Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2008

Fimmtudaginn, 25. september 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 14. mars 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 1. mars 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 19. desember 2007 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„.Ég og maðurinn minn B vinnum sem fósturforeldrar. Það merkir það að félagsmálayfirvöld í sveitarfélögum biðja okkur um að taka börn í tímabundið fóstur og þau greiða fyrir það fósturlaun. Ég hef jafnframt starfað sem þjónn. Þegar ég sótti um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði þá voru fósturlaunin ekki tekin gild sem laun. Við erum ekki verktakar í þessu starfi. Ef fósturlaunin eru ekki tekin gild sem laun í útreikningum í fæðingarorlofssjóð þá hefur maðurinn minn engan rétt í fæðingarorlofssjóð.

Ég hef verið að vinna við að vera fósturforeldri og fæ fyrir það fósturlaun. Það kemur fram á skattskýrslu og ég borga af þessum launum tekjuskatt. Og því finnst mér afar ósanngjarnt að fæðingarorlofssjóður notar ekki þessi laun mín til útreiknings á rétti mínum til fæðingarorlofs. Þessu var hafnað vegna þess að það var ekki borgað af þessum launum tryggingagjald. Ég hafði ekki hugmynd um að fæðingarorlofssjóður væri byggður upp á tryggingagjaldi og hvað þá síður að sveitarfélögin borgi ekki tryggingagjald af fósturlaunum. Það skal tekið alveg skýrt fram að ég er ekki verktaki enda ekki með vsk-númer. Mér finnst afar ósanngjarnt og óréttmætt að þessi vinna skuli ekki vera metin jafnt og önnur vinna við útreikning á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Í fóstursamningum er talað um fósturlaun.“

 

Með bréfi, dagsettu 18. mars 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 11. júlí 2008. Í greinargerðinni segir:

 

„Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 29. janúar 2008, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla hennar yrði X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Ágreiningur í máli þessu snýr að því að hluti greiðslna sem kærandi var með á viðmiðunartímabili skuli ekki vera hafður með við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda þar sem ekki hafi verið greitt tryggingagjald af greiðslunum.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 5. mgr. 13. gr. ffl. kemur fram að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Líkt og kemur fram í 2. mgr. 13. gr. ffl. eru það lög um tryggingagjald sem ákvarða hvaða laun og þóknanir skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris sem er starfsmaður. Í tilviki sjálfstætt starfandi foreldris, sbr. 5. mgr. 13. gr. ffl., er það reiknað endurgjald sem tryggingagjald hefur verið greitt af sem kemur til útreiknings. Í 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, er skilgreint hvað skuli teljast til gjaldstofns tryggingagjalds. Í 1. mgr. 6. gr. kemur fram að stofn til tryggingagjalds séu allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning á hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi.

Barn kæranda fæddist X. janúar 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar fyrir þá mánuði á árunum 2006 og 2007 sem kærandi var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt var tryggingagjald af.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðslu- og tryggingagjaldaskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2006 og 2007 og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í desember 2007 var kærandi í fæðingarorlofi og ber því að undanskilja þann mánuð við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt skattframtali kæranda fyrir árið 2007 var hún með X kr. sem önnur hlunnindi. Voru þær greiðslur ekki komnar inn við upphaflegan útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda, sbr. bréf til kæranda dags. 29. janúar 2008, er það leiðrétt nú í samræmi við 3. mgr. 15. gr. ffl. og 8. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, sbr. bréf til kæranda dags. 11. júlí 2008. Aðra mánuði á árunum 2006-2007 var kærandi starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og ber því að hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Greiðslur þær sem ágreiningur í máli þessu snýst hins vegar um eru greiðslur vegna töku barna í fóstur. Samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra skal telja slíkar greiðslur til tekna sem rekstrartekjur, skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ekki er greitt tryggingagjald af tekjum skv. B-lið 7. gr. og þar af leiðandi koma þær ekki með til útreiknings á meðaltali heildarlauna skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. ffl.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 11. júlí 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 14. júlí 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 19. desember 2007.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008 um breytingu á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr.

Barn kæranda er fætt þann X. janúar 2008. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hennar eru því tekjuárin 2006 og 2007. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fæðingarorlofi vegna eldra barns í desember 2007 og telst því sá mánuður ekki með við útreikning meðaltals heildarlauna hennar.

Ágreiningur er um hvort greiðslur frá sveitarfélögum sem kærandi fékk vegna töku barna í fóstur skuli reiknaðar með við útreikning meðaltals heildarlauna hennar. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. teljast eins og áður er komið fram til launa í því sambandi hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar skal mánaðarleg greiðsla til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af. Við útreikning á meðaltali heildarlauna skal því taka þær greiðslur sem myndað hafa stofn til greiðslu tryggingagjalds og tryggingagjald hefur verið greitt af.

Samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um vistun í heimahúsum skal almennt telja greiðslur vegna barna sem sett eru í fóstur til tekna sem rekstrartekjur. Í reglum ríkisskattstjóra er jafnframt kveðið á um heimildir til frádráttar kostnaðar frá þessum greiðslum.

Samkvæmt 1. mgr. 6.gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990 er stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Undir það ákvæði fellur endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Þar sem greiðslur vegna barna sem sett eru í fóstur teljast í skattalegu tilliti rekstrartekjur en ekki launatekjur falla þær ekki undir 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og mynda því sem slíkar ekki stofn til greiðslu tryggingagjalds. Þá verður ekki séð að kærandi hafi greitt eða verið gert að greiða tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi vegna þeirra starfa, sbr. 5. mgr. 13. gr. ffl.

Þar sem greiðslur til kæranda frá sveitarfélögum vegna töku barna í fóstur mynduðu ekki stofn til greiðslu tryggingagjalds og ekki hefur verið greitt eða gert að greiða tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi þeirra vegna verður að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu til A er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta