Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 7.apríl 2014

í máli nr. 6/2014:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum og

Landspítala  

Með kæru 17. mars 2014 kærir Logaland ehf. útboð auðkennt nr. 15554 „Rannsóknartæki og rekstrarvara fyrir LSH.“ Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um stöðvun útboðsins um stundarsakir. Varnaraðilum hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um stöðvunarkröfu kæranda, auk þess sem kæranda hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um tiltekin atriði sem fram komu í athugasemdum varnaraðila.

Af gögnum málsins verður ráðið að á árinu 2011 hafi kærandi tekið þátt í samkeppnisviðræðum sem stofnað var til af hálfu varnaraðila í tengslum við útboð nr. 14981 vegna fyrirhugaðra kaupa tækja og rekstrarlausna fyrir nýja kjarna- og bráðarannsóknarstofu Landspítala. Ákveðið var að ganga að tilboði Medor ehf. í viðræðunum, en kærandi og fleiri bjóðendur kærðu þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála. Með úrskurðum nefndarinnar 18. október 2012 var ákvörðunin felld úr gildi og lagt fyrir varnaraðila að auglýsa innkaupin að nýju. Í kjölfarið krafðist Ríkiskaup þess fyrir dómi að úrskurðir kærunefndar yrðu felldir úr gildi, en þeirri kröfu var hafnað með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 17. október 2013 í máli nr. 366/2013. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu hafa varnaraðilar nú stofnað til útboðs um kaup á rannsóknartækjum og rekstrarvöru fyrir Landspítala sem kærandi hefur hug á að taka þátt í. Kveðst kærandi í því skyni hafa sótt útboðsgögn 26. febrúar sl.

Kæra kæranda byggir að meginstefnu á því að með tilteknum skilmálum í útboðsgögnum, sem varða eiginleika boðinna tækja og forsendur fyrir vali þeirra, sé brotið gegn jafnræði aðila og þeim mismunað. Jafnframt reisir hann málatilbúnað sinn á því að varnaraðili hafi með ólögmætum hætti nýtt upplýsingar og tilboð kæranda í fyrra útboði við samningu útboðsskilmála. Auk þess séu tilteknir skilmálar svo matskenndir og ónákvæmir að þeir fullnægi ekki áskilnaði laga. Telur kærandi að í þessu felist brot á ákvæðum laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, einkum 1. gr., 14. gr., 2. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 74. gr. laganna.

Niðurstaða

Kærandi tilgreinir í 13 liðum þau atriði í útboðsgögnum sem hann telur að brjóti gegn lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup. Í grundvallaratriðum er hér annars vegar um að ræða skilmála sem kærandi telur ónákvæma og matskennda, en hins vegar kröfur um eiginleika sem í reynd útiloki kæranda frá innkaupum varnaraðila og feli þannig í sér óbeina mismunun í andstöðu við 2. mgr. 40. gr. og meginreglu 14. gr. laga um opinber innkaup.

Nefndin fellst ekki á að Landspítalinn sé bundinn við þær kröfur sem gerðar voru í fyrra innkaupaferli vegna innkaupa á sömu vörum. Þá er í téðu útboði ekki vísað til sérstakrar gerðar, framleiðanda eða tegundar þannig að hlutur ákveðinna fyrirtækja sé gerður betri en annarra eða ákveðin fyrirtæki útilokuð frá þátttöku með beinum hætti. Af hálfu varnaraðila hafa verið færð fyrir því ítarleg rök að hvert og eitt þeirra atriða, sem kærandi telur fela í sér ómálefnalega hindrun, helgist af lögmætum þörfum Landspítalans, eins og þær hafi verið skilgreindar af varnaraðilum í útboðsgögnum. Að virtum þessum skýringum og gögnum málsins, eins og þau liggja fyrir á þessu stigi, telur nefndin ekki að nægilega hafi verið sýnt fram á að skilmálar útboðsins um áskilda kosti og tæknilega eiginleika hins keypta feli í sér ómálefnalegar hindranir eða óbeina mismunun þannig að um sé að ræða verulegar líkur á broti gegn reglum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar útboðsins. Þá verður ekki á það fallist að tæknilegar kröfur séu svo matskenndar að brotið hafi verið gegn 40. gr. laga um opinber innkaup. Athugast að kæranda er heimilt að óska eftir nánari skilgreiningu kaupanda á tilteknum ákvæðum útboðsgagna samkvæmt 63. gr. laganna telji hann þörf á nánari skilgreiningu útboðsgagna á ákveðnum atriðum. Að lokum er það álit nefndarinnar að kærandi hafi ekki fært fyrir því viðhlítandi sönnun að varnaraðilar hafi nýtt upplýsingar og tilboð kæranda í fyrra útboði við samningu útboðsskilmála þannig að brotið hafi verið gegn reglum um opinber innkaup.

Með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laga nr. 58/2013, verður því ekki fallist á kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis um stundarsakir vegna fyrrgreinds útboðs. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Logalands ehf., um að stöðvað verði um stundarsakir útboð auðkennt nr. 15554 „Rannsóknartæki og rekstrarvara fyrir LSH“, er hafnað.

Reykjavík, 7. apríl 2014

                                                                              Skúli Magnússon       

                                                                              Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta