Hoppa yfir valmynd

Nr. 497/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 497/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18080026

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. ágúst 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. ágúst 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 13. september 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 30. apríl 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 10. ágúst 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 21. ágúst 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 7. september 2018. Viðbótargögn bárust kærunefndinni þann 31. október 2018 og þann 1. nóvember 2018. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 1. nóvember 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda þann 31. október og 6. nóvember 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna ótta við fyrrum yfirmann sinn í […] hernum og aðra meðlimi hersins. Þá geti kærandi ekki leitað verndar lögreglu eða annarra yfirvalda þar sem fyrrum yfirmaður kæranda sé háttsettur hjá […] hernum og lögreglu- og saksóknaraembættinu í […].

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í borginni […] í suðausturhluta […]. Kærandi hafi starfað hjá […] hernum sem […] en sé núna eftirlýstur í heimaríki. Kærandi kveðst hafa starfað sem ljósmyndari yfirmanns í hernum að nafni […] í um fimm ár, en í því hafi m.a. falist að taka […] og […] sem hafi svo verið send […] í […]. Í lok október 2016 hafi kærandi fengið símtal úr óþekktu númeri frá liðsmanni uppreisnarhópsins […] og hafi hann verið krafinn um upplýsingar um fjölskyldu yfirmanns síns í hernum. Erjur hafi verið á milli hópsins og yfirmanns kæranda þar sem yfirmaðurinn hafi látið handtaka meðlimi hópsins. Kærandi hafi neitað að veita þeim sem hringdi umbeðnar upplýsingar. Í kjölfarið hafi kærandi greint yfirmanni sínum frá símtalinu sem hafi sagt kæranda að hafa ekki áhyggjur. Í greinargerð kemur fram að tilgangur símtalsins hafi verið að fá persónulegar upplýsingar um yfirmann kæranda í því skyni að knýja yfirmanninn til þess að leysa meðlimi hópsins úr haldi. Kærandi kveðst hafa þekkt yfirmann sinn mjög vel en hann hafi oft farið heim til yfirmanns síns í fríum. Kærandi hafi fengið annað símtal daginn eftir, en hann hafi aftur neitað að veita umbeðnar upplýsingar. Kærandi hafi verið staddur á kaffihúsi þegar bifreið með skyggðum rúðum hafi verið ekið að kaffihúsinu, nokkrir menn hafi stigið út og tekið kæranda með valdi upp í bifreiðina. Bundið hafi verið fyrir augu kæranda og hafi hann verið krafinn um upplýsingar um fjölskyldu yfirmanns kæranda, m.a. […]. Kærandi kveðst ekki hafa veitt upplýsingar í byrjun, en þá hafi mennirnir byrjað að beita kæranda grófu ofbeldi, þeir hafi m.a. nefbrotið hann og pyndað með því að þrýsta heitu járni á fætur kæranda. Þá hafi mennirnir jafnframt beint að kæranda byssu og hótað að skjóta hann. Kærandi hafi ekki átt kost á öðru en að segja frá öllu sem hann vissi um yfirmann sinn. Mennirnir hafi haldið kæranda í heila viku til þess að ganga úr skugga um að upplýsingarnar væru réttar. Að viku liðinni hafi kæranda verið sleppt um miðja nótt, kæranda hafi verið hent út á götu ásamt farsímanum sínum. Kærandi hafi hringt í vin sinn sem starfi einnig sem […] hjá […] hernum. Vinur kæranda hafi greint honum frá því að yfirmaðurinn væri að leita að kæranda, en [...] hafi verið rænt. Vinurinn hafi sótt kæranda og þeir farið heim til vinarins, hafi kærandi þá komist að því að hann væri eftirlýstur og að yfirmaður hans hygðist myrða hann. Næsta dag hafi kærandi hringt í nágranna sinn sem hafi greint honum frá því að herinn hafi komið heim til kæranda og að þeir leiti hans.

Í viðtali við Útlendingastofnun þann 30. apríl 2018 var kærandi spurður hvort opinber handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur honum eða hvort það sé bara yfirmaður hans sem sé á eftir honum. Kærandi hafi greint frá því að handtökuskipun hafi komið frá hernum en að ómögulegt hafi verið fyrir kæranda að afla gagnsins án þess að vera handtekinn. Kærandi geti ekki lagt fram gögn sem staðfesti að hann sé eftirlýstur, t.a.m. handtökutilskipun. Kærandi hafi ákveðið að flýja heimaríki sitt og á flóttanum hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá vini sínum að faðir kæranda hafi verið handtekinn. Hafi tilgangur handtökunnar verið að ná til kæranda, en föður kæranda hafi verið sleppt eftir u.þ.b. tvo mánuði í fangelsi. Kærandi kveðst ekki geta leita aðstoðar yfirvalda í […] þar sem fyrrum yfirmaður hans sé afar háttsettur einstaklingur í […]. Þá kveðst kærandi ekki geta flutt sig um set innanlands.

Í greinargerð er fjallað almennt um stöðu mannréttindamála í […]. Þá er einnig fjallað um öryggisástandið í […] sem og […]. Kærandi vísar til skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Í d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga segi að þegar 37. gr. sömu laga ræði um þjóðfélagshóp sé m.a. verið að vísa til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hafi sameiginleg einkenni eða bakgrunn sem ekki verði breytt. Í augum […] yfirvalda hafi kærandi aðstoðað herská samtök við að ræna [...] síns svo samtökin gætu beitt stjórnvöld þrýstingi til að leysa liðsmenn þeirra úr haldi. Þá skipti ekki máli í augum yfirvalda í heimaríki kæranda að hann hafi verið beittur líkamlegu ofbeldi og pyndingum til þess að fá upplýsingarnar. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til aðildar kæranda að tilteknum þjóðfélagshópi sem samstarfsmaður vígahóps. Jafnframt heldur kærandi því fram að hann tilheyri einnig tilteknum þjóðfélagshópi vegna stöðu sinnar sem fyrrum starfsmaður […] hersins, enda sé honum ómögulegt að breyta þeirri staðreynd. Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé að flýja […] vegna ofsókna af hálfu ríkisins, sbr. a-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Af þeim sökum sé ekki raunhæft að kærandi geti leitað ásjár yfirvalda þar í landi, hvort sem það sé lögregla, herinn eða önnur yfirvöld. Kærandi óttist handtöku og að verða myrtur af fyrrum yfirmanni sínum eða […] hernum þar sem fyrrum yfirmaður kæranda hafi völd og ítök. Kærandi heldur því fram í greinargerð að fyrrum yfirmaður hans sé afar valdamikill bæði innan hersins og […] lögreglunnar. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í fréttaflutning frá heimaríki. Þá geti kærandi átt yfir höfði sér dauðarefsingu í heimaríki fyrir að hafa aðstoðað vígahóp við mannrán. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. gr. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Að öllu þessu virtu beri að veita kæranda alþjóðlega vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð gerir kærandi nokkrar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemd við að hann hafi ekki fengið tækifæri á að skýra tiltekið ósamræmi sem Útlendingastofnun hafi byggt á við mat á trúverðugleika kæranda. Kærandi hafi lagt fram […] skilríki, útgefin af […]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að skilríkin séu merkt manni að nafni […] sem sé ekki sama nafn og kærandi hafi gefið upp hjá Útlendingastofnun. Þá kom fram í ákvörðuninni að kærandi hafi ekki gefið skýringar á misræminu í viðtali við Útlendingastofnun. Kærandi bendir á að hann hafi aldrei verið spurður út í framangreint ósamræmi í viðtali hjá Útlendingastofnun og hafi honum því ekki gefist tækifæri á að skýra fyrrgreint ósamræmi. Þá heldur kærandi því fram að um sé að ræða misritun á fornafni hans á ensku, en á bakhlið skírteinisins sé nafn hans rétt skrifað á […]. Þá standi […] fyrir […] og að […] sé millinafn kæranda og nafn föður hans. Með því að gefa kæranda ekki tækifæri á að skýra ósamræmið hafi Útlendingastofnun brotið gegn andmælarétti kæranda skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 jafnframt sem umrætt mat stofnunarinnar sé í andstöðu við leiðbeiningar Flóttamannastofnunar.

Í öðru lagi hafi það verið mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað með fullnægjandi hætti að hann hafi orðið fyrir ofbeldi og hótunum af hálfu meðlima […]. Kærandi hafi lagt fram ljósmynd af áverkum á […] eftir þær pyndingar sem hann hafi sætt af hálfu […]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að ekki sé unnt að staðfesta með fullri vissu að framangreind ljósmynd sé af […] kæranda eða að áverkarnir séu tilkomnir vegna pyndinga. Kærandi heldur því fram í greinargerð að ekki sé hægt að ætlast til þess að hann leggi fram frekari gögn um þær pyndingar sem hann hafi sætt af hálfu meðlima […], en kærandi sé með ör […] eftir pyndingarnar sem hann hafi orðið fyrir. Í þriðja lagi mótmælir kærandi mati Útlendingastofnunar að heimildir gefi annað til kynna en að fyrrum yfirmaður kæranda sé sérstaklega valdamikill innan […] lögreglunnar. Að mati Útlendingastofnunar hafi kærandi ekki gefið haldbærar skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki getað lagt fram handtökutilskipun eða önnur gögn sem geti sýnt fram á að hann sé eftirlýstur af […] yfirvöldum. Í viðtali við Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að það sé ekki á hans færi að afla handtökutilskipunar eða gagna sem staðfesti að hann sé eftirlýstur, ef kæranda hefði verið afhend slík gögn hefði hann verið handtekinn á staðnum. Með tilliti til aðstæðna í máli kæranda og á heimasvæði hans sé ekki hægt að gera kröfu um að hann leggi fram frekari gögn umsókn sinni til stuðnings. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í handbók Flóttamannastofnunar og skýrslu Flóttamannastofnunar. Þá heldur kærandi því fram að hann hafi fært fullnægjandi sönnur á þá atburði sem hann hafi lýst í viðtali hjá Útlendingastofnun og ljóst sé að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í […] skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og fjallar um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu fyrrum yfirmanns síns, stjórnvalda og meðlima […] verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt ríki til að snúa ekki nokkrum […], sem komi frá svæðum í […] sem séu undir áhrifum stríðsátaka, aftur til heimaríkis gegn vilja sínum. Í heimildum sé ástandinu á heimasvæði kæranda lýst sem óstöðugu og óvissu jafnframt sem það geti versnað snögglega. Boðað hafi verið til útgöngubanns í […], kveikt hafi verið í byggingum og vegir frá borginni séu lokaðir. Þá hafi alþjóðastofnanir lýst áhyggjum af ástandi í borginni. Af þessu telji kærandi ljóst að raunhæf hætta sé á að hann muni sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga við komu til heimaríkis.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti útlendingur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.a.m. vegna almennra aðstæðna í heimaríki. Í greinargerð heldur kærandi því fram […]. Viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í ríkinu og […] yfirvöld veiti þegnum sínum ekki nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Hvað varðar flutning innanlands bendir kærandi á að ekki sé mögulegt fyrir hann að búa annars staðar í heimaríki vegna þess hve valdamikill fyrrum yfirmaður kæranda sé. Við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig og almennt séu ekki forsendur til þess að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Við matið þurfi að skoða leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og athugasemdir við 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf. Þá sé þess ekki krafist að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimaríki áður en hann sæki um alþjóðlega vernd. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í gildandi afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í tengslum við möguleika á innri flutningi í […] sem og úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 306/2018. Að öllu ofangreindu virtu og með hliðsjón af aðstæðum kæranda verði að telja að krafa um innri flutning geti hvorki talist raunhæf né sanngjörn fyrir hann.

Þann 31. október 2018 barst kærunefndinni göngudeildarnóta frá bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans dags. 22. október 2018. Þar kemur m.a. fram að kærandi sé metinn í sjálfsvígshættu, þó ekki bráðri. Einnig sé kærandi metinn óútreiknanlegur vegna þeirrar óvissu og óöryggis sem hann búi við sem umsækjandi um alþjóðlega vernd.

Þann 6. nóvember barst kærunefndinni komunótur frá göngudeild sóttvarna sem og gögn frá Landspítalanum. Í umræddum gögnum kemur m.a. fram að kærandi hafi þann […] gert […]. Þá hafi vinur kæranda komið að honum og kallað á aðstoð. Í komunótum frá göngudeild sóttvarna dags. 31. október 2018 kemur fram að kærandi lýsir […] og óttist sjálfur að hann muni gera sér eitthvað. Þá er það mat læknisins að kærandi sé með mjög mikil einkenni áfallastreitu jafnframt sem andlegt ástand hans mjög slæmt.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram […] kennivottorð með mynd af kæranda auk […] skilríkja útgefnum af […]. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og að leysa yrði úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari […]. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé […] ríkisborgari. Að öðru leyti er óljóst hver kærandi sé.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

[...].

Ráða má að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu […] til […] hafi […] stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist […] og hafi m.a. […] lögreglumenn og […] dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í skýrslu Landinfo frá árinu […] kemur fram að átökin í norður- og vesturhluta […] gegn […] hafi m.a. haft slæm áhrif á löggæsluna í suðurhluta landsins, þ. á. m. […]. Glæpagengi hafi notfært sér að lögreglan eigi erfitt með að sinna hefðbundnum störfum vegna þess að hún sé fáliðuð. Vopnuð átök eigi sér stað reglulega á milli ættbálka á […] svæðinu sem keppist um staðbundnar auðlindir. Um sé að ræða glæpagengi sem beiti ofbeldi og ógnunum til að fá sínu framgengt, en […] sé talin miðstöð eiturlyfjasölu á svæðinu. Helstu ofbeldisverkin í […] séu skotárásir, sprengingar, vopnuð rán, mannshvörf og manndráp. Þá hafi mannrán aukist bæði í því skyni að krefjast lausnargjalds og til að beita pólitískum þrýstingi. Dæmi séu um að opinberir starfsmenn verði fyrir ofbeldisbrotum í […]. Þrátt fyrir fáliðun þá hafi yfirvöld brugðist við afbrotum og tilkynningum sem berist embættinu en sem dæmi hafi lögreglan handtekið ættbálkahöfðingja og lagt hald á vopn þeirra. Spilling sé vandamál í löggæslukerfinu en dæmi séu um að ættbálkahöfðingjar fái fjárhagslega styrki frá stjórnmálaflokkum í landinu og treysti stjórnmálamenn á stuðning ættbálkanna.

Í skýrslu Landinfo frá árinu […] kemur fram að her- og lögreglumenn séu að snúa aftur til […]. Í febrúar á þessu ári hafi yfirvöld lagt áherslu á að ná stjórn yfir suðurhluta landsins þá sérstaklega […]. Yfirvöld hafi skipað hersveitum og lögreglunni að umlykja tiltekin svæði í borginni. Þá hafi verið framkvæmdar húsleitir og einstaklingar tengdir glæpasamtökunum handteknir. Hernaðaraðgerðir hafi aðallega haft það markmið að binda enda á ofbeldi ættbálkanna. Samkvæmt fyrrgreindri skýrslu Landinfo hafi […] takmarkað ferðafrelsi í […]. Þrátt fyrir það hafi samtökin bæði áform og getu til að framkvæma árásir. Dæmigerð skotmörk […] séu opinberar byggingar og stofnanir, almannavarnir, öryggisstarfsmenn og mjúk skotmörk svo sem markaðir, pílagrímsferðir og opinberar samkomur.

Uppreisnarhópurinn […] var stofnaður árið […] í kjölfar klofnings […] hersins. […] leitast við að stuðla að pólitískum og trúarlegum áhrifum […] í […] og sýni hópurinn opinskátt hollustu sína við leiðtoga […]. Markmið samtakanna sé að […] verði stjórnað af […]. Hópurinn sé talinn dvelja í suðurhluta […] og vera m.a. með aðstöðu í borginni […]. Þá sé talið að samtökin séu með víðfeðm ítök í […] samfélagi. Hópurinn hafi áform um að auka við útbreiðslu sína í suðurhluta […].

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda er byggð á því að hann muni verða fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu fyrrum yfirmanns síns og yfirvalda í heimaríki sem ætlaður samstarfsmaður vígahóps. Þá heldur kærandi því fram að hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi sem fyrrum starfsmaður […] hersins.

Í viðtali hjá kærunefnd þann 1. nóvember 2018 kom m.a. fram að kærandi hafi kynnst yfirmanni sínum á árunum 2011 til 2012 þegar kærandi hafi verið í herskóla. Stuttu eftir útskrift hafi kærandi hafið störf hjá fyrrum yfirmanni sínum sem […]. Í viðtali hjá kærunefnd sagðist kærandi hafa verið í innsta hring yfirmanns síns og hafi kærandi verið einn af fáum sem hafi vitað upplýsingar um fjölskyldu hans og hvar í […] fjölskyldan hafi dvalið. Kærandi heldur því fram að einstaklingar frá tilteknum vígahópi hafi sett sig í samband við hann og síðar rænt honum og pyndað í þeim tilgangi að fá upplýsingar um fjölskyldu fyrrum yfirmanns kæranda. Eftir að hafa veitt mönnunum umræddar upplýsingar hafi kæranda verið sleppt úr haldi. Kærandi greindi frá því að í kjölfarið hafi [...]kæranda verið rænt og hafi kæranda verið kennt um. Handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur kæranda og í kjölfarið hafi kærandi flúið heimaríki. Kærandi óttist m.a. handtöku og að verða tekinn af lífi af fyrrum yfirmanni sínum eða […] hernum þar sem fyrrum yfirmaður kæranda sé afar valdamikill bæði innan hersins og […] lögreglunnar.Frásögn sinni til stuðnings hefur kærandi nafngreint fyrrum yfirmann sinn og liggur fyrir fréttaflutningur þar sem fyrrum yfirmanns kæranda er getið vegna aðgerða gegn […]. Þá hefur kærandi einnig lagt fram ljósmynd af honum sjálfum og fyrrum yfirmanni sínum sem og aðrar ljósmyndir sem sýni fram á að kærandi hafi verið í […] hernum.

Kærandi hefur lýst ástæðum flótta í viðtölum hjá stjórnvöldum, bæði Útlendingastofnun og hjá kærunefnd útlendingamála. Frásögn kæranda hjá kærunefnd var stöðug og í samræmi við það sem fram kom í greinargerð sem og í viðtali hjá Útlendingastofnun. Frásögn kæranda fær stoð í þeim gögnum sem hann hefur lagt fram, svo sem ljósmyndum og erlendum fréttaflutningi. Þá er frásögnin samrýmanleg þeim gögnum sem kærunefndin hefur farið yfir og varða aðstæður í heimaríki kæranda, svo sem völd og áhrif háttsettra embættismanna og herforingja. Kærunefnd telur því að frásögn kæranda af þeirri hættu sem honum stafi af fyrrum yfirmanni sínum sé að mestu trúverðug og verður byggt á henni við úrlausn þessa máls.

Af fréttaflutningi má ráða að fyrrum yfirmaður kæranda sé háttsettur og valdamikill innan […] hersins, en síðast hafi verið vitnað til hans í fréttaflutningi þann 10. október á þessu ári. Í gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir kemur fram að […] hersveitir og lögreglumenn vinni í nánu sambandi bæði gegn hryðjuverkasamtökum sem og við að stilla til friðar á ýmsum svæðum landsins. Með tilliti til stöðu fyrrum yfirmanns kæranda í […] hernum eru að mati kærunefndar nokkrar líkur á því að hann hafi ítök í […] lögregluyfirvöldum, en eins og komið hefur fram benda gögn til þess að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Af þeim sökum sé hvorki öruggt að kærandi geti leitað til lögreglu eða stjórnvalda í […] vegna vandamála sinna né að hann fái réttláta málsmeðferð.

Kærunefnd telur, með hliðsjón af framburði kæranda sem fær stuðning í gögnum málsins, að kærandi hafi á rökstuddan hátt leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi í heimaríki sínu, sem ætlaður stuðningsmaður samtakanna […], sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um slíkan innri flutning, Guidelines on International Protection: “Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (UNHCR, 23. júlí 2003) er almennt ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur flytji sig um set innan síns heimaríkis til að draga úr hættu á ofsóknum þegar aðilinn sem valdur er að ofsóknum er á vegum stjórnvalda. Í athugasemdum við 4. mgr. 37. gr. frumvarps til laga um útlendinga koma fram sambærileg sjónarmið.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að vegna átaka undanfarinna ára í […] hafi margir þurft að yfirgefa heimili sín. Því sé mikill fjöldi vegalausra í landinu sem búi við slæman kost. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt ríki til að endursenda ekki einstaklinga til […], á grundvelli þess að viðkomandi eigi kost á innri flutningi í heimaríki, nema viðkomandi hafi sterk fjölskyldutengsl á nánar tilgreindu svæði og fjölskyldan sé í stakk búin til þess að styðja viðkomandi einstakling og hafi auk þess vilja til þess, sbr. skýrsla stofnunarinnar frá […]. Byggja þessar leiðbeiningar m.a. á upplýsingum um að svæðisbundin stjórnvöld í […] geri strangar kröfur til þess að einstaklingar geti fengið inngöngu á tiltekin svæði og heimild til dvalar þar. Kærandi hefur greint frá því að hann sé fæddur og uppalinn í […] og að faðir hans hafi búið þar þangað til fyrir skömmu. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé með sanngirni hægt að ætlast til þess af kæranda að hann setjist að á öðrum stað í […], sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður hér á landi.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna. Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.  

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                       Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta