Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 124/2013

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 124/2013.
 

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi verið staðin að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 386.210 kr. að viðbættu 15% álagi eða samtals 444.142 kr. fyrir tímabilið 10. maí til 31. júlí 2013 þegar hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu 31. október 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að endurkrafa að fjárhæð samtals 444.142 kr. verði ógilt og felld niður. Loks krefst kærandi þess að viðurkenndur verði réttur hennar til fullra atvinnuleysisbóta fyrir mánuðina ágúst, september, október og nóvember 2013 með vöxtum eins og lög leyfa. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 10. maí 2013. Henni var sent bréf Vinnumálastofnunar, dags. 8. ágúst 2013, þar sem stofnunin taldi sig hafa undir höndum upplýsingar um að kærandi hefði starfað sjálfstætt hjá fyrirtækinu B við sölu á skartgripum án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Fram kemur að á samskiptasíðu B 26. júní 2013 hafi verið tilkynnt að vörur frá fyrirtækinu væru komnar til sölu í tískuvöruversluninni C. Á samskiptasíðu fyrirtækisins 30. júlí 2013 var vísað til auglýsingar C þar sem vörur kæranda voru til sölu.

Kærandi mótmælir því að hafa aflað tekna án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Það sé rétt að hún og systir hennar hafi verið að búa til hálsfestar undir nafninu B. Hálsfestagerðin hafi verið áhugamál hjá þeim og hafi þær litlu tekjur sem hafi skapast við sölu á hálsfestunum með öllu farið í efniskaup og hafi kærandi ekki þegið tekjur vegna þessa áhugamáls síns.

Fram kemur af hálfu kæranda að Vinnumálastofnun hafi við meðferð málsins og töku ákvarðana ekki gætt nægjanlega að stjórnsýslureglum, sbr. stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Þannig hafi mótmæli og athugasemdir kæranda algerlega verið virtar að vettugi, en þær hafi gefið tilefni til þess að upplýsa og rannsaka málið nánar.

Kærandi hafi í tölvupósti 28. ágúst 2013 skýrt mál sitt og meðal annars lagt fram útskrift af bankareikningi sínum um allar innborganir frá 10. maí 2013. Hún hafi ekki starfað hjá B og hafi ekki haft neinar tekjur þaðan frá og með 10. maí 2013 samhliða greiðslu bóta. Utan innborgana frá fjölskyldu kæranda séu á yfirlitinu tvær greiðslur 45.000 kr. hvor frá D og E vegna verktakavinnu sem unnin hafi verið áður en kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun barst bréf frá kæranda 27. ágúst 2013 með frekari athugasemdum og gögnum varðandi mál hennar. Þar sem stofnunin hafði þegar tekið ákvörðun í málinu var bréf kæranda virt sem beiðni um endurupptöku. Með bréfi, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt að málið hefði verið tekið fyrir að nýju og að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest. Kærandi gagnrýnir að hin nýja ákvörðun hafi verið órökstudd og án efnislegrar tilvísunar til athugasemda og mótmæla kæranda. Við endurupptökuna séu upplýsingar og skýringar kæranda ekki véfengdar. Beri því að leggja til grundvallar að kærandi tók ekki að sér neina vinnu og hafði engar tekjur frá B á því tímabili sem máli skiptir við úrlausn máls þessa, þ.e. samhliða atvinnuleysisbótum.

Kærandi telur að málsmeðferð Vinnumálastofnunar sé haldin alvarlegum annmörkum og brjóti gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um vandaða og réttláta málsmeðferð. Kærandi hafi aðeins notið andmælaréttar í orði en ekki á borði. Skýringar hennar í bréfi, dags. 16. ágúst 2013, hafi verið virtar að vettugi og virðast ekki hafa komið til skoðunar við ákvarðanatökuna 22. ágúst 2013. Kallað hafi verið eftir nýju bréfi frá kæranda eftir að ákvörðun hafi verið tekin og málið endurupptekið án þess að ljóst sé á grundvelli hvers. Við endurupptöku málsins sé vísað til nýrra gagna án þess að ljóst sé hver þau séu. Loks sé engin efnisleg umfjöllun við endurupptökuna og nýrra sjónarmiða í engu getið hvað þá heldur að rökstutt sé hvers vegna þau séu virt að vettugi. Þá er á því byggt að ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu og málið upplýst nægjanlega áður en ákvörðun var tekin. Strax og andmæli og skýringar kæranda í tölvupósti 16. ágúst 2013 komu fram hafi verið tilefni til að upplýsa málið betur varðandi meinta sjálfstæða vinnu kæranda hjá B. Hefðu þá legið fyrir þær upplýsingar sem greini í bréfi kæranda 28. ágúst 2013 og mögulegt að ákvörðunin 22. ágúst 2013 hefði orðið önnur.

Af hálfu kæranda kemur fram að sumarið 2012 hafi hún og systir hennar hafið að búa til hálsfestar. Festarnar hafi verið sýndar eigendum verslunarinnar C sem hafi ákveðið að kaupa og selja um 30 festar í verslun sinni um jólin. Í byrjun árs 2013 hafi síðan náðst að selja nokkrar til Japans og London. Þar sem framleiðslan hafi ekki staðið undir kostnaði hafi í apríl 2013 verið sótt um styrk úr hönnunarsjóði sem hafi verið hafnað og í kjölfarið hafi starfsemi B lognast út af. Eftir standi heimasíða sem sambýlismaður kæranda hafi sett upp án endurgjalds, óseldar festar og veruleg skuld vegna framleiðslunnar. Fram kemur að B sé ekki skráð félag og hafi hvorki kennitölu né virðisaukaskattsnúmer og aldrei hafi verið nein atvinnustarfsemi undir þessu nafni. Tveir reikningar hafi verið gefnir út vegna sölu hálsfesta á nafni kæranda, C, pöntun, reikningur dags. 30. janúar 2012 að fjárhæð 436.000 kr. og reikningur vegna umboðssölu, F, dags. 31. júlí 2013, að fjárhæð 76.128 kr. Síðari reikningurinn sé vegna vöru sem send hafi verið út í febrúar 2013 í umboðssölu og sé hann ógreiddur. Þá hafi japanskur kaupmaður keypt þrjár festar í desember 2012 og greitt fyrir þær 57.417 kr. Loks hafi nokkrar hálsfestar verið sendar í verslun í Seattle í umboðssölu og sé sú vara óseld. Kostnaður á móti sem nótur séu til fyrir sé samtals 605.407 kr.

Kærandi kveðst hafa haft litlar tekjur af sölu hálsmenanna en hins vegar veruleg útgjöld. Hún hafi verið með litlar tekjur árið 2012 en nánast tekjulaus fyrri helming ársins 2013 og algerlega tekjulaus seinni hluta ársins enda án atvinnu. Kærandi mótmælir fullyrðingum Vinnumálastofnunar um að hún hafi verið staðin að vinnu sem sjálfstætt starfandi hönnuður samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Hafi engin haldbær gögn verið lögð fram því til staðfestingar. Það hvíli á Vinnumálastofnun að sýna fram á með óyggjandi hætti að kærandi hafi brotið ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar þannig að rétti til bóta sé fyrirgert. Framlagðar útprentanir af heimasíðu B hafi enga þýðingu og ekkert sönnunargildi við úrlausn þessa máls.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Annar málsliður ákvæðis 60. gr. laganna taki á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Vitnað sé í 10. gr. laganna þar sem segi að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hætti virkri atvinnuleit. Tilkynningin skuli gerð með sannanlegum hætti og skuli taka fram ástæðu þess að atvinnuleit hafi verið hætt. Þá er vísað til 35. gr. a laganna þar sem fjallað er um skyldu til þess að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu á þeim tíma sem atvinnuleitandi fær greiddar atvinnuleysisbætur. Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi staðið að hönnun og sölu skartgripa undir merkjum B. Á samskiptasíðu B 30. júlí 2013 sé vísað til auglýsingar C þar sem varningur kæranda sé meðal annars til sölu. Í færslu á síðu fyrirtækisins 26. júní s.á. sé ný sending af hálsfestum auglýst og tekið fram að tiltekin tegund af derhúfum séu að „slá í gegn“. Á fréttasíðunni Vísir.is 8. ágúst 2013 hafi verið birt viðtal við kæranda ásamt systur hennar vegna starfsemi B. Hafi það verið mati Vinnumálastofnunar að kærandi hefði umrætt sinn verið við vinnu á sama tíma og hún hafi þegið atvinnuleysisbætur.

Varðandi aðfinnslur kæranda við málsmeðferð Vinnumálastofnunar bendir stofnunin á að óskað hafi verið eftir skriflegum athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 8. ágúst 2013, og kæranda veitt færi á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli hennar. Hafi skýringar kæranda borist stofnuninni í kjölfarið. Eftir að ákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin hafi kærandi komið frekari skýringum að og hafi mál hennar þá verið tekið fyrir að nýju. Vinnumálastofnun hafnar þeim fullyrðingum kæranda að hún hafi ekki notið andmælaréttar eða að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins. Varðandi athugasemdir kæranda um að ákvörðunum stofnunarinnar hafi ekki fylgt samhliða rökstuðningur er bent á að sú meginregla gildi í stjórnsýslunni að stjórnvöldum beri aðeins að rökstyðja ákvarðanir ef fram kemur beiðni um það frá aðila máls eftir að ákvörðun hefur verið birt.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi starfað á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Hún hafi ekki tilkynnt um starf sitt til stofnunarinnar. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til Vinnumálastofnunar um að atvinnuleit sé hætt eða um tilfallandi vinnu, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt. Þá beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 444.142 kr. með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. febrúar 2014. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 10. febrúar 2014. Þar kemur fram að festagerðinni hafi verið hætt er kærandi sótti um atvinnuleysisbætur og ekkert tilefni hafi verið af hennar hálfu til þess að tilkynna um tilfallandi vinnu vegna þess að henni hafi ekki staðið nein vinna til boða. Varðandi tilvitnun Vinnumálastofnunar í samskiptasíðu B þar sem vísað er til auglýsingar C bendir kærandi á að tilvitnaðar derhúfur séu kæranda og B óviðkomandi. Viðkomandi verslun beri ábyrgð á því hvernig hún auglýsi sína vöru. Þá hafi festar aðeins einu sinni verið seldar versluninni C og hafi það verið um jólin 2012 og hafi verið greitt fyrir vöruna í janúar 2013. Kærandi mótmælir því einnig að frétt á Vísi.is 8. ágúst 2013 undir fyrirsögninni „G“ hafi áhrif á rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Ekki hafi verið um viðtal að ræða heldur frétt sem unnin hafi verið án aðkomu kæranda. Fréttin hafi verið um fallega hönnun sem vakið hafi athygli.

 

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

[Sá sem [lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar]1) sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.]2)

Með 23. gr. laga nr. 134/2009 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a.

Samkvæmt gögnum málsins hannaði kærandi og bjó til ásamt systur sinni hálsfestar frá sumri 2012. Hún seldi versluninni C 30 festar í desember 2012 og var greitt fyrir þær í janúar 2013. Kærandi opnaði heimasíðu í kringum hönnunina þar sem varan var boðin til kaups og fram kemur að heimasíðan var opin eftir að kærandi var farin að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi ber því við að festagerðinni hafi verið hætt þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur og ekkert tilefni hafi því verið að tilkynna um tilfallandi vinnu til Vinnumálastofnunar skv. a-lið 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna þess að henni hafi ekki staðið nein vinna til boða. Kærandi kveðst hafa haft litlar tekjur af sölu hálsmenanna en hins vegar veruleg útgjöld. Hún hafi verið með litlar tekjur árið 2012 en nánast tekjulaus fyrri helming ársins 2013 og algerlega tekjulaus seinni hluta ársins enda án atvinnu.

Í ljósi framangreinds kemur til skoðunar hvort beita eigi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á þeim grundvelli að kærandi hafi með háttsemi sinni orðið uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt tilfallandi vinnu í skilningi 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir liggur að kærandi stóð að hönnun og sölu skartgripa og voru skartgripirnir falir á samskiptasíðu B eftir að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um þetta. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hennar samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Þá er atvinnuleitanda skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skylt að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður að telja, í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Skiptir í því sambandi ekki máli þó kærandi hafi ekki haft tekjur af starfsemi sinni eftir að hún sótti um atvinnuleysisbætur. Hefur háttsemi kæranda réttilega verið heimfærð til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber kæranda því að sæta viðurlögum þeim sem þar sem kveðið á um.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. ágúst 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Enn fremur er staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 444.142 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta