Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 25/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 25/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16090053

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. október 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...](hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. september 2016, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 12. gr. f sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. apríl 2016 hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 29. júlí 2016 og í framhaldsviðtal 5. september 2016, í bæði skiptin ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. september 2016, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 3. október 2016. Kæra frestaði sjálfkrafa réttaráhrifum. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 17. október 2016 ásamt afriti af samskiptum hans á samskiptamiðlinum Facebook. Þann 21. febrúar óskaði kærunefnd eftir því að fá fyrrgreind samskipti með dagsetningum. Þann 1. og 2. mars bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 2. mars sl. og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Viðstaddur var talsmaður kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Hjá Útlendingastofnun byggði kærandi kröfu sína um hæli hér á landi á því að hann geti ekki verið í heimaríki sínu vegna þess að aðilar á vegum [...] væru á eftir sér. Hann verði ofsóttur vegna trúarskoðana sinna og vegna þess að hann berjist fyrir [...].

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Þá verði kæranda ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. j sömu laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 45. gr. sömu laga stæðu endursendingu til heimalands ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 18. gr. þágildandi laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 32. gr. þágildandi útlendingalaga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í [...]. Hann tilheyri [...] og sé [...]. Kærandi telji sig tilheyra minnihlutahópi vegna trúar sinnar þar sem [...] séu upp til hópa [...].

Faðir hans, sem er [...], hafi gengið til liðs við [...] árið 2009 og reynt að þvinga fjölskylduna til að gera slíkt hið sama. Fjölskyldan hafi búið í [...] á þessum tíma en móðir kæranda, tvíburasystir og bróðir hans hafi flúið til [...]. Faðir kæranda hafi birst einn daginn árið 2010 á heimili þeirra [...] í þeim tilgangi að flytja þau til baka. Kærandi hafi verið við vinnu sem öryggisvörður þegar þetta hafi átt sér stað. Faðir kæranda hafi myrt móður hans og bróður en hann hafi fengið símtal í kjölfarið frá [...] þar sem honum hafi verið hótað að þeir kæmu á vinnustað hans og tækju hann og aðra sem þar væru af lífi. Hann hafi þá flúið til [...], [...]og þaðan til Möltu. Kærandi hafi talið sig vera óhultan á Möltu og hafi látið vini og vandamenn vita af sér, opnað aftur síma og samfélagsmiðla. Eftir fjögurra ára dvöl á Möltu hafi honum byrjað að berast hótanir frá [...] á ný. [...] hafi sagst vita um staðsetningu hans og myndu alltaf geta haft upp á honum. Honum væri hollast að ganga til liðs við [...] eða [...] myndu drepa hann. Þá hafi hann tekið ákvörðun um að flýja Möltu þar sem hann gæti ekki leitað til lögreglu þar í landi af því hann hafði ekki leyfi til dvalar. Hann yrði að koma sér eins langt og hann mögulega gæti þar sem minni líkur væru á að hægt væri að hafa upp á honum.

Aðspurður kveðist kærandi ekki treysta [...] stjórnvöldum til þess að vernda sig fyrir þeim sem ofsækja hann þar sem afar erfitt sé að gera greinarmun á stjórnvöldum og [...] vegna sterkrar trúarlegrar tengingar þar á milli. [...] séu í minnihluta í [...] og séu í mjög lakri stöðu gagnvart stjórnvöldum þar í landi. Þeir eigi von á að vera ofsóttir, pyndaðir og drepnir, [...]. Það skipti ekki máli hvar hann eða trúbræður hans setjist að í [...], þeir séu alltaf í hættu. Þá þurfi hann alltaf að fara í gegnum alþjóðaflugvöllinn í [...], verði hann sendur til baka, en hann sé undir stjórn [...].

Þá kveðist kærandi einnig vera virkur í [...] en hann hafi sótt fundi og fyrirlestra. Það sé því afar hættulegt fyrir hann að vera sendur til baka til heimalands, þar sem skoðanir hans séu vel þekktar og þar með uppruni hans og trú. Kærandi kveðist vera [...] og telji það skyldu sína að berjast [...] . Vegna þessa sé hann í hættu þar sem [...].

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Kærandi vísi í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um túlkun á orðasambandinu „ástæðuríkur ótti við að verða ofsóttur“. Kærandi telji að hann muni verða fyrir ofsóknum og að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur þar sem hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi sem [...] og [...], sbr. 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga. Hann telji sig einnig uppfylla skilyrði 1. mgr. 44. gr. um ofsóknir vegna trúarskoðana. Kærandi vísar í skýrslu [...] varðandi skert trúfrelsi í [...]. Þá vísar kærandi einnig í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um ástand mannréttindamála í [...] og tekur fram að fjölmargar heimildir hermi að ástandið í [...] sé mjög óstöðugt og að illa gangi að stemma stigu við þeirri óöld sem þar geisi vegna [...].

Af hálfu kæranda er því haldið fram að stjórnvöld í heimalandi hans geti og vilji ekki veita kæranda vernd vegna trúarskoðana sinna og vegna þess að [...]. Hann vísar í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins þar sem fram kemur að lögreglan í [...] sé almennt álitin óskilvirk og geti ekki haldið uppi lögum og reglum í landinu. Heimildir bendi til þess að spilling og refsileysi séu landlægt vandamál sem veikt réttar- og löggæslukerfi landsins sé á engan hátt í stakk búið til að takast á við.

Í greinargerð kæranda kemur fram gagnrýni á rökstuðning ákvörðunar Útlendingastofnunar. Kærandi telji staðhæfingar Útlendingastofnunar ekki nægjanlega rannsakaðar eða að þær eigi ekki við næg rök að styðjast. Kærandi bendir á að hvergi sé að finna umfjöllun í ákvörðun Útlendingastofnunar um þá tvöföldu mismununarbreytu að vera [...] sem ofsóttur sé af [...] og að treysta sér ekki til að leita til spilltra stjórnvalda í [...] þar sem ríkistrúin er [...]. Fjallað sé um þetta algjörlega aðskilið eins og samtvinnun þessara breyta geti ekki haft önnur og/eða verri áhrif en ef þetta tvennt sé metið óskylt. Þá gagnrýnir kærandi umfjöllun Útlendingastofnunar um lögregluyfirvöld í [...]. Kærandi telji að afstaða stjórnvalda til spillingar innan lögreglunnar eigi ekki að skipta máli heldur raunverulegir möguleikar einstaklinga til að geta fengið vernd og aðstoð þegar eitthvað bjáti á. Alþjóðlegar skýrslur sýni að þrátt fyrir að einhver skref hafi verið tekin til að rannsaka og ákæra opinbera starfsmenn hafi alls ekki tekist til eins og lagt hafi verið upp með og misbrestir og réttarspjöll í innviðum stjórnkerfisins séu enn alvarlegt vandamál.

Kærandi eigi þar að auki erfitt með að sjá hvernig Útlendingastofnun geti metið með vissu hversu líklegt sé að staðið verði við þær hótanir sem kærandi hafi orðið fyrir um langt skeið þar sem ekki sé um handahófskennt ofbeldi að ræða heldur séu aðilarnir staðráðnir í að leita kæranda uppi. Allar líkur séu á að kærandi muni þurfa að lifa í felum, í von og ótta um að hann verði ekki leitaður uppi, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns. Telja verði óttan ástæðuríkan þar sem kærandi hafi misst móður sína og yngri bróður í [...]. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun þannig brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga.

Varakrafa kæranda byggir á því að kæranda skuli veitt viðbótarvernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Kærandi vísar til tildraga lagaákvæðisins, lögskýringargagna og röksemda að baki ákvæðinu. Þá er í greinargerð kæranda að finna umfjöllun um tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2011/95/EB. Gerð er grein fyrir hugtakinu alvarlegur skaði sem og þeim viðmiðum sem tilskipunin gerir ráð fyrir að höfð séu til hliðsjónar við mat á þörf einstaklings fyrir alþjóðlegri vernd. Kærandi telji að með því að senda hann til heimaríkis sé brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Þrautavarakrafa kæranda byggir á því að kærandi eigi rétt á dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga, þar sem í lögskýringargögnum að baki ákvæðinu sé mælt fyrir um að almennar aðstæður í heimaríki geti leitt til réttar samkvæmt ákvæðinu. Í athugasemdum með ákvæðinu sé einnig fjallað um íþyngjandi félagslegar aðstæður, t.d. viðvarandi mannréttindabrot eða þá aðstöðu að stjórnvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi telji að aðstæður hans séu með þeim hætti að veita beri honum dvalarleyfi af mannúðarástæðum þar sem stjórnvöld í [...] séu ekki í stakk búin til að veita honum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum, auk þess sem líkur séu á að stjórnvöld muni sjálf beita hann ofbeldi eða mismunun.

Að lokum byggir kærandi á því að hann telji innri flutning ekki raunhæfan. Kærandi telji [...] í heimalandi sínu ávallt vera í hættu. Hann telji að faðir sinn muni svífast einskis til að hafa uppi á honum og fá hann í sitt lið, hann muni ekki veigra sér við að fara á milli landshluta. Kærandi vísar jafnframt í almenna umfjöllun um innri flutning í [...] í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi og [...]. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæða foreldra með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

· [...]

[...].

Í ofangreindum gögnum kemur fram að íbúar landsins tilheyri meira en [...]. Trúfrelsi sé tryggt í stjórnarskrá landsins og sé það almennt virt þótt dæmi séu um [...] verði fyrir mismunun og ofbeldi á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta. Ríkjandi trúarbrögð séu [...].

Þá kemur fram að enn stafi ógn af [...]. [...] beri ábyrgð á alvarlegustu mannréttindabrotunum sem framin hafi verið í [...] á síðasta ári og átökin við þau hafi leitt til þess að [...] manna séu á flótta innanlands. Samkvæmt framangreindum skýrslum sé geta [...] til að hafa uppi á einstaklingum sem flytji til annarra svæða eða borga innan [...] í raun takmörkuð. Þeir einstaklingar sem helst séu leitaðir uppi af [...] séu tiltölulega hátt settir í samfélaginu, líkt og opinberir starfsmenn eða trúarleiðtogar. Að öðru leyti sé starfsemi [...] staðbundin [...].

Pyndingar, handahófskennd manndráp og frelsissviptingar eigi sér stað af hálfu bæði [...] og öryggissveita stjórnvalda. Öryggissveitir og lögregla starfi að mestu í skjóli refsileysis í landinu og stjórnvöld rannsaki sjaldan brot af hálfu þessara aðila. Þá séu ýmsar takmarkanir á öðrum grundvallarmannréttindum borgaranna s.s. tjáningarfrelsinu, aðgangi að réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum og ofbeldi gegn konum og börnum sé útbreitt.

Um stöðu [...] kemur fram að þann [...] . Blóðugt borgarastríð hafi brotist út sem hafi lokið árið [...]. Um ein milljón manns hafi látið lífið á þessum árum í bardögum og úr hungursneið.

Samtökin [...] hafi verið stofnuð árið [...]. Stofnandi [...] sé [...] en hann hafi verið handtekinn [...]. Við handtöku hans hafi brotist út mótmæli sem hafi verið endurtekin með nokkuð reglulegu millibili allt til dagsins í dag. Áður en samtökin [...] hafi verið stofnuð hafi aðalbaráttuaflið [...] verið samtökin [...]. Samkvæmt framangreindum skýrslum hafi ósætti um stjórnunarhætti samtakanna og leiðtogann leitt til þess að mynduð voru ný samtök, nokkurs konar klofningsframboð, kölluð [...]. [...] séu enn starfandi samtök í dag þó í smærri mynd en áður. Samkvæmt ofangreindum skýrslum hafi [...] , sama hvaða samtökum þeir tilheyri, verið handteknir undanfarin tvö ár og um 150 stuðningsmenn hafi verið drepnir síðan í ágúst 2015 og hundruð manna hafi verið særð af öryggissveitum landsins í friðsamlegum mótmælum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi kveður [...] vera á eftir sér auk þess sem hann sé [...] og berjist fyrir [...].

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga geta ofsóknir m.a. falist í:

a. andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi,

b. löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla sem fela í sér mismunun að efni eða vegna þess hvernig þær eru framkvæmdar,

c. saksókn eða refsingu sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli,

d. synjun um notkun réttarúrræða sem leiðir til óhóflegrar og mismunandi refsingar,

e. saksókn eða refsingu fyrir að neita að gegna herþjónustu í átökum þar sem þátttaka í slíkri herþjónustu mundi fela í sér glæpi eða athafnir skv. b-lið 2. mgr. 40. gr.

Í 3. mgr. 38. gr. eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar en þar segir:

a. kynþáttur vísar einkum til hópa sem deila húðlit eða öðrum sameiginlegum líffræðilegum einkennum og þjóðfélagshópa af tilteknum uppruna og ber að túlka í víðri merkingu,

b. trúarbrögð vísa einkum til trúarskoðana og annarra lífsskoðana, þ.m.t. guðleysis, og tjáningar þeirra, þátttöku í hvers konar trúarsamkomum, opinberum eða ekki, eða ákvörðunar um að taka ekki þátt í þeim, aðgerða sem byggjast á trúarskoðunum og frelsis til að skipta um trú,

c. þjóðerni tekur ekki aðeins til ríkisborgararéttar eða ríkisfangsleysis heldur geta fallið þar undir þeir sem tilheyra tilteknum kynþætti eða tilteknum hópi fólks sem talar sama tungumál eða hefur sameiginlega menningarlega sjálfsmynd, sameiginlegan uppruna, landfræðilega eða pólitískt, eða hópi sem er skilgreindur út frá tengslum við hóp fólks á landsvæði annars ríkis,

d. þjóðfélagshópur vísar einkum til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hefur áþekkan uppruna, bakgrunn, venjur og félagslega stöðu eða hefur sameiginleg einkenni eða lífsskoðanir, svo sem kyngervi, sem eru svo mikilvæg fyrir sjálfsmynd þess að ekki ætti að gera kröfu til að þeim verði breytt, eða hóps fólks sem er álitinn frábrugðinn öðrum í samfélaginu; þá skulu fyrrverandi fórnarlömb mansals teljast meðlimir tiltekins þjóðfélagshóps,

e. stjórnmálaskoðanir vísa einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Geneva 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussels 2013).

Kærandi ber fyrir sig að vera ofsóttur af [...]. Máli sínu til stuðnings lagði hann fram afrit af skilaboðum sem hann hefur fengið send á samfélagsmiðlum. Kærandi ber jafnframt fyrir sig að hann muni sæta ofsóknum vegna þess að hann sé [...] og berjist fyrir [...].

Kærandi hefur sagt frá hótunum og ofsóknum sem hann kveðst hafa orðið fyrir af hálfu [...]. Í viðtali hjá kærunefnd lýsti hann því að hótanir um ofsóknir hafi hafist þegar hann var enn búsettur í [...] en eftir að hann lagði á flótta til Evrópu hafi honum í nokkur skipti borist hótanir á samfélagsmiðlum. Kærandi lagði fram afrit af samskiptum við ótilgreindan aðila á samskiptamiðlinum Facebook sem hann segir sýna fram á hótanir af hálfu [...]. Einungis sá hluti skilaboðanna sem virðist hafa borist kæranda eftir að Útlendingastofnun synjaði umsókn hans um alþjóðlega vernd er dagsettur. Þrátt fyrir óskir kærunefndar hefur kærandi ekki lagt fram afrit af eldri skilaboðum sem bera með sér dagsetningu þeirra og verður niðurstaða málsins því ekki byggð á þeim gögnum. Það er mat kærunefndar að frásögn kæranda af samskiptum við [...] og hótanir frá [...] sé ekki trúverðug og að ekki verði byggt á henni. Með vísan til almennra upplýsinga um [...] er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir [...] verði hann sendur aftur til [...].

Kærandi heldur því fram að [...] séu í miklum minnihluta í [...] og í afar lakri stöðu gagnvart stjórnvöldum þar í landi. [...] eigi von á að vera ofsóttir, pyndaðir og drepnir, snúist þeir ekki til [...]. Samkvæmt framangreindum skýrslum eru um það bil [...] trúar og [...] eru í miklum meirihluta í [...] þaðan sem kærandi kveðst vera frá [...]. Í [...] ríkir trúfrelsi og mismunum á grundvelli trúarbragða er ólögleg. Samkvæmt framangreindum skýrslum eru helstu mannréttindabrotin í nafni trúar framin af [...]. Þá telji bæði [...] sig verða fyrir mismunun vegna trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir eru í minnihluta. Af þeim sökum verður ekki lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu ofsóknir í þeim hlutum landsins þar sem [...].

Kærandi byggir á því að hann sé [...] og berjist fyrir [...]. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi er ekki [...] en hann kveðst ekki hafa gert neitt á eigin vegum. Lýsingar hans á þátttöku sinni [...] voru almennar og óljósar. Af framangreindum skýrslum verður ekki séð að [...] séu ofsóttir af [...] stjórnvöldum þrátt fyrir að til átaka hafi komið vegna aðgerða lögreglu til að leysa upp mótmæli í [...], í tilefni [...], með þeim afleiðingum að um 150 manns hafi látist. Það er því mat kærunefndar, að teknu tilliti til trúverðugleikamats, að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga.

Að öllu framangreindu virtu telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimalands síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaland kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaland kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga ekki standi í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37 gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að ákvæði 1. mgr. 74. gr. laganna, samkvæmt hljóðan þess, heimili ekki skýrlega veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Þá kemur fram í sömu málsgrein að ákvæði þessu megi aðeins beita ef útlendingur er staddur hér á landi og að skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar skv. 37. og 39. gr.

Þá telur kærunefnd, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður og eigi því ekki rétt á alþjóðlegri vernd. Þegar upplýsingar um heimaland kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimalandi séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga

Kærandi heldur því fram að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Hafi Útlendingastofnun tekið ákvörðun í máli kæranda á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Einnig er kærandi ósammála umfjöllun Útlendingastofnunar um að kærandi geti leitað til lögregluyfirvalda vegna ótta síns við [...]. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að fjalla um þá tvöföldu mismunarbreytu að vera [...] sem ofsóttur sé af [...] . Kærandi gagnrýnir að fjallað hafi verið um þetta algjörlega aðskilið eins og að samtvinnun þessara breyta geti ekki haft önnur og/eða verri áhrif en ef þetta tvennt er metið óskylt.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal Útlendingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Þá verður efni rökstuðnings ákvarðananna að endurspegla þessi sjónarmið enda segir m.a. í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Við töku ákvörðunar í máli kæranda hjá Útlendingastofnun byggði stofnunin niðurstöðu sína á gögnum sem aflað var við rekstur málsins auk þeirra gagna sem kærandi lagði fram og skýrslna sem vísað var til í greinargerð kæranda. Kærunefndin fær ekki séð að skort hafi á rannsókn máls kæranda hjá Útlendingastofnun og fellst því ekki á það með kæranda að stofnunin hafi brugðist rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum og lögum um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta