Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 165/2013

Fimmtudaginn 22. október 2015


A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 4. nóvember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. október 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 8. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. desember 2013.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 10. mars 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 17. mars 2014 og 20. mars 2014.

Þann 21. mars 2014 voru umboðsmanni skuldara sendar athugasemdir kæranda til kynningar. Þann 16. janúar 2015 barst tölvupóstur frá umboðsmanni skuldara þess efnis að embættið hefði ekki frekari athugasemdir. Þann 17. janúar 2015 bárust viðbótargögn frá kæranda. Þann 21. janúar 2015 voru umboðsmanni skuldara send viðbótargögn kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1956. Hún býr ásamt eiginmanni sínum og tveimur dætrum í eigin 221,1 fermetra íbúð að B götu nr. 46 í sveitarfélaginu C. Kærandi leigir út hluta eignarinnar.

Kærandi starfar hjá X og hefur auk launa leigutekjur, og barna- og vaxtabætur.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 46.603.980 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til tekjulækkunar í kjölfar erfiðleika í atvinnurekstri sem hún stóð að ásamt eiginmanni sínum. Þá hafi ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnurekstursins fallið á hana vegna þessara erfiðleika.

Kærandi lagði fram beiðni um heimild til greiðsluaðlögunar 10. febrúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. ágúst 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) og greiðslugeta áætluð 250.844 krónur á mánuði samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara.

Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi 13. febrúar 2013 að við meðferð málsins hefði komið í ljós að kærandi hafði ekki lagt til hliðar nægilega fjármuni á því tímabili sem frestun greiðslna hafi staðið yfir. Miðað við greiðslugetu kæranda, sem nam um 230.000 krónum á mánuði, hefði hún átt að geta lagt fyrir 4.370.000 krónur á 19 mánaða tímabili greiðsluskjóls en sparnaður hennar væri 1.950.000 krónur. Með vísan til þessa hafi umsjónarmaður talið að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 15. gr. lge., enda hefði kærandi ekki staðið við þá skyldu sína að leggja til hliðar nægilegt fé á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir hafi staðið yfir, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 12. september 2013 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitan, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Svar eiginmanns kæranda vegna bréfs umboðsmanns skuldara barst embættinu með tölvupósti 29. september 2013. Þar kemur fram að vegna veikinda kæranda væri ekki hægt að svara embættinu að svo stöddu. Óskað var frests í mánuð til að svara bréfi umboðsmanns skuldara. Í bréfinu voru meðal annars tilgreindar ástæður veikinda kæranda.

Með bréfi 3. október 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge. og b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru eru ekki settar fram kröfur, en skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi telur að umsjónarmaður hafi ekki sinnt  máli hennar. Kærandi hafi gert athugasemdir við frumvarp til greiðsluaðlögunar en á athugasemdir hennar hafi ekki verið hlustað.

Kærandi kveði laun sín ofreiknuð þar sem ekki sé tekið tillit til þess að inn í launaútreikningi séu tímabundnar aukatekjur. Þá hafi leigutekjur verið reiknaðar brúttó án þess að tekið væri tillit til þess að af þeim þurfi að greiða skatt, viðhald og kostnað. Þá hafi framlag maka við framfærslu verið reiknað 50%. Að mati kæranda hefði umsjónarmaður átt að ráðleggja kæranda að reikna framfærslu kæranda 100%. Loks telur kærandi að sá framfærslukostnaður, sem reiknaður sé í frumvarpinu samkvæmt neysluviðmiði að fjárhæð 110.559 krónur á mánuði, sé of lágur miðað við fjögurra manna fjölskyldu og kostnað við rekstur á bifreið.

Þá eigi kærandi ekki tvær fasteignir eins og komi fram í frumvarpi heldur eina fasteign með kjallaraíbúð. Íbúðin sé rúmlega 60 fermetrar og sé leigð út.  Umrædd kjallaraíbúð sé þriðjungur hússins en kærandi og fjölskylda hennar búi síðan á tveimur hæðum sem séu samtals 120 fermetrar.

Fram komi í tölvupósti til kærunefndarinnar 17. janúar 2015 að kærandi hafi ekki safnað fé á bók, enda hafi það verið óraunhæft.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 6. gr. lge. séu tilteknar aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar, ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúma 30 mánuði miðað við tímabilið frá 1. mars 2011 til 31. ágúst 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. mars 2011 til 31. ágúst 2013 að frádregnum skatti 10.026.515
Vaxta- og barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 101.052
Samtals 10.127.567
Mánaðarlegar meðaltekjur 337.586
Framfærslukostnaður á mánuði 180.662
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 156.924
Samtals greiðslugeta í 30 mánuði 6.732.271


Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnað játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 337.586 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 30 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 180.662 krónur á mánuði á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum septembermánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna einstaklinga og tvö börn. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir 156.924 krónur á mánuði á fyrrnefndu tímabili.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafði kærandi leigutekjur af kjallaraíbúð sinni að fjárhæð 80.000 krónur á mánuði. Jafnvel þótt fallist væri á þau mótmæli kæranda að ekki hafi verið tekið tillit til fjármagnstekjuskatts við útreikning umsjónarmanns á leigutekjum kæranda, verði að telja 80.000 króna húsaleigu nokkuð hóflega fyrir 70 fermetra tveggja herbergja íbúð í Kópavogi. Að teknu tilliti til 20% fjármagnstekjuskatts á leigutekjur megi gera ráð fyrir að mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda vegna útleigu íbúðarinnar séu 68.800 krónur. Telja verði að mismunur á útreikningi ráðstöfunartekna vegna álagningar fjármagnstekjuskatts á húsaleigu, 11.200 krónur á mánuði, hafi lítil áhrif á greiðslugetu kæranda, sem sé fyrir 252.616 krónur á mánuði. Í fyrirliggjandi útreikningum sé gert ráð fyrir að kærandi hafi gert upp álagða skattskuld samtals að fjárhæð 445.628 krónur, samkvæmt skattframtali 2012, og enn fremur að kærandi hafi í reynd lagt til hliðar 1.950.000 krónur. Komi þetta kæranda til hagsbóta, þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram um þetta gögn.

Þrátt fyrir beiðni þess efnis, hafi kærandi ekki lagt fram gögn er veitt gætu skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki lagt fyrir fé í námunda við það sem henni hefði átt að vera mögulegt. Því hafi verið óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum á tímabili greiðsluskjóls, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi kærandi ekki sinnt beiðni um að skila skattframtali ársins 2013 og hafi því ákveðnir óvissuþættir verið fyrir hendi í málinu þannig að ekki hafi verið mögulegt að öðlast heildarmynd af fjárhag kæranda. Því hafi ekki legið fyrir nægilega glögg mynd af fjárhag kæranda, sbr. b-lið. 1. mgr. 6. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins í heild hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar og b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem fjallað er um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laganna er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem kærandi hafi ekki lagt fram skattframtal ársins 2013 vegna tekjuársins 2012. Með greinargerð umboðsmanns skuldara 16. desember 2013 til kærunefndarinnar barst umrætt skattframtal og verður því að ætla að kærandi hafi skilað framtalinu til umboðsmanns skuldara eða ríkisskattstjóra undir rekstri málsins. Þar sem nú liggur fyrir það gagn, sem áður vantaði, verður eðli máls samkvæmt ekki á því byggt að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði felldar niður á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 12. september 2013 að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 3. október 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem henni hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 6.732.271 krónu frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. mars 2011 til 31. ágúst 2013.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. mars 2011 til 31. desember 2011: Tíu mánuðir
Nettótekjur kæranda 3.115.951
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 311.595

 

Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur kæranda 4.135.739
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 344.645

 

Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. september 2013: Níu mánuðir
Nettótekjur kæranda 3.062.586
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 340.287

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.314.276
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 332.719

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, leigu- og launatekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. mars 2011 til 30. september 2013: 31 mánuður
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.314.276
Bótagreiðslur 2011 og 2012 699.649
Leigutekjur 2012* 419.600
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 11.433.525
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 368.823
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 180.662
Greiðslugeta kæranda á mánuði 188.161
Alls sparnaður í 31 mánuð í greiðsluskjóli x 188.161 5.833.003

*Helmingur nettóleigutekna ársins 2012.

 

Kærunefndin telur að kæranda hafi mátt vera það ljóst að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi kveðst enga fjármuni hafa lagt til hliðar á tímabilinu.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til skattaskuldar sem kærandi greiddi á tímabili greiðsluskjóla og nam 445.628 krónum hefði hún átt að geta lagt fyrir 5.387.375 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta