Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Listaháskóla Íslands

 

Ráðning. Mismunun á grundvelli kyns. Fallist á brot.

A kærði ákvörðun L um að ráða konu í starf lektors við skólann. Talið var að leiddar hefðu verið líkur að því að kyn hefði haft áhrif á ákvörðun L um ráðningu konunnar, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þá varð ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hefðu legið til grundvallar ákvörðun L. Varð það niðurstaða kæru­nefndar að kærði hefði mismunað umsækjendum um starf á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Var því talið að L hefði brotið gegn lögum nr. 150/2020.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 10. janúar 2024 er tekið fyrir mál nr. 16/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 3. nóvember 2022, kærði A þá ákvörðun Lista­háskóla Íslands að ráða konu í starf lektors við skólann. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Jafnframt krafðist kærandi þess að kærði greiddi honum kostnað af því að hafa kæruna uppi.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 18. nóvember 2022. Greinargerð kærða barst 21. desember 2022 ásamt fylgigögnum. Hinn 16. mars 2023 var kæranda send greinargerð ásamt fylgigögnum til athugasemda. Athugasemdir kæranda eru dags. 21. apríl 2023 og 5. júní s.á. og kærða dags. 16. maí 2023 og 10. júlí s.á. Þá voru samskipti milli kærunefndar og aðila vegna beiðni kærða um trúnað á upplýsingum eftir að greinargerð kærða barst. Með tölvubréfi, dags. 5. desember 2023, óskaði kærunefndin eftir staðfestingu kærða á því að þau gögn sem hann hefði afhent kærunefnd væru öll gögn hans varðandi hina kærðu ráðningu. Eftir að hafa fengið afhentan lista yfir öll fyrirliggjandi gögn í málinu staðfesti kærði það með tölvubréfi 15. s.m. Var afrit af þessum samskiptum send kæranda til upplýsinga 9. janúar 2024.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærði auglýsti 9. desember 2021 starf háskólakennara í sviðslistafræðum í sviðs­lista­deild. Tekið var fram að starfið fæli í sér kennslu og stefnumótun um fræðanám í sviðslistum og að viðkomandi myndi jafnframt taka þátt í þróun fræðanáms á sviði sviðslista, tónlistar og kvikmyndalistar og vera þátttakandi í fræða- og fagsamfélagi kærða. Þá væri starfshlutfall 100% eða samkvæmt samkomulagi en ráðið væri í starfið frá 1. ágúst 2022. Var umsóknarfrestur til 9. janúar 2022 en hann var framlengdur til 16. janúar 2022. Í auglýsingunni kom fram að hæfi umsækjenda yrði metið samkvæmt reglum kærða um veitingu akademískra starfa en vísað var um þær reglur á tilgreinda vefslóð á heimasíðu skólans. Voru umsækjendur hvattir til að kynna sér reglurnar við gerð umsókna. Þá var tekið fram að við ráðningu yrði m.a. litið til þess hvaða hæfileika ætla mætti að umsækjandi hefði til samstarfs við aðra og hvernig sér­þekking og eiginleikar viðkomandi gætu nýst til starfa innan skólans og í innra starfi, svo sem þróun náms og rannsókna. Tekið var fram að frammistaða í viðtölum myndi hafa mikið vægi við ákvörðun um ráðningu. Sérstaklega var tilgreint að leitað væri eftir umsækjendum sem byggju yfir háskólagráðum í sviðslistum og/eða sviðslista­fræðum, meistaragráðu sem nýttist í starfi, mjög góðri þekkingu á akademískum vinnubrögðum, reynslu af fræðakennslu á háskólastigi, þekkingu á straumum og stefnum í samtíma­sviðslistum, reynslu af fagvettvangi sviðslista, góðri miðlunar-, samstarfs- og samskiptahæfni og góðri hæfni til að miðla efni í töluðu og rituðu máli. Gerð var krafa um að í umsókn skyldi vera greinargóð ferilskrá sem næði m.a. yfir list­rænan feril umsækjanda og kennslureynslu, staðfest afrit af prófskírteinum, greinar­gerð sem sýndi faglega sýn umsækjanda á þróun háskólamenntunar í sviðslistum, nöfn tveggja aðila sem leita mætti til með umsagnir og aðrar upplýsingar sem umsækjandi vildi koma á framfæri. Sérstaklega var tekið fram að deildarforseti sviðslistadeildar og sviðsforseti kvikmyndalistar, tónlistar og sviðslista veittu upplýsingar um starfið.
  5. Alls bárust sex umsóknir um starfið en niðurstaða hæfisnefndar var að fjórir af þessum umsækjendum, þ.m.t. kærandi og konan sem fékk starfið, væru hæfir til að gegna því og voru þeir boðaðir í viðtöl við tiltekna viðtalsnefnd. Var kæranda tilkynnt með tölvu­pósti 19. maí 2022 að hann hefði ekki fengið stöðuna. Þá var honum tilkynnt 31. maí 2022 að konan hefði verið ráðin.
  6. Kærandi óskaði 30. maí 2022 eftir rökstuðningi fyrir niðurstöðunni um að ráða hann ekki í starfið. Var honum í framhaldinu boðið að koma á fund til þess að ræða áframhaldandi kennslu hans við kærða, auk þess sem hann var upplýstur um að kærði veitti almennt ekki skriflegan rökstuðning fyrir ráðningu í störf við kærða.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  7. Kærandi telur að kærði hafi við ráðningu konu í starf lektors á fræðasviði sviðslista mismunað honum á grundvelli kyns og þar með brotið gegn 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Hafi sú sem var ráðin staðið honum langt að baki hvað varðar starfsreynslu, menntun og fræðastörf. Þá bendir kærandi á að á fræðasviðinu gegni tólf konur akademískum stöðum á móti þremur körlum og hafi ráðningin farið gegn jafnréttisáætlun skólans.
  8. Kærandi telur að faglegir yfirburðir hans hafi verið ótvíræðir, ráðningarferlið ómálefna­legt og sneitt hjá þeirri óskráðu meginreglu að ráða hæfasta umsækjandann þar sem nær reynslulaus kona hafi verið ráðin. Telur kærandi ákvörðun kærða ekki byggja á hlutlægu mati og vandséð hvernig aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar henni.
  9. Kærandi bendir á að kærði sé miðstöð æðri listmenntunar á Íslandi sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til kennslu og rannsókna á háskólastigi. Um sé að ræða sjálfseignar­stofnun sem starfi samkvæmt skipulagsskrá, staðfestri af sýslumanni 7. september 2017. Kærði sé nær alfarið rekinn fyrir fé úr ríkissjóði eins og komi fram í ársskýrslum hans en forsenda þess að kærði fái fjárframlög frá ríkinu sé að skólinn starfi í samræmi við lög. Hann sé við ráðningar í akademískar stöður bundinn af jafnréttislögum og lögum nr. 63/2006, um háskóla, sbr. 17. og 18. gr. þeirra laga. Bendir kærandi á að í samningi mennta- og menningarmálaráðuneytis frá árinu 2021 varðandi kvikmynda­gerð sé áréttað að þótt kærði sé ekki ríkisaðili veiti hann opinbera þjónustu sem sé kostuð að verulegu eða öllu leyti af framlögum ríkisins og því gildi um hann ýmis lög og reglugerðir eftir því sem við á, þ.m.t. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Beri kærða því að haga ráðningum til samræmis við þær kröfur sem gerðar séu af hinu opinbera, þ.m.t. að fylgja óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins um að ráða hæfasta umsækjand­ann hverju sinni á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Að sama skapi þurfi ákvarðana­tökuferlið að þola dagsins ljós.
  10. Kærandi bendir á að um sé að ræða akademíska stöðu við háskóla en auglýsingin hafi eingöngu birst á heimasíðu skólans en ekki í atvinnudálkum dagblaða. Auglýsingin hafi virst sniðin að takmarkaðri reynslu konunnar þar sem auglýst hafi verið eftir háskóla­kennara en ekki lektor sem er hið rétta heiti stöðunnar sem gerðar eru strangar fag­kröfur til. Þá eigi frammistaða í viðtali að hafa mikið vægi samkvæmt auglýsingu sem veki undrun þar sem um akademíska stöðu hafi verið að ræða.
  11. Kærandi bendir á að ljóst hafi verið frá því í mars 2021 að umrædd staða lektors myndi losna en hún hafi ekki verið auglýst fyrr en í árslok 2021. Í millitíðinni hafi konan sem fékk starfið verið ráðin aðjúnkt án auglýsingar sem virðist hafa verið liður í því að undirbúa ráðningu hennar. Hafi hún lokið meistaranámi rúmu ári áður en hún var ráðin og því varla með nokkra kennslureynslu, sbr. að hún hafði starfað sem aðjúnkt í hálft ár, auk þess að hafa þriggja mánaða reynslu sem stundakennari þegar hún sótti um starfið. Í umsókn konunnar sé efni BA-ritgerðar tilgreint en ekkert kemur fram um lokaritgerð meistaranáms. Bendir kærandi á að konan hafi ekki verið búin að birta ritrýndar fræðigreinar þegar hún sótti um stöðuna. Sé því óljóst hvort litið sé á BA-ritgerðina sem einu „fræðiskrifin“ sem lágu til grundvallar mati á rannsóknum og fræðastörfum og framlagi á fagvettvangi. Kærandi, sem er rithöfundur og fræðimaður, hafi verið við það að verja doktorsritgerð sína frá Háskóla Íslands þegar hann sótti um stöðuna. Hann hefði verið stundakennari við kærða og Háskóla Íslands undanfarna tvo áratugi þegar hann sótti um stöðuna og m.a. kennt konunni sem fékk starfið þegar hún var í BA-námi við kærða.
  12. Kærandi bendir á að hæfisnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að kærandi væri „ótví­rætt hæfur til að gegna starfi lektors í sviðslistafræðum við Listaháskóla Íslands, miðað við menntunar- og hæfiskröfur í auglýsingu, starfssvið og skyldur háskóla­kennara“. Þá hafi nefndin talið kæranda með „breiða reynslu af fagsviðinu sem leikskáld, rithöfundur, kennari, gagnrýnandi og fræðimaður“, auk þess sem hann hefði verið við það að verja doktorsritgerð, væri með tvær meistaragráður og hefði mikla reynslu af kennslu í háskóla. Bendir kærandi á að í niðurstöðu hæfisnefndar um konuna sé tekið fram að „reynsla á fagvettvangi [sé] mjög takmörkuð“ og að fátt yrði „ráðið af umsókn um rannsóknir eða fræðastörf“ hennar, auk þess sem kynningarbréf hennar hafi borið þess merki hve „ferill hennar er skammt á veg kominn“. Engu að síður hafi niðurstaðan orðið sú að kona með nær enga kennslureynslu, mun minni menntun og engin fræðistörf hafi fengið starfið. Tekur kærandi fram að honum sé ekki kunnugt um hverjir aðrir hafi sótt um starfið. Hafi hann fengið þau svör frá sviðsstjóra og deildarforseta að þær hefðu ákveðið að ráða konuna.
  13. Kærandi tekur fram að hann telji ástæðu til að vefengja þá niðurstöðu hæfisnefndar að konan hafi uppfyllt lágmarksskilyrði til að gegna starfi lektors. Þá hafi annmarkar verið á vinnubrögðum hæfisnefndar þar sem innbyrðis samanburður hafi ekki farið fram, auk þess sem ekki hafi verið tekið tillit til kennslumats sem ber að gera sam­kvæmt reglum skólans. Þá hafi nefndin ekki leitað eftir áliti umbeðinna umsagnaraðila.
  14. Kærandi tekur fram að það sé með ólíkindum að starfsviðtal og kynningarbréf kon­unn­ar, sem sé tvær blaðsíður að lengd og eigi að lýsa sýn á nám og kennslu við kærða, sé uppistaða faglegs ráðningarferlis sem eigi að vera byggt á málefnalegum sjónar­miðum. Ljóst sé að kærði reyni í svörum til kærunefndar að undirbyggja ætlaða styrk­leika konunnar með vísan í „sýn“ hennar og „áherslur“ en ekki í raunverulega reynslu og rannsóknir á fagsviðinu enda hvorugu fyrir að fara í samanburði við kæranda. Eigi hún að vera „upplýst“ og „meðvituð“ vegna áhrifa meistaranámsins og „me too bylting­ar­innar“. Enn fremur sé fullyrt að hún hafi „mikla og góða þekkingu“ á fræðasviðinu án þess að fyrir liggi ein einasta fræðigrein eða rannsókn þar að lútandi.
  15. Kærandi bendir á að sviðsforseti og deildarforseti hafi stýrt viðtalinu en þriðja konan, sem var utanaðkomandi, hafi verið sú eina með akademískan bakgrunn. Telur kærandi að viðtalið hafi verið yfirvarp sem hafi átt að staðfesta hæfni konunnar sem var ráðin af sömu aðilum og höfðu veitt henni forskot og brautargengi og þar með hafi það verið hlutdrægt og óforsvaranlegt. Til að tryggja málefnalegt mat á frammistöðu umsækj­enda hefðu aðrir þurft að stýra viðtalinu. Bendir kærandi á að skrá hefði átt upplýsing­ar úr viðtölum og í framhaldinu vinna úr þeim með skipulegum hætti en það hafi ekki verið gert, sbr. að það eina sem liggur til grundvallar niðurstöðu úr viðtölum séu óskiljanleg útkrotuð viðtalsform.
  16. Kærandi tekur fram að hann hafi ekki fengið rökstuðning fyrir ákvörðun kærða um ráðningu í starfið. Telur kærandi það óforsvaranlegt að stjórnendur æðstu mennta­stofnunar landsins, sem njóti viðurkenningar og fjárstuðnings stjórnvalda, telji sig þess umkomna að þurfa ekki að færa rök fyrir ráðningu í akademískt starf, sem lýtur hæfisskilyrðum háskólalaga og kröfu jafnréttislaga um bann við mismunun. Lítur kærandi svo á að kærða hafi ekki verið heimilt að neita kæranda um rökstuðning fyrir ákvörðuninni.
  17. Kærandi telur sig hafa leitt líkur að því að við ráðningu í starfið hafi sér verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Ráðningin hafi verið óforsvaranleg og ómálefnaleg sjónarmið búið að baki þeirri ákvörðun að ganga fram hjá kæranda.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  18. Kærði heldur því fram að hann hafi hvorki brotið gegn 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né öðrum ákvæðum jafnréttislaga og að hann hafi gætt málefnalegra sjónarmiða í einu og öllu við ráðningu í starf lektors á fræðasviði sviðslista.
  19. Kærði tekur fram að hann hafi 9. desember 2021 auglýst störf ellefu háskólakennara laus til umsóknar á ráðningarvefnum Alfreð. Í auglýsingunni hafi mátt finna tengil á vefsíðu kærða um nánari upplýsingar um hvert og eitt starf. Hafi kærði greitt sér­stak­lega fyrir aukinn sýnileika auglýsingarinnar en fyrir liggi að hún hafi verið opnuð mjög oft. Hafi markmiðið með ráðningarferlinu verið að finna hæfasta umsækjandann fyrir starfið í samræmi við stefnu og áherslu sviðslistadeildar.
  20. Kærði tekur fram að kröfur sem voru gerðar til umsækjenda um öll störfin í auglýs­ing­unni hafi verið settar fram með sambærilegum hætti. Hafi kærði ávallt þann hátt á að auglýsa eftir háskólakennara en stöðuheiti þess sem sé ráðinn ráðist af mati hæfis­nefndar. Eins og hafi komið fram í auglýsingunni hafi hæfi umsækjenda verið metið samkvæmt reglum kærða um veitingu akademískra starfa. Jafnframt hafi komið fram að við ráðninguna yrði m.a. litið til þess hvaða hæfileika ætla mætti að umsækjandi hefði til samstarfs við aðra og hvernig sérþekking og eiginleikar viðkomandi gætu nýst innan skólans, þ.e.a.s. í innra starfi, svo sem við þróun náms og rannsókna. Þá hafi komið fram að frammistaða í viðtölum hefði mikið vægi við ákvörðun um ráðningu. Kærði bendir á að kærandi hafi ekki afhent niðurstöður úr kennslumati í tengslum við fyrri kennslu sína hjá kærða með umsókn sinni en það hafi honum verið frjálst að gera í samræmi við auglýsingu.
  21. Kærði tekur fram að fyrsta skrefið í ráðningarferlinu hafi verið að afla hæfismats um umsækjendurna frá hæfisnefnd en kærða beri skylda til að setja á fót slíka nefnd til að meta hæfi umsækjenda samkvæmt lögum nr. 63/2006, um háskóla. Hún hafi byggt mat sitt á framlögðum gögnum um menntun og prófgráður umsækjenda, listrænan feril, rannsóknir og önnur fræðastörf, kennslu og stjórnunarstörf. Hafi vinna hæfisnefndar byggt á lögum nr. 63/2006 og reglum skólans um veitingu akademískra starfa. Sam­kvæmt gr. 3.3 í reglunum metur hæfisnefndin hvort umsækjendur uppfylli tiltekin lág­marksskilyrði til að gegna starfinu sem um ræðir en niðurstaða hennar felur ekki í sér mat á innbyrðis hæfi umsækjenda. Hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að fjórir af sex umsækjendum hafi verið hæfir til að gegna starfinu og bæði kærandi og sú sem fékk starfið verið á meðal þeirra. Hafi niðurstaðan um þau verið orðrétt sú sama, auk þess sem styrkleikar hvors um sig hafi verið tilgreindir. Hafi kærandi því ekki staðið kon­unni framar hvað varðar hin formlegu hæfisskilyrði, svo sem menntun og starfsreynslu, heldur hafi þau staðið jafnt. Kæranda hafi verið boðið að gera athugasemdir við hæfis­matið en það hafi hann ekki gert. Hafi hann því ekki gert athugasemdir við að ekki hafi verið litið til kennslumats. Hafi mat nefndarinnar verið lagt til grundvallar við ráðn­ingu í starfið sem sé í samræmi við lög þegar ráðið sé í akademísk störf.
  22. Kærði tekur fram að þegar niðurstaða hæfisnefndar lá fyrir hafi allir umsækjendurnir sem voru metnir hæfir verið boðaðir í viðtöl þar sem nánara mat á hæfi þeirra hafi farið fram. Í viðtölunum hafi þeir fengið sömu spurningarnar en ávallt sé notaður sami spurningalistinn við akademískar ráðningar hjá kærða. Eins og sjá megi á spurninga­listanum hafi verið lögð áhersla á sýn á nám og kennslu og samstarfs- og samskipta­hæfni sem hafi verið í samræmi við auglýsingu um starfið. Hafnar kærði því að spurn­ingalistinn hafi verið sniðinn að konunni sem fékk starfið. Hafi framkvæmd og mat á grundvelli viðtala farið fram með afar málefnalegum hætti þar sem lögð hafi verið áhersla á jafnræði umsækjenda. Hafi það verið í höndum viðtalsnefndar að leggja nánara mat á hæfi umsækjenda, einkum út frá svörum í viðtölum. Mótmælir kærði því að ekki hafi mátt leggja áherslu á frammistöðu í viðtölum í ráðningarferlinu enda ekkert í lögum sem banni slíkt.
  23. Kærði tekur fram að sviðsforseti kvikmyndalistar, tónlistar og sviðslista, deildarforseti sviðslistadeildar og leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins hafi tekið viðtölin. Kyn þeirra hafi ráðist af því að það séu konur sem gegni störfum sviðsforseta og deildarforseta og hafi stöðu sinnar vegna komið að ráðningarferlinu en ekki hafi tekist að finna hæfan karl með sérþekkingu á sviðslistafræðum til að taka sæti í nefndinni. Þær hafi allar akademískan bakgrunn. Jafnframt bendir kærði á að kærandi hafi ekki gert athuga­semdir við samsetningu viðtalsnefndar en hann hafi verið upplýstur um hverjir myndu taka við hann viðtalið áður en það fór fram. Hafi þessi nefnd verið hlutlaus og fagleg í sínum vinnubrögðum og ekki haft neina aðkomu að ráðningu konunnar tímabundið sem aðjúnkt við skólann.
  24. Kærði bendir á að viðtalsformin séu höfð til hliðsjónar þegar lagt er mat á frammistöðu í viðtali. Ekki sé unnt að skrifa niður allt sem komi fram í viðtölum og það sé ekki heldur tilgangur viðtalsformsins. Í kjölfar viðtala fari ávallt fram samtal milli þeirra sem viðtalið tóku og mat lagt á frammistöðuna. Niðurstaða þeirra hafi verið sú að konan stæði kæranda framar. Áréttar kærði að sú fjölbreytta reynsla sem konan fékk á því ári sem hún starfaði við skólann áður en hún var ráðin í starf lektors hafi nýst henni vel í starfinu. Þá sýni störf hennar utan starfs kærða að hún sé vel metin, auk þess sem þau færi henni góða reynslu sem nýtist í starfinu hjá kærða.
  25. Kærði tekur fram að á lokastigum ráðningarferlisins hafi verið leitað til umsagnaraðila konunnar sem var ráðin og sem viðtalsnefndin hafði talið hæfasta til að gegna starfinu eins og almennt sé gert við ráðningar hjá kærða. Hafi því ekki verið leitað til umsagnar­aðila kæranda jafnvel þótt annar þeirra hafi verið sá sami hjá þeim báðum. Sá um­sagnaraðili hafi eindregið mælt með ráðningu konunnar. Tekur kærði fram að ráðn­ingin hafi verið byggð á afar vönduðu ráðningarferli sem byggði á mati óháðrar hæfis­nefndar og viðtölum þar sem fyrirfram ákveðnum spurningalista var fylgt. Hafi allir umsækjendur setið við sama borð í ferlinu og fengið jöfn tækifæri til að koma sjónar­miðum sínum á framfæri.
  26. Kærði tekur fram að kærandi hafi verið upplýstur um að kærði veiti almennt ekki skrif­legan rökstuðning fyrir ráðningu í störf en honum hafi verið boðið að koma á fund til þess að ræða hugsanlega áframhaldandi kennslu hans við skólann. Á fundinum hafi ráðningin verið rædd en engir yfirburðir kæranda verið viðurkenndir.
  27. Kærði bendir á að konan hafi verið talin standa kæranda framar varðandi menntun, einkum þegar horft væri til inntaks menntunar, sérþekkingar á straumum og stefnum í samtímasviðslistum, sbr. auglýsingu, og áherslu í rannsóknum. Hún hafi staðið kær­anda framar varðandi tölvukunnáttu og nýtingu tækni við kennslu, auk þess sem fram­tíðarsýn hennar á þróun náms og viðhorf hafi verið í mun meira samræmi við þarfir kærða. Jafnvel þótt konan hefði haft styttri reynslu af kennslu en kærandi hefði hún engu að síður sýnt það í starfi sínu sem fræðakennari og fagstjóri fræða við sviðslista­deild kærða að hún gæti vel sinnt starfinu. Skemmri starfsreynsla konunnar leiði ekki ein og sér til þess að líkur hafi verið leiddar að því að kæranda hafi verið mismunað enda hafi fjölmargir aðrir þættir spilað inn í ráðninguna eins og áður hafi verið rakið. Sé því ljóst að kyn kæranda hafi ekki haft áhrif á það að konan var ráðin í starfið.
  28. Kærði tekur fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 hafi ekki komið til skoðunar í málinu enda kærði ekki stjórnvald í skilningi laganna. Bendir kærði á að í samningi skólans við ráðuneytið komi fram að lögin eigi við „eftir því sem við á“. Í því felist ekki að lögin gildi við ráðningar í skólann. Vísar kærði um þetta til bréfs umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11364/2021. Þá gildi lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ekki um starfsmenn skólans.
  29. Kærði tekur fram að þrátt fyrir það sé ljóst að hið vandaða ráðningarferli hafi að öllu leyti uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru bæði á almenna og opinbera vinnu­markaðinum. Sem sjálfseignarstofnun sé kærði atvinnurekandi á almennum vinnu­markaði og því frjálst að ákveða hvaða kröfur og áherslur séu lagðar til grundvallar við ráðningar í störf innan ramma þeirra laga sem um ráðningarferlið gilda, svo sem jafnréttislöggjafar og háskólalaga nr. 63/2006, en gætt hafi verið að þessum lögum við ráðninguna. Það sé ekki á valdsviði kærunefndar að fjalla um skilyrði háskólalaga en óumdeilt að gætt hafi verið að 18. gr. laganna um að umsækjendur hafi þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði og sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á því sérsviði. Hafi hæfis­nefnd lagt mat á umsækjendur að þessu leyti.
  30. Kærði bendir á að sviðslistadeild sé innan sviðs kvikmyndalistar, tónlistar og sviðslista. Innan þessa tiltekna sviðs hafi starfað 23 karlar og 20 konur þegar ákvörðun um ráðningu var tekin. Í apríl 2023 störfuðu 24 karlar og 23 konur á sviðinu. Sé því ljóst að konur hafi verið í minnihluta starfsfólks á sviðinu þegar ráðið var í starfið. Jafnframt bendir kærði á að konan sé til þess fallin sem starfsmaður kærða að tala fyrir auknu jafnrétti innan sem utan skólans þar sem hún hafi m.a. lagt áherslu á jafnréttismál, inngildingu og birtingarmyndir jaðarsettra hópa í sviðslistum. Hafi skólinn með ráðningunni stuðlað að baráttu gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk karla og kvenna til samræmis við markmið jafnréttislöggjafarinnar, sbr. h- og j- liði 1 mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020.
  31. Kærði tekur fram að jafnræðis hafi verið gætt í ráðningarferlinu enda hafi utanað­kom­andi hæfisnefnd metið hæfi allra umsækjenda samkvæmt háskólalögum. Umsækjend­ur sem metnir voru hæfir hafi verið teknir í viðtal þar sem sömu spurningar hafi verið lagðar fyrir alla umsækjendur. Niðurstaða heildarmats hafi verið sú að menntun, reynsla, viðhorf og sýn umsækjandans sem hlaut starfið hafi verið talin falla betur að þörfum skólans og henni því boðið starfið.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  32. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu konu í starf lektors í sviðslistafræðum við sviðslistadeild kærða.
  33. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórn­sýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  34. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekand­anum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í það starf sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  35. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálf­stæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  36. Í auglýsingu þeirri sem liggur til grundvallar í málinu var auglýst eftir háskólakennara í sviðslistafræðum í sviðslistadeild. Fram kom að hæfi umsækjenda yrði metið sam­kvæmt reglum kærða um veitingu akademískra starfa. Þá var tekið fram að við ráðn­ingu yrði m.a. litið til þess hvaða hæfileika ætla mætti að umsækjandi hefði til samstarfs við aðra og hvernig sérþekking og eiginleikar viðkomandi gætu nýst til starfa innan skólans og í innra starfi, svo sem þróun náms og rannsókna. Tekið var fram að frammistaða í viðtölum myndi hafa mikið vægi við ákvörðun um ráðningu. Sérstaklega var tilgreint að leitað væri eftir umsækjendum sem byggju yfir háskóla­gráðum í sviðslistum og/eða sviðslistafræðum, meistaragráðu sem nýttist í starfi, mjög góðri þekkingu á akademískum vinnubrögðum, reynslu af fræðakennslu á háskólastigi, þekkingu á straumum og stefnum í samtímasviðslistum, reynslu af fagvettvangi sviðs­lista, góðri miðlunar-, samstarfs- og samskiptahæfni og góðri hæfni til að miðla efni í töluðu og rituðu máli. Gerð var krafa um að í umsókn skyldi vera greinargóð ferilskrá sem næði m.a. yfir listrænan feril umsækjanda og kennslureynslu, stað­fest afrit af prófskírteinum, greinargerð sem sýndi faglega sýn umsækjanda á þróun háskóla­menntunar í sviðslistum, nöfn tveggja aðila sem leita mætti til með umsagnir og aðrar upplýsingar sem umsækjandi vildi koma á framfæri. Sérstaklega var tekið fram að deildarforseti sviðslistadeildar og sviðsforseti kvikmyndalistar, tónlistar og sviðs­lista veittu upplýsingar um starfið.
  37. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, er yfirstjórn háskóla falin háskólaráði og rektor eftir því sem nánar er kveðið á um í sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða öðrum stofnskjölum háskóla. Fyrir liggur að kærði er háskóli rekinn sem sjálfseignarstofnun samkvæmt staðfestri skipulagsskrá með sérstakri stjórn. Sam­kvæmt 2. mgr. 5. gr. skipulagsskrár kærða annast rektor rekstur og stjórn skólans í umboði stjórnar og ber ábyrgð gagnvart henni. Þá er tekið fram að rektor sé ábyrgur fyrir ráðningu starfsmanna. Skal rektor ráða helstu yfirmenn skólans í samráði við stjórn.
  38. Um ráðningar akademískra starfsmanna kærða gilda ákvæði 18. gr. laga nr. 63/2006 og reglur um veitingu akademískra starfa sem samþykktar hafa verið af stjórn skólans. Núgildandi reglur eru frá 27. mars 2023 en á þeim tíma sem ákvörðun um ráðningu var tekin giltu reglur frá 29. apríl 2020 sem eru samhljóða varðandi ráðningarferli. Í upphafi reglnanna er tekið fram að rektor ráði sviðsforseta, deildarforseta, prófessora, dósenta og lektora að undangengnu mati hæfisnefndar. Um þetta er nánar fjallað í gr. 4.2 í reglunum þar sem tekið er fram að rektor veiti starfið eftir afgreiðslu hæfisnefndar og að undangengnum ítarlegum viðtölum við umsækjendur sem hæfisnefnd hefur metið hæfa, sbr. gr. 2.1–2.5. Af framangreindu verður ráðið að það sé rektor sem taki ákvörð­un um ráðningu eða veitingu akademísks starfs hjá kærða eftir að mat dómnefndar eða hæfisnefndar liggur fyrir.
  39. Í málinu liggur fyrir að skipuð var dómnefnd eða svokölluð hæfisnefnd til að meta hæfi umsækjenda um umrætt starf í samræmi við 18. gr. laga nr. 63/2006 og fyrrnefndar reglur. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að bæði kærandi og konan sem var ráðin ásamt tveimur öðrum umsækjendum væru hæf til að gegna umræddu starfi lektors. Rétt er að benda á að samkvæmt 2. málsl. gr. 4.1 í reglunum ákvarðar hæfismat ekki um ráðningu í tiltekið stöðuheiti, heldur er ráðið í samræmi við þarfir deilda. Þá liggur fyrir að sérstök viðtalsnefnd skipuð sviðsforseta kvikmyndalistar, tónlistar og sviðslista og deildarforseta sviðslistadeildar ásamt utanaðkomandi sérfræðingi tók viðtöl við þá umsækjendur sem eftir stóðu í ráðningarferlinu. Komst sú nefnd að þeirri niðurstöðu að konan sem var ráðin hafi verið hæfust til að gegna starfinu.
  40. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að rektor hafi komið að þessari málsmeðferð, eftir mat hæfisnefndar, eins og honum bar að gera, sbr. gr. 4.2 í fyrrnefndum reglum kærða. Það skal tekið fram að ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í reglunum að tiltekinni nefnd sé falið það hlutverk að taka viðtöl við þá umsækjendur sem taldir eru hæfir til að gegna akademísku starfi og taka ákvörðun um ráðninguna. Liggja því engin sam­tímagögn fyrir um það að rektor hafi komið að málinu og tekið ákvörðun um það hver hafi verið best til þess fallinn að gegna starfi lektors í samræmi við þarfir deildar. Með vísan til þess að málsmeðferðin var ekki í samræmi við fyrrnefndar reglur verður ekki hjá því komist að fallast á að leiddar hafi verið líkur að því að mismunun á grundvelli kyns hafi haft áhrif á ákvörðun kærða um að ráða konuna, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
  41. Kærði hefur vísað til þess að nánara mat á hæfi þeirra umsækjenda sem hafi verið metnir hæfir til að gegna starfinu af hæfisnefnd hafi farið fram í viðtölum við umrædda viðtalsnefnd sem var, eins og áður segir, skipuð tveimur starfsmönnum kærða og einum utanaðkomandi sérfræðingi. Hafi nefndin notast við staðlaðan spurningalista sem sé alltaf notaður við ráðningar akademískra starfsmanna hjá kærða. Hafi það verið í höndum þessarar tilteknu viðtalsnefndar að leggja nánara mat á hæfi umsækjenda, einkum út frá svörum í viðtölum. Um hafi verið að ræða málefnalegt mat þar sem lögð hafi verið áhersla á jafnræði umsækjenda og hafi niðurstaðan að því loknu verið sú að konan stæði kæranda framar. Kærði tekur fram að á lokastigum ráðningarferlisins hafi verið leitað til umsagnaraðila konunnar sem var ráðin.
  42. Í málinu liggja einungis fyrir handskrifuð matsblöð tveggja af þremur nefndarmönnum viðtalsnefndar ásamt stigagjöf með handskrifuðum athugasemdum í punktaformi sem notuð voru í viðtölum kæranda og konunnar sem var ráðin. Af þeim verður hvorki ráðið hvernig mat á þessum umsækjendum fór fram né hvernig unnið var úr því sem fram kom í viðtölunum. Viðtalsnefnd skilaði rektor því ekki skriflegri umsögn um mat nefndarinnar á umsækjendum eða samanteknum sjónarmiðum sem rektor gat byggt á við töku ákvörðunar um ráðningu í starfið. Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að telja að ákvörðun um ráðningu í starf lektors hafi í raun legið hjá fyrrnefndri viðtals­nefnd en ekki rektor. Er það kærða að tryggja sönnun um að farið hafi verið að þeim reglum sem gilda um ráðningar í akademísk störf hjá kærða, þ.m.t. hvort eða hvernig rektor hafi metið þá umsækjendur sem töldust hæfastir í samræmi við þarfir deildar. Kærða hefur ekki tekist sú sönnun og verður hann að bera hallann af því. Það hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu að rektor hafi undirritað ráðningarsamning við konuna sem var ráðin.
  43. Að öllu þessu virtu verður ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um ráðningu í umrætt starf lektors. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar fyrrnefndri ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  44. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi mismunað umsækjendum um starf lektors í sviðslistafræðum í sviðslistadeild á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Í samræmi við þá niðurstöðu og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 verður fallist á kröfu kæranda um að kærði greiði kær­anda málskostnað við að hafa kæruna uppi að fjárhæð 250.000 kr.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Listaháskóli Íslands, braut gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu lektors í sviðslistafræðum í sviðslistadeild skólans.

Kærði greiði kæranda 250.000 kr. í málskostnað.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta