Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 376/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 376/2023

Miðvikudaginn 18. október 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 1. ágúst 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2023 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 1. október 2021 til 31. mars 2023. Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 6. mars 2023, sem var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. apríl 2023, á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd. Í kjölfarið sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri með umsókn 24. apríl 2023. Umsókninni var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2023, á þeim forsendum að virk starfsendurhæfing teldist vart vera í gangi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. september 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að fyrir um tveimur árum hafi kærandi lent í bílslysi og síðan þá hafi hún ekki getað unnið í fullu starfi vegna verkja í mjóbaki sem leiði niður í fætur.

Kærandi hafi verið í endurhæfingu hjá VIRK. Þar hafi hún verið metin ólíkleg til að komast að fullu á vinnumarkaðinn á næstu sex mánuðum og ætti þess vegna ekki að vera í starfsendurhæfingu. Í kjölfarið hafi kærandi sótt um örorku til Tryggingastofnunar ríkisins sem hafi verið synjað á þeim grundvelli að starfsendurhæfing væri ekki fullreynd. Þess megi geta að kærandi sé á biðlista eftir að komast að hjá verkjateymi á Reykjalundi. Kærandi hafi farið til heimilislæknis og hafi þau útbúið endurhæfingaráætlun ásamt sjúkraþjálfara og kírópraktor kæranda og í kjölfarið hafi hún sótt um endurhæfingarlífeyri. Þeirri umsókn hafi verið synjað á grundvelli þess að virk endurhæfing teldist vart hafa verið í gangi. Þetta séu aðstæður sem kærandi sé sett í og hún hafi ekki hugmynd um hvert hún eigi að snúa sér. Kærandi hafi alltaf séð fyrir sjálfri sér með því að vera virk á vinnumarkaði, en nú hafi hún ekki þann möguleika, hún sé alls staðar á milli kerfa, á bið hjá endurhæfingu og fái endalausar synjanir frá Tryggingastofnun.

Það væri gott að fá einhver svör, kærandi hafi ekki getað borgað reikninga í marga mánuði og skuldir safnist upp sem valdi mikilli vanlíðan.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að málið varði ákvörðun frá 21. júní 2023 þar sem kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri með vísan til þess að ekki þættu rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing teldist vart hafa verið í gangi á tímabilinu. Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, þar sem segi að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði.

Kveðið sé á um endurhæfingarlífeyri í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, þar segi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 2. mgr. 7. gr. sé að finna heimild til að framlengja greiðslutímabil að vissu skilyrði uppfylltu:

„Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Nánar sé kveðið á um endurhæfingarlífeyri í reglugerð nr. 661/2020, þar sem segi til dæmis í 3. gr. varðandi mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað í reglugerðinni. Í 4. gr. sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Tiltekið sé í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar og í 8. gr. komi fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Í 37. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 9. gr. reglugerðar um endurhæfingarlífeyri nr. 661/2020, hafi meðal annars verið kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir ásamt reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar.

Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans og þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Um endurhæfingarlífeyri hafi gilt þágildandi ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur hafi verið farið eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé skýrt kveðið á um að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Kærandi hafi fyrst sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 24. september 2021, sem hafi verið samþykkt með bréfi, dags. 26. október 2021. Kærandi hafi fengið endurhæfingarlífeyri samfleytt frá 1. október 2021 til 31. mars 2023. Seinasta samþykkta endurhæfingartímabil kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 20. október 2022, og hafi þá skilyrði endurhæfingar verið talin uppfyllt frá 1. nóvember 2022 til 31. mars 2023.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur í stað framlengingar á endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 6. mars 2023, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 11. apríl 2023, með vísan til þess að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Kærandi hafi sótt á ný um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 24. apríl 2023, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 21. júní 2023, með vísan til þess að ekki þættu rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing teldist vart hafa verið í gangi. Þessi ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri sé stuðst við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við matið þann 21. júní 2023 hafi legið fyrir umsókn, dags. 24. apríl 2023, læknisvottorð, dags. 4. maí 2023, endurhæfingaráætlun, dags. 4. maí 2023, og staðfesting frá sjúkraþjálfara, dags. 30. maí 2023.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá sjúkdómsgreiningum og tildrögum, gangi og einkennum sjúkdómsgreininga kæranda sem koma fram í læknisvottorði B, dags. 4. maí 2023. Samkvæmt vottorðinu sé það mat læknisins að kærandi hafi verið óvinnufær síðan 19. júlí 2021 og áætluð tímalengd meðferðar verði 18 mánuðir.

Endurhæfingaráætlun B, dags. 4. maí 2023, hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar, þar komi fram að á endurhæfingartímabilinu komi kærandi til með að:

„fara til kírópraktors tvisvar í mánuði,

fara til sjúkraþjálfara hjá C einu sinni í viku,

ganga daglega í 60 mínútur,

fara í líkamsrækt þrisvar sinnum í viku,

gera slökunaræfingar heima,

og gera teygjuæfingar heima.“

Auk þess segi að kærandi sé á biðlista til þess að komast að á Reykjalundi.

Í staðfestingu frá sjúkraþjálfara C, dags. 30. maí 2023, segi að kærandi hafi mætt í einn tíma í febrúar og einn í mars á þessu ári. Þá segi að þegar kærandi sé betri af verkjum þá mæti hún ekki en hins vegar mæti hún þegar verkirnir komi aftur. Auk þess segi að kærandi ætli að sinna líkamsrækt með þjálfara í hverri viku.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi stofnunin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins. Þá sé helst skoðað hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs og hvort endurhæfing sé virk, markviss og líkleg til þess að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Tryggingastofnun vilji undirstrika að endurhæfingarlífeyrir samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 661/2020 taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu undir handleiðslu fagaðila þar sem tekið sé markvisst á þeim heilsufarsvanda sem valdi óvinnufærni hverju sinni. Jafnframt skuli endurhæfingaráætlunin miða að því að taka á vanda kæranda hverju sinni og innihalda endurhæfingarþætti sem séu til þess fallnir að styðja við þá nálgun.

Endurhæfingarlífeyrir sé samkvæmt framangreindu bundinn ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verði til þess að greiðslur séu heimilar. Þeirra á meðal sé skilyrði um að kærandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati Tryggingastofnunar. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Að mati sérfræðinga Tryggingastofnunar hafi ekki þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing kæranda taldist vart hafa verið í gangi á tímabilinu en litið sé svo á að reglulegir göngutúrar, slökunar- og teygjuæfingar og hefðbundin líkamsrækt séu ekki liður í starfsendurhæfingu, heldur stuðningur við aðra þætti starfsendurhæfingar, og að bið eftir endurhæfingarúrræðum réttlæti ekki veitingu endurhæfingarlífeyris. Þá hafi tímar kæranda hjá sjúkraþjálfara samkvæmt staðfestingu, dags. 30. maí 2023, ekki virst hafa verið jafn reglulegir og gefið hafi verið til kynna í endurhæfingaráætlun. Markhæfni starfsendurhæfingar miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, vilja hans til þess að sinna endurhæfingu, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða það hvort að viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni. Endurhæfingaráætlun kæranda hafi því ekki þótt nógu ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað. Litið sé svo á að tímar hjá kírópraktor tvisvar í mánuði og stopulir tímar hjá sjúkraþjálfara einir og sér teljist ekki nógu umfangsmikil endurhæfing til að stuðla að endurkomu kæranda á vinnumarkað, sérstaklega í ljósi þess fjölþætta heilsufarsvanda sem kærandi glími við. Virtist virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsufarsvanda kæranda því vart hafa verið í gangi.

Tryggingastofnun telji það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri að svo stöddu þar sem mat stofnunarinnar sé að endurhæfing kæranda hafi hvorki verið nægjanlega umfangsmikil né markviss á umdeildu tímabili þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð geri kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Sé þá einnig horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé, þeirra endurhæfingarúrræða sem séu möguleg og þess árangurs sem þau meðferðarúrræði gætu skilað. Kærandi hafi því ekki uppfyllt á þeim tímapunkti skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Áréttað sé að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Að öllu samanlögðu hafi þau gögn sem fyrirliggjandi hafi verið, þegar kærð ákvörðun hafi verið tekin, ekki gefið tilefni til að ætla að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð, þar sem segi að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn um endurhæfingarlífeyri, hafi verið rétt í ljósi þess að kærandi virtist ekki hafa verið í virkri endurhæfingu á umbeðnu tímabili. Sú niðurstaða sé byggð á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum. Tryggingastofnun fari fram á að kærð ákvörðun verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2023 um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 2. mgr. ákvæðisins segir að heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.

Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð hefur verið sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingar­áætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingar­innar.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Fyrir liggur í málinu læknisvottorð B, dags. 4. maí 2023, þar sem tilgreindar eru eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„Lumbar and other intervertebral disc disorders with radiculopathy

Kvíðaröskun, ótilgreind F41.9

Geðlægðarlota, ótilgreind F32.9

Attention deficit disorder without hyperactivity F98.8

Asperger's syndrome F84.5

Streituröskun eftir áfall F43.1

Polycystic ovarian syndrome“

Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„X ára gömul kona með langa sögu um geðrænan vanda. Átti erfitt félagslega í barnæsku og einelti á grunnskólaárum en einnig tengt vinnustöðum síðar. Áfallasaga. Lögð inn á BUGL tvívegis. Á einnig að baki innlögn á fullorðinsgeðdeild X. Fór í áfallameðferð í kjölfar þeirra innlagnar. Í þeirri vinnu kom fram greining um Aspergersyndrome. Fór á Reykjalund […]. Greind með ADHD hjá teymi LSH. Að auki saga um átröskunareinkenni, erfitt tímabil fyrir nokkrum árum með það. Megin orsök óvinnufærni lengi vel kvíði og þunglyndi. Almenn kvíðaeinkenni og félagskvíði. Þunglyndi einnig og haft sjálfsvígshugsanir á köflum. Margskonar lyfjameðferð verið reynd, núna að taka Duloxetin. Alltaf átt erfitt uppdráttar á vinnustöðum og kvíði alltaf undirliggjandi. Verið að vinna í "draumastarfinu" með […]. Þurfti að hætta vegna þessara einkenna sumarið 2021 og núna eingöngu að taka afleysingar. Er enn með tengsl við vinnustað þó hún hafi ekki getað unnið síðustu ár.Lenti í bílslysi í lok júlí 2021. Fékk mikinn hnykk á bakið og verið slæm síðan. Jafnvel að festast og á erfitt með að rétta úr baki. Farið í athugun og verið mynduð. Bakverkir meginvandi í dag hvað varðar óvinnufærni. Farið í gegnum þjónustu hjá Virk, ekki náð betri starfshæfni þar. Nú útskrifuð þaðan.“

Í vottorðinu kemur fram að áætluð tímalengd meðferðar séu 18 mánuðir.

Jafnframt liggur fyrir endurhæfingaráætlun B læknis, dags. 4. maí 2023, þar sem segir að markmið endurhæfingar sé að ná betri heilsu og verða vinnufær að nýju. Samkvæmt áætluninni var endurhæfing fyrirhuguð frá 1. mars til 31. ágúst 2023. Í endurhæfingaráætlun segir:

„1. Er hjá kiropraktor x2 í mánuði

2. Sjúkraþjálfun hjá C x1 í viku

3. Gengur daglega í 60mínútur

4. Fer í líkamsrækt x3 í viku

5. Slökunaræfingar heima sem sálfræðingur kenndi henni, núvitundarprógram

6. Stundar teygjuæfingar daglega

7. Sótt um á Reykjalundi haustið 2022, er á bið þar.“

Þá kemur fram að óvíst sé hvenær áætlað sé að kærandi fari til vinnu á almennum vinnumarkaði.

Meðal gagna málsins er bréf frá D sjúkraþjálfara, dags. 30. maí 2023. Þar er greint frá að í mars 2023 hafi hún séð kæranda síðast en að hún muni koma aftur í næstu viku. Þá segir í vottorðinu að þegar kæranda líði betur fari hún ekki til sjúkraþjálfara en þegar henni líði verr fari hún til sjúkraþjálfara. Einnig segir að hún fari í líkamsrækt með þjálfara í hverri viku.

Í kærðri ákvörðun, dags. 21. júní 2023, kemur fram að ekki þyki rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing teldist vart vera í gangi.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við líkamleg veikindi sem orsaki skerta vinnugetu. Samkvæmt endurhæfingaráætlun, dags. 4. maí 2023, felst endurhæfing kæranda í sjúkraþjálfun einu sinni í viku, þjónustu kírópraktors tvisvar í mánuði, æfingum í líkamsræktarstöð þrisvar í viku, slökunaræfingum heima, daglegum göngum og teygjuæfingum. Þó er sagt óvíst hvenær  kærandi eigi afturkvæmt á vinnumarkað. Þá verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi ekki verið mæta í sjúkraþjálfun í samræmi við endurhæfingaráætlun. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að endurhæfing kæranda hafi hvorki verið nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála uppfyllir kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2023 um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta