Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 362/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 362/2022

Miðvikudaginn 14. september 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 17. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. júlí 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 6. júlí 2022. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. júlí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. júlí 2022. Með bréfi, dags. 19. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. ágúst 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé ekki í neinni endurhæfingu líkt og fram komi í ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins. Kærandi hafi lokið endurhæfingu hjá VIRK og það séu engin önnur úrræði fyrir hana. Læknir hjá Tryggingastofnun hafi sagt að kærandi myndi pottþétt komast á örorku. Úrskurðarnefndinni sé heimilt að leita að gögnum um kæranda hvort heldur hjá B eða C. Kærandi sé með einhverfu, áráttu, þráhyggjuröskun sem og kvíðaröskun. Kærandi geri þá kröfu að hún komist á örorku.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 6. júlí 2022, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 14. júlí 2022, með vísan til þess að kærandi væri enn í virkri endurhæfingu. Ekki hafi þótt tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti þannig að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Tryggingastofnun telji að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar frá 14. júlí 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur þar sem heimilt sé að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst þau endurhæfingarúrræði sem í boði séu áður en til örorkumats komi.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Aftur á móti sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum:

 

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, að lagðir séu fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá tiltaki 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.

Þá sé í 37. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 661/2020, meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi hafi fyrst fengið endurhæfingartímabil samþykkt 9. desember 2020 og þáð í kjölfarið endurhæfingarlífeyri samfleytt í 18 mánuði, frá 1. nóvember 2020 til 30. apríl 2022. Kærandi hafi því ekki lokið rétti sínum til endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar um framkvæmd endurhæfingarlífeyris nr. 661/2020.

Í framhaldinu hafi kærandi sótt um örorkulífeyri en verið synjað með bréfi, dags. 14. júlí 2022, með vísan til þess að skilyrði staðals um örorkulífeyri væru ekki uppfyllt vegna þess að kærandi væri enn í virkri endurhæfingu. Samkvæmt gögnum sem hafi fylgt umsókninni hafi ekki verið talið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd í ljósi aðstæðna. Kærandi hafi verið hvött til að sinna áfram þeirri endurhæfingu sem hún væri nú þegar að sinna.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við örorkumat þann 14. júlí 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 6. júní 2022, læknisvottorð D heimilislæknis, dags. 21. júní 2022, og E heimilislæknis, dags. 1. júlí 2021, svör kæranda við spurningalistum vegna færniskerðingar, dags. 6. júlí 2022 og 20. júlí 2021, ásamt þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 6. maí 2022. Þá hafi einnig verið til staðar eldri gögn vegna fyrri mata á endurhæfingartímabilum kæranda. 

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 21. júní 2022, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 14. júlí 2022 sé kærandi greind með Aspergerheilkenni (F84.5), kvíðaröskun (F41.9) og kynskiptahneigð (F64.0). Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segi að hún sé X ára transkona sem hafi greinst með kvíðaröskun og áráttuþráhyggju á B þegar hún var X ára. Hún hafi svo verið greind með Aspergerheilkenni X ára. Helst séu það einkenni Aspergerheilkennis og kvíðaröskunar sem hamli kæranda í daglegu lífi sem og í atvinnulífinu, en auk þess segi að áhugahvöt hennar gagnvart atvinnuþátttöku sé ekki til staðar. Þá segi að kærandi hafi reynt sálfræðimeðferðir, auk þess að hafa verið 18 mánuði í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Hvorugt hafi þó orðið til þess að færni hennar breyttist. Enn fremur segi að kærandi hafi hafið ferli hjá transteymi Landspítala í júní 2021 og sé nýbyrjuð í krosshormónameðferð. Að lokum segi að kærandi hafi verið óvinnufær að hluta frá 14. apríl 2020 og með öllu frá 1. apríl 2022. Hins vegar segi að búast megi við að færni aukist með tímanum, þrátt fyrir að endurhæfing geti líklega ekki nýst henni eins og staðan sé núna, sérstaklega þegar kærandi sé komin lengra í sínu kynleiðréttingarferli.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er gerð grein fyrir svörum kæranda við spurningum um færniskerðingu hennar.

Við örorkumatið hafi einnig legið fyrir þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 6. maí 2022. Þar segi að meginástæða óvinnufærni sé Aspergerheilkenni. Við þjónustulok hafi ekki þótt forsendur fyrir starfsendurhæfingu lengur þar sem heilsubrestur kæranda hefði verið þess eðlis að slík endurhæfing gæti á þeim tímapunkti ekki bætt þar úr, auk þess sem áhugahvöt kæranda gagnvart atvinnuþátttöku hafi ekki verið til staðar. Starfsendurhæfing hafi því talist fullreynd á þeim vettvangi. Aftur á móti hafi verið mælt með áframhaldandi uppvinnslu, meðferð og endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins og ef til vill með nýrri tilvísun til VIRK þegar kærandi væri komin lengra í bataferli sínu.

Tryggingastofnun hafi við vinnslu kærumálsins á ný yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt þeim sé kærandi að sinna ákveðinni meðferð og geti því talist vera í virkri endurhæfingu. Mælt sé með því að kærandi sinni þeirri endurhæfingu áfram.

Með hliðsjón af framangreindu hafi læknum Tryggingastofnunar sýnst meðferð kæranda í formi endurhæfingar ekki fullreynda og þar af leiðandi hafi ekki þótt tímabært að meta örorku hjá kæranda, sérstaklega þar sem 36 mánuðum hafi ekki verið náð á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun telji það því vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Þar sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu fyrirhuguð. Þá skuli tekið fram að VIRK sé ekki eina endurhæfingarúrræðið sem standi kæranda til boða og eigi ekki að vera lagt til sem fullnaðarákvörðun um það hvort endurhæfingu sé lokið. Því til aukins stuðnings hafi VIRK einnig opnað á þann möguleika í starfslokaskýrslu að kærandi geti leitað þangað að nýju þegar hún verði komin lengra í bataferli sínu og verið jafnframt vísað á annað úrræði að svo komnu máli.

Einnig skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna umsækjanda hverju sinni, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni. Að einhverju marki virðist það nú þegar hafa verið gert í tilviki kæranda.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarsögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Tryggingastofnun vilji ítreka það að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Það sé niðurstaða sérhæfðs mats Tryggingastofnunar á möguleikum kæranda til endurhæfingar að slíkt sé ekki fullreynt. Þannig uppfylli kærandi ekki, að svo komnu máli, það skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar að viðeigandi endurhæfing sé fullreynd. Í því sambandi vilji Tryggingastofnun einnig taka fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkumat að svo stöddu og sjá hver frekari framvinda verði í málum hennar, sé rétt, sérstaklega í ljósi þess að kærandi gæti enn talist vera í virkri endurhæfingu. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. júlí 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð D, dags. 21. júní 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„ASPERGERSHEILKENNI

KVÍÐARÖSKUN, ÓTILGREIND

TRANSSEXUALISM“

Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„X ára transkona sem greinist með kvíðaröskun og áráttu-þráhyggju á B þegar var X ára. Fær svo Asperger greiningu X ára. Einhverfa hamlar honum í daglegu lífi og atvinnu, m.a. hvað varðar samskipti og skynjun. Var hjá geðheilsuteymi barna á F fram til 16 ára aldurs. Reynt sálfræðimeðferð og hitt 3 mismunandi sálfræðinga sem nýttist honum ekki.

Hóf ferli hjá transteymi LSH í júni 2021. Skilgreinir sig nú sem konu, ekki breytt nafni enn, en notar kvk fornöfn. Nýhafin krosshormónarmeðferð með kvengerandi hormónum á vegum transteymisins hér í byrjun júní 2022.

Verið í endurhæfingu hjá VIRK frá sept 2020 til júlí 2021 sem ekki skilaði tilskildum árangri. Því sótt um örorkubætur í júní 2021. Fékk synjun á það og reynt annað ferli hjá VIRK í vetur. Lauk því ferli fyrir 2 mánuðum síðan. Verið í alls 20 mánuði hjá VIRK og starfsendurhæfing talin fullreynd. Ekki er talið raunhæft að stefna á þáttöku á almennum vinnumarkaði eins og staðan er núna. Sjá þjónustulokaskýrslu frá VIRK í viðhengi. Óskum því eftir örorkubótum.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Lífsmörk eðlileg.

Lungu: Lungnahlustun er jöfn og hrein beggja vegna. Hjarta: Við hjartahlustun heyrist S1 og S2 án auka- eða óhljóða.

Geðskoðun: Sjúklingur er skýr og gefur góða sögu. Vel til hafður, svara spurningum vel og skýr í hugsun, tal án athugasemda, neutral geðslag, ekki merki um ranghugmyndir eða ofskynjanir.“

Um álit á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir svo í vottorðinu:

„Hefur reynt endurhæfingu hjá VIRK í alls 20 mánuði og starfsendurhæfing fullreynd eins og staðan er í dag. Einnig fengið sálfræðimeðferð sem í boði er í heimabyggð en hefur ekki gagnast sem vildi. Hans vandamál eru hamlandi einkenni aspergers og kvíðaröskunar. Áhugahvöt gagnvart atvinnuþáttöku er ekki til staðar. Erfitt að segja til hvort færni aukist með tímanum. Það er etv. hægt að reyna aftur á starfsendurhæfingu seinna þegar hann er kominn lengra í sínu bataferli/kynleiðréttingarferli, en eins og staðan er í dag er hann metinn óvinnufær og sé ekki annan kost en að sækja um örorkubætur fyrir hann.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist með tímanum. Einnig liggja fyrir læknisvottorð vegna eldri umsókna kæranda.

Fyrir liggur þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 6. maí 2022 Í niðurstöðu segir:

„Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin fullreynd. Ekki er talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.

Ekki eru forsendur fyrir starfsendurhæfingu þar sem heilsubrestur hennar er þess eðlis að starfsendurhæfing hefur engu þar úr að bæta og áhugahvöt gagnvart atvinnuþátttöku er ekki til staðar. Starfsendurhæfing telst fullreynd. Mælt er með áframhaldandi uppvinnslu, meðferð og endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins. E.t.v. ný tilvísun til Virk þegar hún er komin lengra í sínu bataferli. Vísa annars á heimilislækni til að finna úrræði við hæfi í heilbrigðiskerfinu og/eða samtryggingarkerfinu. Vek athygli að heimilislæknir og margt annað heilbrigðisstarfsfólk getur gert endurhæfingaáætlun ef metin þörf á því, án þess að Virk komi að málum.“

Einnig liggur fyrir greinargerð Starfsendurhæfingar X, dags. 6. desember 2021, og endurhæfingaráætlun, dags. 15. október 2021.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum toga og hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í 18 mánuði. Í fyrrgreindu læknisvottorði D, dags. 21. júní 2022, segir meðal annars að starfsendurhæfing sé fullreynd eins og staðan sé í dag en ef til vill sé hægt að reyna aftur starfsendurhæfingu síðar þegar kærandi sé komin lengra í sínu bataferli. Af þjónustulokaskýrslu VIRK verður ráðið að endurhæfing á þeirra vegum sé fullreynd. Aftur á móti verður ekki dregin sú ályktun af skýrslunni að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá verður ekki ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 18 mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á frekari endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júlí 2022, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta