Mál nr. 14/2008
Fimmtudaginn, 25. september 2008
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 17. apríl 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 17. apríl 2008.
Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 19. febrúar 2008 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Ástæðan fyrir því að ég kæri er að ég á ekki rétt á fæðingarstyrk í B-landi þar sem ég bý því ég hef ekki unnið mér inn næg réttindi þar í landi. Ég stunda fjarnám frá Íslandi haustönn 2007 og vorönn 2008 og finnst mér ég falla undir þá reglu að námsmenn eigi rétt á fæðingarstyrk ef þeir hafa verið í 75% námi eða meiru og hef ég staðist þau skilyrði en mér er neitað því ég var í íslensku námi en með lögheimili erlendis.
Þegar ég var orðin ólétt hringdi ég í fæðingarorlofssjóð til að fá það staðfest að ég ætti rétt á fæðingarstyrk án þess þó að ég myndi vera með lögheimili á Íslandi við fæðingu barnsins og þar var mér tjáð að það væri ekkert mál að sækja um undanþágu og ég ætti rétt á þessum styrk. Þarna ákveð ég þá að halda áfram í mínu námi frá Íslandi frekar en að reyna að finna mér vinnu í B-landi haldandi það að ég ætti pottþétt rétt á fæðingarstyrk námsmanna þar sem ég er námsmaður á Íslandi. Ég bý erlendis með kærastanum mínum sem er einnig í námi.
Ég trúi ekki öðru en að þetta sé einhver misskilningur og að ég eigi rétt á fæðingarstyrk námsmanna þar sem ég er í fullu námi við D-háskólann. Ég er Íslenskur ríkisborgari og hef búið alla mína ævi á Íslandi þangað til ég flutti til B-lands með kærastanum mínum sumarið 2006. “
Með bréfi, dagsettu 9. júlí 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.
Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 10. júlí 2008. Í greinargerðinni segir:
„Með umsókn, dags. 1. janúar 2008, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 6 mánuði vegna barnsfæðingar, X. febrúar 2008.
Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 18. desember 2007. Fæðingarvottorð, dags. X. febrúar 2008 og staðfesting á skólavist frá D-háskólanum, dags. 4. janúar 2008. Auk þess lágu fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.
Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. febrúar 2008, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan.
Umsókn kæranda var afgreidd skv. þeim reglum sem í gildi voru við fæðingu barnsins. Síðan þá hefur verið gerð breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, fyrir börn sem fæðst hafa 1. júní 2008 og síðar, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 74/2008, þannig að foreldri sem flutt hefur lögheimili sitt tímabundið en stundar fjarnám við íslenskan skóla getur átt rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004 (ffl.), sem eru þær reglur sem í gildi voru við fæðingu barns kæranda, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Í 2. mgr. 19. gr. ffl. kemur fram það skilyrði að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt sé þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.
Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.
Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðaákvæðum var það meginregla að foreldri ætti lögheimili á Íslandi við fæðingu barns til að eiga rétt á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Eina undanþágan frá því í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og í reglugerð var þegar foreldrið hafði flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með lögheimili í B-landi við fæðingu barns síns en stundaði fjarnám frá Íslandi. Ekki verður séð að undanþáguákvæði 1. mgr. 17. gr. rgl. nr. 1056/2004 né nein önnur ákvæði reglugerðarinnar og ffl., á þeim tíma, taki yfir þau tilvik er foreldri hafði lögheimili erlendis en stundaði nám á Íslandi. Hefur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður ekki skoðað sérstaklega hvort kærandi uppfylli skilyrði um fullt nám að öðru leyti.
Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskyldu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Kærandi átti lögheimili erlendis við fæðingu barnsins og verður því ekki annað séð en að hún eigi ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.
Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi og greiðslu fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar hafi réttilega verið synjað.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. júlí 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir hafa ekki borist frá kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Fæðingardagur barns kæranda er X. febrúar 2008. Um rétt kæranda til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanns fer því eftir ákvæðum laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eins og þau voru fyrir gildistöku laga nr. 74/2008 um breytingu á þeim lögum, og ákvæðum reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 22. gr. breytingalaganna eiga þau við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2008 eða síðar.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. ffl. eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku breytingalaga nr. 74/2008, skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning, sbr. einnig 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.
Fullt nám er skilgreint í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar segir að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðarinnar teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilega kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljist ekki til fulls náms.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með lögheimili í B-landi við fæðingu barnsins þann X. febrúar 2008. Hún hafði stundað fjarnám við D-háskólann á haustmisseri 2007 og lauk hún 11 eininga námi á því misseri. Þá var hún skráð í 12 eininga fjarnám á vormisseri 2008.
Kærandi uppfyllir ekki skilyrði 2. mgr. 19. gr. ffl. um lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Hún uppfyllir ekki heldur skilyrði undanþágu frá lögheimilisskilyrði um að hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 19. gr. ffl. og 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Fyrir gildistöku breytingalaga nr. 74/2008 var ekki heimild til undanþágu frá lögheimilisskilyrði samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eða reglugerð nr. 1056/2004, þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið en stundar fjarnám við íslenskan skóla.
Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði 2. mgr. 19. gr. ffl. um lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og ekki er heimild til undanþágu frá því skilyrði ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, sbr. 1. mgr. 18. gr. ffl. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. skulu foreldrar eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Kærandi átti ekki lögheimili á Íslandi við fæðingu barns. Greiðsla fæðingarstyrks til hennar sem foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi kemur því ekki til álita.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson