Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 58/2005

Þriðjudaginn, 28. mars 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 29. desember 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 16. desember 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 10. október 2005 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég fór í fæðingarorlof í ágúst 2002. Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur vorið 2002 og fór svo að vinna á B þá um vorið. Ég var svo heppin að vera fastráðin þá strax (eða það hélt ég) þrátt fyrir að vera að fara í barnseignarfrí í ágúst 2002, þannig að ég vann aðeins í tvo mánuði. Fékk svo fæðingarstyrk í 6 mánuði og ákvað svo í framhaldi af því að vera lengur heima með barninu, ég taldi það vera rétt að þeim tíma. Mér finnst allt of snemmt að setja barnið á leikskóla eða koma því fyrir hjá dagmóður, þannig að ég ákvað að vera heima lengur með barninu mínu og var því launalaus í 7 mánuði. Ég lít ekki á það að vera heima og vera tekjulaus að þá sé maður á vinnumarkaði (það er eitthvað skrítið við það). Ég er ekki að skapa tekjur fyrir heimilið meðan ég er ekki að vinna, þannig að mér finnst það vera óheiðarlegt að segja mig vera á vinnumarkaði þó að ég hafi kosið það sjálf að vera lengur heima.

Ég byrjaði að vinna aftur um haustið 2003 (í september) og hef ég unnið samfellt í tvö ár á B þar til núna í september þegar ég fór aftur í fæðingarorlof. Mér finnst mjög ósanngjarnt að taka þessa launalausu mánuði og deila þeim í heildartekjur mínar síðustu tvö tekjuár. Mér finnst óheiðarlegt að hegna mér (og væntanlega fleirum) fyrir að vilja vera heima hjá barninu mínu. Líka þar sem ég hef unnið í tvö ár og ég hélt að það væri nóg að vera búin að vinna í eitt ár til að eiga rétt á fæðingarorlofi.

Þessi nýju lög tóku gildi um áramót þessa árs en því miður þá hafði getnaður þegar átt sér stað áður en þessi nýju lög tóku gildi. Þannig að ég og maðurinn minn vissum ekki af þessum breytingum því þá hefði ég beðið með barneignir í nokkra mánuði í viðbót (hefði verið nóg að bíða í 4 mánuði) þannig að barnið hefði fæðst snemma á árinu 2006 og þá hefði ég ekki orðið fyrir þessari tekjuskerðingu.

Núna þarf maður heldur betur að hugsa sig um áður en maður hugar að barneignum. Það borgar sig greinilega ekki að eiga barn seint á árinu því að þá koma þær tekjur sem maður hefur unnið sér inn á því ári ekkert inní. Það greinilega best að láta líða 4 til 5 ár á milli barnanna þannig að það bitni ekki á manni launalega séð og alls ekki að taka neina launalausa mánuði.

Það er ósk mín að þið takið þessa kæru til greina og reynið að koma því áfram til yfirvalda hversu fáranleg lögin eru orðin og að þeir endurskoði þau .“

 

Með bréfi, dagsettu 20. janúar 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 7. febrúar 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 10. ágúst 2005, sem móttekin var 16. ágúst 2005, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 11. september 2005.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 12. ágúst 2005, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 10. ágúst 2005 og launaseðlar fyrir júní og júlí 2005. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 10. október 2005, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 10. september 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrám skattyfirvalda. Bar bréfið með sér að útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda væri miðaður við tekjur hennar á árunum 2003 og 2004. Samhliða bréfi þessu var kæranda sent annað bréf, dags. sama dag, þar sem fram kom að af hálfu lífeyristryggingasviðs hefði verið litið svo á að kærandi hefði verið þátttakandi á vinnumarkaði árin 2003 og 2004 í skilningi laga- og reglugerðarákvæða um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, þrátt fyrir að hún hefði verið tekjulaus hluta þess tíma. Kæranda var á hinn bóginn gefinn kostur á, teldi hún sig ekki hafa verið þátttakanda á vinnumarkaði allt tímabilið, að leggja fram gögn til staðfestingar á því.

Engin frekari gögn bárust lífeyristryggingasviði frá kæranda.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns og að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 segir enn fremur að mánaðarleg greiðsla til foreldris á innlendum vinnumarkaði, sem sé starfsmaður og leggi niður störf, skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þar segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a.-d.-liðum 3. gr.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Í ljósi þess hve þátttaka á innlendum vinnumarkaði er skilgreind með víðtækum hætti samkvæmt framangreindum reglugerðarákvæðum hefur lífeyristryggingasvið tekið upp það verkleg við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra að taka inn í útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði alla mánuði þess tveggja ára tímabils sem miða skal við samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nema fyrir liggi staðfesting á að foreldrið hafi ekki verið þátttakandi á vinnumarkaði tiltekið tímabil. Jafnframt hefur foreldrum, sem hafa haft tekjulausa mánuði á viðmiðunartímabilinu eða það tekjulága að ætla megi að starfshlutfall sé minna en 25%, verið sent bréf eins og bréf það sem kæranda var sent, þar sem gerð er grein fyrir að lífeyristryggingasvið hafi litið svo á að foreldrið hafi starfað á innlendum vinnumarkaði allt viðmiðunartímabil útreiknings greiðslnanna en foreldrinu gefinn kostur á að leggja fram gögn til staðfestingar á að það hafi verið utan vinnumarkaðar og óska eftir endurskoðun á útreikningi greiðslna, telji það sig ekki hafa verið þátttakanda á vinnumarkaði tiltekið tímabil.

Barn kæranda er fætt þann 10. september 2005 og skal því, samkvæmt framangreindu ákvæði 2. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar árin 2003 og 2004.

Lífeyristryggingasviði hafa engin gögn borist frá kæranda til staðfestingar á að hún hafi verið utan vinnumarkaðar á árunum 2003 og 2004. Þá verður af þeim upplýsingum sem fram koma í kæru kæranda til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála vart annað ráðið en að telja verði kæranda þátttakanda á innlendum vinnumarkaði það tímabil sem hún var tekjulaus árið 2003, sbr. framangreindan a-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að líta svo á sem kærandi hafi verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði allt útreikningstímabil greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til hennar þ.e. árin 2003 og 2004 og reikna greiðslur til hennar með þeim hætti sem gerð var grein fyrir í bréfi til hennar, dags. 10. október 2005.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. febrúar, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 (ffl.) segir að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Þá segir þar að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Til starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, felur í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Síðan segir í 2. mgr. 3. gr., að til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti...

Barn kæranda er fætt 10. september 2005. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eru því árin 2003 og 2004.

Kærandi óskar eftir því að tekið verði tillit til þess að hún var launalaus í sjö mánuði vegna þess að hún var heima með ungu barni eftir að fæðingarorlofi lauk í byrjun árs 2003.

Launalaust leyfi samkvæmt ráðningarsamningi telst samkvæmt framangreindu til þátttöku á vinnumarkaði í skilningi ffl. og reglugerðar nr. 1056/2004. Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að ráðningarsamband hafi haldist milli kæranda og vinnuveitanda hennar en samkomulag verið um að hún væri tímabundið í launalausu leyfi. Samkvæmt því telst hún hafa verið á vinnumarkaði allt viðmiðunartímabilið. Engar undanþágur eru í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 með síðari breytingum eða reglugerð nr. 1056/2004 sem heimila að viðmiðunartímabilið verði stytt vegna launalauss leyfis foreldris. Er því ekki hægt að fallast á kröfur kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta