Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 13/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. janúar 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 13/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15050009

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 20. maí 2015, kærði [...], f.h. [...], ríkisborgara [...], þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. apríl 2015, að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Af greinargerð kæranda má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt heimild til dvalar á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins kom kærandi hingað til lands í júlí 2011. Þann 30. janúar 2013 sótti hann um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið. Með ákvörðun, dags. 8. febrúar 2013, synjaði Útlendingastofnun kæranda um heimild til þess að dvelja hér á landi á meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til vinnslu. Stofnunin synjaði kæranda um endurupptöku þeirrar ákvörðunar 21. febrúar 2013. Synjunin var kærð til innanríkisráðuneytisins sem lagði fyrir stofnunina að endurupptaka ákvörðun sína með úrskurði, dags. 5. maí 2014. Umsókn kæranda um dvalarleyfi var að lokum synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. apríl 2015.

Með tölvupósti, dags. 20. maí 2015, var framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til kærunefndar útlendingamála. Með tölvupósti, dags. 21. maí 2015, var óskað eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 29. maí 2015. Réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar var frestað með bréfi til kæranda, dags. 28. september 2015. Með bréfi, dags. 1. október 2015, var kæranda veittur 14 daga frestur til að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Með bréfi er barst kærunefnd þann 27. október 2015 óskaði kærandi eftir frekari fresti til framlagningar greinargerðar og var kæranda til viðbótar veittur 14 daga frestur til þess. Með tölvupósti, dags. 1. desember 2015, óskaði kærandi eftir frekari fresti til að leggja fram greinargerð og var honum veittur frekari sjö daga frestur til þess. Þann 8. desember 2015 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggði á því að fylgigögn umsóknar kæranda um dvalarleyfi væru ófullnægjandi. Stofnunin kveðst hafa ítrekað kallað eftir gögnum frá kæranda en þrátt fyrir það hafi þau ekki borist og þar af leiðandi uppfyllti kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga. Ekki væri unnt að leggja heildstætt mat á forsendur umsóknar og gæti stofnunin því ekki metið hvort umsækjandi fullnægði öllum skilyrðum 12. gr. f laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þar sem enn vantaði framfærslugögn, ljósrit úr gildu vegabréfi og sjúkrakostnaðartryggingu. Á þessum grundvelli hafnaði stofnunin umsókn kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda byggir hann kröfu sína um ógildingu ákvörðunar Útlendingastofnunar meðal annars á því að hann eigi barn með sambýliskonu sinni og barnið sé íslenskur ríkisborgari. Hann hafi frá fæðingu barnsins tekið fullan þátt í uppeldi og umönnun barnsins. Því til stuðnings sé yfirlýsing aðstoðarleikskólastjóra á leikskóla barnsins sem er fylgiskjal með greinargerð kæranda. Þá hafi kærandi einnig sinnt eldri börnum barnsmóður sinnar [...]. Kærandi kveður daglegt líf sitt og sambýliskonu sinnar hafa verið erfitt undanfarin ár eftir að sambýliskona [...] og hann geti ekki unnið sökum þess að hann hafi ekki dvalarleyfi. Þau hafi verið sambúð í ríflega fjögur ár og hafi kynnst í október árið 2011, sama ár og kærandi kom hingað til lands.

Kærandi tekur fram að dvöl hans hér á landi sé vissulega ekki í samræmi við 10. gr. laga um útlendinga þar sem hann sótti ekki um dvalarleyfi áður en hann kom til landsins. Ákvæðið heimili hins vegar Útlendingastofnun að víkja frá þessu skilyrði ef ríkar sanngirnisástæður eigi við, sbr. 38. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003, ef umsækjandi er í sambúð með íslenskum ríkisborgara líkt og kærandi sé. Að auki sé kærandi faðir íslensk ríkisborgara og því enn ríkari ástæður til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 30. janúar 2013 um útgáfu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum, og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Samkvæmt 12. gr. f útlendingalaga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr., ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið.

Kæranda var með ákvörðun Útlendingastofnunar synjað um útgáfu dvalarleyfis vegna þess að hann uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi fylgigögn með umsókn. Samkvæmt ákvæðinu skulu með umsókn um dvalarleyfi fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög og reglugerðir kveði á um, svo sem sakavottorð, heilbrigðisvottorð og staðfesting á framfærslu og sjúkratryggingu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er umsókn kæranda hafnað á grundvelli þess að hann hafi ekki skilað til stofnunarinnar staðfestingu á sjúkrakostnaðartryggingu, ljósriti úr vegabréfi og staðfestingu á tryggri framfærslu. Að mati stofnunarinnar sé þar af leiðandi ekki hægt að leggja heildstætt mat á forsendur umsóknar og geti stofnunin ekki metið hvort umsækjandi fullnægi öllum skilyrðum 12. gr. f laga um útlendinga. Að mati kærunefndar geta framangreind fylgigögn með umsókn verið hluti heildarmats á umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 12. gr. f laganna. Framlagning þeirra er ekki afdráttarlaust skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt nefndu ákvæði, m.a. vegna þess að í ákvæðinu er heimild til þess víkja frá þeim skilyrðum 11. gr. laganna sem þessi gögn tengjast.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sem kemur til landsins hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki. Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 skal umsækjandi um dvalarleyfi sanna á sér deili með því að leggja fram vegabréf eða annað viðurkennt kennivottorð sem gefið er út af þar til bærum yfirvöldum.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur lagt fram útrunnið ferðaskilríki fyrir útlending útgefið af [...] yfirvöldum og nafnskírteini [...], útgefnu af [...] yfirvöldum, með gildistíma til 29. september 2018, en skírteinið ber með sér að það sé ekki ferðaskilríki. Í 4. mgr. 39. gr. reglugerðar um útlendinga er ekki gert að skilyrði að kennivottorð umsækjanda dvalarleyfis sé viðurkennt sem ferðaskilríki. Þá fjallar 1. mgr. 5. gr. laga um útlendinga aðeins um komu til landsins, en varðar ekki beint umsókn útlendings um dvalarleyfi. Að mati kærunefndar telst nafnskírteini kæranda því gilt kennivottorð. Að því virtu er það mat kærunefndar að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og beina því til stofnunarinnar að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta