Hoppa yfir valmynd

Nr. 397/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 397/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090001

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 16. ágúst 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 12. febrúar 2018 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgara Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. ágúst 2018. Þann 27. ágúst 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Að ósk lögmanns kæranda var horfið frá beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa þann 3. september 2018. Þann sama dag barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins, ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust kærunefndinni þann 5. september 2018.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir aðallega á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Kærandi heldur því fram að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn lögum um útlendinga nr. 80/2016 sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi kærunefnd útlendingamála borið að ganga nægilega vel úr skugga um hvort kærandi sé í raunverulegri hættu í heimaríki og hvort hans bíði ómannúðlegar eða vanvirðandi aðstæður við endursendingu til Pakistan. Með því að upplýsa ekki mál kæranda með fullnægjandi hætti hafi stofnunin ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá heldur kærandi því fram að afstaða kærunefndar til þess að kærandi hafi eytt Facebook samskiptunum sínum við tiltekna stúlku brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telji eðlilegt að hann hafi eytt öllum gögnum um samskipti hans við stúlkuna á samskiptaforritinu Facebook í ljósi þeirrar hættu sem bíði hans í heimaríki, en faðir stúlkunnar eða aðilar tengdir honum hafi annars getað komist að því hvar kærandi sé niður kominn.

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála dags. 16. ágúst 2018 kemur fram að nefndin hafi ekki talið FIR skýrslu kæranda trúverðuga þar sem skort hafi undirskrift eða fingrafar lögreglumannsins. Í beiðni kæranda kemur fram að hann hafi beðið föður sinn um að fara á lögreglustöðina og óska eftir að lögreglufulltrúinn myndi undirrita skjalið og fylgdi ljósrit af skjalinu með beiðni kæranda. Þá barst frumrit af undirritaðri lögregluskýrslu kærunefnd þann 5. september 2018. Þá er kærandi búinn að leggja fram staðfestingu útgefna af lækni um að hann hafi dvalið á spítala í Sarai Alamgir eftir að hann hafi orðið fyrir hnífaárás. Staðfestingin sanni að kærandi hafi komið á spítalann þann 14. desember 2016, sem sé sami dagur og kærandi hafi átt að kvænast stúlku í dómshúsinu í bænum.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kærandi fer fram á að mál hans verði tekið upp að nýju og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 16. ágúst 2018 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda 20. ágúst 2018. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku aðallega á nýjum skjölum sem hann kveður styrkja frásögn sína um að hann sé þolandi heiðurstengds ofbeldis.

Kærandi lagði þann 5. september 2018 fram undirritaða FIR skýrslu og þýðingu með stimpli lögbókanda dags. 30. ágúst 2018. Skýrslan er efnislega sú sama og fyrri skýrslan sem kærandi hefur þegar lagt fram hjá kærunefnd, en samkvæmt báðum skýrslum er kærandi sakaður um að hafa brotist inn á heimili tiltekinnar stúlku, rænt henni og misnotað. Í beiðni kæranda kemur fram að lögreglufulltrúi hafi undirritað skýrsluna sem styrki trúverðugleika skjalsins. Þá er sömu undirritun að finna á þýðingu FIR skýrslunnar. Það er mat kærunefndar að þó svo að fallist verði á að FIR skýrslan sé trúverðug þá styður skýrslan hvorki við frásögn kæranda né þá málsástæðu kæranda að hann sé þolandi heiðurstengds ofbeldis. Líkt og kom fram í úrskurði kærunefndar dags. 16. ágúst 2018 sé öllum frjálst að gera FIR skýrslu og þá séu úrræði fyrir þá sem telji þá beitta órétti af lögreglu. Því fær sú staðhæfing kæranda að hann hafi ekki getað gefið FIR skýrslu til lögreglunnar ekki stoð í gögnum málsins.

Kærandi lagði einnig fram staðfestingu frá lækni, dags. 29. ágúst 2018, um að hann hafi dvalið á sjúkrahúsi í Sarai Alamgir þann 14. desember 2016 vegna hnífstunguárásar sem hann hafi orðið fyrir. Í úrskurði kærunefndar dags. 16. ágúst 2018 var frásögn kæranda um að hann hafi orðið fyrir árás ekki dregin í efa, heldur var það heildstætt mat nefndarinnar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir árás af hendi föður umræddrar stúlku eða að honum stafi hætta af fjölskyldu umræddrar stúlku snúi hann aftur til heimaríkis.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á þeim úrskurði ásamt þeim gögnum sem bárust kærunefnd með beiðninni, þ.e. staðfestingu frá lækni og FIR skýrslu ásamt þýðingu. Telur kærunefnd að um sé að ræða upplýsingar sem þegar lágu fyrir þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp og voru ekki dregnar í efa af hálfu nefndarinnar. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 16. ágúst 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að úrskurður kærunefndar hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Þann 27. ágúst 2018 óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar skv. 6. mgr. 104. laga um útlendinga. Að ósk lögmanns kæranda dags. 3. september 2018 var fallið frá beiðni um frestun réttaráhrifa og verður sú beiðni því ekki tekin til meðferðar.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 


 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta