Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 3. nóvember 1995
Föstudaginn 3. nóvember 1995 var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms tekið fyrir matsmálið nr. 6/1995
Vegagerð ríkisins
gegn
Fóðuriðjunni Ólafsdal hf. og
Sæmundi Kristjánssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson hdl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:
Með matsbeiðni dags. 23. júní 1995, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 7. júlí 1995 fór Vegagerð ríkisins (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún úrskurðaði hæfilegar bætur til Fóðuriðjunnar Ólafsdal hf., kt. 460988-1529, Lindarholti, Saurbæjarhreppi og Sæmundar Kristjánssonar, kt. 131160-3059, Lindarholti, Saurbæjarhreppi (eignarnámsþolar) fyrir landspildu undir vegsvæði Vesfjarðarvegar og vegfyllingu Gilsfjarðarbrúar, samtals u.þ.b. 2,8 ha. að flatarmáli. Undir rekstri málsins kom fram krafa frá eignarnámsþola um að til viðbótar ofangreindum 2,8 ha. lands skyldi einnig meta bætur fyrir 4,9 ha. spildu undir veg sem fyrirhugað er að leggja að malarnámum þeim sem taka á hið eignarnumda efni úr. Eignarnemi samþykkti þessa kröfu og lýtur því matið samtals að 7,7 ha. lands í máli þessu.
Þá var einnig óskað eftir mati á 600.000 m³ af fyllingarefni, 35.000 m³ af burðarlagsefni og 150.000 m³ af grjóti úr nánar tilteknum námum. Tilefni eignarnámsins er bygging brúar yfir Gilsfjörð og lagning vegar í því sambandi. Heimild til eignarnámsins styðst við 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.
Eignarnámsþolar eiga hina eignarnumdu landspildu í óskiptri sameign þannig að Fóðuriðjan Ólafsdal hf. er eigandi 2/3 hluta spildunnar en Sæmundur Kristjánsson er eigandi 1/3 hluta hennar. Eignarnámið beinist hins vegar einungis að 1/3 hluta malarefnisins þar sem ríkið er eigandi að 2/3 hluta námuréttindanna skv. afsali dags. 15. desember 1988 og liggur frammi í málinu.
III. Málsmeðferð:
Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 7. júlí 1995. Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 26. júlí 1995.
Miðvikudaginn 26. júlí 1995 var málið tekið fyrir. Farið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Sættir voru reyndar án árangurs og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 15. ágúst 1995.
Þriðjudaginn 15. ágúst 1995 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 6. september 1995.
Miðvikudaginn 6. september 1995 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð. Að því búnu var málinu frestað til framlagningar frekari gagna til 27. september 1995.
Miðvikudaginn 27. september 1995 var málið tekið fyrir. Aðilar lýstu gagnaöflun lokinni og var málinu frestað til munnlegs flutnings til 10. október 1995.
Þriðjudaginn 10. október 1995 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram eitt skjal. Sættir voru reyndar án árangurs og fór að því búnu fram munnlegur flutningur málsins. Að honum lokunum var málið tekið til úrskurðar.
IV. Sjónarmið eignarnema:
a) Hið eignarnumda land:
Af hálfu eignarnema gerð krafa til þess að við mat á hinu eignarnumda landi verði tekið mið af orðsendingu nr. 10/1995 um landbætur, greiðslur fyrir efnistöku o.fl. sem lögð hefur verið fram í málinu. Eignarnemi bendir á að umrædd orsending sé m.a. unnin í samráði við Bændasamtök Íslands og verði því að teljast raunhæf viðmiðun um verðmæti lands til sveita. Eignarnemi heldur því fram að landspildan sé að hluta til ræktunarhæf (u.þ.b. 1,52 ha) og að hluta til óræktanlegt beitiland (u.þ.b. 6,18 ha) og gerir eignarnemi þá kröfu að bætur verði miðaðar við það. Þá gerir eignarnemi þá kröfu að við mat á bótum fyrir hið eignarnumda land verði tekið tillit til þeirra hagsbóta sem veglagningin hefur í för með sér fyrir eignarnámsþola sbr. 47. gr. vegalaga nr. 45/1994. Þá bendir eignarnemi á að eignarnámsþola sé skylt að takmarka tjón sitt vegna veglagningarinnar svo sem frekast er kostur.
Af hálfu eignarnema er alfarið hafnað að bætur verði greiddar fyrir frekara land en það sem beinlínis fer undir hinn fyrirhugaða veg. Þá hafnar eignarnemi því að greiddar verði sérstakar bætur fyrir annað tjón sem eignarnámsþolar telja sig verða fyrir vegna veglagningarinnar, t.d. tjón vegna tapaðra nytja sjávarins, enda sé það tjón ósannað. Þá bendir eignarnemi á að hugsanlegt sé að ný hlunnindi komi í stað þeirra sem hverfa við veglagninguna. Þannig muni t.d. myndast n.k. lón eða tjörn í firðinum sem e.t.v gefi möguleika á fiskeldi o.fl. sem ekki eru til staðar nú. Eignarnemi hafnar greiðslu sérstakra bóta fyrir veglagningu í netlögum eignarnámsþola, þar sem netlög fylgi alla jafna réttindum lands að sjó, þ.m.t. því landi sem nú er tekið eignarnámi. Eignarnemi gerir þá kröfu að krafa eignarnámsþola um að gerð verði undirgögn fyrir búpening undir hinn fyrirhugaða veg verði vísað frá þar sem það sé ekki í verkahring nefndarinnar að ákvarða um slíkar framkvæmdir.
b) Malarnám:
Af hálfu eignarnema er sú krafa einnig gerð varðandi mat á hinu eignarnumda malarefni að bætur verði miðaðar við orðsendingu nr. 10/1995. Þá gerir eignarnemi kröfu um að bæturnar verði sundurliðaðar miðað við einstaka flokka efnis. Eignarnámið beinist að efni í þremur malarnámum í landi Litla-Holts, Urðarhólum, Djúpadal og Holtahlíð. Eignarnemi kveður efnið í Urðarhólanámunni aðallega vera grjót nýtilegt í rofvörn og hugsanlega einnig fyllingarefni. Efnið í námunni sé óaðgengilegt og dýrt í vinnslu og fínefnaríkt sem geri það óhæft sem fyllingarefni í bleytutíð. Í Djúpadal og Holtahlíð kveður eignarnemi fást efni í fyllingar og í neðra burðarlag. Auðvelt sé að losa efnið úr námunni í Djúpadal, en varast verður að jökulruðningur blandist við það. Eignarnemi kveður um helming Holtahlíðarnámunnar vera gróinn og ofanýtingu vera allt að tveir metrar að þykkt auk þess sem flytja þarf raflínu sem liggur á því svæði sem efnistakan um fara fram.
Eignarnemi bendir á að hið eignarnumda jarðefni sé ekki á markaðssvæði og ekkert liggi fyrir um að það sé eftirsóknarvert. Eignarnemi telur að að bætur fyrir efnið eigi að vera líklegt söluverð þess og við matið verði að taka tillit til þess að tekið er eignarnámi mikið magn efnis, sem útilokað verði að teljast að eignarnámsþoli hefði nokkurn tíma getað selt nema vegna veglagningarinnar.
V. Sjónarmið eignarnámsþola:
a) Hið eignarnumda land.
Af hálfu eignarnámsþola er sú krafa gerð að við mat á hinu eignarnumda landi verði litið til þess að hér er um að ræða verðmætt beitiland og beri sérstaklega að hafa í huga verðmæti fjörunnar til beitar, en vegna hennar geti búpeningur gengið úti allt árið á þessu svæði. Þá gera eignarnámsþolar þá kröfu að litið verði svo á að eignarnámið nái til allra réttinda út að stórstraumsfjöruborði þar sem væntanleg vegfylling mun fara þar yfir. Þá krefjast eignarnámsþolar þess að haft verði í huga, að við veglagninguna muni sennilega öll Holtafjara fara undir sjó þar sem sjávarfalla hættir að gæta og því muni landið ónýtast til beitar og annarra nytja s.s. hrognkelsaveiða, skeljatínslu o.fl. Eignarnámsþolar telja að eignarnema beri að bæta þetta tjón með vísan til 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eignarnámsþolar benda á að Gilsfjörðurinn hafi frá alda öðli verið talinn mikið forðabúr matar og megi nánast ganga fjörðinn þurrum fótum á fjöru og veiða hrognkelsi með sting, en slík veiði hafi verið mikið stunduð þar, einkum fyrr á árum. Þá hafi sölvataka einnig verið mikil í firðinum.
Eignarnámsþolar benda á að hinn fyrirhugaði þjóðvegur muni skera beitilandið og leiða til þess að það nýtist ekki sem skyldi. Af þessum sökum gera eignarnámsþolar þá kröfu að eignarnema verði gert að gera göng undir hinn fyrirhugaða veg til að búpeningur geti ferðast óhindrað um svæðið þrátt fyrir veglagninguna. Til vara er þess krafist að dæmdar verði sérstakar bætur fyrir óhagræðið sem veglagningin hefur í för með sér við meðferð búfjár um beitilandið.
Af hálfu eignarnámsþola er talið að ekki sé unnt að leggja til grundvallar við verðmatið orðsendingu eignarnema nr. 10/1995, enda sé þar um að ræða einhliða skjal frá eignarnema sjálfum. Þá benda eignarnemar á að þeir séu ekki aðilar að Bændasamtökum Íslands og hafi þau samtök ekkert umboð fyrir þeirra hönd til að ákvarða landverð o.fl.
b) Malarnám:
Við mat á verðmæti malarnámsins gerir eignarnámsþoli þá kröfu að litið verði til þess að um er að ræða stórkostlega mikið malarnám sem muni ónýta möguleika hans á malarnámi á svæðinu um næstu framtíð. Eignarnámsþoli mótmælir því að hið eignarnumda malarefni hafi ekki neina eftirsóknarverða eiginleika m.t.t. mannvirkjagerðar og bendir á að efni úr námunni í Djúpadal hafi verið notað við gerð flestra mannvirkja í Saurbæ á umliðnum árum og hefur hluti efnisins í námunni þótt eftirsóknarvert steypuefni.
Eignarnámsþoli telur að matsnefndinni sé algerlega óheimilt að styðjast við fullyrðingar eignarnema um gæði efnisins, sem byggi á rannsóknum eignarnema sjálfs, án þess að eignarnámsþola hafi gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna.
Með sömu rökum og við mat á hinu eignarnumda landi telur eignarnámsþoli að ekki sé unnt að leggja til grundvallar við verðmatið á malarnáminu orðsendingu eignarnema nr. 10/1995.
VI. Álit matsnefndar:
a) Hið eignarnumda land.
Svo sem fram kemur í kafla II. hér að framan er hið eignarnumda land samtals 7,7 ha. að stærð. Við mat á verðmæti landsins er við það miðað að 1,52 ha. þess lands sé ræktanlegt land en 6,18 ha. beitiland. Af hálfu matsnefndarinnar er talið, miðað við landkosti og staðsetningu jarðarinnar sem mál þetta varðar, að viðmiðunarverð það sem gefið er upp í orðsendingu nr. 10/1995 sé ekki nægilega hátt hvað varðar verðmæti lands.
Fallist er á það með eignarnámsþolum að hin fyrirhugaða veglagning muni hafa veruleg áhrif á umhverfi Gilsfjarðar og þeirra landnytja sem fjörunni þar fylgja. Ekki hafa verið lögð fram gögn af hálfu eignarnámsþola sem renna stoðum undir fjárhagslegt tap vegna missis þessara gæða. Engu að síður telur matsnefndin efni til að líta til þess við ákvörðun bóta, að verðmæti landsins komi til með að rýrna vegna þeirra breytinga sem verða á svæðinu, t.d. með tilliti til ferðamannaþjónustu.
Fallist er á það með eignarnema að það sé ekki í verkahring Matsnefndar eignarnámsbóta að mæla fyrir um gerð undirgangna fyrir búfé undir fyrirhugaðan veg. Af þessum sökum er þeirri kröfu eignarnámsþola vísað frá. Á hinn bóginn er fallist á það með eignarnámsþola að veglagningin sé líkleg til að hafa óþægindi í för með sér í tengslum við umferð um landið og þykir rétt að líta til þess við ákvörðun bóta fyrir hið eignarnumda.
Með vísan til þess sem að framan segir þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera sem hér segir:
Bætur fyrir 1,52 ha. ræktaðs lands og 6,18 ha. beitilands kr. 100.000-
Bætur fyrir landspjöll og óhagræði vegna veglagningarinnar kr. 500.000-
Samtals kr. 600.000-
Eignarnámsþolar skulu skipta ofangreindum bótum í hlutfalli við eignarhlutdeild sína í hinu eignarnumda.
b) Malarnám:
Með vísan til þess að efni úr námunni í Djúpadal hefur verið notað til mannvirkjagerðar, þ.m.t. sem steypuefni á svæðinu, er ekki fallist á það með eignarnema að efni úr þeirri námu sé utan markaðssvæða. Þykir því rétt að meta efni úr þeirri námu miðað við að eftirspurn sé eftir efninu, auk þess sem rétt þykir að taka tillit til þess að efnistaka í námunni er mjög aðgengileg fyrir eignarnema. Fyrirhugað er að taka 50.000 m³ efnis úr nefndri námu og gildir einu við mat á verðmæti efnisins til hverra nota eignarnemi hugsar sér það. Hæfilegar bætur fyrir 1/3 af efni þessu þykja kr. 450.000-, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hvað varðar efnistöku úr Urðarhólanámunni og Holtshlíðarnámunni er fallist á það með eignarnema að efni úr þeim námum sé utan markaðssvæða, auk þess sem efnistaka úr þeim námum er ekki mjög aðgengileg. Þykir því rétt að miða mat á þessu efni við orðsendingu eignarnema nr. 10/1995 með hliðsjón af framansögðu. Þykja hæfilegar bætur fyrir 1/3 af þeim 736.000 m³ af fyllingarefni og grjóti sem tekin verða úr þessum námum hæfilega metnar kr. 1.104.000-, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Með vísan til tímaskýrslna lögmanns eignarnámsþola, sem matsnefndin fékk afhentar við munnlegan flutning málsins, þykir málskostnaður hæfilega ákvarðaður kr. 100.000- auk virðisaukaskatts í máli þessu. Þá greiði eignarnemi kr. 320.000- í ríkissjóð í kostnað við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Eignarnemi, Vegagerð ríkisins greiði eignarnámsþolunum Fóðuriðjunni Ólafsdal hf., kt. 460988-1529, Lindarholti, Saurbæjarhreppi og Sæmundi Kristjánssyni, kt. 131160-3059, Lindarholti, Saurbæjarhreppi, kr. 600.000- í bætur fyrir hið eignarnumda land. Þá greiði eignarnemi eignarnámsþolanum Sæmundi Krisjánssyni, kr. 1.554.000-þar með talinn virðisaukaskattur, í bætur fyrir malarefni það sem tekið hefur verið eignarnámi. Þá greiði eignarnemi eignarnámsþolum kr. 100.000 auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 320.000- í ríkissjóð í kostnað við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
__________________________________
Helgi Jóhannesson, hdl.
____________________________ _________________________________
Vífill Oddsson, verkfr. Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi