræði hafi átt sér stað árið 2010 og orðið það langt síðan og lítilfenglegt að hann óski eftir að brotið verið lagt niður. Kærandi telur að hann ætti að sínu mati að fá einhvern hluta af bótarétti.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. janúar 2013, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á 60. gr. laganna og að með lögum nr. 134/2009 hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt.

Jafnframt segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiða til þess að atvinnuleitandi telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Segi enn fremur í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins að breyting á 60. gr. laganna sé „mikilvægur liður í því að sporna við „svartri atvinnustarfsemi“ þar sem atvinnuleitendur sem fá greiddar atvinnuleysisbætur verða að tilkynna fyrir fram um hina tilfallandi vinnu eða samdægurs í nánar tilgreindum undantekningartilvikum“.


 

Vinnumálastofnun vísar til ákvæða 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar og bendir á að í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 19. október 2012. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda sjálfum, í skýringarbréfi dags. 8. nóvember 2010, hafi hann stundað „svarta vinnu“ samhliða því sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hafi kærandi viðurkennt að hann hafi brotið gegn lögum um atvinnuleysistryggingar, enda hafi sagt í kæru hans: „Brotið sem um ræðir átti sér stað 2010 og orðið það langt síðan og það lítiðfenglegt að ég óska að brotið verði lagt niður.“

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum.

Verði ekki séð að skiljanlegar ástæður séu fyrir því að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna stofnuninni um vinnu sína enda ljóst af bréfi hans og kæru að hann hafi stundað „svarta vinnu“ og ekki tilkynnt hana til Vinnumálastofnunar eða annarra opinberra aðila.

Þar sem kærandi hafi verið látinn sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 25. janúar 2011, og þar sem kærandi hafi ekki starfað í að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að sú viðurlagaákvörðun var birt honum, en kærandi hafi einungis starfað í sex mánuði á þeim tíma, sé Vinnumálastofnun óheimilt að samþykkja umsókn hans þar til það skilyrði er uppfyllt.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. janúar 2013. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var honum tilkynnt að afgreiðsla málsins myndi tefjast vegna gríðarlegs málafjölda hjá nefndinni.


 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

Eins og rakið hefur verið sótti kærandi um atvinnuleysisbætur 23. júní 2010. Í skýringarbréfi kæranda, dags. 8. nóvember 2010, vegna lélegrar mætingar á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar, greindi kærandi frá því að hann hefði unnið „svarta vinnu“. Mat stofnunarinnar var að kærandi hefði aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti, enda hefði hann starfað á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar bæturnar, og fékk kærandi bréf þess efnis, dags. 28. janúar 2011, að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laganna.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 19. október 2012. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda hafði kærandi starfað hjá B ehf. 1. júní‒1. september árin 2010, 2011 og 2012. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin 10. janúar 2011 um að svipta kæranda rétti til atvinnuleysisbóta þar til hann hefði starfað í að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og þar af leiðandi töldu aðeins þeir mánuðir sem hann starfaði á innlendum vinnumarkaði á árunum 2011 og 2012 inn í þá tólf mánuði sem hann þurfti að starfa til að öðlast að nýju rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Þar sem kærandi hafði einungis starfað í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði uppfyllti hann ekki skilyrði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þess vegna hafnaði Vinnumálastofnun réttilega umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta á fundi stofnunarinnar 21. nóvember 2012. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað að minnsta kosti í samtals tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. nóvember 2012 í máli A, þess efnis að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur þar til hann hefur starfað í að minnsta kosti tólf á innlendum vinnumarkaði frá 17. desember 2010, er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta