Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 50/2005

Fimmtudaginn, 2. febrúar 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Úrskurður


Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. nóvember 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 8. nóvember 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12. september 2005 um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs.

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Tryggingayfirlæknir hafnaði lengingu/framlengingu á fæðingarorlofi mínu sökum þess að hann teldi þetta ekki hafa haft áhrif á meðgönguna eða fæðinguna. En ég geri mér fulla grein fyrir því þar sem að ég er búin að eiga barnið og er í fæðingarorlofi en veiktist í því og var lögð inná spítala til aðgerðar, lá þar inni í viku og þurfti að fá hjálp við að sinna barni mínu á meðan. Einnig þurfti ég að fá hjálp við að sinna honum í viku til 2 eftir að ég kom heim. Ef ég hefði verið útivinnandi hefði ég fengið veikindalaun á meðan þannig að ég tel að ég eigi rétt á að fá lengingu eða framlengingu við fæðingarorlofið mitt.

Læknarnir sem sáu um mig á spítalanum töldu að ég ætti rétt á þessari lengingu og sóttu um hana fyrir mig þar sem að ég var óvinnufær eða gat ekki séð um barnið mitt í hátt í 3 vikur.

Tel að læknirinn sem fór yfir þetta fyrir Tryggingastofnun hafi ekki alveg skilið það sem var verið að biðja um. Ég tel að ég eigi rétt á lengingu.“

 

Með bréfi, dagsettu 30. nóvember 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 12. desember 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda móður.

Með læknisvottorði, dags. 9. september 2005, sem móttekið var sama dag, var sótt um framlengingu á fæðingarorlofi kæranda vegna veikinda hennar.

Með bréfi tryggingayfirlæknis, dags. 12. september 2005, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið synjað.

Í 3. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Nánar er fjallað um þessa heimild í 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Vegna kæru kæranda óskaði lífeyristryggingasvið eftir greinargerð frá læknadeild og hefur lífeyristryggingasviði nú borist greinargerð læknadeildar, dags. 9. desember 2005. Þar koma að öðru leyti fram þau sjónarmið sem Tryggingastofnun ríkisins hefur fram að færa í máli þessu.“

Greinargerð aðstoðartryggingayfirlæknis er dagsett 9. desember 2005. Í greinargerðinni segir:

„Við mat á framlengingu fæðingarorlofs vegna fæðingar þ. 12.09.05 lá fyrir læknisvottorð B, dags. 09.09.05. Fram kom að A hefði fengið gallsteinakast í byrjun september og legið á sjúkrahúsi til 9. september. Fæðingardagur barns er skráður 7. júní.

Skilyrði laga og reglugerðar þóttu ekki uppfyllt þar sem ekki er um að ræða veikindi í tengslum við fæðingu. Orðalagið „í tengslum við fæðingu“ verður skilið svo að um sé að ræða veikindi sem tengjast fæðingunni beint, s.s. mikla blæðingu eða alvarlega sýkingu, sem gerir konunni ófært að annast barn sitt. Gallsteinakast um þremur mánuðum eftir fæðingu uppfyllir ekki þetta skilyrði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 15. desember 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda hennar í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er heimilt að framlengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laganna skal rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi ól barn 7. júní 2005. Samkvæmt gögnum málsins óskar kærandi eftir framlengingu greiðslna vegna veikinda hennar í fæðingarorlofi. Samkvæmt læknisvottorðum er staðfest að kærandi hafi greinst með gallsteina og gallgangasteina sem og brisbólgu þann 3. september 2005. Þar sem veikindin eru ekki í tengslum við fæðingu barnsins er það niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi eigi ekki rétt á framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi vegna veikindanna, sbr. 3. mgr. 17. gr. ffl. sbr. og 13. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta