Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 237/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 237/2016

Miðvikudaginn 16. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 23. júní 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. júní 2016 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 15. júlí 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. júlí 2016. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 25. júlí 2016 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1952. Hún býr ein í 80 fermetra leiguhúsnæði að B. Kærandi er öryrki. Hún hefur tekjur af örorku- og húsaleigubótum.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til veikinda, atvinnuleysis, tekjulækkunar og vankunnáttu í fjármálum.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 1.972.266 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 11. nóvember 2015, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. júní 2016 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til e-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi segir enga pappíra til um sölu á bifreið hennar þar sem hún hafi ráðstafað bifreiðinni til endurgreiðslu láns.

Kærandi gerir athugasemdir við hve langan tíma málið hafi tekið í meðförum umboðsmanns skuldara og vinnubrögð embættisins.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri honum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita heimildina að teknu tilliti til þeirra aðstæðna sem lýst sé í ákvæðinu. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti samkvæmt XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.).

Að því er varði riftanlega ráðstöfun í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lgr. bendi umboðsmaður á 131. gr. gþl. en þar sé fjallað um gjafagerninga. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segi að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. gþl. megi krefjast riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag, sbr. sama ákvæði. Jafna megi móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun við frestdag. Umsókn kæranda hafi verið móttekin 11. nóvember 2015.

Kærandi hafi ráðstafað bifreið sinni C til D 1. september 2015. Embætti umboðsmanns skuldara hafi óskað eftir því að kærandi legði fram kaupsamning og útskýrði hvernig hún hefði ráðstafað söluverðinu. Kærandi hafi greint frá því að hún hefði skuldað D peninga og hafi ráðstafað bifreiðinni til hans til að losna við þá skuld. Umboðsmaður hafi þá bent kæranda á að engin gögn lægju fyrir um nefnda skuld. Kærandi þyrfti að leggja fram gögn sem sýndu fram á tilvist hennar til að unnt væri að byggja á því að skuldin hefði verið til staðar. Með tölvupósti til umboðsmanns skuldara hafi kærandi greint frá því að ekkert hafi verið til skriflegt yfir skuldina við D. Hann hafi lánað kæranda peninga af og til í langan tíma og gert ýmislegt fyrir hana. Kærandi hefði síðan ákveðið að láta hann fá bílinn og þar með væri hún skuldlaus við D.

Með tölvupósti til kæranda 12. maí 2016 gerði umboðsmaður henni meðal annars grein fyrir því að væri ekki sýnt fram á tilvist skuldarinnar gæti komið til þess að líta þyrfti á ráðstöfun bifreiðarinnar sem riftanlega ráðstöfun í skilningi 131. gr. gþl. þar sem um gjafagerning gæti verið að ræða. Engin svör hafi borist frá kæranda.

Með tölvupósti til kæranda 31. maí 2016 hafi umboðsmaður borið fyrirliggjandi upplýsingar um verðmæti bifreiðarinnar C undir kæranda. Kærandi kvaðst ekki skilja tilgang tölvupóstsins, enda hefði hún þegar reynt að greina frá öllu.

Þar sem engin gögn hafi verið lögð fram um ætlaða skuld kæranda við D þyki ekki fært að byggja á því að skuldin hafi verið til staðar þegar bifreiðinni C var ráðstafað til hans. Af þeim sökum verði að líta á ráðstöfun bifreiðarinnar sem gjafagerning sem riftanlegur sé samkvæmt 1. mgr. 131. gr. gþl.

Í málinu liggi fyrir tölvupóstur frá kæranda 13. apríl 2016 þar sem hún segist hafa keypt bifreið fyrir 1.000.000 króna og greitt fyrir hana með hluta arfs. Arfinn hafi hún fengið greiddan árið 2014 samkvæmt skattframtali ársins 2015. Í því skattframtali komi fram að kærandi hafi keypt tvær bifreiðar árið 2014, bifreiðarnar C og E. Í skattframtali 2014 vegna ársins 2013 sé bifreiðin E tiltekin eign kæranda í lok árs 2013 og verðmæti hennar tiltekið 680.000 krónur. Þá komi þar fram að kærandi hafi verið skuldari að bílasamningi að fjárhæð 543.613 krónur. Samkvæmt þessu þyki ljóst að bifreiðin, sem kærandi hafi greitt 1.000.000 króna fyrir, sé C. Í tölvupósti 31. maí 2016 hafi kærandi verið innt eftir því hvort þetta væri rétt skilið en engin svör hafi borist.

Sé gert ráð fyrir 14% afskrift af bifreiðinni á því rúma ári sem hún hafi verið í eigu kæranda, hafi verðmæti hennar verið 860.000 krónur við ráðstöfun til D. Þannig sé ljóst að með því að ráðstafa bifreiðinni hafi eignir kæranda minnkað verulega og sömuleiðis möguleikar hennar til að greiða af skuldum sínum.

Af framangreindu virtu og að teknu sérstöku tilliti til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar og umsókn hennar því synjað.

IV. Niðurstaða

Kærandi gerir athugasemd við málshraða Embættis umboðsmanns skuldara.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 11. nóvember 2015. Eftir það áttu sér stað tölvupóstsamskipti á milli umboðsmanns skuldara og kæranda í janúar, febrúar, apríl, maí og júní 2016. Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 12. maí 2016 þar sem henni var kynnt að umsókn hennar gæti orðið synjað með vísan til [e-liðar] 2. mgr. 6. gr. lge. og henni gefinn kostur á að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. júní 2016 var umsókn kæranda synjað.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Í þessu tilviki liggur fyrir að á tímabilinu janúar til maí 2016 átti starfsmaður umboðsmanns skuldara í samskiptum við kæranda í því skyni að reyna að afla gagna er varpað gætu ljósi á mál hennar svo sem honum bar að gera samkvæmt rannsóknarskyldu 5. gr. lge. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir lagði kærandi ekki fram umbeðin gögn. Þegar litið er til þessa telur úrskurðarnefndin að málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga hafi verið virt í málinu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar byggist á e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla gþl. Þau sjónarmið sem þar búa að baki varða jafnræði kröfuhafa og er gengið út frá því að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi, þ.e. kröfuhöfum kæranda í þessu tilviki, til tjóns.

Að því er varðar mál þetta kemur 131. gr. gþl. til skoðunar, en í henni koma fram reglur um riftun gjafagerninga. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar er almenna reglan sú að riftunar má krefjast á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Hér verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram.

Samkvæmt skattframtali ársins 2015 vegna ársins 2014 keypti kærandi bifreiðina C 16. maí 2014, en bifreiðin er af tegundinni F, árgerð 2005. Samkvæmt sama skattframtali var bifreiðin veðbandalaus. Á skattframtali ársins 2016 vegna ársins 2015 kemur fram að bifreiðin hafi verið seld D 1. september 2015. Kærandi kveður bifreiðinni hafa verið ráðstafað til greiðslu skuldar við D en hvorki séu til gögn um skuldina né sölu bifreiðarinnar. Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 11. nóvember 2015 eða tæpum tveimur og hálfum mánuði eftir að hún ráðstafaði bifreiðinni.

Engin gögn liggja fyrir um kaupverð bifreiðarinnar en í tölvupósti kæranda til umboðsmanns skuldara 13. apríl 2016 greinir kærandi frá því að hún hafi keypt bifreið á 1.000.000 króna og verður að miða við að það hafi verið rétt kaupverð hennar. Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn né upplýsingar sem sýna fram á að hún hafi skuldað nefndum D peninga og ekkert í gögnum málsins bendir til þess.

Úrskurðarnefndin telur því að ráðstöfun á veðbandalausri bifreið hafi verið gjafagerningur og kröfuhöfum kæranda til tjóns. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að með því að afsala bifreiðinni hafi kærandi gert ráðstöfun sem riftanleg væri við gjaldþrotaskipti í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að öllu ofangreindu virtu telur úrskurðarnefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Með vísan til þess ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta