Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 84/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 84/2013.

 

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 9. júlí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem kærandi hefði verið staðinn að vinnu hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kærandi talinn hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 22. til 31. maí 2012 að fjárhæð 51.288 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag sem verði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði C hana fyrir hönd kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 26. ágúst 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kærandi fái greiddar vangreiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 15. janúar 2013 og var umsóknin samþykkt með 80% bótarétti.

Í eftirlitsferð fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, 22. maí 2013, var komið að kæranda, að því er talið var, við störf hjá fyrirtækinu B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. júní 2013, var óskað skýringa og athugasemda kæranda. Í skýringabréfi hans til Vinnumálastofnunar, dags. 10. júní 2013, kemur fram að hann hafi ekki verið við störf hjá fyrirtækinu Ásklifi ehf. 22. maí 2013. Hann hafi verið staddur á vinnustaðnum til að undirbúa sig undir sveinspróf þegar aðila vinnumarkaðarins hafi borið að garði.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi hjá Vinnumálastofnun í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar stofnunarinnar og var veittur rökstuðningur með bréfi, dags. 26. júlí 2013. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á málinu með bréfi, dags. 6. ágúst 2013. Þeirri beiðni var hafnað með bréfi, dags. 14. ágúst 2013.

Vinnumálastofnun óskaði eftir staðfestingu frá B um hvert vinnuframlag kæranda hafi verið á árinu 2013. Í svari fyrirtækisins 25. júlí 2013 kemur fram að kærandi hafi ekki verið við störf þar á árinu 2013 og hafi hann hætt þar um miðjan desember 2012.

Kærandi byggir á því að hann hafi ekki unnið hjá fyrirtækinu B á árinu 2013 en honum hafi verið sagt þar upp störfum sökum verkefnaskorts í desember 2012. Handhöfn og framvísun vinnustaðaskírteinis 22. maí 2013 hafi verið af völdum vanþekkingar á því að þegar störfum hjá vinnuveitanda ljúki bæri að skila skírteininu. Kærandi hafi verið staddur í fyrirtækinu 22. maí 2013 þar sem hann hafi fengið að nýta sér verkstæði fyrirtækisins til persónulegra verkefna og til undirbúnings vegna sveinsprófs sem hann hafi þreytt í byrjun júnímánaðar. Hafi hann verið í slíkum erindagjörðum 22. maí 2013 þegar eftirlitsmaður hafi beðið hann að framvísa vinnustaðaskírteini sem hann hafi gert án umhugsunar. Kærandi kveðst ekki stunda svarta vinnu. Kærandi bendir á að fyrir liggi staðfesting fyrirtækisins að kærandi hafi ekki verið þar við störf á umræddum tíma.

Starfsmaður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hafði símleiðis samband við D, eiganda B 18. febrúar 2014. Hjá honum kom fram að kærandi hefði unnið hjá fyrirtækinu fram í desember 2012 og ekkert eftir það. Við komu eftirlitsmanna í fyrirtækið 22. maí 2013 hafi kærandi verið þar staddur í einkaerindum og hefði hann fengið að nýta aðstöðuna. Sagði D að sér hefði láðst að kalla eftir vinnustaðaskírteini hjá kæranda eftir að hann hætti störfum hjá B.

Greinargerð Vinnumálastofnunar er dagsett 1. október 2013. Þar er vísað til þess að mál þetta varði viðurlögum vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi verið við störf á verkstæði B 22. maí 2013 þegar aðilar vinnumarkaðarins hafi hitt hann fyrir á vinnustað. Kærandi beri að hann hafi ekki verið að vinna í þágu fyrirtækisins heldur hafi hann verið að undirbúa sveinspróf sitt. Hann hafi ekki starfað hjá fyrirtækinu á árinu 2013 og sökum vanþekkingar hafi hann ekki skilað vinnustaðaskírteini sínu þegar störfum hans lauk. Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að stofnuninni hafi ekki borist upplýsingar frá kæranda um að hann væri að stunda nám á þeim tíma sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi borið á sér vinnustaðaskírteini þegar óskað var eftir því hjá starfsfólki fyrirtækisins B. Hann beri fyrir sig vanþekkingu á að hafa ekki skilað skírteininu til vinnuveitanda þegar hann hætti störfum. Vinnumálastofnun bendir á að það hafi verið full ástæða fyrir kæranda að gera grein fyrir því að hann væri ekki að vinna á vinnustað þegar eftirlitsmenn mættu þar. Sérstaklega þegar eftirlitsaðilar mæta í þeim tilgangi að kanna hvort launagreiðslur fyrirtækja samræmist fjölda starfsmanna, meðal annars með það að markmiði að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta. Það hafi verið afstaða Vinnumálastofnunar að framkomnar upplýsingar frá aðilum vinnumarkaðarins vegi þyngra við matið á því hvort kærandi stundaði ótilkynnta vinnu samhliða töku atvinnuleysisbóta. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. október 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. október 2013. Athugasemdir C bárust fyrir hönd kæranda með bréfi, dags. 16. október 2013.

 

2. Niðurstaða

Vinnumálastofnun stöðvaði greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem stofnunin taldi hann hafa verið staðinn að vinnu hjá B við eftirlit aðila vinnumarkaðarins samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Stofnunin féllst ekki á skýringar kæranda og taldi hann eiga að sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hefur staðfastlega neitað þessu. Ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Kærandi var staddur hjá fyrirtækinu B við eftirlit aðila vinnumarkaðarins 22. maí 2013 og bar á sér vinnustaðaskírteini sem hann framvísaði umbeðinn. Kærandi kveður handhöfn og framvísun vinnustaðaskírteinisins hafa verið af völdum vanþekkingar á því að honum hafi borið að skila því þegar störfum hans hjá fyrirtækinu lauk. Hann hafi verið staddur hjá fyrirtækinu 22. maí 2013 vegna undirbúnings sveinsprófs og í eigin þágu. Hann hafi starfað þar þangað til í desember 2012 þegar honum hafi verið sagt upp störfum vegna verkefnaskorts. B staðfesti með tölvupósti 25. júlí 2013, að beiðni Vinnumálastofnunar, að kærandi hefði ekki verið við störf hjá fyrirtækinu á árinu 2013. Í símtali starfsmanns úrskurðarnefndarinnar við eiganda B, D, staðfesti hann framburð kæranda varðandi vinnu hans hjá fyrirtækinu og veru þar þegar eftirlitsmann bar að garði.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að þegar atvinnuleitandi neitar því staðfastlega að hafa starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann hefur þegið atvinnuleysisbætur verði að liggja fyrir fullnægjandi sönnunargögn um hið gagnstæða til að hægt sé að beita jafn viðurhlutamiklum viðurlögum og kveðið er á um í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hefur staðfastlega hafnað því að hafa verið að sinna starfi á vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur og fyrirtækið B hefur staðfest, bæði við Vinnumálastofnun og starfsmann úrskurðarnefndarinnar, að kærandi hafi ekki unnið þar á árinu 2013.

Í ljósi framangreinds verður að fallast á kröfur kæranda í málinu og fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júlí 2013 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals að inniföldu 15% álagi 51.288 kr., er hrundið. Kærandi á rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta frá og með því tímamarki sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hans voru stöðvaðar, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta