Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 66/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 1. mars 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 66/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15100026

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. október 2015 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. október 2015, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um hæli á Íslandi og endursenda hana til Belgíu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hennar um hæli til efnislegrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 12. júlí 2015. Leit í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 12. júlí sl., skilaði engum niðurstöðum. Þann 17. júlí 2015 var beiðni um viðtöku kæranda beint til yfirvalda í Belgíu, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 29. júlí 2015 barst svar frá belgískum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 13. október 2015 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hún skyldi endursend til Belgíu. Kærandi kærði ákvörðunina þann 23. október sl. auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hennar væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 16. október 2015. Greinargerð kæranda barst kærunefndinni 12. nóvember 2015.

Þann 16. febrúar sl. kom kærandi fyrir kærunefndina og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur. Í viðtalinu lagði kærandi fram viðbótargögn í málinu.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar, dags. 13. október 2015, var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hún skyldi endursend til Belgíu. Lagt var til grundvallar að Belgía virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Belgíu ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

Varðandi þá málsástæðu kæranda að hún óttaðist um öryggi sitt vegna þeirra manna sem hún kvaðst hafa hitt í Belgíu taldi Útlendingastofnun ekkert benda til annars en að lögregla eða önnur yfirvöld gætu aðstoðað hana.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda greinir að kærandi hafi dvalið í þrjá daga í Belgíu og hitt þar fyrir tvo menn sem kærandi kveður hafa hótað sér og viljað að hún greiddi þeim pening. Hún hafi upplifað sig óörugga í Belgíu, m.a. vegna þess að hún sé kona og einsömul á ferð og því teljist hún í viðkvæmri stöðu. Jafnframt greinir að kærandi hafi ekki leitað til stjórnvalda þar sem hún kveðst ekki hafa vitað um hversu stóran hóp manna væri að ræða og að þeir hafi varað hana við að leita til lögreglu.

Af hálfu kæranda er vísað til skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um mannréttindaframkvæmd í Belgíu frá árinu 2014, þar sem fram komi að konur frá Austur-Evrópu og Asíu séu sérstaklega útsettar fyrir kynferðisofbeldi þar í landi. Mannréttindavernd etnískra minnihlutahópa sé vandamál þar í landi og að mismunun gagnvart þeim sé viðvarandi í húsnæðismálum sem og varðandi menntun og atvinnu. Enn fremur komi fram að aðstoð við hælisleitendur við meðferð máls þeirra fyrir belgískum stjórnvöldum sé ekki með besta móti og að fjöldi hælisleitenda séu hrepptir í varðhald eða vistaðir í lokuðum móttökumiðstöðvum þar sem heilsugæsla og lögfræðiaðstoð sé með minnsta móti.

Í þeim viðbótargögnum sem kærandi lagði fram í viðtali hjá kærunefnd þann 16. febrúar sl., greinir að kærandi hafi unnið hér á landi síðan í byrjun febrúar sl. og tekið þátt í kirkjustarfi síðan í desember sl.

Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga og 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

1. Afmörkun úrlausnarefnis

Fyrir liggur í máli þessu að belgísk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa henni til Belgíu. Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd.

2. Lagarammi

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

3. Aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Belgíu

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða Grikkland og Ítalíu getur sú staða komið upp að óheimilt sé að endursenda hælisleitendur til einstakra ríkja vegna ástands í viðkomandi móttökuríki. Aðildarríki mannréttindasáttmálans verða að vera meðvituð um alvarlega galla við meðferð hælisumsókna eða í móttöku hælisleitenda í því aðildarríki sem endursenda skal til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Verður því að skoða aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Belgíu.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir skýrslur og gögn um aðstæður og málsmeðferð í Belgíu, sbr. m.a. Asylum Information Database, Country Report – Belgium (European Council on Refugees and Exiles, desember 2015); Belgium 2014 Human Rights Report (United States Department of State, 25. júní 2015); Amnesty International Report 2014/2015 - Belgium (Amnesty International, 25. febrúar 2015); The organisation of Reception Facilities in Belgium (European Migration Network, ágúst 2013); Freedom in the World 2015 – Belgium (Freedom House, 7. apríl 2015); upplýsingar af vefsíðu ríkisstofnunar sem sér um móttöku hælisleitenda, fedasil.be og Fréttatilkynning mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins um heimsókn hans til Belgíu; Belgium: accelerate reception asylum-seekers and improve education (Council of Europe, september 2015).

Samkvæmt gögnum málsins geta einstaklingar sótt um hæli á flugvellinum við komu til Belgíu eða hjá Útlendingastofnun þar í landi. Stofnun sem fer með hælisumsóknir í landinu (e. the Commissioner General for Refugees and Stateless Persons, CGRS) tekur ákvarðanir í hælismálum á fyrsta stjórnsýslustigi. Ákvarðanir CGRS eru kæranlegar til stjórnsýsludómstóls í útlendingamálum (CALL). Hælisleitendur hafa aðgang að túlki og fá lögfræðilega aðstoð á öllum stigum málsmeðferðarinnar. Hælisleitendur eiga jafnframt kost á að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á hæli hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Á meðan á málsmeðferð í hælismáli stendur eiga hælisleitendur rétt á ókeypis heilbrigðisþjónustu. Hælisleitendur fá jafnframt húsnæði í opnum móttökumiðstöðvum á vegum ríkisstofnunar sem sér um móttöku hælisleitenda (Fedasil). Fedasil tekur mið af aðstæðum hvers hælisleitanda áður en hælisleitandi er sendur í viðeigandi móttökumiðstöð. Gögn málsins benda til þess að móttökumiðstöðvar í hæliskerfi landsins séu ekki yfirfullar. Þá fá hælisleitendur fjárhagslegan stuðning frá ríkinu á meðan á málsmeðferð í hælismáli þeirra stendur.

Gögn málsins benda enn fremur til þess að telji kærandi sig vera í hættu eða öryggi hennar ógnað, geti hún leitað til lögregluyfirvalda í landinu.

Með vísan til framangreinds hefur athugun kærunefndar á aðstæðum hælisleitenda í Belgíu ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði hælisleitenda þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Belgíu brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hún send þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Belgíu bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Belgíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

4. Sérstök tengsl við landið eða aðrar sérstakar ástæður skv. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 21. september sl. ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Auk þess er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hennar séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna, sbr. framangreint ákvæði.

5. Samantekt

Í máli þessu hafa belgísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hennar um hæli á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls framangreinds er fallist á að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja um efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli hér á landi og ákveða að senda kæranda til Belgíu með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það því niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta