Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 30/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. janúar 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 30/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15110006

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 28. október 2015, kærði […], ríkisborgari […], þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2015, að synja kæranda um dvalarleyfi vegna starfs á Íslandi sem krefst sérfræðiþekkingar.

Af greinargerð kæranda má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt heimild til dvalar á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þann 6. október 2014. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2015.

Þann 28. október 2015 var framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til kærunefndar útlendingamála. Þann 3. nóvember 2015 barst kærunefnd afrit af gögnum málsins frá Útlendingastofnun. Þann 4. nóvember 2015, var kæranda veittur 14 daga frestur til að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Þann 6. nóvember 2015 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum. Þann 9. desember 2015 bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggði á því að fylgigögn umsóknar kæranda um dvalarleyfi væru ófullnægjandi. Stofnunin kveðst hafa ítrekað kallað eftir gögnum frá kæranda en þrátt fyrir það hafi þau ekki borist og þar af leiðandi uppfyllti kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefði því ekki sýnt fram á að hún uppfyllti grunnskilyrði dvalarleyfis skv. 11. gr. laga um útlendinga. Þar af leiðandi hafnaði stofnunin umsókn kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi heldur því fram í greinargerð sinni að misskilningur og samskiptaörðugleikar við Útlendingastofnun hafi leitt til þess að umsókn hennar um dvalarleyfi var synjað. Kærandi byggir á því að öllum nauðsynlegum gögnum hafi verið skilað til stofnunarinnar að húsnæðisvottorði undanskildu. Það hafi ekki verið á hennar færi að afla húsnæðisvottorðsins og hafi hún útskýrt það fyrir stofnuninni. Í greinargerð sinni reifar kærandi samskipti sín við Útlendingastofnun. Þá tiltekur kærandi ástæður sínar fyrir því að setjast að á Íslandi. Hún og eiginmaður hennar hafi stofnað einkahlutafélag hér á landi, […].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 6. október 2014 um útgáfu dvalarleyfis vegna starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 12. gr. laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum, og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum.

Kæranda var með ákvörðun Útlendingastofnunar synjað um útgáfu dvalarleyfis vegna þess að hún uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi fylgigögn með umsókn, þ.e. staðfestingu á sjúkrakostnaðartryggingu, umboði, hjúskaparvottorði og húsnæðisvottorði. Kærandi hefði því ekki sýnt fram á að hún uppfyllti skilyrði 12. gr., sbr. 11. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi vegna starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a. að útlendingur fullnægi annars vegar skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna og hins vegar að atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hafi verið veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga skulu fylgja með umsókn um dvalarleyfi öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög og reglugerðir kveði á um, s.s. sakavottorð, heilbrigðisvottorð og staðfesting á framfærslu og sjúkratryggingu. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. laganna er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði 12. gr. – 12. gr. e eða 13. gr. samkvæmt umsókn sé framfærsla hans, sjúkratrygging og húsnæði tryggt, samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. reglugerðar nr. 53/2003, um útlendinga, skal umsækjandi um dvalarleyfi leggja fram þau gögn sem talin eru nauðsynleg við afgreiðslu umsóknarinnar, svo sem sakavottorð, fæðingarvottorð, heilbrigðisvottorð, hjúskaparvottorð, gögn um framfærslu, tryggingaskírteini eða vottorð um sjúkratryggingu, vottorð um húsnæði og gögn um forsjá barns. Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. reglugerðar nr. 53/2003, um útlendinga, skal útlendingur leggja fram þinglýstan leigusamning eða þinglýstan kaupsamning, afsal eða önnur gögn til sönnunar á heimild til búsetu í viðkomandi húsnæði. Þá kveður 1. mgr. 43. gr. reglugerðarinnar á um að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi skuli sýna fram á að hann sé sjúkratryggður með því að leggja fram tryggingarskírteini um sjúkratryggingu að lágmarki 2.000.000 kr. frá vátryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi.

Fyrir liggur í máli þessu að Útlendingastofnun sendi kæranda ítrekað bréf þar sem óskað var eftir fullnægjandi fylgigögnum með umsókn hennar. Þrátt fyrir það bárust stofnuninni ekki áðurnefnd fylgiskjöl. Við meðferð málsins á kærustigi hefur staðfesting á sjúkrakostnaðartryggingu, umboð eða húsnæðisvottorð ekki borist kærunefnd. Í gögnum málsins er aðeins að finna samskipti maka kæranda við fasteignasala og aðra milligöngumenn um kaup eða leigu fasteignar hér á landi. Í greinargerð kæranda er því haldið fram að samskiptaörðugleikar við Útlendingastofnun hafi orðið þess valdandi að umsókn kæranda hafi verið synjað. Að mati kærunefndar fær slíkt ekki stoð í gögnum málsins. Með vísan til alls framangreinds uppfyllir kærandi ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um útlendinga, og verður hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.



Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta