Hoppa yfir valmynd

Nr. 447/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. ágúst 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 447/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030041

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. mars 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. febrúar 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands 21. maí 2022 frá Ítalíu hvar hann hafði hlotið alþjóðlega vernd og dvalist allt frá árinu 2008. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Kærandi er með ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu. Í ljósi sérstakra tengsla kæranda við landið var ákveðið að umsókn hans skyldi sæta efnismeðferð hér á landi með vísan til fyrsta málsliðar 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 10. nóvember 2022 og 9. febrúar 2023 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 23. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 9. mars 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 24. mars 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna sem rekja megi til starfa hans sem formaður ungmennadeildar stjórnmálaflokksins Action Congress (AC).

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi lagt á flótta frá heimaríki sínu vegna ofbeldis sem meðlimir Peoples Democratic Party (PDP) hafi beitt hann í kjölfar þátttöku hans í kosningabaráttu stjórnmálaflokksins AC, sem nú hafi sameinast öðrum flokkum undir flokkinn All Progression Congress (APC). Kærandi hafi unnið trúnaðarstörf fyrir flokkinn og verið m.a. formaður ungmennadeildar í hverfi sínu. Eftir að flokkurinn hafi tapað kosningum hafi verið reynt að myrða kæranda en hann hafi sloppið naumlega og tekist að flýja land. Kærandi óttist að vera beittur ofbeldi í heimaríki og sé hræddur um líf sitt þar.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig a-, b-, og c-lið 2. mgr. 38. gr. sömu laga. Þá falli aðilarnir sem standi að ofsóknunum undir bæði a- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laganna. Samkvæmt frásögn kæranda sé ótti hans við að vera ofsóttur og jafnvel myrtur raunverulegur og byggður á persónulegri reynslu hans. Frásögn kæranda og gögn sem hann hafi lagt fram fái stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki hans. Unnar hafi verið skemmdir á eigum kæranda vegna stjórnmálaskoðana hans og starfa hans í þágu stjórnmálaflokks og hafi hann einnig verið beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi. Vegna þátttöku hans í störfum stjórnarandstöðuflokks sé kæranda ekki veitt vernd í heimaríki sínu. Einnig þurfi að hafa í huga að stjórnvöld í Nígeríu noti lögreglu og vopnaða hópa til að kúga stjórnarandstæðinga til hlýðni með skemmdarverkum, ofbeldi og hótunum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi frásögn kæranda verið lögð til grundvallar og ekki talin ástæða til að draga í efa að kærandi kunni að eiga á hættu að sæta hótunum eða ofbeldi af hálfu andstæðinga. Kærandi mótmælir því mati Útlendingastofnunar að framangreind meðferð nái ekki því marki að teljast til ofsókna í skilningi laga um útlendinga. Útlendingastofnun hafi litið fram hjá gögnum sem kærandi hafi lagt fram við meðferð málsins, m.a. lögregluskýrslu, sjúkraskýrslu og ljósmynd af áverkum eftir árásar sem hann hafi sætt í heimaríki. Framangreind gögn hafi ekki verið á lista yfir framlögð gögn í ákvörðun Útlendingastofnunar. Þá telur kærandi mikilvægt að hafa í huga að honum hafi verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu á grundvelli þessara málsástæðna.

Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi lagt of mikla sönnunarbyrði á sig og vísar hann í því samhengi til niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 149/2020 þar sem fram komi m.a. að við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi fært fram nægar sönnur beri jafnframt að hafa í huga að sönnunarkröfur megi ekki vera svo ríkar að viðkomandi njóti ekki raunhæfrar verndar gegn alvarlegum mannréttindabrotum. Í heimildum um Nígeríu komi skýrt fram að þarlend stjórnvöld vilji ekki veita einstaklingum vernd sem hafi öndverðar skoðanir.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds telur kærandi ljóst að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Stjórnvöld í Nígeríu geti ekki tryggt öryggi borgara sinna eða aðgengi þeirra að mat, drykkjarvatni og heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Kærandi telur ólíklegt að ástandið í Nígeríu batni á næstunni og að engin ástæða sé til að ætla að kæranda stafi ekki lengur hætta af ofsækjendum sínum. Til að tryggja öryggi kæranda sé nauðsynlegt að veita honum dvalarleyfi hér á landi. Þá telur kærandi að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað nígerísku vegabréfi. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé nígerískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2016 Strategic Conflict Assessment of Nigeria (Institute for Peace and Conflict Resolution, 2017);
  • 2021 Country Report on Human Rights Practices: Nigeria (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Nigeria (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Nigeria (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Annual report on religious freedom (covering 2021) (USCIRF, apríl 2022);
  • Country Guidance: Nigeria – Common analysis and guidance note (EUAA, 19. október 2021);
  • Country of origin information report Nigeria (The Netherlands, Ministry of Foreign Affairs,  2021);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, október 2021);
  • Country Policy and Information Note- Nigeria: Medical treatment and healthcare (U.K. Home Office, desember 2021);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Country Background Note (U.K. Home Office, 7. janúar 2020);
  • DFAT Country Information Report - Nigeria (Austalian Department of Foreign Affairs and Trade, 3. desember 2020);
  • EASO COI Report – Nigeria - Actors of Protection (EASO, nóvember 2019);
  • EASO COI Report – Nigeria – Country Focus (EUAA, 4. júní 2017);
  • EASO COI Report – Nigeria – Key socio-economic indicators (EUAA, nóvember 2018);
  • EASO COI Report – Nigeria –  Targeting of individuals (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2023 – Nigeria (Freedom House, 2023);
  • Health care in Nigeria, Challenges and recommendations (Socialprotection.org, 7. febrúar 2019);
  • Medical Country of Origin Report: Nigeria (EUAA, apríl 2022);
  • Nigeria: Country Guidance note and common analysis (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • Nigeria: Delstaten Edo – det nigerianska navet för migration och mannskohandel (1.0) (Migrationsverket, 16. desember 2019);
  • Nigeria 2021 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State,  2. júní 2022);
  • Nigeria Police Effectiveness (Ireland – Refugee Documentation Centre (RDC), 25. apríl 2019);
  • Nigeria: Psykisk helsevern (Landinfo, 23. júní 2017);
  • Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 Rome (EUAA, 21. ágúst 2017);
  • Nigeria: Security Situation – Country of Origin Information Report (EUAA, 3. júní 2021);
  • Political Violence and the 2023 Nigerian Election (ACLED, 22. febrúar 2023);s
  • Responses to Information Requests (Immigration and Refugee Board of Canada, 20. nóvember 2019);
  • Social Institutions and Gender Index 2019 - Nigeria (Organisation for Economic Co-operation and Development (OECD), 7. desember 2018);
  • Stjórnarskrá Nígeríu (Constitution of the Federal Republic of Nigeria 1999, https://www.wipo.int/edocs/lexdocs/laws/en/ng/ng014.en.pdf);
  • The World Factbook – Nigeria (CIA, uppfært 4. ágúst 2023);
  • Violent Extremist in West Africa (Denmark – Immigration Service, COI Division, 28. júní 2020);
  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Nigeria (Minority rights group International, janúar 2018);
  • Vest-Afrika: Nettverk (Landinfo, 15. maí 2019) og
  • World Report 2023 – Nigeria (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Nígería er sambandslýðveldi með tæpa 231 milljón íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um trúfrelsi frá árinu 2021 er talið að um helmingur íbúa landsins séu múslimar og hinn helmingurinn kristinn. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í Norður-Nígeríu séu múslimar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslimar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta, m.a. vegna takmarkana á réttindum þeirra til tjáningar og samkomu og einnig við að fá atvinnu hjá ríkinu.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslum EUAA frá 2018 eru nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi orðið uppvísir að því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá sé talið að allt að 80% lögreglumanna einblíni á að veita efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu auk þess sem þjálfun lögreglumanna sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar, t.d. mannréttindanefndin NHRC. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 að yfirvöld í Nígeríu hafi tekið skref í átt að því að rannsaka, ákæra og refsa meðlimum lögreglu- og öryggissveita sem ásakaðir hafi verið um brot. Þó hafi refsileysi og spilling verið áframhaldandi vandamál.

Fram kemur í framangreindum gögnum, t.a.m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022, að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá október 2021 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu hafi yfirvöld almennt getu og vilja til að veita vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu. Þá kemur fram að ýmsar eftirlitsnefndir starfi í Nígeríu sem almenningur geti beint kvörtunum sínum til, s.s. mannréttindanefndin (e. The National Human Rights Council (NHRC)) sem hefur það hlutverk að rannsaka meint brot gegn mannréttindum. Þá geti almennir borgara beint kvörtunum til umboðsmanns í Nígeríu ef þeir eru ósáttir við málsmeðferð stjórnvalda. Jafnframt geti almenningur leitað til nígeríska lögregluráðsins (e. The Nigeria Police Council) og framkvæmdastjórn lögreglunnar (e. Police Service Commission) sem hafi eftirlit með störfum lögreglunnar. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá mars 2023 kemur fram að sérstök viðbragðsdeild vegna kvartana yfir störfum lögreglu hafi unnið að því að byggja upp traust almennings til lögreglunnar. Deildin taki á móti kvörtunum vegna starfa lögreglunnar og auðveldi úrlausn slíkra mála.

Samkvæmt skýrslu EUAA frá júní 2021 er öryggisástand landsins hvað verst í norðurhluta Nígeríu þar sem hryðjuverkahópurinn Boko Haram ber ábyrgð á morðum mörg þúsund íbúa. Öryggisástand í norðurhluta og norðausturhluta Nígeríu hafi farið versnandi á árunum 2019 og 2020 og yfirvöld á viðkomandi svæðum geti einungis veitt takmarkaða vernd. Átök og árásir af hálfu hryðjuverkahópa hafi jafnframt átt sér stað í norðvesturhluta Nígeríu frá árinu 2019. Helstu átök í suðurhluta Nígeríu megi rekja til ágreinings í tengslum við olíuauðlindir á svæðinu. Samkvæmt skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá október 2021 hafa öryggissveitir Nígeríu sætt gagnrýni fyrir að hafa ekki tekist að útrýma hættunni sem starfi af Boko Haram, en talið að til þess þurfi öryggissveitir landsins meiri mannafla, vopn, þjálfun og fjármagn. Yfirvöld hafi þó gripið til ýmissa aðgerða í þeim tilgangi að útrýma hryðjuverkahópnum, þ. á m. Boko Haram, en með takmörkuðum árangri.

Samkvæmt upplýsingum á veraldarvefnum var Action Congress stjórnmálaflokkurinn stofnaður árið 2006. Heiti hans hafi síðar orðið Action Congress Nigeria (ACN). Flokkurinn hafi hætt störfum árið 2013. Samkvæmt vefsíðu Britannica var stjórnmálaflokkurinn All Progressives Congress (APC) stofnaður árið 2013 í kjölfar samruna nokkurra þekktra stjórnarandstöðuflokka, þ.e. Action Congress of Nigeria (ACN), Congress for Progressive Change (CPC), All Nigeria Peoples Party (ANPP) og All Progressives Grand Alliance (APGA). Frá árinu 2015 hafi APC verið ráðandi stjórnmálaflokkur í Nígeríu. Samkvæmt vefsíðu ACLED hafa átök átt sér stað í gegnum tíðina milli stuðningsfólks, meðlima og frambjóðenda APC flokksins annars vegar og annarra stjórnmálaflokka hins vegar, þ. á m. Peoples Democratic Party (PDP). Ofbeldi tengt kosningum í Nígeríu hafi mælst mest árið 2011 þegar átök milli stuðningsmanna PDP og CPC, sem síðar hafi orðið að APC, hafi kostað um 800 mannslíf. Þá sé talið að hundruð manna hafi látist vegna átaka í tengslum við kosningar árið 2015 og 2019. Í október 2022 hafi frambjóðendur og formenn 18 stjórnmálaflokka undirritað friðarsáttmála í tengslum við kosningar árið 2023. Sáttmálinn kveði m.a. á um að stuðnings- og stjórnmálafólk allra stjórnmálaflokka forðist að beita ofbeldi eða hvetja til slíks gagnvart andstæðingum sínum í ljósi þess skaða sem hlotist hafi af kosningabaráttum undanfarinna ára. Þrátt fyrir undirritun sáttmálans hafi tæplega 100 einstaklingar látið lífið í aðdraganda kosninganna í febrúar 2023 sem sé svipað mannfall og í fyrri kosningum.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá janúar 2020 og skýrslu EUAA frá apríl 2022 er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í fyrsta, annað og þriðja stig og skiptist jafnframt í opinberan og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum sveitarfélaga, annað stig sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu, m.a. mæðra- og ungbarnavernd, fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skiplögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum. Allt að 60% íbúa Nígeríu hafi ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum en aðgengi sé þó betra á þéttbýlli svæðum landsins. Þá komi fram að heilbrigðisþjónusta sé töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess.

Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2019 kemur fram að Evrópusambandið og alþjóða fólksflutningsstofnunin (IOM) starfi saman í sérstöku átaksverkefni er lúti að endursendingu fólks til Nígeríu. Fólksflutningastofnunin í samstarfi við ýmsar innlendar stofnanir, svo sem innflytjendaþjónustu Nígeríu (e. Nigerian Immigration Service), nefnd ríkisins fyrir flóttamenn, innflytjendur og fólk á innri flótta (e. the National Commission for Refugees, Migrants and Internally Displaced Persons), NAPTIP, almannavarnir ríkisins og ETAHT (e. Edo State Taskforce against Human Trafficking) veiti ýmsa þjónustu vegna móttöku og aðlögunar einstaklinga sem snúi aftur til Nígeríu. Grunnþjónusta sé veitt, m.a. ferðir áfram til heimabæjar eða þorps, símar til frekari samskipta, matur, skammtímahúsnæði, heilbrigðisþjónusta og vernd. Þá sé einstaklingum með sérþarfir jafnframt vísað til heilbrigðisstofnana, sálfræðinga, í ráðgjöf og veitt aðstoð við fjölskyldusameiningu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann eigi á hættu ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi unnið trúnaðarstörf fyrir stjórnmálaflokkinn AC og m.a. verið formaður ungmennadeildar í hverfi sínu. Unnar hafi verið skemmdir á eigum kæranda vegna stjórnmálaskoðana hans og starfa hans í þágu stjórnmálaflokksins og hafi hann m.a. sætt morðtilraun, auk þess sem hann hafi verið beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi af meðlimum annarra stjórnmálaflokka.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram ýmis gögn máli sínu til stuðnings, m.a. afrit sjúkra- og lögregluskýrslna frá Ítalíu, afrit lögregluskýrslu frá Nígeríu, afrit bréfs í tengslum við störf kæranda fyrir AC stjórnmálaflokkinn og ljósmyndir af sér, fyrrverandi eiginkonu sinni og börnum þeirra. Kærunefnd telur, með vísan til ítarlegra lýsinga kæranda á starfi AC, þekkingar hans á verklagi kosninga í heimbæ hans og framlagðra gagna, ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi unnið sjálfboðastarf fyrir AC stjórnmálaflokkinn árið 2007 og m.a. sinnt leiðtogastöðu innan ungmennaráðs flokksins í sínu hverfi.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun var kærandi beðinn um að lýsa ástæðum flótta síns frá heimaríki og ferðaleið sinni til Íslands. Kvaðst kærandi í efnisviðtali, dags. 10. nóvember 2022, hafa starfað sem hárskeri í Benínborg í Edo fylki. Kærandi hafi fengið til sín viðskiptavin sem hafi hvatt hann til að ganga til liðs við AC flokkinn sem kærandi hafi í kjölfarið gert. Kærandi hafi m.a. unnið að kosningaherferðum, samkomum og því að fá fleiri til að ganga til liðs við flokkinn. Hinn 14. apríl 2007 hafi kosningar farið fram í hverfi kæranda og hafi brotist út átök milli stuðningsmanna AC og stjórnamálaflokksins PDP. Kærandi kvað aðila hafa ráðist á sig með sveðju og skorið í höfuð hans. Í efnisviðtali sýndi kærandi stórt ör á höfði sér frásögn sinni til stuðnings. Kærandi hafi dvalið á sjúkrahúsi í kjölfarið en þurft að flýja þaðan þar sem aðilar á vegum PDP hafi mætt þangað til að ráðast aftur á kæranda. Hárgreiðslustofa kæranda hafi jafnframt verið eyðilögð. Kærandi hafi í kjölfarið falið sig inni í skógi og laumað sér um borð í bíl sem hafi verið á leið til Lagos fylkis í Nígeríu. Þegar þangað hafi verið komið hafi kærandi frétt af því að hans væri leitað og að hann yrði að yfirgefa landið. Kvaðst kærandi þá hafa farið til Líbíu þar sem hann hafi unnið á bóndabýli. Þar hafi aðilar á vegum PDP fundið hann aftur og ráðist á hann og því hafi kærandi ákveðið að fara til Ítalíu. Á Ítalíu hafi kærandi einnig sætt árásum af hálfu aðila tengdum PDP, síðast árið 2020. Kærandi kvað mismunandi aðila hafa ráðist á sig en að þeir ættu það allir sameiginlegt að tengjast PDP flokknum.

Í framhaldsviðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 9. febrúar 2023, greindi kærandi frá því að hafa sætt árásum í Nígeríu og á Ítalíu, en ekki í Líbíu. Kæranda var í því samhengi bent á framburð sinn í efnisviðtali sínu hjá Útlendingastofnun þar sem hann greindi frá því að aðilar tengdir PDP flokknum hefðu ráðist á hann í Líbíu. Kærandi gekkst ekki við því og svaraði því afdrifalaust að hann hafi ekki sætt neinni árás í Líbíu. Þá var kærandi spurður hvort um hafi verið að ræða sömu aðila í öll skiptin sem ráðist hafi á hann í Nígeríu og á Ítalíu eða hvort mismunandi aðilar hafi staðið að árásunum. Kærandi greindi frá því að um hafi verið að ræða sama hóp fólks sem stangast á við framburð hans í efnisviðtali. Þá greindi hann frá því að keyrt hafi verið á hann á Ítalíu þegar hann hafi verið á hjóli. Kvað hann bíl hafa komið aftan að sér, flautandi, og keyrt í veg fyrir sig. Aðilarnir í bílnum hafi stigið út og spurt hvort hann héti […] og hafi verið formaður ungmennaráðs AC flokksins. Þeir hafi síðan barið kæranda. Kærandi lagði fram sjúkraskýrslu, útgefna af ítölsku sjúkrahúsi, máli sínu til stuðnings. Í skýrslunni, dags. 11. september 2020, kemur fram að taugarannsókn hafi farið fram á kæranda í kjölfar hjólreiðaslyss og að kærandi myndi ekki hvað hefði komið fyrir hann. Kemur jafnframt fram að kærandi þjáðist af fram- og afturvirku minnisleysi, þ.e. að hann myndi ekki eftir slysdeginum og fram undir morgun daginn eftir. Grefur það talsvert undan trúverðugleika frásagnar kæranda. Þá lagði kærandi einnig fram lögregluskýrslu varðandi atvikið og kemur hvergi fram að um árás hafi verið að ræða. Ber bæði sjúkra- og lögregluskýrslan með sér að um slys hafi verið að ræða.

Við mat sitt á trúverðugleika frásagnar kæranda horfir kærunefnd til þess að talsvert misræmi er í frásögn kæranda varðandi ástæðu flótta hans frá heimaríki. Er kærandi m.a. tvísaga um hvar og hvenær hann hafi sætt árásum af hálfu aðila tengdum PDP stjórnmálaflokknum sem og af hvaða aðilum. Þá er einnig misræmis að gæta milli framburðar kæranda og þess sem kemur fram í framlögðum skjölum. Dregur innihald sjúkraskýrslunnar verulega úr trúverðugleika frásagnar kæranda um að aðilar á vegum PDP hafi ráðist á hann þegar hann hafi verið á hjóli sínu á Ítalíu árið 2020 vegna fyrrum starfa hans fyrir AC í Nígeríu. Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd kæranda ekki hafa sýnt fram á með rökstuddum hætti að hann hafi sætt ítrekuðum árásum af hálfu aðila tengdum PDP stjórnamálaflokknum vegna starfa hans fyrir AC flokkinn í heimaríki sínu.

Líkt og áður greinir telur kærunefnd ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að kærandi hafi sinnt sjálfboðastarfi innan AC stjórnmálaflokksins í hverfinu sínu í Edo fylki í Nígeríu frá árunum 2003-2007. Þá telur kærunefnd ekki ástæðu til draga í efa að kærandi hafi orðið fyrir árás 14. apríl 2007 í kjölfar kosninga í umdæmi hans í heimaríki. Frásögn kæranda um átök, ofbeldi og skemmdarverk í tengslum við kosningar í Nígeríu, þ. á m. kosningarnar sem kærandi kveðst hafa unnið að í apríl 2007, fær stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað. Kærunefnd horfir hins vegar til þess að kærandi gegndi leiðtogastöðu í ungmennaráði flokksins árið 2007 eða fyrir rúmum 15 árum síðan. Einnig horfir kærunefnd til þess að í framhaldsviðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann teldi formenn ungmennaráðs APC vera í kringum 50 manns í heildina í hans umdæmi og enn fleiri í öllu Edo fylki. Kvaðst hann einnig halda að um 20 þúsund einstaklingar í hans umdæmi hefðu verið meðlimir í flokknum. Þá hefur stjórnmálaflokkurinn APC verið við stjórnvölinn í Nígeríu undanfarin ár. Ber frásögn kæranda og þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað með sér að kærandi sé ekki útsettari en aðrir í svipaðri stöðu og hann í heimaríki, þ.e. stuðningsmenn eða sjálfboðaliðar AC, nú APC, stjórnmálaflokksins, fyrir einhvers konar áreiti vegna þátttöku hans í störfum AC flokksins árið 2007. Verður fullyrðing kæranda um að hann sé mjög vel þekktur í öllu Edo fylki þá að teljast ósennileg og ótrúverðug í ljósi þess að hann kvaðst einungis hafa starfað fyrir flokkinn innan síns umdæmis eða hverfis. Þá verður ráðið af frásögn kæranda og þeim heimildum sem kærunefnd hefur skoðað að sú árás sem kærandi hafi sætt, og sem hann kveðst óttast að muni eiga sér aftur stað snúi hann aftur til heimaríkis, hafi einungis verið bundin við störf hans fyrir AC flokkinn í kringum kosningarnar árið 2007. Verður þannig ekki talið að kærandi hafi raunhæfa ástæðu til að óttast ofsóknir vegna stjórnmálaþátttöku sinnar og skoðana snúi hann aftur til heimaríkis.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sætt ofsóknum eða hafi ástæður til að óttast ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar kemur fram að borgurum landsins standi almennt vernd yfirvalda til boða þurfi þeir á slíkri aðstoð að halda. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem leiða líkur að því að hann geti ekki notið verndar lögreglu telji hann sig þurfa á henni að halda eða sýnt fram á það með öðrum hætti. Horfir kærunefnd m.a. til þess að við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram afrit af lögregluskýrslu sem hann kveður vera útgefna af nígerískum stjórnvöldum. Kemur þar fram að málið hafi verið sent til frekari rannsóknar. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að yfirvöld hafi ekki aðhafst frekar í málinu. Er það því niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn þeim athöfnum sem kærandi telji að sér stafi hætta af, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds, trúverðugleika kæranda og misræmis í frásögn hans er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna starfa sinna fyrir stjórnmálaflokkinn APC í heimaríki sínu, sbr. 1. mgr. og e-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að vera fæddur og uppalinn í Benínborg í Edo fylki í suðurhluta Nígeríu og hafa verið búsettur þar alla tíð þar til hann hafi yfirgefið heimaríki sitt árið 2008. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið í Nígeríu sé ótryggt á sumum svæðum, þá einkum í norðurhluta landsins. Engu að síður benda þau gögn og heimildir sem nefndin hefur yfirfarið við meðferð málsins ekki til þess að aðstæður í Benínborg séu slíkar að kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til Nígeríu.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir á því að ólíklegt sé að ástandið í Nígeríu batni á næstunni og að engin ástæða sé til að ætla að honum stafi ekki lengur hætta af ofsækjendum sínum. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga og 43. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu og þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdum kemur jafnframt fram að erfiðar almennar aðstæður geti tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði búsetu öruggt svæði. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kæranda og mats á trúverðugleika hans er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að almennar aðstæður eða félagslegar aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Í viðtölum greindi kærandi frá verkjum í hálsi í kjölfar líkamsárásar og slyss. Lagði kærandi m.a. fram vottorð frá sjúkraþjálfara, dags. 7. nóvember 2022, þar sem fram kemur að kærandi hafi náð að halda einkennum í lágmarki með æfingum og líkamsrækt og að hann hefði gagn af áframhaldandi þjálfun eða aðstoð við að komast í almenna líkamsrækt. Í ljósi þess sem fram kemur í framlögðum heilsufarsgögnum verður sú meðferð sem kærandi þarfnast hvorki talin vera svo sérhæfð að hann geti einungis hlotið hana hérlendis né að rof á henni yrði til tjóns fyrir hann verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Líkt og fram hefur komið er öllum ríkisborgurum Nígeríu tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfinu í landinu og er það mat kærunefndar að kærandi muni hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu sem honum er nauðsynleg þar í landi. Að öðru leyti hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að kærandi sé heilsuhraustur og vinnufær.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Leiðbeiningar til kæranda

Eins og fram hefur komið er barnsmóðir kæranda og fjögur börn hans búsett hér á landi. Gerðu kærandi og barnsmóðir hans með sér samkomulag hjá sýslumanninum í Reykjavík, dags. 14. febrúar 2023, um að forsjá barna þeirra yrði sameiginleg en lögheimili þeirra yrði hjá móður þeirra. Þá gerðu þau með sér samkomulag um framfærslu barnanna. Telji kærandi sig eiga rétt á dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldutengsla eða sérstakra tengsla við landið er honum bent á að leggja fram umsókn þess efnis, eftir atvikum samkvæmt 72. eða 78. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji Útlendingastofnun hafa lagt of mikla sönnunarbyrði á sig og vísar hann í því samhengi til niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 149/2020 þar sem fram komi m.a. að við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi fært fram nægar sönnur í málinu beri jafnframt að hafa í huga að sönnunarkröfur mega ekki vera svo ríkar að viðkomandi njóti ekki raunhæfrar verndar gegn alvarlegum mannréttindabrotum. Fram komi að þótt það standi umsækjanda sjálfum nær að afla gagna um persónulegar aðstæður sínar standi það ríkinu nær að afla gagna um aðstæður í heimaríki hans, þar með talið um að yfirvöld þar geti veitt honum fullnægjandi vernd.

Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Fram kemur í landaupplýsingaskýrslum um aðstæður í Nígeríu, sem bæði Útlendingastofnun og kærunefnd hafa stuðst við, að borgurum landsins standi almennt vernd yfirvalda til boða þurfi þeir á slíkri aðstoð að halda. Þá hefur kærandi, líkt og áður greinir, ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir frásögn hans um að yfirvöld hafi ekki vilja til eða muni ekki aðhafast í málinu.

Kærunefnd telur hvorki óeðlilegt né ósanngjarnt að gera almennt þá kröfu til umsækjenda um alþjóðlega vernd, líkt og í tilviki kæranda, að þeir leggi fram gögn sem sýni fram á að þeir hafi leitað til lögreglu og/eða að málið hafi verið fellt niður, s.s. lögregluskýrslur. Verður því ekki fallist á það með kæranda að Útlendingastofnun hafi lagt of mikla sönnunarbyrði á hann. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti máls kæranda og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun og er það mat kærunefndar að ekki hafi verið annmarkar á málsmeðferð máls kæranda hjá stofnuninni sem valdið geti ógildingu hennar.

Brottvísun og endurkomubann  

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans. 

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 21. maí 2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa honum úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærandi var í viðtali hjá Útlendingastofnun upplýstur um að ef umsókn hans yrði synjað yrði honum brottvísað frá Íslandi og ákvarðað endurkomubann hingað til lands. Var kæranda gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærandi kvaðst ekki hafa nein tengsl við önnur ríki innan Schengen svæðisins en Ítalíu og Ísland. Kvaðst kærandi hafa ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu en að börn hans og fyrrverandi eiginkona, K, væru búsett hér á landi. Kærandi hafi komið hingað til lands til að vera með börnum sínum og sinna föðurhlutverki sínu. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 14. ágúst 2023, var óskað eftir nánari upplýsingum um fjölskylduhagi, tengsl og umgengni kæranda við börnin hans, bæði á Ítalíu og eftir komu hans hingað til lands. Í svari kæranda sem barst kærunefnd í tölvubréfi, dags. 16. ágúst 2023, kemur fram að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hafi búið saman ásamt börnum þeirra á Ítalíu. K hafi flúið frá Ítalíu þegar hópur manna hafi ráðist inn á heimili þeirra og hafi hún tekið börn þeirra með sér. K hafi verið ólétt af yngsta barni þeirra þegar hún hafi komið hingað til lands. K hafi talið kæranda týndan og því skilið við hann hér á landi. Samband kæranda og fjölskyldu hans hafi rofnað um tíma uns hann fann þau hér á landi og kom hingað. Eftir að kærandi hafi komið hingað til lands hafi K og hann deild ábyrgð varðandi börn sín og hann sé að læra með þeim íslensku, sæki þau í skóla og leiki við þau.

Barnsmóðir kæranda og börn þeirra komu hingað til lands og sóttu um alþjóðlega vernd 16. desember 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. maí 2020, var börnum kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga, sbr. 32. gr. d. reglugerðar nr. 540/2017. Kærunefnd horfir til þess að kærandi kom hingað til lands 21. maí 2022 eða tæpu þremur og hálfu ári seinna en börnin hans og að hans sögn hafi hann verið í litlum sem engum samskiptum við börnin þangað til hann kom hingað til lands. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærandi og þrjú eldri börn hans ótímabundin dvalarleyfi á Ítalíu. Getur kærandi því ferðast hingað til lands og heimsótt börn sín í 90 daga á hverju 180 daga tímabili, svo fremi að hann yfirgefi Ísland innan veitts frests. Þá geta börn hans jafnframt heimsótt hann til Ítalíu og kærandi og börn hans geta haldið virkum samskiptum í gegnum samskiptaforrit þegar þau dvelja ekki saman. Kærandi og börn hans eru öll nígerískir ríkisborgarar og er því ljóst að þau geti sameinast á Ítalíu sem og í Nígeríu enda er það mat stjórnvalda að aðstæður í heimaríki kæranda séu ekki slíkar að kærandi eða börn hans geti ekki búið þar. Með vísan til þess verður því ekki séð að brottvísun kæranda og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og tekið fram að yfirgefi hann landið sjálfviljugur innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til tengsla kæranda við börn hans hér á landi og hvort þau tengsl hefðu þau áhrif að brottvísun kæranda og endurkomubann yrði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans. Telur kærunefnd ástæðu til að gera athugasemd við skort á umfjöllun um tengsl kæranda við landið. Var þessi þáttur ákvörðunarinnar ekki í samræmi við 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar kærunefndar hefur verið bætt úr annmarka þessum á málsmeðferð Útlendingastofnunar á kærustigi. Þá er ljóst að mati kærunefndar að umræddur annmarki hafði ekki áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti máls kæranda og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. 

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann sjálfviljugur frá Íslandi innan 15 daga.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta