Hoppa yfir valmynd

nr. 153/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 153/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020011

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. febrúar 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Póllands. Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laganna. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 31. október 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu hvergi verið skráð. Þar sem kærandi kvaðst hafa verið með dvalarleyfi í Póllandi sendi Útlendingastofnun beiðni um upplýsingar þann 6. nóvember 2017 á grundvelli 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Svar pólskra yfirvalda barst Útlendingastofnun þann 8. nóvember 2017 þar sem fram kemur að kærandi hafi verið með dvalarleyfi í Póllandi frá 27. ágúst 2014 til 7. maí 2016. Þann 8. nóvember 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Póllandi, sbr. 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 10. nóvember 2017 barst svar frá pólskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 9. janúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Póllands. Var niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar birt kæranda þann 23. janúar 2018 og kærði hann ákvörðunina þann 6. febrúar 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 20. febrúar 2018 ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn í málinu þann 22. febrúar sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Póllands. Lagt var til grundvallar að Pólland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Póllands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Póllands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann […] óttist kærandi að verði hann sendur til Póllands muni hann umsvifalaust vera framseldur til […]. Þá kveður kærandi sig vera eftirlýstan í heimaríki vegna ákæru um njósnir, auk þess sem hann óttist um líf sitt vegna útsendara […] yfirvalda. Kærandi kveður að hann hafi verið í sjálfviljugu stofufangelsi í Póllandi af ótta við að pólska lögreglan myndi hafa upp á honum og senda hann til […]. Ástæðu þess að kærandi treysti ekki pólskum yfirvöldum telji hann vera sterk stjórnmálaleg og efnahagsleg tengsl Póllands og […]. Af þeim sökum hafi hann ekki sótt um alþjóðlega vernd í Póllandi heldur hafi hann viljað koma hingað til lands […]. Kærandi hafi skilað inn gögnum varðandi aðstæður sínar og ákæru í heimaríki […]. Þá hafi kærandi greint frá því að hann hafi búið við stöðugan ótta í Póllandi en andleg líðan hans hafi batnað eftir komuna hingað til lands. Hann hafi átt erfitt með svefn eftir að pólska lögreglan hafi ráðist inn á heimili hans í eitt skipti, og hann sé ekki enn alveg laus við þann vanda.

Kærandi telur að íslenskum stjórnvöldum sé ekki stætt á að beita heimildinni í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í tilviki kæranda. Kærandi krefst þess í fyrsta lagi að mál hans verði tekið til efnislegrar meðferðar með vísan til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og í öðru lagi með vísan til 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laganna. Þá gerir kærandi athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika hans. Kærandi telur að sú fullyrðing Útlendingastofnunar, að misræmis hafi gætt í svörum kæranda hjá stofnuninni á andlegri heilsu sinni, eigi sér einfaldar skýringar. Fyrsta viðtal umsækjenda sé þjónustuviðtal þar sem leitast sé við að meta þjónustuþörf viðkomandi umsækjenda, þekkt sé að heilsufarsspurningar séu óskýrar og ljóst að umsækjendur um alþjóðlega vernd telji sig veikja stöðu sína með því að viðurkenna bága heilsu. Þá hafi kærandi lýst yfir vilja til þess að fara til sálfræðings en honum hafi verið greint frá því að sálfræðiþjónusta byðist aðeins þeim sem haldnir væru áfallastreituröskun. […].

Kærandi rekur aðstæður og ástand hæliskerfisins í Póllandi í greinargerð sinni. Vísar kærandi til skýrslna alþjóðlegra stofnana og samtaka til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að réttarkerfið í Póllandi standi óstyrkum fótum og að hæliskerfið sé ekki í stakk búið til að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd þá vernd sem þeir eigi tilkall til. Bendir kærandi í því sambandi á að mikli andúð sé í garð innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi, þeir hafi takmarkaðan aðgang að hæliskerfinu þar í landi og skortur sé á skimun á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Kærandi vísar til þess að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í því skyni bendir kærandi á 1. mgr. 25. gr. laganna máli sínu til stuðnings. Telji hann að Útlendingastofnun hafi ekki fullnægt skyldu sinni skv. ákvæðinu í máli hans t.d. með því að spyrja hann ekki út í mögulegar pyndingar eða annað líkamlegt ofbeldi. Þá gagnrýni kærandi þá vigt sem Útlendingastofnun gefi framburði hans í fyrsta viðtali hjá stofnunni varðandi heilsufar hans. Ennfremur gerir kærandi athugasemdir við þá ákvörðun að meina honum að fara til sálfræðings af þeim sökum að hann hafi ekki verið greindur með áfallastreituröskun. […]. Telur kærandi að með því að hafna beiðni hans um tíma hjá sálfræðingi hafi stofnunin ekki sinnst rannsóknarskyldu sinni skv. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Aðalkröfu sína styður kærandi með vísan til þess að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu máli sínu til stuðnings en hann telji það sýna viðleiti löggjafans til þess að víkka út gildissvið ákvæðisins. Þá bendir kærandi á nýlega úrskurði kærunefndar máli sínu til stuðnings og telji þá til marks um breytta framkvæmd við túlkun á 2. mgr. 36. gr. laganna. Telur kærandi að stjórnvöld þurfi einkum að hafa tvennt í huga við mat á því hvort sérstakar ástæður í skilningi ákvæðisins séu uppi. Annars vegar hvort um sé að ræða sérstaklega viðkvæman einstakling í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og hins vegar hvort viðkvæm staða kæranda verði talin leiða til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Kærandi telur að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki […]. Í ljósi fyrri reynslu kæranda í Póllandi muni viðkvæm staða hans leiða til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar þar. Þá telur kærandi að hans bíði varðhald í Póllandi verði hann endursendur þangað og gangrýnir hann að Útlendingastofnun hafi ekki kannað til hlítar hvort svo væri.

Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar kærandi auk þess til 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Telji hann að óheimilt sé að senda sig aftur til Póllands þar sem hans bíði endursending til heimaríkis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir, sé í yfirvofandi hættu á að láta lífið og verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í því sambandi til bágborins ástands mannréttindamála í […], máli sínu til stuðnings.

Varakröfu sína byggi kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur að rökstuðningi stofnunarinnar, með vísan til mats á trúverðugleika kæranda og þess hvort hann teldist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, hafi verið áfátt.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að pólsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 4. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Póllands er byggt á því að kærandi hafi verið með dvalarleyfi sem hafi runnið út og hafi gert honum kleift að komast inn í landið. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun greindi hann frá því að hann hafi lifað við stöðugan ótta í Póllandi en líði betur hér á landi. Hann hafi glímt við svefnvandamál sem hann sé ekki alveg laus við. Kærunefnd bárust komunótur frá Göngudeild sóttvarna dags. 13. nóvember 2017 til 8. febrúar 2018. Í þeim kemur m.a. fram að kærandi hafi leitað á göngudeildina vegna svefnvandamála, hann sé haldinn streitu […]. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að kærandi hafi sýnt áhuga á að hitta sálfræðing.

Að mati kærunefndar er heilsufar kæranda ekki nægilega alvarlegt svo hann teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda fær kærunefnd ekki séð að aðstæður hans séu þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Póllandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Póllandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, Country Report: Poland (European Council on Refugees and Exiles, 28. febrúar 2018),
  • 2016 Country Reports on Human Rights Practices - Poland (United States Department of State, 3. mars 2017),
  • Amnesty International Report 2017/18 – Poland (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Freedom in the World 2017 – Poland (Freedom House, 15. apríl 2017) og
  • ECRI Report on Poland (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 9. júní 2015).

Af framangreindum gögnum má ráða að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Póllandi eiga rétt á húsnæði og annarri þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, þegar þeir hafa sótt um alþjóðlega vernd þar í landi og skráð sig í eina af móttökumiðstöðvum landsins. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á heilbrigðisþjónustu til jafns við pólska ríkisborgara sem keypt hafa heilbrigðistryggingu. Þeir umsækjendur sem endursendir eru til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eiga sama rétt á þjónustu og aðstoð og aðrir umsækjendur þar í landi. Þá tóku gildi lög í nóvember 2015 sem innleiða tilskipanir Evrópusambandsins 2013/32/ESB og 2013/33/ESB um málsmeðferð og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Í framangreindum skýrslum kemur meðal annars fram að ákvörðun pólsku útlendingastofnunarinnar er hægt að kæra til kærunefndar. Úrskurð kærunefndar er þá hægt að bera undir stjórnsýsludómstól í landinu varðandi lagaleg atriði og þaðan er hægt að áfrýja til áfrýjunardómstóls. Pólsk stjórnvöld eru í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamtök um að veita meðal annars flóttamönnum og hælisleitendum vernd og aðstoð. Þá hafa Flóttamannastofnun og frjáls félagasamtök í landinu jafnframt eftirlit með aðgangi umsækjenda um alþjóðlega vernd að málsmeðferð í ríkinu. Gögn málsins benda ennfremur ekki til þess að einstaklingar sem endursendir séu til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hafi átt í erfiðleikum með að fá aðgang að málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í framangreindum gögnum kemur fram að varðhaldi umsækjenda um alþjóðlega vernd sé sjaldan beitt í framkvæmd. Varðhaldi sé einungis beitt í undantekningartilvikum, t.d. þegar auðkenni umsækjanda er ekki þekkt, þegar nauðsyn krefur vegna ótta um að umsækjandi muni fara af landi brott eða vegna öryggisráðstafana og þegar fara á fram endursending til ríkis sem ber ábyrgð á umsókn umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þrátt fyrir að varðhaldi sé almennt ekki beitt í ríkum mæli í Póllandi eru dæmi um að varðhaldi sé í einhverjum tilvikum ekki beitt sem síðasta úrræði. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að dæmi séu um að einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafi verið vistaðir í varðhald í Póllandi.

Þá kemur fram að pólsk stjórnvöld séu með verkferla til þess að fá úr því skorið hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Á árunum 2015 og 2016 hafi verkefni á vegum stjórnvalda verið hrint í framkvæmd til þess að styrkja betur þessa verkferla. Þrátt fyrir það hafa sum frjáls félagasamtök í Póllandi lýst því yfir að verkefnið hafi ekki náð þeim árangi sem vonast var eftir. Auk þess hefur umboðsmaður Póllands lýst yfir áhyggjum af því að löggjöf landsins veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd ekki nægilega skýra réttarstöðu í þessum skilningi. Þrátt fyrir þetta kemur fram í framangreindum skýrslum að þeir sem eru taldir vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu eigi rétt á að fá þá aðstoð sem þeir nauðsynlega þurfi á að halda m.t.t. þeirra aðstæðna sem uppi eru í málum þeirra.

Fram kemur að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Póllandi hafi sama aðgang að hinu opinbera heilbrigðiskerfi og pólskir ríkisborgarar. Þá kemur fram að aðstoð vegna andlegra veikinda falli einnig undir framangreindan aðgang. Ýmsar hindranir séu þó fyrir hendi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Dæmi um þær eru skortur á sérfræðingum, mikill fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd miðað við lækna og tungumálaerfiðleikar milli umsækjenda og heilbrigðisstarfsfólksins. Þá séu einnig dæmi þess að fjarlægðin á milli vistarvera umsækjenda og heilbrigðisþjónustunnar sé of mikil. Þrátt fyrir þetta kemur fram í framangreindum gögnum að umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi alltaf rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Ennfremur kemur fram að almennt eigi einstaklingar í minnihlutahópum sama rétt að lögum og pólskir ríkisborgarar en að dæmi séu um að þeim sé mismunað í framkvæmd. Þá kemur fram að á undanförnum árum hafi orðið aukning í fjölda tilvika þar sem minnihlutahópar eru beittir eða þeim hótað ofbeldi. Fram kemur að múslimar hafi sérstaklega fyrir slíku á undanförnum árum en einnig hafa aðrir minnihlutahópar s.s. samkynhneigðir og rómafólk fundið fyrir auknu áreiti í pólsku samfélagi.

Kærandi kveðst m.a. óttast að pólsk yfirvöld endursendi hann til heimaríkis. Að mati kærunefndar bera gögn málsins með sér að í Póllandi sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað. Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda eindregið til þess að málsmeðferð pólska yfirvalda sé fullnægjandi og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að tryggja að réttur þeirra sé ekki brotinn og að einstaklingsbundið mat verði lagt á aðstæður þeirra. Að mati kærunefndar bendir ekkert til þess að umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Póllandi eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli. Þá er Pólland bundið að þjóðarétti til að fylgja reglunni um að einstaklingum skuli ekki vísað brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement). Telji kærandi framangreind réttindi sín vera brotin getur hann leitað réttar síns fyrir pólskum dómstólum og Mannréttindadómstól Evrópu. Þá er Póllandi m.a. aðili að alþjóðasamningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga. Af lestri framangreindra skýrslna verður ekki séð að samband pólskra og […] yfirvalda sé þess eðlis að hætta sé á að pólsk yfirvöld víki frá alþjóðlegum skuldbindingum sínum hvað framsal einstaklinga til heimaríkis varðar. Þá benda framangreindar skýrslur ennfremur til þess að einstaklingar sem sækja um alþjóðlega vernd geti fengið þá málsmeðferð sem þeir eigi rétt á fyrir stjórnvöldum í Póllandi og geti leitað til yfirvalda þar í landi vegna ótta við aðila sem geta verið valdir að ofsóknum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Póllandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Póllands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í framangreindum skýrslum um aðstæður í Póllandi kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Póllandi telur kærunefnd að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi.

Af framangreindum gögnum um aðstæður í Póllandi verður jafnframt ráðið að verði kærandi fyrir hótunum aðila eða mismunun á grundvelli kynþáttar geti hann leitað ásjár pólskra yfirvalda vegna þess. Jafnframt geti kærandi leitað til pólsku lögreglunni óttist hann um öryggi sitt.

Við meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi hefur hann lýst því yfir að hann óttist að vera sendur til Póllands þar sem hann telur að hann muni vera áframsendur til […] á grundvelli sterka pólitískra og efnahagslegra tengsla á milli ríkjanna. Telur kærandi að hann muni verða fyrir alvarlegum mannréttindabrotum verði hann endursendur til […]. Framangreindar skýrslur gefa til kynna að pólsk stjórnvöld séu bundin af tilskipunum Evrópusambandsins um móttöku og málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd og þá er ekkert sem bendir til þess að kærandi muni ekki fá þá málsmeðferð sem hann þurfi á að halda þar í landi. Ennfremur bera gögn málsins ekki með sér að kærandi sé í þannig stöðu að umsókn hans muni ekki fá meðferð við hæfi. Að mati kærunefndar benda gögn málsins ekki til þess að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Að öðru leyti séu aðstæður hans ekki svo einstaklingsbundnar og sérstakar að rétt sé að taka umsókn hans til efnismeðferðar.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 30. nóvember 2017, ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 1. nóvember 2017.  

Reglur stjórnsýsluréttar

Líkt og fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur ljóst að rannsókn Útlendingastofnunar og rökstuðningur fyrir henni hafi verið afátt og því gerð sú krafa að hina kærða ákvörðun verði ógilt á þeim grundvelli.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að stjórnvöldum ber að tryggja að mál þar sem reynir á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu nægjanlega upplýst með tilliti til einstaklingsbundinna ástæðna. Þá ber stjórnvöldum að rannsaka hvort að aðstæður í viðtökuríki séu þess eðlis að aðili muni eftir átvikum eiga erfitt uppdráttar þar í landi.

Þótt kærunefnd taki undir að betur hefði farið á því að rökstuðningur í máli kæranda endurspeglaði þær málsástæður sem hann hefur fært fram varðandi tengsl […] og pólskra yfirvalda, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, er það mat nefndarinnar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun að fella beri ákvörðun stofnunarinnar úr gildi.

Samantekt

Í máli þessu hafa pólsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Póllands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                                      Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta