288/2020
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 288/2020
Miðvikudaginn 28. október 2020
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 11. júní 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. maí 2020 þar sem umsókn kæranda um makabætur var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um makabætur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 16. apríl 2020. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 25. maí 2020, var umsókn kæranda um makabætur synjað með þeim rökum að upplýsingar um færniskerðingu kæranda gæfu tilefni til að telja að hún væri ekki fær um að sinna þeirri umönnun maka síns sem gæfi tilefni til greiðslu makabóta og að ekki hefðu borist upplýsingar um hvort um greiðslur sé að ræða í fyrra búsetulandi sem væru ósamrýmanlegar makabótum. Með bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 26. maí 2020, andmælti kærandi ákvörðun stofnunarinnar og óskaði eftir að hún yrði endurskoðuð. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. júní 2020, var kæranda tilkynnt um að andmæli kæranda gæfu ekki tilefni til breytingar á ákvörðuninni
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. júní 2020. Með bréfi, dags. 19. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. júlí 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. júlí 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 28. júlí 2020, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi fer fram á að synjun Tryggingastofnunar á umsókn um maka-/umönnunarbætur verði felld úr gildi.
Í kæru segir að öll gögn liggi fyrir hjá Tryggingastofnun um ferli síðustu tveggja ára. Síðasta erindi mótmæla sé skrifað þann 26. maí 2020. Erindinu hafi verið svarað aftur án rökstuðnings með bréfi, dags. 3. júní 2020, við svörum kæranda. Kærandi hafi verið á umönnunarbótum síðastliðin tvö ár frá febrúar 2018 til febrúar 2020. Kæranda finnist það ekki við hæfi þegar lögfræðingur en ekki læknir ákvarði um bætur. Því mótmæli kærandi. Vegna krónískra veikinda eiginmanns kæranda séu það réttindi hans að kærandi fái umönnunarbætur. Því biðji kærandi úrskurðarnefnd um að endurskoða og fella úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar.
Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi og eiginmaður hennar telji sig hafa svarað athugasemdum Tryggingastofnunar í bréfi, dags. 26. maí 2020, sem lögfræðingar Tryggingastofnunar hafi ekki haft fyrir að svara.
Spurt er hvaða leyfi lögfræðingar innan stofnunarinnar hafi til að ákvarða um heilsufar fólks og hvort þeir fari með því ekki inn á starfssvið lækna. Hér sé um að ræða heilsufar eiginmanns kæranda. Hann og heimilislæknir hans, sem hafi aðgang að allri hans sjúkrasögu, hafi skrifað um það í greinargerðum og vottorðum til stofnunarinnar. Eiginmaður kæranda hafi enn fremur gert grein fyrir því í mjög langan tíma við stofnunina að líf hans hafi verið markað af sjúkdómi hans frá X ára aldri.
Tryggingastofnun hafi ætlað að stöðva greiðslur maka- og umönnunarbóta til kæranda eftir að hafa njósnað um ferðir kæranda og eiginmanns hennar erlendis. Persónuvernd hafi almennt gert athugasemdir við slík vinnubrögð hjá stofnuninni. Þau hafi farið á fund hjá stofnuninni vegna málsins í lok september 2019 þar sem þau hafi skýrt sjónarmið sín sem hafi verið tekin góð og gild.
Kærandi eigi foreldra, ættmenni og vini í B og ekkert sé athugavert við það að hún fari þangað til að hitta skyldmenni sín. Enda sé það fyrra búsetuland hennar þar sem hún hafi slitið barnsskónum. Kærandi og eiginmaður hennar séu ekki fangar í eigin heimalandi þó að hann sé veikur og sé á örorkubótum og hún hafi verið á maka- og umönnunarbótum vegna hans á þessu tímabili. Það sé þess vegna ekki takandi mark á því sem sé skrifað í greinargerð stofnunarinnar um að af óljósum ástæðum hafi verið haldið áfram að greiða kæranda makabætur eftir fundinn. Þau séu búsett á Íslandi og með búsetu samkvæmt 5. tölul. 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé með búsetu átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili.
Tryggingastofnun hafi aftur á móti flækt mál kæranda frá miðjum október 2019 þegar eiginmaður kæranda hafi átt samtal við þáverandi framkvæmdastjóra færnisviðs stofnunarinnar sem hafi mælt með því að kærandi myndi sækja um tímabundna örorku og úrræðið VIRK til að hjálpa henni að komast út á vinnumarkað. Kærandi hafi sótt um það sem lagt hafi verið til með tilheyrandi tímaeyðslu, skriffinnsku og gjörðum út í bláinn.
Kærandi og eiginmaður hennar hafi farið að undirbúa að færa kæranda yfir á tímabundna örorku í desember 2019 því að þau vissu að maka- og umönnunarbæturnar myndu renna út eftir febrúar 2020. Það hafi ýmis vandamál komið upp og þegar öllu sé á botninn hvolft þá hafi kærandi ekki haft rétt á að fara á tímabundna örorku og í starfsþjálfun hjá VIRK fyrr en í desember á þessu ári vegna þess að Þjóðskrá Íslands hafi gert mistök við skráningu búsetu hennar inn í landið. Kærandi hafi með réttu átt að vera skráð á Íslandi síðan 8. júlí 2017, en ekki í desember 2017 eins og standi í Þjóðskrá. Það hafi verið of seint að breyta því samkvæmt reglum og lögum, þó svo að raunveruleikinn hafi verið annar. Eiginmaður kæranda hafi verið búinn að upplýsa starfsmann Tryggingastofnunar um það.
Í athugasemdum kæranda er fjallað ítarlega um umsóknarferli kæranda um örorku og vinnubrögð Tryggingastofnunar gagnrýnd.
Varðandi það atriði í greinargerð Tryggingastofnunar að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að kærandi hefði fengið greiddar makabætur í tvö ár hefði réttur til þeirra greiðslna í raun aldrei verið fyrir hendi. Hún hafi fengið greiddar makabætur án þess að sýnt hefði verið fram á umönnunarþörf maka og því til viðbótar hefðu borist upplýsingar um færniskerðingu hennar sjálfrar sem beri með sér að hún sé ekki fær um að annast umönnun annars aðila.
Eiginmaður kæranda segist aldrei hafa getað unnið eðlilega fyrir sér vegna sjúkdóms síns sem hann hafi borið nánast alla sína ævi. Þess vegna hafi starfshlutfall hans alltaf verið skert ef hann hafi fengið vinnu yfir höfuð út af fötlun sinni. Vottorð frá C, heimilislækni eiginmanns kæranda, hafi verið til staðar hjá Tryggingastofnun þar sem sjúkdómi hans sé lýst. Greinargerðarhöfundur fari með rangt mál. Samkvæmt lögum og reglugerðum sé kveðið á um að umsækjandi geti sótt um maka- og umönnunarbætur sé um skert starfshlutfall að ræða. Hann þurfi almennt aðstoð við daglegar athafnir og hann njóti ekki neinnar dagvistar fyrir utan heimili. Kærandi hafi verið mjög dugleg við að aðstoða hann, bæði andlega og líkamlega með erfiða sem og auðvelda hluti sem hann geti ekki sinnt vegna fötlunar sinnar og hafi annast hann mjög vel. Þrisvar í viku mæti kærandi á X til að ná í lyfin sín sem hún taki samviskusamlega á hverjum degi eins og hún hafi gert í um það bil þrjú ár, eða frá því að hún hafi verið útskrifuð. Hún geri það í fullu samráði við lækna þar. Hún sé alveg fullfær um að annast umönnun annars aðila sem vilji svo til að sé eiginmaður hennar og hljóti þau að vita það betur en stofnunin í þessu tilviki.
Það geti allir séð sem vilji að eiginmaður kæranda sé […] á líkamanum, sjúkdómur sem hann hafi hvorki beðið um né hafi getað gert nokkuð að. Það þurfi engan sérfræðing eða lækni til að dæma um það sem sé staðreynd. Þessi sjúkdómur hafi hrjáð hann frá unga aldri og hann telji það rétt sinn sem sjúkling í landi sem hann sé fæddur og uppalinn að kærandi sé á umönnunarbótum.
Sú umfjöllun í greinargerð Tryggingastofnunar um að þar sem greiðslur makabóta til kæranda fyrir tímabilið 1. mars 2018 til 29. febrúar 2020 hafi verið greiddar vegna mistaka hljómi eins og kærandi og eiginmaður hennar hafi verið að beita bótasvikum til að verða sér úti um pening frá hinu opinbera. Staðreyndin sé sú að kærandi hafi fyllilega átt rétt á þessum bótum samkvæmt reglugerðum og lögum, eiginmaður kæranda sem sjúklingur og kærandi sem maki hans. Þau séu gift að lögum frá X 2017. Það megi því álykta frá lögum og reglum að Tryggingastofnun hafi ranglega synjað kæranda um áframhaldandi greiðslur makabóta.
Maka- og umönnunarbætur samkvæmt 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega eða öðrum sem haldi heimili með lífeyrisþega vegna umönnunar lífeyrisþegans. Greiðslur nemi allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu, sbr. 18. og 22. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 og reglum um maka- og umönnunrabætur nr. 407/2002, sbr. breytingareglugerð nr. 1253/2016.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á makabótum.
Maka- og umönnunarbætur samkvæmt 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt, ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega eða öðrum sem haldi heimili með lífeyrisþega vegna umönnunar hans sem nemi allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu, sbr. 18. og 22. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og reglum um maka- og umönnunarbætur nr. 407/2002, sbr. breytingareglugerð nr. 1253/2016.
Í 5. gr. laga um félagslega aðstoð segi að makabætur sé heimilt að greiða ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi en þar sé ekki skilgreint hvaða sérstöku ástæður falli þar undir. Í ákvæðinu segi á hinn bóginn að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Slíkar reglur hafi verið settar í reglum nr. 407/2002, sbr. breytingareglugerð nr. 1253/2016.
Í 1. gr. reglnanna komi fram nánari skilgreining á því hvenær eigi við að greiða makabætur. Þar segi að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega bætur vegna umönnunar lífeyrisþegans.
Ákvæði um makabætur hafi verið að finna í lögum um almannatryggingar frá árinu 1946 til 1993. Frá 1. janúar 1994 hafi ákvæðið verið að finna í lögum um félagslega aðstoð. Ákvæðið hafi frá upphafi verið orðað með sambærilegum hætti og sé nú í dag.
Bent skuli á að í greinargerð með frumvarpi sem hafi orðið að lögum nr. 73/1985 hafi verið kveðið á um breytingu á ákvæðinu um makabætur í þágildandi almannatryggingalögum nr. 67/1971, sé að finna upplýsingar um sögu ákvæðisins og tilgang. Þar komi skýrt fram að litið sé svo á að makabætur greiðist þeim sem bundnir séu heima við vegna örorku eða langvinns sjúkdóms maka og geti af þeim sökum ekki aflað sér tekna.
Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um makabætur vegna umönnunar maka síns með umsókn, dags. 16. apríl 2020.
Umsókninni var synjað með bréfi, dags. 25. maí 2020, á grundvelli þess að upplýsingar um færniskerðingu kæranda sem komi fram í umsókn um örorkulífeyri, dags. 14. febrúar 2020, gæfi tilefni til að telja að hún væri ekki fær um að annast þá umönnun maka síns sem væri grundvöllur fyrir greiðslu makabóta. Að auki hefðu ekki borist upplýsingar um hvort um greiðslur hefði verið að ræða í fyrra búsetulandi, B, sem væru ósamrýmanlegar með makabótum. Það breyti ekki niðurstöðunni að borist hafi afturköllun á umsókn um örorkulífeyri, dags. 20. maí 2020.
Mótmælum frá maka kæranda sem hafi borist með tölvupósti, dags. 26. maí 2020, hafi verið svarað með bréfi, dags. 3. júní 2020, með ábendingu um heimild til að kæra ákvörðunina. Ekki hafi verið talin ástæða til að rökstyðja ákvörðunina frekar þar sem rökstuðningur fyrir henni hafði komið fram í ofangreindu bréfi, dags. 25. maí 2020.
Með umsókn um makabætur, dags. 16. apríl 2020, hafi fylgt læknisvottorð C, dags. 21. apríl 2020.
Kærandi hafi sótt upphaflega um makabætur með umsókn, dags. 27. febrúar 2018, ásamt læknisvottorði C, dags. 27. febrúar 2018. Hún hafi flutt hingað til lands þann […] 2017.
Með bréfi, dags. 6. mars 2018, hafi verið óskað eftir gögnum sem hafi vantað með umsókninni sem hafi verið svarað með tölvupósti frá eiginmanni kæranda, dags. 9. mars 2018, þar sem fram hafi komið sú útskýring á því að ekki væru til staðfesting á tekjumissi og launaseðlar, þ.e. að hún hafi ekki verið að vinna á Íslandi. Hún sé nú skráð inn í íslenska kerfið og þau hafi gift sig […] 2017. Staðfesting frá lækni um að maki kæranda þurfi hjálp við daglegar athafnir vegna fötlunar væri væntanleg til Tryggingastofnunar. Hann hafi verið lamaður […], sé bæði með […], fyrir utan að hann hafi X brotnað […].
Með bréfi, dags. 20. mars 2018, hafi verið samþykkt að greiða kæranda makabætur fyrir tímabilið 1. mars 2018 til 28. febrúar 2019.
Kærandi hafi sótt um makabætur að nýju með umsókn, dags. 11. febrúar 2019, ásamt læknisvottorði C, dags. 13. febrúar 2019, samhljóða fyrra vottorði. Einnig hafi borist útprentun úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, dags. 21. febrúar 2019, þar sem fram hafi komið þær upplýsingar að einu tekjur hennar hér á landi fyrir árið 2018 og janúar 2019 hafi verið makabætur frá Tryggingastofnun.
Með bréfi, dags. 20. febrúar 2019, hafi verið óskað eftir gögnum sem hafi vantað með umsókninni.
Með bréfi, dags. 1. mars 2019, hafi umsókninni verið synjað á grundvelli þess að innsend gögn hefðu ekki sýnt fram á umönnunarþörf við daglegar athafnir.
Kærandi hafi sótt að nýju um makabætur með umsókn, dags. 4. mars 2019. Með umsókninni hafi borist bréf frá þeim hjónum, dagsett sama dag, ásamt staðfestingu E, læknis á X, dags. 15. mars 2019, um innritanir kæranda á sjúkrastofnanir X á tímabilunum 9. til 18. júlí 2017 og 4. til 15. október 2018.
Með bréfi, dags. 21. mars 2019, hafi umsókninni verið synjað á grundvelli þess að innsend gögn hafi ekki sýnt fram á umönnunarþörf við daglegar athafnir.
Með bréfi, dags. 26. mars 2019, hafi verið samþykkt að greiða kæranda makabætur fyrir tímabilið 1. mars 2019 til 28. febrúar 2020. Ekki liggi fyrir upplýsingar um á hvaða grundvelli greiðslur hafi þarna verið samþykktar aðeins fimm dögum eftir að synjað hafði verið.
Með bréfi, dags. 18. september 2019, hafi kæranda verið tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun á makabótum vegna þess að kærandi hafi dvalið hluta ársins í C, bæði árið 2018 og 2019. Makabætur séu greiðslur félagslegrar aðstoðar og séu greiðslur sem ekki séu greiddar úr landi. Að auki séu makabætur heimildargreiðslur sem sé heimilt að greiða ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.
Á þessum tíma hafi borist upplýsingar um innskráningar kæranda á Mínar síður á vef Tryggingastofnunar fyrir árin 2018 og 2019.
Árið 2018 hafi innskráningar verið tíu frá C og þrjár frá Íslandi. Árið 2019 hafi innskráningar fyrstu átta mánuði árins verið sjö frá C og fjórar frá Íslandi.
Í framhaldi af bréfi þessu hafi kærandi og maki hennar mætt á fund með þáverandi framkvæmdastjóra færnisviðs. Á fundinum muni hafa komið fram upplýsingar um veikindi kæranda sem hafi verið þess eðlis að endurhæfingarlífeyrir eða tímabundinn örorkulífeyrir hafi átt betur við en makabætur.
Kærandi uppfylli að svo stöddu ekki skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris, sbr. ákvæði 7. gr. laga um félagslega aðstoð, vegna þess að upplýst hafi verið að færniskerðing hennar hafi verið til staðar við flutning hennar hingað til lands í desember 2017 og hún uppfylli því ekki búsetuskilyrði fyrir þeim greiðslum, þ.e. að hafa verið búsett hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin.
Hvað varði tímabundinn örorkulífeyri þá hafi greiðsla örorkulífeyris verið bundin þeim takmörkunum að annars vegar sé í 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 kveðið á um að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og hins vegar ef réttur til örorkulífeyris teljist vera fyrir hendi myndi útreikningur á greiðslum miðast við að kærandi hafi ekki uppfyllt það skilyrði að hafa verið búsett hér á landi a.m.k. 3 síðustu árin.
Af óljósum ástæðum hafi verið haldið áfram að greiða kæranda makabætur eftir þennan fund.
Tryggingastofnun hafi sent fyrirspurn til B, dags. 6. mars 2020, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um réttindi hennar í B. Svar með staðfestingu á tryggingatímabilum, E 205, hafi borist frá B, dags. 30. mars 2020, þar sem fram hafi komið upplýsingar um að hún hafi verið tryggð þar „0.9028 hluta af árinu 2006 og 1.0000 hlut af árinu 2007.“ Hvorki hafi verið upplýst um möguleg réttindi hennar vegna örorku í B né hvort hún hefði verið búsett þar frá árinu 2007.
Tryggingastofnun hafi sent ítrekun á fyrirspurninni, dags. 18. maí 2020, sem hafði verið send 6. mars. Svar hafi borist með útfyllingu á svarhluta við fyrirspurn þar sem fram hafi komið að kærandi hefði aldrei unnið í B og hefði aldrei fengið greiddan lífeyri þaðan. Einnig komi fram að tryggingatímabil sem staðfest hefði verið í staðfestingu á tryggingatímabilum, sem hefði verið sent þann 30. mars 2020, hefðu verið vegna styrks sem hún hefði fengið úr ríkissjóði vegna uppeldis barns undir þriggja ára aldri.
Með umsókn, dags. 16. apríl 2020, hafi kærandi sótt að nýju um makabætur. Með umsókninni hafi borist bréf frá þeim hjónum, dags. 24. apríl 2020, og læknisvottorð frá C, dags. 21. apríl 2020, samhljóða fyrri læknisvottorðum, sem hafi borist með umsóknum um makabætur, að öðru leyti en því að fram hafi komið að eiginmaður kæranda hefði ekki þurft á heimahjúkrun að halda og ekki dagvistun utan heimilis. Eins og fram komi hér að ofan hafi umsókninni verið synjað með bréfi, dags. 25. maí 2020.
Við yfirferð á gögnum vegna umsókna kæranda um makabætur í tengslum við afgreiðslu umsóknar hennar, dags. 16 apríl 2020, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að kærandi hefði fengið greiddar makabætur í tvö ár hefði réttur til þeirra greiðslna í raun aldrei verið fyrir hendi. Hún hafi fengið greiddar makabætur án þess að sýnt hefði verið fram á umönnunarþörf maka og því til viðbótar hafi borist upplýsingar um færniskerðingu hennar sjálfrar sem beri með sér að hún sé ekki fær um að annast umönnun annars aðila. Verði því ekki annað séð en að greiðslur makabóta sem hafi átt sér stað til hennar hafi verið mistök af hálfu Tryggingastofnunar.
Þar sem greiðslur makabóta til kæranda fyrir tímabilið 1. mars 2018 til 29. febrúar 2020 hafi þannig verið greiddar vegna mistaka verði kærandi ekki endurkrafin um þær greiðslur sem hún hafi fengið fyrir þetta tímabil.
Tryggingastofnun telji að kæranda hafi réttilega verið synjað um áframhaldandi greiðslur makabóta.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. maí 2020 um að synja umsókn kæranda um greiðslu makabóta.
Um maka-/umönnunarbætur er fjallað í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga samkvæmt 18. og 22. gr. laga um almannatryggingar. Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur. Þá kemur fram að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
Reglur nr. 407/2002 um maka- og umönnunarbætur voru settar með heimild í lögum nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, sem felld voru úr gildi með núgildandi lögum um félagslega aðstoð. Reglunum var breytt með reglum nr. 1253/2016. Þar er að finna í 1. gr. ákvæði sem er að mestu samhljóða 5. gr. framangreindra laga. Svohljóðandi er 1. málsliður 1. gr. reglnanna:
„Heimilt er, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega bætur vegna umönnunar lífeyrisþegans.“
Í 2. málsl. 2. gr. kemur fram að sýna skuli fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega. Svohljóðandi er 3. gr. reglnanna:
„Umsókn um maka- eða umönnunarbætur skal fylgja læknisvottorð þar sem tilgreind er umönnunarþörf lífeyrisþegans. Jafnframt skal lögð fram staðfesting á tekjutapi eða tekjuleysi.“
Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 73/1985, um breytingu á lögum nr. 67/1971 um almannatryggingar, koma fram upplýsingar um sögu og markmið ákvæðisins. Þar segir meðal annars svo:
„Markmið þessa frumvarps er að hækka greiðslur makabóta til þeirra sem bundnir eru heima við vegna örorku eða langvinns sjúkdóms maka og geta af þeim sökum ekki aflað sér tekna.“
Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð C, dags. 13. febrúar 2019, og segir þar:
„Það vottast hér með að [,,,] eiginmaður hennar er öryrki með […] síðan hann fékk […] ára gamall. Hann varð fyrir byltu í […] og þá datt hann og fékk pertrochanter brot X megin. Hann fór í aðgerð á X sem gekk vel. Í […] fór hann í aðra aðgerð til að leiðrétta kreppu í […] sem hann hefur haft í langan tíma. Er með stálplötu í X með festingum niður í X læri eftir […] brot.
Vinnur sem X og stundar sund reglulega.
Við skoðun gengur hann haltur með vöðvarýrnun í X hluta líkamans.
Hann þarf aðstoð við heimilishald vegna sinnar fötlunar og því sækir kona hans um umönnunarbætur [… ].“
Þá liggja einnig fyrir vottorð C, dags. 27. febrúar 2018 og 21. apríl 2020, sem einnig eru nær samhljóða fyrrgreindu vottorði, en í síðarnefnda vottorðinu kemur fram að eiginmaður kæranda hafi hvorki þurft á heimahjúkrun né dagvistun utan heimilis að halda.
Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda um makabætur á þeim grundvelli að upplýsingar um færniskerðingu kæranda sem komu fram í umsókn um örorkulífeyri, dags. 14. febrúar 2020, gæfu tilefni til að telja að kærandi væri ekki fær um að annast þá umönnun maka síns sem væri tilefni til greiðslu makabóta. Að auki hefðu ekki borist upplýsingar um hvort um greiðslur væri að ræða í fyrra búsetulandi kæranda, B, sem væru ósamrýmanlegar með makabótum. Þá kemur fram í greinargerð Tryggingastofnunar að ekki hafi verið sýnt fram á umönnunarþörf maka.
Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á fyrirliggjandi gögn. Það er skilyrði fyrir greiðslu maka- og umönnunarbóta að sýnt sé fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda og að fyrir liggi læknisvottorð sem tilgreini umönnunarþörf lífeyrisþegans, sbr. 2. og 3. gr. reglna nr. 407/2002 um maka- og umönnunarbætur. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af framangreindum ákvæðum og lögskýringargögnum, sem rakin eru hér að framan, að tilgangur maka- og umönnunargreiðslna sé að tryggja framfærslu umsækjanda vegna tekjutaps/tekjuleysis sem hann verður fyrir vegna umönnunarþarfa viðkomandi lífeyrisþega. Úrskurðarnefndin telur því að skilyrði fyrir greiðslum séu ekki uppfyllt nema það liggi fyrir að umsækjandi verði fyrir tekjuleysi/tekjutapi vegna þarfa lífeyrisþega fyrir umönnun.
Í þeim læknisvottorðum, sem liggja fyrir í málinu, kemur fram að eiginmaður kæranda sé með cerebral palsy og gangi haltur við skoðun með vöðvarýrnun í X hluta líkamans. Þá segir að kærandi þurfi aðstoð við heimilishald vegna sinnar fötlunar en hafi hvorki þurft á heimahjúkrun né dagvistun utan heimilis að halda.
Í máli þessu liggja engin gögn fyrir um tekjuleysi/tekjutap kæranda. Þá telur úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, að ekki verði ráðið af þeim læknisvottorðum sem liggja fyrir að þörf eiginmanns kæranda fyrir umönnun sé slík að möguleikar hennar til tekjuöflunar séu skertir sökum þeirrar umönnunar. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllir kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslum makabóta.
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur makabóta er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um makabætur, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir