Hoppa yfir valmynd

Nr. 213/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 213/2019

Miðvikudaginn 4. september 2019

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur.

Með bréfi 27. maí 2019 kærði C hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 29. apríl 2019 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, D. Er þess krafist að úrskurði barnaverndarnefndarinnar verði hrundið og að umgengni kæranda við stúlkuna verði einn [...] í mánuði í sex klukkustundir í senn, án eftirlits.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er fædd árið Xog lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar og hefur verið svipt forsjá hennar og systkina hennar.

Stúlkan hefur verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá því að hún var vistuð utan heimilis í X. Hún hefur verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá því í X.

Frá því að stúlkan var vistuð utan heimilis hefur hún verið í reglulegri umgengni við kæranda, föður, móðurömmu og móðurafa, föðurömmu og föðurafa.

Málið á sér langa forsögu. Samkvæmt gögnum málsins var það fyrst lagt fyrir Barnaverndarnefnd B árið X þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni við börn sín, en kærandi fór ein með forsjá þeirra. Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, sem lögð var fyrir fund Barnaverndarnefndar B X, kom fram að mál barna kæranda hafi verið í vinnslu hjá barnaverndarnefndinni frá X. Gögn málsins sýni að börn kæranda hafi mátt upplifa [...] sem skapað hafi þeim ójafnvægi í tilfinningalífi og óstöðugleika í nærumhverfi. Barnaverndarnefndin hafi úrskurðað um að börn kæranda skyldu vistuð utan heimils í X mánuði frá X á grundvelli b. liðar 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Einnig var ákveðið að gera um það kröfu fyrir dómstólum að kærandi yrði svipt forsjá barnanna fyrir dómi. Kærandi átti umgengni við börnin í þrjár klukkustundir X en mætti ekki í umgengni X sama ár. Síðar náðist samkomulag um að kærandi og faðir D ættu umgengni við hana  í tvö skipti undir eftirliti í þrjár klukkustundir í X. Málið var síðan lagt fyrir barnaverndarnefndina. Þar lá fyrir sú tillaga að börn kæranda hefðu umgengni við foreldra sína í þrjár klukkustundir, tvisvar í mánuði undir eftirliti. Úrskurðað var í málinu X á þá leið að kærandi hefði umgengni við börnin átta klukkustundir [...] í mánuði og átta klukkustundir [...] í mánuði. Umgengni við D yrði auk þess fimm klukkustundir [...] í mánuði. Móður kæranda var falið að hafa eftirlit með umgengninni.

Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar og X systkina hennar með dómi Héraðsdóms B X sem staðfestur var í Hæstarétti X.

Málið var tekið fyrir hjá Barnaverndarnefnd B X og kveðinn upp úrskurður, meðal annars þess efnis að umgengni kæranda við stúlkuna yrði tvisvar sinnum á ári undir eftirliti starfsmanns barnaverndar. Var úrskurðurinn kærður til kærunefndar barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem staðfesti hann með úrskurði X.

Hinn X óskaði kærandi þess að umgengni við stúlkuna yrði aukin verulega og yrði að minnsta kosti sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn. Í greinargerð starfsmanna barnaverndar, sem unnin var fyrir fund barnaverndarnefndar X þegar stúlkan var X ára, kemur fram að starfsmenn hafi farið í reglulegar heimsóknir á fósturheimili og umgengni hafi einnig verið undir eftirliti starfsmanna. Miklar framfarir hafi orðið hjá stúlkunni í þroska og hegðun þann tíma sem hún hafi dvalið hjá fósturforeldrum. Hún hafi lært að lesa betur í umhverfi sitt og henni hafi verið sett mörk. Þá sé hún farin að sýna meiri ró og jafnvægi og hætt að bregðast við mótlæti á óviðunandi hátt, auk þess að hafa tekið miklum framförum í almennum mannasiðum. Einbeiting hennar hafi aukist og hún sýni þörf fyrir nánd, kærleika og vilja til að vera hluti af fjölskyldunni. Barnaverndarnefnd B kvað upp úrskurð í málinu X. Þar var ákveðið að umgengni kæranda við stúlkuna yrði tvisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns barnaverndar. Var úrskurðurinn kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti hann með úrskurði í máli nr. X.

Hinn X var gerður samningur um umgengni við kæranda þess efnis að umgengni yrði tvisvar á ári í þrjár klukkustundir. Ekki var kveðið á um eftirlit.

Hinn 11. apríl 2019 óskaði kærandi eftir því að umgengni yrði einu sinni í mánuði frá föstudegi til sunnudags á heimili hennar. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B 29. apríl 2019 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin tvisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B kveður á um að umgengni D, við móður sína, A, verði tvisvar sinnum á ári, í X og í X, þrjár klukkustundir í senn án eftirlits barnaverndarstarfsmanns.“

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og breytt á þá leið að umgengni verði ákveðin einn laugardag í mánuði í sex klukkustundir í senn. Þá er þess krafist að umgengni fari fram á sama tíma og umgengni kæranda við önnur börn sín og að umgengni fari fram á heimili kæranda án eftirlits.

Kærandi telur að við úrlausn málsins verið að hafa að leiðarljósi það sem barni sé fyrir bestu og vísar í því sambandi til 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013 og 1. mgr. 4. gr. bvl. Kærandi telur hagsmuni sína og hagsmuni stúlkunnar fara saman í málinu. Sameiginlegir hagsmunir þeirra lúti að því að best sé að umgengni verði tíðari og fari fram með reglulegum hætti. Það sé best fyrir sameiginlega hagsmuni kæranda og stúlkunnar að umgengni fari fram einu sinni í mánuði í sex tíma í senn.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. sé það grundvallarmarkmið í öllu barnaverndarstarfi að stuðla að stöðugleika í uppvexti barns. Kærandi telji sérstaklega mikilvægt að stuðla að sem mestum stöðugleika í lífi stúlkunnar.

Í hinum kærða úrskurði komi fram að það sé afstaða fósturforeldra að vegna tengslaröskunar stúlkunnar sé best fyrir hana að búa við reglusemi og öryggi í daglegu lífi. Telji fósturforeldrar því að aukin umgengni trufli reglusemi, umgjörð og uppeldisaðstæður stúlkunnar. Í hinum kærða úrskurði hafi verið tekið undir þessi sjónarmið með þeim hætti að vísað hafi verið til þess að ekki mætti valda truflunum og utanaðkomandi áreiti á stúlkuna og að umgengnin yrði að þjóna hagsmunum hennar.

Krafa kæranda lúti að því að umgengni verði tíðari en ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði, þ.e. einu sinni í mánuði í stað tvisvar sinnum á ári. Kærandi mótmæli því að beiðni hennar um aukna umgengni sé reist á eigin hagsmunum en ekki hagsmunum stúlkunnar. Kærandi telji að aukin umgengni þjóni hagsmunum þeirra beggja. Kærandi áréttar í því sambandi að bætt staða hennar hafi áhrif á upplifun stúlkunnar af umgengni og hafi því áhrif við mat á því hvort aukin umgengni sé til þess fallin að þjóna hagsmunum stúlkunnar. Kærandi telur aukna umgengni ekki einungis samræmast betur vilja stúlkunnar heldur telur kærandi aukna umgengni vera til þess fallna að stuðla að bættri líðan stúlkunnar og aukins stöðugleika í hennar lífi.

Kærandi hafni því að aukin umgengni sé til þess fallin að valda raski á lífi stúlkunnar. Til þess að stuðla að stöðugleika í lífi stúlkunnar telji kærandi að tíðari umgengni þjóni hagsmunum hennar betur. Kærandi telji að svo lítil umgengni valdi frekar tilfinningalegu raski á lífi hennar. Þá telji kærandi að það hafi slæm áhrif á hegðun og líðan stúlkunnar að hafa svo litla umgengni við sig. Kærandi telji því samræmast mun betur hagsmunum stúlkunnar að umgengni verði reglubundinn þáttur í lífi hennar og telji hún það til þess fallið að stuðla að stöðugleika í lífi stúlkunnar, bæði í ytri aðstæðum sem og tilfinningalega. Kærandi álíti því að stöðugleikasjónarmið styðji kröfu hennar um aukna umgengni.

Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46., gr. og 2. mgr. 63. gr. a bvl. Réttur barns til þess að hafa áhrif í öllum málum er varði það, svokallaður samráðsréttur, sé einnig lögfestur í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Einnig  hafi tengsl barns við foreldri almennt umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmála.

Til þess að hægt sé að komast að því hver sé vilji barns og jafnframt til þess að komast að því hvað sé best fyrir barnið hverju sinni sé mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sinni rannsóknarskyldu sinni. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við  rannsóknarreglu í 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í málinu.

Að mati kæranda hafi vilji barnsins ekki verið kannaður með fullnægjandi hætti við vinnslu málsins. Stúlkunni hafi ekki verið skipaður talsmaður og ekki hafi verið tekin afstaða til þess með skýrum hætti hvort nauðsynlegt væri að skipa henni talsmann. Þá virðist vilji stúlkunnar ekki hafa verið kannaður yfir höfuð með formlegum hætti við úrlausn málsins, þrátt fyrir að hún sé nú á X aldursári. Kærandi telji að barnaverndaryfirvöldum hafi borið að leitast við að leiða vilja stúlkunnar í ljós með einum eða öðrum hætti áður en ákvörðun hafi verið tekin um umgengni. Svokallaður samráðsréttur sé réttur allra barna til þess að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif í öllum málum sem þau varði, auk þess sem vilji barns hljóti alla jafna að vega þungt við mat á því hvað sé barni fyrir bestu. Þótt áhrif vilja barns á úrslit máls séu aukin eftir því sem barnið sé eldra þá eigi ung börn eftir sem áður einnig rétt á að láta vilja sinn í ljós. Um sé að ræða grundvallarréttindi barnsins sem hafi verið brotin við málsmeðferð þessa.

Um rétt barns til þess að tjá sig um hvert mál sem það varði sé vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 29. nóvember 2017 í máli nr. 703/2017 en í dóminum sé fjallað með ítarlegum hætti um réttindi barna samkvæmt 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Af dóminum sé ljóst að meginreglan sé sú að lögskylt sé að leita eftir afstöðu barns þegar mál séu rekin fyrir stjórnvöldum sem varða hagsmuni barnsins. Aðeins í undantekningartilvikum sé heimilt að víkja frá meginreglunni ef slíkt samráð geti haft skaðleg áhrif á hagsmuni barnsins eða ef það sé þýðingarlaust fyrir úrslit máls. Þá megi jafnframt leiða af dóminum að ef þessi grundvallarréttindi barns séu brotin við málsmeðferð sé annmarkinn slíkur að ómerkja beri hina kærðu ákvörðun en í fyrrgreindu máli hafi dómi héraðsdóms verið vísað aftur heim í hérað þar sem látið hafi verið hjá líða að kanna vilja barnsins. Enn fremur leiði af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að ef mál er ekki nægjanlega rannsakað að undangenginni ákvörðun kunni það að valda ómerkingu stjórnvaldsákvörðunar.

Kærandi telji að fjöldi gagna í málinu frá upphafi hafi ekkert vægi við mat á því hvort þetta tiltekna umgengnismál hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti eða ekki. Kærandi telji annars vegar að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti þar sem vilji stúlkunnar hafi ekki verið kannaður við meðferð málsins. Vegna þessa hafi ekki einungis skort á rannsókn málsins að undangengnum úrskurði heldur hafi grundvallarréttindi stúlkunnar verið virt að vettugi. Varðandi dóm Hæstaréttar í máli nr. X telji kærandi að umfjöllun dómsins um réttindi allra barna samkvæmt 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992, til þess að tjá skoðanir sínar í öllum málum er varði það eigi vel við í þessu máli, enda séu réttindi barna samkvæmt 12. gr. ekki bundin við forsjármál en þau eigi ekki síður við í málum sem þessu. Kærandi mótmæli því að barn á X aldursári sé svo ungt að þýðingarlaust sé fyrir úrlausn málsins að leita eftir afstöðu þess. Kærandi telji ljóst að stúlkan, sem nú sé á X aldursári, sé nægilega þroskuð til þess að mynda sér skoðun á málinu og til þess að geta tjáð hana með skýrum hætti. Í þessu sambandi sé tekið fram að 12. gr. feli raunar í sér tvíþætt réttindi fyrir börn, annars vegar rétt til þess að tjá skoðun sína og hins vegar rétt til þess að hafa áhrif á mál sem þau varði í samræmi við aldur og þroska. Hefði því verið rétt málsmeðferð í máli þessu að leita eftir afstöðu stúlkunnar og meta síðan hversu mikið vægi skoðun hennar ætti að hafa í málinu. Af framkvæmd sé ljóst að barn á aldri við dóttur kæranda geti almennt séð bæði myndað sér skoðun á málum sem það varði og tjáð hana. Í dæmaskyni megi líta til þess að í dómi Hæstaréttar Íslands 2003, X hafi vilji X ára barna verið kannaður, í dómi Hæstaréttar Íslands 2004, X hafi vilji X ára barna verið kannaður og í dómi Hæstaréttar Íslands 12. júní 2008 (X) hafi vilji Xára barns verið kannaður. Öll framangreind mál hafi eins og mál Hæstaréttar Íslands nr. X verið forsjármál en af þeim megi draga þá ályktun að barn á aldri við dóttur kæranda geti myndað sér skoðun, tjáð hana og að líta beri til hennar við úrlausn mála er börnin varði. Telji kærandi því ljóst að með því að láta hjá líða að kanna vilja stúlkunnar í máli þessu vegna þess að barnavernd hafi talið það þýðingarlaust sökum ungs aldurs stúlkunnar, hafi málið ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti, auk þess sem brotið hafi verið á grundvallarrétti stúlkunnar við meðferð málsins. Þegar af þeirri ástæðu beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Kærandi taki fram að hún telji að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað varðandi meint slæm áhrif umgengni á stúlkuna. Í hinum kærða úrskurði og í greinargerð barnaverndarnefndar 11. júní 2019 sé á því byggt að umgengni stúlkunnar við kæranda sé andstæð hagsmunum hennar þar sem umgengnin raski sálarró hennar, geri hana órólega dagana á eftir umgengni og leiði til þess að hún pissi á sig í kjölfar heimsókna kæranda. Kærandi mótmæli öllum staðhæfingum um að umgengni stúlkunnar við sig valdi slíku ójafnvægi hjá stúlkunni og bendi á að staðhæfingar um þetta komi einvörðungu frá fósturforeldrum stúlkunnar sem ekki geti talist hlutlausir í málinu. Varðandi [...] vísi kærandi til þess að samkvæmt upplýsingum frá skóla stúlkunnar [...] og sé það vandamál því ekki bundið við umgengni stúlkunnar við kæranda. Þá telji kærandi að ótækt sé að leggja til grundvallar að umgengnin valdi stúlkunni óróleika, án þess að frekari gögn liggi því til grundvallar. Kærandi telji að í ljósi rannsóknarreglu hafi barnavernd borið af afla upplýsinga um þetta atriði frá öðrum og hlutlausum aðilum sem umgangist stúlkuna með reglubundnum hætti. Þar sem það hafi ekki verið gert séu einu upplýsingar um hinn meinta óróleika stúlkunnar frásagnir fósturforeldra sem ekki sé hægt að leggja til grundvallar gegn andmælum kæranda.

Kærandi telur að það sé ótækt að vísa til almennra markmiða með umgengni í varanlegu fóstri um að þekkja uppruna án þess að farið sé í sérstakt mat á því hvað sé þessu tiltekna barni fyrir bestu, en kærandi telji einmitt að tengsl stúlkunnar við sig og systkini sín séu slík að best sé fyrir hana að viðhalda þeim tengslum í stað þess að rjúfa þau. Kærandi telji að vilji stúlkunnar standi til þess að eiga meiri umgengni við sig, auk þess sem hún telji tengsl sín við barnið sterk. Að mati kæranda hafi þessum atriðum ekki verið veitt nægilegt vægi við ákvörðun um umgengni. Telji hún að það tengslarof sem kunni að hljótast af of lítilli umgengni geti verið skaðlegt fyrir stúlkuna til lengri tíma og sem fyrr segir telji hún það til þess fallið að valda óstöðugleika í lífi stúlkunnar. Þá telji kærandi jafnframt að líta verði til tengsla stúlkunnar við systkini sín en krafa kæranda lúti að því að stúlkan hafi jafnframt tíðari umgengni við systkini sín. Kærandi telji mikilvægt fyrir stúlkuna að efla þau fjölskyldutengsl sem hún eigi og að njóta samveru við systkini sín.

Í greinargerð barnaverndarnefndar komi fram að mikilvægt sé að stúlkan fái að mynda góð tengsl við fósturforeldra sína í friði og ró og að aukin umgengni samræmist ekki markmiðum varanlegs fósturs. Kærandi telji að við ákvörðun á umgengni beri að gera atviksbundið mat með hagsmuni og þarfir þess barns sem um ræði að leiðarljósi, en kærandi telji samræmast betur hagsmunum stúlkunnar að hafa meiri umgengni við sig. Fjöldi dæma séu til um að það að börn í varanlegu fóstri njóti tíðari umgengni við foreldra sína og er því ekki hægt að ganga út frá því að svo lítil umgengni samræmist alltaf betur hagsmunum barna í varanlegu fóstri. Þá telji kærandi að þótt stúlkan fái meiri umgengni við sig og fái þar af leiðandi að mynda sterkari tengsl við sig og systkini sín, sé það ekki til þess fallið að raska eða koma í veg fyrir að stúlkan myndi tengsl við fósturforeldra sína. Að mati kæranda sé ekkert því til fyrirstöðu að stúlkan geti myndað náin tengsl bæði við sig og fósturforeldra sína, eitt þurfi ekki að útiloka hitt.

Kærandi telji tillögu barnaverndar brjóta í bága við meðalhófsreglu bvl., sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga, en af ákvæðunum leiði að tillagan verði að vera til þess fallin að ná því markmiði sem að sé stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi.

Kærandi telji að það myndi samræmast betur meðalhófssjónarmiðum að heimila þá umgengni sem hún leggi til, eða aukna umgengni að mati nefndarinnar til reynslu á meðan fylgst sé með hvaða áhrif umgengnin hafi á hagsmuni stúlkunnar. Jafnvel væri hægt að auka umgengnina jafnt og þétt á meðan fylgst væri með hvaða áhrif umgengnin hafi á hagsmuni stúlkunnar. Barnavernd hafi möguleika á því að fylgjast náið með áhrifum aukinnar umgengni á hagsmuni stúlkunnar og eftir atvikum takmarka umgengni á ný ef í ljós komi að umgengnin gangi gegn hagsmunum stúlkunnar.

Kærandi telji það loks samræmast betur jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga að umgengni sé aukin og vísi hún í því skyni til þess að hin börn hennar njóti mun reglulegri umgengni við sig en ákveðin hafi verið í hinum kærða úrskurði. Telji hún atvik vera sambærileg, málin varði öll umgengni barna kæranda við móður sína og því leiði af jafnræðisreglunni að börnin eigi rétt á að njóta sömu umgengni við sig.

Þá telji kærandi að ekki hafi verið tekið nægt tillit til þess í hinum kærða úrskurði hversu verulega staða hennar hafi batnað frá því að stúlkan var vistuð utan heimilis. Þegar stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis hafi kærandi verið [...]. Í dag sé staða hennar verulega breytt. Kærandi telji bætta stöðu sína hafa áhrif á það hvort aukin umgengni sé í samræmi við hagsmuni stúlkunnar vegna þess að bætt staða hennar sé til þess fallin að hafa verulega jákvæð áhrif á upplifun stúlkunnar af umgengninni. Þá leiði af því að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að stúlkunni sé ekki sinnt vel á þeim tíma sem hún sé í umgengni við kæranda, enda hafi kærandi nú alla burði til þess að sinna þörfum hennar.

 

III.  Afstaða Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 11. júní 2019 kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Byggt sé á því að hinn kærði úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og ákvörðunin byggi á málefnalegum sjónarmiðum.

Vísað er til þess að með dómi Hæstaréttar Íslands X hafi kærandi verið svipt forsjá X barna sinna, þar á meðal stúlkunnar sem um ræði í máli þessu. Hinn X hafi barnaverndarnefndin kveðið upp úrskurð um að umgengni kæranda við stúlkuna skyldi vera tvisvar sinnum á ári, í X og X undir eftirliti barnaverndarstarfsmanna. Kærandi hafi kært úrskurðinn til kærunefndar barnaverndarmála sem hafi staðfest hann með úrskurði X.

Kærandi hafi krafist þess með bréfi X að umgengni yrði aukin verulega og að hún yrði að minnsta kosti sex sinnum á ári í sex klukkustundir í senn. Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar X hafi verið ákveðið að umgengnin yrði tvisvar sinnum á ári, í Xog í X, þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns. Kærandi hafi kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hafi staðfest hann með úrskurði í máli nr. X.

Í X hafi kærandi farið fram á að umgengni færi fram án eftirlits. Samkomulag hafi náðst og hafi samningur um umgengni verið undirritaður X. Samkvæmt þeim samningi skyldi umgengni vera tvisvar á ári, í X og X í þrjár klukkustundir. Gildistími samningsins hafi verið til X 2019.

Í apríl 2019 hafi borist beiðni frá kæranda um breytingu á umgengni. Hafi kærandi óskað eftir því að umgengni við stúlkuna yrði jöfn og á sama tíma og umgengni kæranda við eldri börn sín, þ.e. einu sinni í mánuði frá föstudegi til sunnudags á heimili kæranda. Beiðni kæranda hafi verið tekin fyrir á fundi barnaverndarnefndarinnar 29. apríl 2019. Með úrskurði þann dag hafi verið ákveðið að umgengni kæranda við stúlkuna yrði tvisvar sinnum á ári, í X og í X, þrjár klukkustundir í senn án eftirlits barnaverndarstarfsmanns.

Barnaverndarnefndin mótmæli því sem haldið sé fram í kæru að rannsóknarregla 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga og 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins. Hið rétta sé að mál barna kæranda hafi verið í vinnslu hjá barnaverndarnefndinni um X ára skeið og fyrir liggi mikill fjöldi gagna er málið varði. Frá því að stúlkan hafi farið í fóstur X mánaða gömul hafi reglulega farið fram mat á umgengni kæranda við hana. Fyrir fund barnaverndarnefndarinnar hafi því legið öll nauðsynleg gögn til að unnt væri að taka afstöðu áður en ákvörðunin hafi verið tekin.

Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. bvl. skuli barnaverndarnefnd taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að skipa barni talsmann þegar ákvörðun hafi verið tekin um að hefja könnun máls. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi barnaverndarnefndin talið að þýðingarlaust væri fyrir fyrir úrlausn málsins að leita eftir afstöðu barnsins vegna ungs aldurs stúlkunnar. X ára barn hafi að mati barnaverndarnefndarinnar ekki náð nægilegum þroska til að tjá sig um mál af þessu tagi, sér í lagi þegar atvikum sé háttað eins í þessu máli þar sem barnið hafi verið í varanlegu fóstri frá X mánaða aldri og hafi takmörkuð tengsl við kæranda. Slíkt gæti beinlínis haft skaðleg áhrif á stúlkuna, meðal annars í ljósi þess að samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum hafi umgengni við kæranda haft neikvæð áhrif á stúlkuna og hún glímt við tengslaröskun sem sé eitt þeirra atriða sem verið sé að aðstoða með hjá fósturfjölskyldu og í umhverfi stúlkunnar.

Barnaverndarnefndin veki á því athygli að í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. X, X, X og X, sem vísað sé til í kæru, hafi atvik verið frábrugðin þeim sem hér séu til umfjöllunar. Í máli X hafi verið um að ræða afmarkaðan hluta forsjármáls samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 þar sem deilt hafi verið um lögheimili og umgengnisrétt til bráðabirgða. Þetta atriði skipti ef til vill ekki sköpum, heldur sú staðreynd að barnið sem fjallað hafi verið um í hæstaréttarmálinu, hafi verið X árs gamalt, auk þess sem ekki hafi mátt ráða af gögnum málsins að það gæti haft skaðleg áhrif á hagsmuni barnsins eða væri þýðingarlaust fyrir úrslit þess að leita eftir afstöðu þess. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar sé barnið mun yngra, auk þess sem ráða megi af gögnum málsins að stúlkan glími við ýmsa erfiðleika, svo sem tengslaröskun, og það hafi því verið talið verulega íþyngjandi fyrir stúlkuna að ræða við talsmann varðandi umgengni. Barnaverndarnefndin telji að þeir dómar sem kærandi nefni hafi enga þýðingu fyrir úrlausn þessa máls, enda beri að meta hvert og eitt mál sjálfstætt út frá þeim gögnum sem fyrir liggi.

Tekið sé fram að stúlkan njóti meðal annars aðstoðar barnasálfræðings og sérkennara til að fást við afleiðingar tengslaröskunar. Gangi sú meðferð vel og telji starfsmenn barnaverndarnefndarinnar ekki verjandi að stofna þeirri vinnu í hættu með því að leggja það á stúlkuna að kanna afstöðu hennar til umgengni með milligöngu talsmanns.

Barnaverndarnefndin mótmæli því að grundvallarréttindi stúlkunnar hafi verið brotin og telji að sú ákvörðun sem hafi verið tekin hafi verið stúlkunni fyrir bestu. Barnaverndarnefndin telji, gagnstætt því sem haldið sé fram í kæru, að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið bvl. og að beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem verið hafi stúlkunni fyrir bestu, sbr. 4. gr. laganna. Barnaverndarnefndin byggi á því að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefndin hafni því að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega hvað varði slæm áhrif umgengni á stúlkuna. Við vinnslu málsins hafi verið óskað eftir sjónarmiðum fósturforeldra og þar hafi komið fram að heimsóknir stúlkunnar til kæranda hafi haft miklar afleiðingar fyrir sálarró stúlkunnar [...] eftir heimsóknirnar. Við vinnslu málsins á fyrri stigum hafi einnig verið óskað eftir sjónarmiðum fósturforeldra sem hafi verið á sömu leið, þ. e. að umgengni hafi haft slæm áhrif á stúlkuna. Sömuleiðis hafi barnaverndarnefndin óskað eftir sjónarmiðum E við vinnslu málsins. Þá sé rétt að geta þess að umgengni kæranda við stúlkuna hafi lengst af farið fram undir eftirliti starfsmanna barnaverndarnefndarinnar sem hafi orðið vitni af því að umgengni hafi tíðum haft slæm áhrif á stúlkuna. Málið sé því nægilega rannsakað að þessu leyti.

Barnaverndarnefndin sé ósammála því mati kæranda að aukin umgengni sé til þess fallin að stuðla að bættri líðan stúlkunnar og auka stöðugleika í lífi hennar. Gögn málsins segi allt aðra sögu. Fyrir liggi að kærandi hafi gerst sek um margháttaða vanrækslu gagnvart stúlkunni sem hafi orðið til þess að hún var svipt forsjá hennar. Frá því að stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis kæranda hafi umgengni verið takmörkuð, meðal annars í því skyni að bæta líðan stúlkunnar og auka stöðugleika í lífi hennar. Þessi markmið hafi náðst, enda beri gögn málsins með sér að alger viðsnúningur hafi orðið á lífi stúlkunnar frá því að hún fór í fóstur og hún hafi aðlagast fósturfjölskyldu sem hafi tekið að sér uppeldi hennar.

Eins og fram komi í hinum kærða úrskurði hafi kærandi að undanförnu sýnt vilja til að bæta aðstæður sínar. Þetta sé vissulega jákvæð þróun en á hinn bóginn hafi þetta tímabil varað stutt í samanburði við þann langa tíma sem kærandi hafi gerst sek um margháttaða vanrækslu gagnvart börnum sínum en það hafi leitt til þess að hún hafi verið svipt forsjá þeirra. Undir þessum kringumstæðum sé ekki réttlætanlegt að auka umgengni, enda eigi hún að þjóna hagsmunum barnsins en hvorki vera á forsendum kæranda né þjóna hennar hagsmunum.

Markmið varanlegs fósturs sé að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni sem tekið hafi að sér uppeldi barnsins. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barna kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð verulega. Á grundvelli þessara sjónarmiða sé ákvörðun um hina takmörkuðu umgengni reist og byggt á því að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum stúlkunnar og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun hennar í fóstur. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að stúlkan er X ára gömul og hafi verið í fóstri frá því að hún var X mánaða gömul. Með því að ráðstafa henni í varanlegt fóstur sé markmiðið að búa henni nýja fjölskyldu til framtíðar en ekki séu áform um að barnið tilheyri fleiri en einni fjölskyldu. Mikilvægt sé að stúlkan fái að mynda góð tengsl við fósturforeldra sína í friði og ró.

Afstaða fósturforeldra sé skýr um að rýmri umgengni en ákveðin sé í hinum kærða úrskurði sé andstæð hagsmunum stúlkunnar. Af hálfu þeirra komi einnig fram að heimsóknir kæranda hafi miklar afleiðingar fyrir sálarró stúlkunnar [...] eftir heimsóknir kæranda. Það sé því mat fósturforeldra að það geti ekki talist hagsmunir stúlkunnar að trufla þá reglusemi, umgjörð og uppeldisaðstæður sem hún búi við með því að gera henni að hitta kæranda oftar eða lengur en um geti í hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefndin byggi á því að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengnin verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hafi á stúlkuna og líf hennar. Þá sé umgengin í samræmi við það markmið að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni.

Kærandi taki loks fram að við mat á umgengni kæranda við stúlkuna hafi farið fram atviksbundið mat með hagsmuni og þarfir stúlkunnar að leiðarljósi. Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan er rakið telji barnaverndarnefndin að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið með hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanlegur þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur og því beri að staðfesta hinn kærða úrskurð. Með hliðsjón af hinum djúpstæða og langvarandi vanda sem kærandi hafi glímt við um langt árabil sé það mat barnaverndarnefndarinnar að ekki sé grundvöllur fyrir tíðari umgengni kæranda við stúlkuna að svo stöddu.

Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar gerir þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

IV.  Afstaða fósturforeldra

Með tölvupósti 26. ágúst 2019 óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni stúlkunnar við kæranda. Í svari fósturforeldra, sem barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kemur fram að afstaða þeirra sé óbreytt og að þeir mótmæli aukinni umgengni stúlkunnar við kæranda. Fósturforeldrar benda á að ekkert í aðstæðum stúlkunnar hafi breyst þannig að það kalli á þörf fyrir frekari umgengni hennar við móður sína. Málið fjalli um velferð stúlkunnar en ekki löngun móður til aukinnar umgengni. Fram kemur að stúlkan sé í varanlegu fóstri hjá þeim og elst hún upp sem dóttir þeirra í það minnsta fram til 18 ára aldurs.

Í uppeldinu kveðast fósturforeldrar leggja áherslu á stöðugleika og tryggt umhverfi. Að brjóta upp fjölskyldu þeirra einu sinni í mánuði til þess að móðir D geti hitt hana í sex klukkustundir styðji ekki þá vinnu sem þau séu að mynda fyrir D og fjölskyldu sína.  Sú vanlíðan sem D þurfi að kljást við eftir umgengni og móðir hafnar sé þrátt fyrir allt raunveruleikinn sem fjölskyldan þurfi að kljást við.

Fósturforeldrar benda á að það sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að það teljist til mannréttinda barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Ætla má að það hafi verið eitt af markmiðunum með forsjársviptingu foreldra D að skapa henni þessi skilyrði.

Samkvæmt kærunni hafni kærandi þeim aðstæðum sem þau hafi búið D frá því að hún kom til þeirra, nefnilega að heimsóknirnar raski þeim stöðugleika sem þau séu að byggja upp og telur kærandi að það sé til þess fallið að auka stöðugleika að D þurfi að fara af heimili sínu 12 sinnum á ári í sex klukkustundir í senn til þess að móðir geti umgengist hana. Fósturforeldrar hafni því með öllu að aukin umgengni móður sé til þess fallin að auka stöðugleika í lífi D. 

Þegar D kom til fósturforeldra X mánaða gömul hafi hún fengið martraðir allar nætur og grátið í svefni sem sé eitt af einkennum áfallastreitu. Þetta ástand hafi varað fyrstu árin flestar nætur. Síðustu X ár hafi lítið borið á þessu nema tengt heimsóknum til móður.  Heimsóknirnar hafa varað í þrjár klukkustundir en D sé í marga daga að vinna sig út úr hverri heimsókn. Hún glími við [...] í nokkra daga á eftir og ítrekað sé spurt frá skóla hvort eitthvað hafi hent D. Það geti ekki talist þjóna hagsmunum D að vera sett í þá að stöðu að líða illa í fleiri daga í hverjum einasta mánuði. Það reynist henni nógu erfitt að takast á við þessar tilfinningar við þær heimsóknir sem ákvörðun er um nú. Það sé mat fósturforeldra að hagsmunir móður og barns fari hér ekki saman og þegar hagsmunir barns og foreldra fara ekki saman vegi hagsmunir barnsins þyngra á vogarskálunum.           

Í stjórnsýslukærunni sé vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og lögð á það áhersla að ekki hafi verið leitað eftir afstöðu D varðandi aukna umgengni móður.  Í 14. grein 2. lið í nefndum samningi segir: „Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess“.  Hvers á að spyrja barn sem ekki gerir greinarmun á viku og 16 dögum, kann ekki á klukku þannig að hún geti skilgreint tíma? Viltu hitta mömmu í sex klukkustundir einu sinni í mánuði? D sé ekki frekar en önnur X ára börn hæf til að taka ákvörðun um eigin velferð. Hér verðum við sem foreldrar að axla þá ábyrgð sem okkur var falin, nefnilega að ala upp D og taka fyrir hennar hönd eða leiðbeina henni um þær ákvarðanir sem hún hefur ekki þroska til, forsendur eða getu til að taka sjálf. Það sé okkar hlutverk að setja hennar eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni móður. Við þessa ákvarðanatöku horfum við til tilfinningalegs ástands D eftir heimsóknir til móður.

Það liggur í hlutarins eðli sem og barnaverndarlögum að D þarf að þekkja uppruna sinn. Við höfum alltaf tryggt að svo sé og skapað umræðu um fjölskyldu og ramma um þá umgengni sem ákvörðuð var. Í þessu felst jafnframt að við búum D undir það að hún geti síðar á lífsleiðinni þegar hún hefur þroska til og óski hún þess sjálf, hitt móður sína oftar án þess að það raski tilfinningum hennar og sálarlífi frekar en þegar er orðið.

 

V.  Niðurstaða

D er X ára stúlka og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum frá því í X. Stúlkan var í umsjá móður sinnar þar til í X, er hún var tæplega X, en afskipti barnaverndaryfirvalda af aðstæðum hennar hófust í X er hún var X mánaða gömul.

Með dómi Hæstaréttar X var staðfestur dómur Héraðsdóms B frá X um að kærandi skyldi svipt forsjá X barna sinna, þar á meðal stúlkunnar sem um er fjallað í þessu máli. Í dómi héraðsdóms kemur fram með afdráttarlausum hætti að kærandi var talin vanhæf til að fara með forsjá barna sinna. Um X skeið hafi kæranda verið veittur margvíslegur stuðningur við uppeldið en án árangurs. Í dóminum komi fram að kærandi hafi verið [...] gagnvart börnum sínum, hún [...]. Öll samskipti við börnin séu [...]. Kærandi hafi hugsað illa um börnin, [...]. Yngri börnin hafi ekki [...]. Börnin séu [...]. Heilsuvernd barnanna, þar á meðal [...], hafi verið illa sinnt. Kærandi hafi hvorki kennt börnum sínum [...].

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að þrátt fyrir að kærandi hafi sýnt vilja til að bæta aðstæður sínar sé ekki rétt að breyta tilhögun umgengni. Stúlkan hafi verið í fóstri hjá fósturforeldrum frá því að hún var um X mánaða gömul, hún hafi alist upp sem dóttir þeirra og þeir búið henni reglusemi og öryggi sem beri að styðja við. Barnaverndarnefndin telji mikilvægt fyrir þroska og heilbrigði stúlkunnar að hún geti verið í friði og ró í fóstrinu og að hún verði fyrir sem minnstum truflunum og utanaðkomandi áreiti hinna fullorðnu sem hlut eigi að máli.

Í hinum kærða úrskurði kemur einnig fram að mikilvægt sé að hafa í huga að umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna eða þjóna þeirra hagsmunum. Telur barnaverndarnefndin að hagsmunum stúlkunnar sé best borgið með því að umgengni verði með sama hætti og áður

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndarnefndar B 23. apríl 2019 kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá skóla stúlkunnar væri hún oftast glöð og geislandi og henni liði yfirleitt vel í skólanum. Hún sé [...] þegar hún þurfi að fara eftir reglum og því sem ætlast sé til af henni. Hún hafi þó sýnt miklar framfarir frá því í X eftir að farið hafi verið að nota umbunarkerfi og reglur verið samræmdar á milli heimilis og skóla. Fósturforeldrar sjái til þess að stúlkan komi snyrtileg og vel undirbúin í skólann. Heimalærdómur sé til fyrirmyndar. Fósturforeldrar hafi verið í miklu og góðu samstarfi við skólann hvað varði umbunarkerfi, þeir setji stúlkunni sömu mörk og samræmi reglur heima og í skóla. Stúlkan mæti vel í skólann og sé ágætlega stödd námslega. [...] Samskipti við fósturforeldra séu góð og samvinna sé um hvernig brugðist sé við og unnið með ákveðin atriði. Í vetur hafi fósturforeldrar og skóli fengið ráðgjöf kennsluráðgjafa og sálfræðings vegna stúlkunnar hjá þjónustumiðstöð.

Í greinargerð starfsmanna barnaverndar komi einnig fram að stúlkan hafi tekið miklum framförum, sé frjó og skapandi stúlka. Að mati starfsmanna skólans sé vel hugsað um hana og samstarf á milli heimilis og skóla hafi verið gott. Starfsmenn hafi lagt til að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði áfram með sama hætti og áður. Þeir hafi greint frá því að mikið hafi áunnist frá því að stúlkan hafi verið vistuð hjá fósturforeldrum og teldu mjög mikilvægt að halda þeim stöðugleika og því öryggi sem fósturforeldrar hafi skapað í lífi stúlkunnar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda um að umgengni hennar við barnið verði aukin með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Umgengni kæranda við barnið þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun barnsins í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Við mat á þessu breytir í sjálfu sér ekki þótt kærandi hafi með ýmsu móti bætt forsjárhæfni sína. Það er vegna þess að stúlkan er nú í varanlegu fóstri og mikilvægt er að hún fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldunni og mynda við hana tengsl.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni varðandi umgengni. Þar kemur meðal annars fram að afstaða þeirra til aukinnar umgengni sé óbreytt. Að þeirra mati hefur umgengni slæm áhrif á stúlkuna og frekari umgengni myndi einungis auka þann vanda sem hún búi við vegna umgengni við kæranda. Þá benda fósturforeldrar á að stúlkan sé ekki hæf sökum aldurs til þess að taka afstöðu til frekari umgengni við kæranda.

Úrskurðarnefndin tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í hinum kærða úrskurði og greinargerð starfsmanna barnaverndar og rakin hafa verið. Með því að takmarka umgengni kæranda við stúlkuna eins og gert er með hinum kærða úrskurði er stefnt að því að hún fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldunni, án þeirrar truflunar sem umgengni við kæranda er fallin til að valda henni. Markmiðið með því er að tryggja hagsmuni stúlkunnar, öryggi hennar og þroskamöguleika. Einnig ber að líta til þess að með umgengni kæranda við stúlkuna er ekki verið að reyna að styrkja tengsl mæðgnanna frekar heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að barnið þekki uppruna sinn. Ber að haga ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða.

Ekki verður séð að kærandi og stúlkan hafi sameiginlega hagsmuni sem hér skipta máli. Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að staða kæranda sé betri en áður. Það er vegna þess að lögvarðir hagsmunir stúlkunnar eru þeir að hún búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Stúlkunni líður vel og ekkert bendir til að hún hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir stúlkunnar að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.

Á þessum tíma í lífi stúlkunnar eru það því ekki hagsmunir hennar að tekin verði áhætta með því að auka umgengni eða gera tilraunir með aukna umgengni svo sem kærandi leggur til, en aukin umgengni myndi raska ró stúlkunnar í fóstrinu. Fósturforeldrar hafa lagt áherslu á að frekari umgengni við kæranda hefði slæm áhrif á stúlkuna. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur stúlkan hvorki getu né þroska til að meta hvernig umgengni eigi að vera háttað. Úrskurðarnefndin telur þar af leiðandi að það hafi ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að leita eftir afstöðu hennar til umgengni. Verður því ekki fallist á að við rannsókn málsins hafi barnaverndarnefndin brotið gegn 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið, verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldra er ákveðin og að barnaverndarnefndin hafi lagt mat á málið út frá hagsmunum stúlkunnar. Í því felst að gætt hafi verið meðalhófs og jafnræðis við úrlausn málsins.

Með vísan til þess er að framan greinir og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengni kæranda við stúlkuna hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.

 


 

Úrskurðarorð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 29. apríl 2019 varðandi umgengni D við A, er staðfestur.

 

 

Kári Gunndórsson

Hrafndís Tekla Pétursdóttir                                                       Björn Jóhannesson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta