Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 245/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 245/2016

Miðvikudaginn 23. nóvember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 30. júní 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. júní 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 8. júlí 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. júlí 2016.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. júlí 2016 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1967. Hún er einstæð móðir og býr ásamt dóttur sinni í leiguíbúð að B. Sonur hennar [...] er hjá henni aðra hvora helgi.

Kærandi er [...]. Tekjur kæranda eru laun, meðlagsgreiðslur, barnabætur og húsaleigubætur.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til skilnaðar og vankunnáttu í fjármálum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. mars 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga 101/2010 (lge.). Tveir umsjónarmenn hafa komið að máli kæranda.

Með bréfi fyrra umsjónarmanns 15. ágúst 2012 til umboðsmanns skuldara tilkynnti sá fyrrnefndi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Umsjónarmaður hafi sent kröfuhöfum frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun 3. júlí 2012. Mótmæli hafi borist frá Landsbankanum hf. en bankinn hafi talið kæranda hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fé á tímabili frestunar greiðslna, í svokölluðu greiðsluskjóli.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. september 2013 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og hnekkti kærunefndin ákvörðun umboðsmanns með úrskurði 13. nóvember 2015. Mál kæranda fór aftur til efnislegrar vinnslu hjá umboðsmanni skuldara og var tekin ákvörðun 15. apríl 2016 (ranglega dagsett 15. mars 2016) um að veita kæranda áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar. Nýr umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum 20. apríl 2016.

Með bréfi síðari umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 27. apríl 2016 lagði sjá fyrrnefndi til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á ný samkvæmt 15. gr. lge. Umsjónarmaður hefði sent kæranda tölvupóst 26. apríl 2016 þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort hún hefði lagt til hliðar fé í mars og apríl 2016 þar sem hún hefði átt að eiga að meðaltali 123.235 krónur aflögu hvorn mánuð til að greiða af skuldbindingum sínum eftir að hafa greitt framfærslukostnað. Kærandi kvaðst ekkert hafa lagt til hliðar þar sem mikil óvissa hefði verið í ferlinu hjá umboðsmanni skuldara. Hún hefði ekki fengið upplýsingar um hvað væri að gerast í máli hennar og hún hefði ekki áttað sig á því hvort hún væri í þessu ferli eða ekki. Þá hefði hún greitt af lánum til LÍN í febrúar eða mars og kröfu frá Inkasso í sex mánuði frá sumrinu 2015. Þá sagðist kærandi hafa þurft að standa straum af talsverðum útgjöldum vegna lækniskostnaðar dóttur sinnar og tannlæknakostnaðar hennar sjálfrar. Loks hefði hún keypt farseðil aðra leið til C fyrir dóttur sína en hann hefði kostað 25.796 krónur.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. beri skuldara að leggja fyrir það fé sem sé umfram kostnað við framfærslu. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Sé tekið tillit til greiðslu kæranda til LÍN hefði hún átt að geta lagt fyrir alls 171.101 krónu en hún hafi ekkert lagt fyrir. Með vísan til þessa teldi umsjónarmaður að kærandi hefði brotið gegn a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og því væru fram komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun samkvæmt lge. væri heimil.

Með ábyrgðarbréfum umboðsmanns skuldara til kæranda 26. maí og 6. júní 2016 var henni kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Engin svör bárust.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. júní 2016 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir niðurfellingu umboðsmanns skuldara á heimild til greiðsluaðlögunar. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa verið með mál til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara frá því að hún skildi við mann sinn árið 2011. Við skilnaðinn hafi kærandi lent í miklum fjárhagserfiðleikum. Á þeim tíma hafi hún notið fjárhagsaðstoðar frá móður sinni til að geta náð endum saman en umboðsmaður skuldara hafi notað það gegn henni. Kærandi hafi einnig fengið peninga að gjöf frá móður sinni en það hafi einnig verið notað gegn henni.

Kæranda hefði ávallt verið tilkynnt að hún hefði átt að leggja fé til hliðar, en það hafi verið henni ómögulegt þar sem tekjur hennar hafi aldrei dugað út mánuðinn og þar af leiðandi aldrei verið neinn afgangur.

Kærandi gerir athugasemdir við vinnubrögð umboðsmanns skuldara í málinu. Umboðsmaður hafi tilkynnt henni fyrir um ári að málið yrði fellt niður og hafi þá farið að berast reikningar sem hún hafi greitt. Þegar umboðsmaður hafi haft samband síðastliðið vor og tilkynnt henni að málið yrði tekið upp aftur hafi kærandi ekkert skilið í þessu. Þá hafi henni verið sagt að hún hefði allan tímann verið í ferlinu en henni hafi engar tilkynningar borist um það.

Kærandi hafi unnið aukavinnu um kvöld og helgar og því leyft sér að kaupa farmiða fyrir X ára dóttur sína aðra leið til útlanda. Nú sé verið að nota þetta gegn henni í þeim skilningi að umsókn hennar eigi að fella niður, en einnig vegna þess að hún hafi ekki lagt til hliðar. Kærandi geri sér grein fyrir að hún hafi ekki mátt kaupa farmiða handa sjálfri sér en líti svo á að nú sé verið að reyna að finna allt mögulegt til að hún fái neitun hjá umboðsmanni.

Kærandi hafi nú loksins tekjur afgangs í hverjum mánuði vegna aukavinnu. Hún sjái því fram á að geta byrjað að greiða skuldir sínar og leggja til hliðar. Hún hafi verið að greiða af skuldum undanfarið og ekki stofnað til nýrra skulda síðastliðin ár.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að á meðan frestun greiðslna standi yfir skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 8. mars 2012 sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi. Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara hafi verið sent bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þær upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 58 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 30. júní 2011 til 30. apríl 2016. Í kjölfar þess að mál kæranda hafi komið aftur til efnislegrar vinnslu hjá umboðsmanni skuldara eftir úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, hafi embættið meðal annars lagt mat á það hvort kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Mat embættisins sé að greiðslugeta kæranda hafi verið neikvæð á tímabilinu 1. júlí 2011 til 31. desember 2015 og því hafi hún ekkert getað lagt fyrir á því tímabili. Nú sé því til skoðunar fjögurra mánaða tímabil frá janúar til apríl 2016.

Upplýsingar um laun byggi á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, álagningarseðlum og öðrum opinberum gögnum. Tekið sé mið af öllum tekjum, þar á meðal meðlagsgreiðslum, barnabótum og húsaleigubótum. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé lagt til grundvallar að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu janúar til apríl 2016 í krónum:

Tekjur 2016
Launatekjur 1.649.099
Barna/vaxtabætur o.fl. 73.000
Húsaleigubætur 74.340
Meðlag 117.876
Samtals 1.914.315
Sparnaður 2016
Heildartekjur 1.914.315
Meðaltekjur á mán. 478.579
Framfærsluk. á mán. 397.587
Greiðslugeta á mán. 80.992
Áætlaður sparnaður 323.967

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið 397.587 krónur á tímabilinu. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað maímánaðar 2016 fyrir einstakling með eitt barn á framfæri og annað barn á framfæri tvær helgar í mánuði. Gengið sé út frá því að kærandi hafi alls haft heildartekjur að fjárhæð 1.914.315 krónur á framangreindu tímabili eða um 478.579 krónur á mánuði.

Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara sé áætlað að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar 323.967 krónur á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2016. Kærandi kveðist hafa þurft að standa straum af auknum útgjöldum vegna læknis- og tannlæknakostnaðar en það hafi dregið úr getu hennar til að leggja fé til hliðar. Hún hafi þó ekki lagt fram kvittanir vegna þessa kostnaðar. Kærandi hafi sýnt fram á kaup á flugmiða til C að fjárhæð 25.796 krónur. Ekki sé litið þannig á að slík kaup falli undir nauðsynlegan framfærslukostnað og því ekki tekið tillit til þeirra við útreikning á sparnaði. Kærandi hafi greitt skuld í innheimtu hjá Inkasso ehf. að fjárhæð 10.220 krónur. Til þeirrar skuldar hafi verið stofnað fyrir greiðsluskjól og var kæranda því ekki heimilt að greiða hana. Kærandi hafi greitt tryggingar að fjárhæð 29.780 krónur og sé tekið tillit til þeirrar greiðslu við framangreinda útreikninga. Þá hafi kærandi greitt LÍN 176.003 krónur en af því falli 75.369 krónur innan þess tímabils sem hér skipti máli og sé tekið tillit til þess. Alls sé því tekið tillit til útgjalda kæranda að fjárhæð 105.149 krónur. Samkvæmt því hefði kærandi átt að leggja til hliðar 218.818 krónur á tímabilinu (323.967 - 105.149).

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan skuldarar séu með í vinnslu umsókn um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé skuldurum óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Þar sem ekki liggi fyrir að kærandi eigi neinn sparnað sé litið svo á að hún hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Jafnframt sé litið svo á að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að kaupa flugmiða fyrir dóttur sína í apríl 2016. Með því hafi kærandi látið af hendi fjármuni sem annars hefðu nýst lánardrottnum sem greiðsla.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 30. júní 2011 og hófst þá tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lge. Kærandi fékk síðan heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. mars 2012. Umsjónarmaður kæranda sendi kröfuhöfum frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings 3. júlí 2012, en kröfuhafar féllust ekki á samninginn þar sem kærandi var ekki talin hafa lagt til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, þrátt fyrir að eiga að geta það. Umsjónarmaður sendi málið því til baka til umboðsmanns skuldara 15. ágúst 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. september 2013 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður þar sem hún hefði ekki lagt fyrir þá peninga sem hefðu verið umfram mánaðarlegan framfærslukostnað. Ákvörðun umboðsmanns var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi hana úr gildi 5. nóvember 2015 þar sem málið þótti ekki nægilega rannsakað. Umboðsmaður skuldara fékk málið aftur til meðferðar og tók ákvörðun 15. apríl 2016 (ranglega dagsett 15. mars 2016) um að veita kæranda áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunarumleitana. Þar kom fram að við frekari skoðun á málinu og að teknu tilliti til fjárstuðnings frá móður kæranda teldi umboðsmaður að kærandi hefði ekkert getað lagt fyrir fram til 31. desember 2015. Í því sambandi væri allur vafi túlkaður kæranda í hag. Af þeim sökum kæmi aðeins til skoðunar hvort kæranda hefði borið að leggja til hliðar fé frá 1. janúar 2016 þegar greiðslugeta hennar varð jákvæð. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður öðru sinni 20. júní 2016 og var sú ákvörðun einnig kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt framansögðu voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður öðru sinni með vísan til þess að kærandi hefði brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabilinu 1. janúar til 20. júní 2016

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II lge. hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 27. apríl 2016 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi í framhaldinu greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 20. júní 2016.

Sem fyrr segir byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar næga fjármuni á tímabilinu 1. janúar til 30. apríl 2016, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 218.818 krónur á fyrrnefndu tímabili eða frá 1. janúar til 30. apríl 2016. Kærandi kveður hafa verið ómögulegt fyrir sig að leggja til hliðar þar sem hún hafi aldrei átt neinn afgang eftir að hafa greitt mánaðarlegan framfærslukostnað.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa tekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. janúar 2016 til 30. apríl 2016: Fjórir mánuðir*
Nettótekjur 1.649.099
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 412.275

*Upplýsingar um tekjur í maí 2016 liggja ekki fyrir og er því miðað við tímabilið 1. janúar til 30. apríl 2016.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda, meðlag og barnabætur, var greiðslugeta kæranda þessi á tímabilinu í krónum:

Tímabilið 1. janúar 2016 til 30. apríl 2016: Fjórir mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 1.649.099
Barnabætur 73.000
Húsaleigubætur 74.340
Meðlag 117.876
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 1.914.315
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 478.579
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 397.587
Greiðslugeta kæranda á mánuði 80.992
Alls sparnaður í fjóra mánuði x 80.992 323.967

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á því tímabili greiðsluskjóls sem hér er til skoðunar.

Samkvæmt ofangreindu hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar að lágmarki 323.967 krónur á tímabilinu. Á þessu tímabili hefur kærandi samkvæmt gögnum málsins greitt 29.688 krónur vegna trygginga. Tryggingar teljast til framfærslukostnaðar en þar sem ekki er gert ráð fyrir greiðslu trygginga í framfærslukostnaði umboðsmanns skuldara verður framangreind fjárhæð dregin frá útreiknuðum sparnaði kæranda. Þá hefur kærandi greitt LÍN 75.369 krónur sem einnig verða dregnar frá útreiknuðum sparnaði þar sem skuldir við LÍN standa utan greiðsluaðlögunar. Samkvæmt því bar kæranda að leggja til hliðar 218.910 krónur á tímabilinu (323.967 - 29.688 - 75.369). Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekkert lagt til hliðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi því brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Einnig byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að sú háttsemi kæranda að kaupa flugfarseðil að fjárhæð 25.796 krónur á tímabilinu feli í sér ráðstöfun sem brjóti gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þeir fjármunir hefðu annars gagnast lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Þrátt fyrir að þessi fjárhæð sé ekki há fellst úrskurðarnefndin á það mat umboðsmanns skuldara að ofangreind kaup feli í sér háttsemi sem sé andstæð þeim fyrirmælum sem fram koma í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta