Mál nr. 298/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 298/2016
Miðvikudaginn 28. september 2016
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 10. ágúst 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 23. júní 2016 þar sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
I. Málsatvik og málsmeðferð
Málsatvik eru þau að með ákvörðun 23. júní 2016 felldi umboðsmaður skuldara úr gildi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Kærandi var talinn hafa staðið í vegi fyrir sölu á fasteign sinni og þar með brotið gegn 5. mgr. 13. gr. lge. Þá hafi kærandi ekki sinnt skyldu sinni um samráð við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun en það sé í andstöðu við 1. mgr. 16. gr. lge. Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að af þessum ástæðum hafi embættið fellt niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.
Þann 10. ágúst 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins.
Kærandi greinir frá því að til standi að selja fasteign hennar og óski hún eftir öðru tækifæri til þess. Vegna erfiðleika við að ná í starfsmenn umboðsmanns skuldara hafi hún ekki áttað sig á því hversu langt málið væri komið. Kærandi hafi jafnframt glímt við mikil veikindi sem hafi hamlað getu hennar til að framfylgja málinu.
Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi á móti hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júlí 2016 en ákvörðunin var send með ábyrgðarpósti til kæranda 24. júní 2016. Í bréfi umboðsmanns skuldara sem fylgdi ákvörðun embættisins kom fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar.
Með bréfi 16. ágúst 2016 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Engin svör bárust frá kæranda.
II. Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara, sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.
Kæran barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 10. ágúst 2016. Kærandi tók á móti tilkynningu um ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar 7. júlí 2016. Samkvæmt þessu byrjaði kærufrestur að líða þann dag en honum lauk 21. júlí 2016. Kæran barst því úrskurðarnefndinni 20 dögum of seint.
Kærandi kveðst hafa átt við veikindi að stríða en engin gögn liggja fyrir því til staðfestingar. Þá gefur ekkert í gögnum málsins til kynna að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr, en engar skýringar bárust frá kæranda þegar henni var veitt tækifæri til að gera grein fyrir ástæðum þess. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
ÚRSKURÐARORÐ
Kæru A á ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal