Mál nr. 161/2013
Fimmtudaginn 15. október 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 11. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 26. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. desember 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 10. mars 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 19. mars 2014. Voru þær sendar embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 20. mars 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1954. Hún býr ásamt dóttur sinni og bróður í 105 fermetra íbúð að B götu nr. 5 í sveitarfélaginu C. Íbúðin er að jöfnu í eigu kæranda og bróður hennar.
Kærandi starfar sem leiðbeinandi í leikskóla. Tekjur hennar eru vegna launa og vaxtabóta.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 30. maí 2011, eru 35.830.720 krónur. Þar til viðbótar er kærandi ábyrgðarmaður á skuldabréfi að fjárhæð 18.875.632 krónur.
Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til íbúðarkaupa og tekjulækkunar.
Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 1. apríl 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. maí 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 17. desember 2012 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Því legði hann til að greiðsluaðlögunarheimildir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar fé á tímabili frestunar greiðslna, í svokölluðu greiðsluskjóli. Frestun greiðslna hefði staðið í 24 mánuði og hefði kærandi ekki lagt neitt fyrir á því tímabili, þrátt fyrir að hafa haft verulegt svigrúm til þess.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 10. september 2013 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Efnisleg andmæli bárust ekki frá kæranda.
Með bréfi til kæranda 30. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi fer fram á að hinni kærðu ákvörðun verði snúið við og að umboðsmanni skuldara verði falið að hjálpa henni að finna lausn á skuldamálum sínum í samræmi við lge. Skilja verður þetta svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Einnig fer kærandi fram á að henni verði greiddur málskostnaður að mati kærunefndarinnar. Vísar kærandi sérstaklega til þess að umboðsmaður skuldara virtist ekki hafa virt stjórnsýslulög og með því hafi embættið bakað henni ómæld óþægindi og tjón. Þá hafi kærandi þurft að leita sér aðstoðar við að kæra málið til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.
Kærandi kveðst gera alvarlegar og verulegar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara.
Í hinum kærða úrskurði sé gert ráð fyrir því að framfærslukostnaður kæranda hafi mest verið 154.565 krónur á mánuði og í því samhengi vísað til septembermánaðar 2013. Velferðarráðuneytið hafi reiknað út sín eigin framfærsluviðmið. Samkvæmt því sé gert ráð fyrir því að mánaðarlegur framfærslukostnaður kæranda sé 234.564 krónur. Sé það 52% hærri tala en umboðsmaður skuldara notist við í hinum kærða úrskurði. Íbúðalánasjóður hafi einnig reiknað út framfærslukostnað sem sé 235.421 króna á mánuði fyrir einstakling. Þetta þýði að einstaklingur þurfi að hafa að lágmarki 235.421 krónu á mánuði til að fá lán hjá sjóðnum.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umboðsmaður skuldara haldi því fram að framfærsluviðmið þessi séu byggð á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Einnig skuli lagt til grundvallar að skuldurum sé jafnan veitt nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur. Hvergi sé þó að finna skýringu á þessu viðmiði eða rökstuðning fyrir því að viðmið umboðsmanns skuldara séu svo miklu lægri en viðmið sem aðrir opinberir aðilar hafi reiknað út.
Kærandi telur að réttur hennar til upplýsinga samkvæmt stjórnsýslulögum hafi verið brotinn, enda byggi umboðsmaður skuldara einungis á því að kærandi hefði átt að leggja fyrir rúmar 1.900.000 krónur. Kærandi hafi á hinn bóginn aðeins haft tekjur sem dugað hafi henni til framfærslu samkvæmt viðmiðum velferðarráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs. Kærandi telur ákvörðun umboðsmanns skuldara beinlínis andstæða markmiði og tilgangi lge. Þá sé hún án skýringa og rökstuðnings og sé það í andstöðu við stjórnsýslulög.
Álítur kærandi að ákvörðun umboðsmanns skuldara sé verulega íþyngjandi fyrir hana í ljósi aldurs og heilsufars. Hafi umboðsmaður skuldara ekki gætt hagsmuna kæranda og ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 33 mánuði en miðað sé við tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. júlí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Heildartekjur frá 1. nóvember 2010 til 31. júlí 2013 að frádregnum skatti | 6.983.899 |
Samtals | 6.983.899 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 211.633 |
Framfærslukostnaður á mánuði | 154.565 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 57.068 |
Samtals greiðslugeta í 33 mánuði | 1.883.244 |
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 211.633 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 33 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.
Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 154.565 krónur á mánuði á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað septembermánaðar 2013 fyrir einstakling. Að þessu virtu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir 1.883.244 krónur á fyrrnefndu tímabili, miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 57.068 krónur á mánuði í 33 mánuði. Kærandi hafi ekki gert grein fyrir því hvers vegna hún hafi ekki lagt til hliðar.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Kærandi telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni að því er varðar þau framfærsluviðmið er honum bæri að fara eftir.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.
Með setningu laga nr. 128/2010 tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. þegar umboðsmaður skuldara tók á móti umsóknum hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í upplýsingaskjalinu var einnig greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimils og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.
Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum, sem voru í greiðsluskjóli, bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda um að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslukostnað samkvæmt 12. gr. lge.
Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:
„Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“
Kærunefndin telur að kæranda hafi mátt vera ljóst að henni bar að haga framfærslukostnaði sínum eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar hún sótti um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærslukostnaður hennar skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is“
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum, sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. maí 2011, þar sem henni var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kæranda eftir greiðslu framfærslukostnaðar tiltekin 117.511 krónur.
Kærunefndin telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kæranda þegar hún sótti um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kæranda á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist frá því að umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin þegar frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kæranda bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er hún sótti um heimild til greiðsluaðlögunar 1. apríl 2011.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 17. desember 2012 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 30. september 2013.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekkert lagt til hliðar á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls. Kærandi kveður ástæðu þess vera þá að framfærslukostnaður hennar hafi verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir.
Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi átt að leggja til hliðar að minnsta kosti 1.883.244 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. desember 2011: Níu mánuðir | |
Nettótekjur | 1.771.837 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 196.871 |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | |
Nettótekjur | 2.249.534 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 187.461 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. ágúst 2013: Átta mánuðir | |
Nettótekjur | 1.582.127 |
Nettótekjur alls | 197.766 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 5.603.498 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 193.224 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta hennar þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. ágúst 2013: 29 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 5.603.498 |
Bótagreiðslur 2011 | 439.587 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 6.043.085 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 208.382 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 154.565 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði | 53.817 |
Alls sparnaður í 29 mánuði í greiðsluskjóli x 53.817 | 1.560.700 |
Kærandi telur að hvorki liggi fyrir skýring á framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara né rökstuðningur fyrir því að viðmið umboðsmanns skuldara séu svo miklu lægri en viðmið sem aðrir opinberir aðilar hafi reiknað út svo sem Íbúðalánasjóður og velferðarráðuneytið.
Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Meðal annars þess vegna er skuldara gert að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram framfærslukostnað á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Féð skal nota til að greiða kröfuhöfum þegar kemur að efndum greiðsluaðlögunarsamnings.
Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt staflið d þar sem fram kemur að hlutverk embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega.
Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Þetta tiltekna ákvæði veitir út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Eins og áður hefur verið vikið að er um að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Jafnframt verður skuldari að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili til þess að honum takist að leggja fyrir á tímabilinu. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Telur kærunefndin því að við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli beri að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge.
Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekki lagt neina fjármuni til hliðar á greiðsluaðlögunartímanum. Eins og fyrr greinir telur kærunefndin að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að henni hafi verið skylt að leggja til hliðar þá fjármuni sem voru umfram framfærslukostnað hennar samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara.
Kærandi hefur ekki lagt fram gögn er sýna fram á að framfærslukostnaður hennar hafi verið hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Því er það mat kærunefndarinnar í máli þessu að ekki sé hægt að taka tillit til þess. Samkvæmt öllu framansögðu hefði kærandi því átt að leggja fyrir 1.560.700 krónur á tímabili greiðsluskjóls.
Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á fyrrgreindu tímabili.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Kröfu um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir hana gagnvart kærunefndinni.
Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálf að bera þann kostnað sem hún kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Kröfu kæranda um málskostnað er hafnað.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir