Máli nr. 4/2006. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 16. maí 2006
í máli nr. 4/2006:
ÞG verktakar ehf.
gegn
Fasteignafélagi Hafnarfjarðar
Með bréfi 22. febrúar 2006 kæra ÞG verktakar ehf. ákvörðun Fasteignafélags Hafnarfjarðar um að velja ekki félagið til þátttöku í lokuðu útboði auðkennt sem ,,Sundlaug á Völlum - Alútboð“.
Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi útboðið þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Þá krefst kærandi þess að ákvörðun kærða um val á bjóðendum verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að láta fara fram forval að nýju, sbr. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Þá er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Loks er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda málskostnað, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.
Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.
Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu kæranda um stöðvun útboðsins með ákvörðun 10. mars 2006. Með bréfi 30. mars 2006 krafðist kærandi þess á ný að samningsgerð yrði stöðvuð þar til endanlega hefði verið skorið úr kæru, sbr. 80. gr. laga nr. 94/2001. Þeirri kröfu var hafnað með ákvörðun nefndarinnar 11. apríl 2006.
I.
Í nóvember 2005 voru forvalsgögn vegna fyrirhugaðs alútboðs vegna sundlaugar á Völlum gefin út. Í lið 6 í forvalsgögnum var fjallað um val á bjóðendum. Kemur þar fram að valdir verði að hámarki 4-5 hæfustu umsækjendurnir til þátttöku í lokuðu alútboði í kjölfar forvalsins. Tilgreint er að reynsla, fjárhagsleg staða og stjórnun séu þau þrjú atriði sem ráði við mat á hæfni umsækjenda og að vægi þeirra sé jafnt. Undir liðnum ,,Reynsla“ er nánar tilgreint ,,af fyrri framkvæmdum“, ,,af rekstri“ og ,,meðmæli fyrri verkkaupa“. Undir liðnum ,,Fjárhagsleg staða“ er nánar tilgreint ,,ársreikningur“ og ,,eigið fé sé ætíð jákvætt“. Undir liðnum ,,Stjórnun“ er nánar tilgreint ,,starfslið og samstarfsaðilar“ og ,,álag, verkefnastaða“. Tekið er fram að verði eitthvert þessara atriða talið ófullnægjandi muni umsækjandi ekki verða talinn hæfur. Sjö aðilar tóku þátt í forvalinu auk kæranda og voru þeir allir taldir hæfir til að bjóða í verkið. Með bréfi kærða, dags. 27. janúar 2006, var kæranda tilkynnt að fyrirtækið hefði ekki verið valið til þátttöku í útboðinu. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir niðurstöðu á vali bjóðenda með bréfi 1. febrúar 2006 og var sú beiðni ítrekuð með bréfi 21. febrúar 2006. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2006, var beiðni kæranda um rökstuðning svarað. Kemur þar fram að kærði hafi valið þau fyrirtæki sem hann hafi talið hæfust eftir fyrirfram ákveðnu einkunnakerfi í samræmi við ákvæði forvalsgagna. Hafi mat verið lagt á hæfi kæranda, eins og annarra umsækjenda, í samræmi við liði 3 og 6 í forvalsgögnum. Hafi reynsla kærða af kæranda við byggingu fjórða áfanga Hvaleyrarskóla og það að kærandi gerði ekki grein fyrir reynslu af sambærilegum verkum leitt til lækkunar á einkunn fyrir liðinn ,,Reynsla“. Hafi skortur á að þeir arkitektar sem tilnefndir voru kynntu reynslu af sambærilegum verkum og það að landslagsarkitekt var ekki tilnefndar eins og beðið var um jafnframt leitt til lækkunar á einkunn kæranda fyrir liðinn ,,Stjórnun“.
II.
Kærandi byggir á því að brotið hafi verið gegn skilmálum forvalsins þar sem skýrlega komi fram í lið 6 í forvalsgögnum hvaða þrjú atriði ráði vali bjóðenda og að það sé jafnt vægi þar á milli. Sé kærða óheimilt að líta til annarra atriða en þeirra sem talin séu upp og jafnframt óheimilt annað en að láta þessi atriði ráða að jöfnu vali á bjóðendum. Hafi kærandi lagt verulega vinnu í að útbúa forvalsgögn til samræmis við skilmála forvalsins og telji sig hæfari samkvæmt skilmálum liðar 6 í forvalsgögnum en aðila sem teknir hafi verið fram yfir hann. Vísað er til þess að í forvalsgögnum komi skýrt fram að valdir verði 4-5 hæfustu bjóðendur samkvæmt kröfum liðar 6.
Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 94/2001 skuli við forval fara að reglum um almennt útboð eftir því sem við eigi. Skuli samkvæmt 26. gr. laganna greina forsendur fyrir vali tilboðs í útboðsgögnum og megi ekki vísa til annarra atriða en staðreynd verði á grundvelli gagna sem bjóðendur leggi fram eða með öðrum hlutlægum hætti. Hafi kærandi engan rökstuðning fengið fyrir því af hverju hann sé ekki í hópi 4-5 hæfustu bjóðenda. Sé kærða óheimilt að byggja niðurstöðu á öðru en þeim atriðum sem tilgreind séu í lið 6 í forvalsgögnum með jöfnu vægi. Verði kærði því að leggja fram rökstuðning fyrir vali hvers og eins bjóðanda, enda hljóti faglegt mat á þeim atriðum að liggja fyrir hjá kærða. Kærandi telur að samkvæmt 50. gr. laga nr. 94/2001 beri að velja 4-5 hæfustu bjóðendurna, en ekki sé heimilt að velja eftir geðþótta hæfa bjóðendur úr stærra hópi. Sé orðalagið ,,hæfustu“ einnig notað í forvalsgögnum. Þá komi skýrt fram í 2. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001 að óheimilt sé að meta bjóðendur á öðrum forsendum en tilgreindar séu í forvalsgögnum, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 94/2001.
Kærandi byggir jafnframt á því að hann hafi ekki notið sannmælis við einkunnagjöf. Að því er varðar lið 1.1, Reynsla af fyrri framkvæmdum, gerir kærandi ekki athugasemd við einkunn ÍAV hf. eða Ístaks ehf. Hann gerir hins vegar athugasemd við að hann skuli vera settur jafnhliða Jáverki ehf., Feðgum ehf., Eykt ehf. og Risi ehf. Sé litið hlutlægt á lista yfir unnin verk standist ekki að þessir aðilar hafi allir sömu reynslu og kærandi, en hann hafi leyst af hendi margfalt flóknari verk en byggingu sundlaugar, sbr. lið 1.1 í bréfi hans frá 20. mars 2006. Sé ekki málefnalegt að einblína á það hvort hann hafi byggt sundlaug eða ekki, heldur eigi einungis að líta til getu hans til að framkvæma verkið. Sé einnig nauðsynlegt við úrlausn málsins að nefndin líti yfir lista annarra bjóðenda um þau verk sem þeir hafi lokið. Við slíka samanburðarhæfa skoðun muni blasa við nefndinni að kærandi hafi ekki verið látinn njóta sannmælis. Að því er varðar lið 1.2, Reynsla af rekstri, gerir kærandi ekki athugasemd við einkunnagjöf ÍAV hf. eða Ístaks ehf. Hann gerir hins vegar athugasemd við að aðrir séu metnir með sömu eða lítillega minni reynslu en hann. Hafi honum verið mismunað á ómálefnalegan hátt þar sem aðrir bjóðendur hafi verið metnir of hátt. Sé nauðsynlegt að kærði útskýri hvaða tæki og tól kæranda hafi skort til að vinna sambærileg verk, en hann búi yfir einum besta tækjakosti verktakafyrirtækja landsins. Að því er varðar lið 1.3, Reynsla og meðmæli, hafnar kærandi því alfarið að kærði hafi réttmæta ástæðu til að draga hann niður í einkunn vegna fyrri reynslu. Vísað er til meðfylgjandi greinargerðar kæranda um verklok vegna fjórða áfanga Hvaleyrarskóla þar sem málið sé rakið frá sjónarhorni hans. Komi þar fram með rökstuddum hætti að orsök tafa hafi alfarið mátt rekja til kærða og að kærandi hafi lagt mikið á sig til að leggja honum lið í því máli.
Að því er varðar lið 2.1, Fjárh. st, ársreikningur, telur kærandi nauðsynlegt að kærði rökstyðji niðurstöðu sína fyrir einkunn hvers og eins. Verði kærði að rökstyðja hvers vegna einkunn kæranda hafi verið lækkuð um 1,5 stig.
Að því er varðar lið 3.1.2, Stjórnun arkitekt, telur kærandi að skoða þurfi hvort það komi skýrt fram hjá öðrum bjóðendum að arkitekt þeirra hafi áður teiknað sundlaug. Sé þetta ekki sérstaklega málefnaleg krafa og eigi frekar að líta til sambærilegs verkefnis. Hafi Gláma Kím bæði teiknað skólahús og íþróttahús sem kalli í eðli sínu á lausn sambærilegra þátta og við hönnun sundlaugar, en þessi verk hafi verið talin upp í forvalsgögnum kæranda. Að því er varðar lið 3.1.4, Landslagsarkitekt, telur kærandi að kærða hafi samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993 borið að senda fyrirspurn til hans varðandi umhverfishönnun. Hafi verið ómálefnalegt að gefa honum einkunnina núll fyrir þennan lið. Þar sem Gláma Kím hafi verið tilnefnt sem arkitektar verkefnisins hafi verið rökrétt að álykta að fyrirtækið myndi sjá um landslagsarkitektúr og sé orðspor þess ekki þannig að gefa eigi núll í einkunn fyrir þennan lið.
Kærandi tekur fram að það sé ómálefnalegt að meta aðra bjóðendur of hátt miðað við efni og aðstæður, sbr. liði 1.1, 1.2, 1.3 og 2.2, og jafnframt ómálefnalegt að meta hann of lágt af ómálefnalegum ástæðum, sbr. liði 1.1, 1.2. og 3.1.4. Í slíkri samanburðarskoðun felist ekki huglægt endurmat tilboða, heldur hlutlægur samanburður á því hvort kærandi hafi verið látinn njóta sannmælis. Vanti aðeins eitt stig upp á að einkunn kæranda sé jöfn einkunn þeirra lægst metnu fyrirtækja sem valin voru til þátttöku í útboðinu og hafi hann bent á verulega ágalla í einkunnagjöf sem eigi að leiða til þess að fallist verði á kröfur hans.
Þá hafi aðalröksemd kærða frá upphafi verið að hann hefði svo slæma reynslu af kæranda vegna Hvaleyrarskóla og að tilboði hans hafi verið hafnað á þeirri forsendu. Hafi kærandi andmælt þessu og nú lagt fram rökstudda greinargerð ásamt fylgigögnum þar sem þessi málatilbúnaður sé hrakinn. Þá veki athygli að sá liður í einkunnagjöf sem þetta eigi undir lækki aðeins um eitt stig, en aðrir þættir sem kærandi hefði átt að fá fullt hús stiga fyrir séu lækkaðir án sérstaks rökstuðnings.
III.
Kærði mótmælir því að brotið hafi verið gegn rétti kæranda. Hafi átta fyrirtæki tekið þátt í forvali og komi fram í forvalsgögnum að við val á þátttakendum verði lögð áhersla á að umsækjendur hafi reynslu af verkefnum sem á einhvern hátt séu sambærileg við það verkefni sem hér um ræði. Í lið 3 í forvalsgögnum komi fram þær upplýsingar sem verkkaupi vilji fá frá þátttakendum og sé sérstaklega tekið fram að upplýsingarnar skuli vera nákvæmar og greinargóðar. Í lið 6 í forvalsgögnum komi fram þau atriði sem ráða muni við mat á hæfi þátttakenda og tekið fram að vægi þessara atriða sé jafnt. Hafi niðurstaða forvalsins verið sú að allir átta þátttakendur töldust hæfir. Hafi kærði ákveðið að velja sex þátttakendur og gefið þeim kost á að bjóða í verkið. Í forvalsgögnum komi fram að fyrirhugað hafi verið að bjóða að hámarki 4 – 5 þátttakendum að taka þátt í útboðinu. Reyndin hafi síðan orðið sú að sá aðili sem hafi verið í 6. sæti hafi verið með sömu einkunn og sá sem varð í 5. sæti. Hafi af þeim sökum verið ákveðið að gefa þeim sex efstu kost á að bjóða í verkið. Hafi ekki komið fram athugasemdir við þessa breytingu frá þátttakendum.
Við samanburð á hæfi kæranda og annarra þátttakenda í forvalinu hafi kærði talið ákveðin atriði leiða til lækkunar á einkunn kæranda. Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki kynnt hvaða reynslu hann hefði af sambærilegum verkefnum eins og því sem hér um ræði. Í öðru lagi hafi kærandi ekki gefið upp nafn landslagsarkitektastofu eða landslagsarkitekts sem myndi koma að verkinu, þrátt fyrir skýr fyrirmæli gagna um að slíkt þyrfti að koma fram ásamt greinargerð um reynslu stofunnar eða arkitektsins og hæfni til hönnunar sambærilegra verka. Í þriðja lagi hafi ekki fylgt greinargerð um reynslu þeirra arkitekta sem tilnefndir voru og hæfni þeirra til hönnunar sambærilegra verka. Í fjórða lagi hafi einn af þeim þáttum sem lagt var mat á verið meðmæli frá fyrri verkkaupum. Hafi kærandi áður unnið fyrir kærða við byggingu Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði og reynsla kærða af kæranda verið með þeim hætti að hún leiddi til lækkunar á mati á hæfi hans.
Að því er varðar athugasemdir kæranda við einkunnagjöf vísar kærði til þess að fyrir lið 1.1, Reynsla af fyrri framkvæmdum, hafi hæst verið gefin 11 stig. Hafi þeir bjóðendur sem taldir hafi verið hæfastir vegna fyrri framkvæmda fengið 10 stig og síðan verið bætt við aukastigi fyrir reynslu af sambærilegum verkefnum. Hafi að mati kærða ekki komið fram upplýsingar í forvalsgögnum kæranda um að hann hefði reynslu af sambærilegum verkefnum, en þeir bjóðendur sem fengu 11 stig sýnt fram á það í forvalsgögnum sínum að þeir hefðu unnið sambærileg verk. Að því er varðar lið 1.2, Reynsla af rekstri, tekur kærði fram að staðhæfing kæranda þess efnis að hann hafi verið talinn skorta tæki og tól til að vinna verkið sé röng. Hafi allir bjóðendur sýnt fram á að þeir hefðu tæki og tól til að leysa sambærileg verkefni og það sem hér um ræði. Kærði hafi hins vegar talið tvö fyrirtæki, ÍAV hf. og Ístak ehf., standa fremst og þar á eftir koma Eykt ehf. og kæranda sem hafi komið að stórum verkum. Síðan hafi komið Keflavíkurverktakar ehf., Ris ehf., Feðgar ehf. og Jáverk ehf., sem öll hafi getu til að vinna verkefnið samkvæmt framlögðum gögnum. Að því er varðar lið 1.3, Reynsla meðmæli, leggur kærði árherslu á að reynsla hans af kæranda vegna byggingar Hvaleyrarskóla hafi leitt til lækkunar við mat á hæfi kæranda. Fyrir þennan lið hafi hæst verið gefin 11 stig, en kærandi fengið 10 stig. Tekið er fram að ágreiningur á milli kærða og kæranda vegna þessarar byggingar sé ekki til skoðunar hjá kærunefnd útboðsmála. Vegna þeirrar greinargerðar og gagna sem kærandi hafi lagt fyrir nefndina sé kærða þó nauðsynlegt að koma sjónarmiðum sínum að og sé það gert með greinargerð verkefnastjóra hjá kærða. Komi þar meðal annars fram að 6. apríl 2006 sé verki þessu ekki enn lokið af ástæðum sem eingöngu megi rekja til kæranda. Samkvæmt ósk kæranda um breytingu á verklokum, sem kærði hafi ekki gert athugasemdir við hafi verkinu átt að vera lokið þann 21. ágúst 2005. Hafi fimmta lokaúttekt á verkinu farið fram í síðustu viku, en það þekkist ekki hjá kærða að það þurfi að fara fram fimm úttektir og að verki sé samt ólokið. Jafnframt er tekið fram að aðrir bjóðendur hafi verið metnir út frá reynslu kærða af þeim og meðmælum samkvæmt forvalsgögnum.
Að því er varðar lið 2.1, Fjárh. st. ársreikningur, vísar kærði til þess að í útboðsgögnum séu gerðar ákveðnar kröfur um fjárhagslega stöðu, að ársreikningur liggi fyrir og að eigið fé bjóðenda sé jákvætt. Hafi allir bjóðendur sýnt fram á nægilegan fjárhagslegan styrk til að vinna verkefnið, en fjárhagsstaða þeirra hins vegar verið misjöfn. Hafi kærði gefið hverjum og einum bjóðanda einkunn á grundvelli upplýsinga um veltu og eigið fé og niðurstaðan verið sú að ÍAV hf. og Ístak ehf. væru í sérflokki, en að kærandi og Eykt ehf. kæmu næst. Þar á eftir hafi komið Keflavíkurverktakar ehf., Feðgar ehf., Jáverk ehf. og Ris ehf. Hafi einkunnir verið 16,5, 15 og 13,5 stig. Sé alltaf álitamál hvort réttara hefði verið að allir bjóðendur fengju hæstu einkunn, þar sem þeir hafi allir talist hafa fjárhagslegan styrk til að inna verkefnið af hendi. Hefði sú aðferð verið notuð hefði niðurstaðan hins vegar augljóslega verið óhagstæðari fyrir kæranda.
Að því er varðar lið 3.1.2, Stjórnun arkitekt, tekur kærði fram að með útboðsgögnum hafi verið leitað eftir aðila til hönnunar, byggingar og fullnaðarfrágangs sundmiðstöðvar og hluta lóðar. Hafi verið gerð sú krafa til þátttakenda að þeir gæfu upplýsingar um samstarfsaðila sína, þ.m.t. um arkitekta, verkfræðinga og landslagsarkitekta sem viðkomandi myndi vinna með ásamt greinargerð um reynslu þeirra og hæfni til hönnunar sambærilegra verka. Séu hugleiðingar kæranda um að þetta sé ómálefnaleg krafa illskiljanlegar, en það sé rökrétt og eðlileg krafa að þeir sem komi að hönnun og byggingu slíks mannvirkis hafi reynslu af slíkum eða sambærilegum verkefnum. Hafi allir aðrir bjóðendur en kærandi og Keflavíkurverktakar ehf. sýnt fram á að arkitektar þeirra hefðu komið að hönnun sundlaugar og hafi í þeim tilfellum þar sem sýnt var fram á að arkitektar hefðu unnið að hönnun sundlaugar svo og að öðrum verkefnum verið gefin 10 stig. Hafi Gláma Kím sýnt fram á margvísleg verkefni en ekki fram á að fyrirtækið hefði hannað sundlaug eða sambærileg verkefni. Hins vegar hafi verið tekið fram að fyrirtækið hefði hannað íþróttamannvirki og hafi einkunn kæranda því aðeins verið lækkuð um eitt stig. Í forvalsgögnum Keflavíkurverktaka ehf. hafi ekki verið sýnt fram á að arkitektar hefðu komið að hönnun íþróttamannvirkja og fyrirtækið því verið lækkað um tvö stig.
Að því er varðar lið 3.1.4, Landslagsarkitekt, tekur kærði fram að fram komi í forvalsgögnum að bjóðendur skuli leggja fram skrá yfir helstu samstarfsaðila, þ.m.t. landslagsarkitekta. Tekið er fram að Hafnarfjarðarbær, Byggingadeild Umhverfis- og tæknisviðs og kærði hafi lagt áherslu á að opin svæði og lóðir stofnana skuli vera hönnuð af landslagsarkitektum. Sé því ómótmælt af hálfu kæranda að hann hafi ekki tilgreint í forvalsgögnum nafn landslagsarkitektastofu eða landslagsarkitekts og hafi því ekki fylgt með greinargerð um hæfni slíks arkitekts til hönnunar sambærilegra verka. Á lista Gláma Kím, sem hafi fylgt forvalsgögnum kæranda, sé að finna upplýsingar um tólf starfsmenn og sé enginn þeirra landslagsarkitekt. Hafi því ekki verið rökrétt að álykta að fyrirtækið myndi sjá um landslagsarkitektúr. Hafi kærði þvert á móti metið það svo að kærandi hefði ekki á sínum snærum landslagsarkitekt þrátt fyrir skýr ákvæði útboðsgagna. Til samanburðar er upplýst að Eykt ehf. hafi heldur ekki gefið upp nafn landslagsarkitekts eða landslagsarkitektastofu og því fengið núll í einkunn, eins og kærandi. Þá hafi tveir þátttakendur gefið upp nöfn landslagsarkitekta sem ekki höfðu komið að hönnun lóða sundlauga og einkunn þeirra verið lækkuð í 2,5 stig. Hafi aðrir þátttakendur lagt fram fullnægjandi gögn og upplýsingar og fengið 3 stig í einkunn. Hafi útboðsgögn verið skýr og kærði leitað eftir þessum upplýsingum með þeim. Umfram það beri honum engin skylda til að leita eftir frekari upplýsingum frá kæranda og eigi tilvísun í 10. gr. laga nr. 37/1993 ekki við.
Loks er vísað til þess að ekkert styðji fullyrðingar kæranda um að það hafi verið aðalröksemd kærða frá upphafi að hann hafi hafnað tilboði kæranda vegna slæmrar reynslu af honum við byggingu Hvaleyrarskóla. Af öllu framansögðu sé ljóst að kærði hafi í einu og öllu farið eftir skilyrðum forvalsgagna og að mat hans á kæranda og öðrum bjóðendum hafi verið unnið á málefnalegum og hlutlægum forsendum.
IV.
Kærandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að kærði hafi byggt niðurstöðu sína um val á bjóðendum á öðrum atriðum en þeim sem fram komu í forvalsgögnum. Í 26. gr. laga nr. 94/2001 er tekið fram að í útboðsgögnum skuli tilgreina forsendur fyrir vali tilboðs með eins nákvæmum hætti og framast er unnt. Í 2. mgr. 50. gr. laganna segir að óheimilt sé að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram komi í útboðsgögnum. Ákvæðin gilda um hið kærða forval, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 94/2001. Í lið 6 í forvalsgögnum er fjallað um val á bjóðendum. Kemur þar fram að þau þrjú atriði sem ráða muni við mat á hæfni umsækjenda séu ,,Reynsla“, ,,Fjárhagsleg staða“ og ,,Stjórnun“ og sé vægi þeirra jafnt. Undir liðnum ,,Reynsla“ er nánar tilgreint ,,af fyrri framkvæmdum“, ,,af rekstri“ og ,,meðmæli fyrri verkkaupa“. Undir liðnum ,,Fjárhagsleg staða“ er nánar tilgreint ,,ársreikningur“ og ,,eigið fé sé ætíð jákvætt“. Undir liðnum ,,Stjórnun“ er nánar tilgreint ,,starfslið og samstarfsaðilar“ og ,,álag, verkefnastaða“. Við val á bjóðendum notaðist kærði við matslíkan sem samanstóð af fyrrnefndum þremur liðum og undirliðum að öðru leyti en því að liðurinn ,,Stjórnun“ skiptist í ,,starfslið“, ,,arkitekt“, ,,verkfræðingur“, ,,landslagsarkitekt“ og ,,álag/verkefnastaða“. Í lið 6 í forvalsgögnum var sem áður segir tilgreint að við val á bjóðendum yrði litið til ,,starfsliðs og samstarfsaðila“, en ekki tekið fram að með samstarfsaðilum væri átt við arkitekta, verkfræðinga og landslagsarkitekta. Í lið 3 í forvalsgögnum er vikið að upplýsingum sem bjóðendum bar að veita og kemur þar fram að þeir skuli afhenda skrá yfir helstu samstarfsaðila, þar með talið arkitekta, verkfræðinga og landslagsarkitekta sem þeir hyggist vinna með og greinargerð um reynslu þeirra og hæfni til hönnunar sambærilegra verka. Samkvæmt framangreindu voru bjóðendur krafðist um upplýsingar um arkitekta, verkfræðinga og landslagsarkitekta sem þeir hugðust vinna með og tekið fram í forvalsgögnum að við val á bjóðendum yrði litið til ,,starfsliðs og samstarfsaðila“. Verður því ekki talið að kærði hafi byggt niðurstöðu sína um val á bjóðendum á öðrum atriðum en þeim sem fram komu í forvalsgögnum og þar með brotið gegn 26. gr, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 94/2001. Það athugast að þrátt fyrir þessa niðurstöðu telur nefndin að það hefði verið í betra samræmi við 26. gr. laga nr. 94/2001 að láta matslíkan það sem notað var við val á bjóðendum fylgja forvalsgögnum.
Kærandi byggir kröfur sínar í öðru lagi á því að ekki hafi verið forsvaranlega að verki staðið við einkunnagjöf í forvalinu. Nánar tiltekið hafi kærði ekki metið hæfi hans til að taka þátt í útboðinu með málefnalegum hætti og aðrir bjóðendur með ómálefnalegum hætti hlotið hærri einkunn en hann. Eins og verksvið kærunefndar útboðsmála er markað í lögum nr. 94/2001, sbr. m.a. 2. mgr. 75. gr. og 81. gr. laganna, fellur það utan verksviðs nefndarinnar að endurmeta tilboð bjóðenda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ef fyrir liggur að mat tilboða getur talist ómálefnalegt eða það brjóti hugsanlega gegn ákvæðum laga nr. 94/2001 eða öðrum reglum útboðsréttar getur það hins vegar leitt til þess að nefndin grípi til lögmæltra úrræða. Með hliðsjón af einkunnagjöf bjóðenda, útskýringum kærða og öðrum fyrirliggjandi gögnum telur nefndin að ekki verði séð að mat kærða hafi byggst á ólögmætum eða ómálefnalegum sjónarmiðum eða að hlutlægni hafi ekki verið gætt þannig að um brot á lögum nr. 94/2001 eða reglum settum samkvæmt þeim sé að ræða. Þá verður ekki talið að jafnræði bjóðenda hafi verið raskað, enda verður ekki séð að bjóðendur hafi verið metnir með ólíkum hætti eða að önnur mismunun hafi falist í matinu.
Samkvæmt framangreindu verður að hafna öllum kröfum kæranda.
Úrskurðarorð:
Kröfum kæranda, ÞG verktaka ehf., vegna útboðs kærða, Fasteignafélags Hafnarfjarðar, auðkennt sem ,,Sundlaug á Völlum - Alútboð“, er hafnað.
Reykjavík, 16. maí 2006.
Páll Sigurðsson
Stanley Pálsson
Auður Finnbogadóttir
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 16. maí 2006.