Hoppa yfir valmynd

Nr. 7/2018 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 4. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 7/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17120020

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 24. ágúst 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2017, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Aserbaídsjan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 4. september 2017 og 11. september 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 26. október 2017. Þann 9. desember 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Með beiðni kæranda bárust fylgigögn.

Kærandi óskaði eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á því að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir aðallega á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá óskar kærandi eftir því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað í samræmi við 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, í ljósi þess að kærandi og kona hans séu í verulega viðkvæmri stöðu. Kona hans sé ólétt og gengin um 25 vikur.

Kærandi byggir kröfu sína á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi við töku ákvörðunar ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga. Vísar kærandi sérstaklega í 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Í beiðni kæranda er rakin frásögn kæranda um mismunun og ofsóknir í heimaríki. Þá eru gerðar athugasemdir við niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Kærandi tekur fram að hann sé giftur og þegar hann hafi flúið heimaríki sitt hafi kona hans þurft að verða þar eftir því ekki hafi verið til nægir fjármunir til að koma henni úr landi. Kona hans hafi komið til landsins þann 29. maí sl. og sótt um vernd í júní 2017. Áður en hún hafi komið hingað hafi kærandi sent henni peninga, m.a. til að fjármagna ferð hennar hingað til lands. Kærandi geti ekki hugsað sér að yfirgefa eiginkonu sína, en hún eigi von á barni í […] 2018. Hún tali enga ensku og eigi mjög erfitt með að bjarga sér sjálf. Í beiðni kæranda er tekið fram að á meðan að beiðni hans um frestun réttaráhrifa hafi verið til meðferðar hjá kærunefnd hafi nefndin óskað eftir því að kærandi legði fram hjúskaparvottorð til sönnunar á hjúskap sínum. Kærandi hafi ekki getað lagt fram gögn á þeim tímapunkti þar sem hann hafi beðið eftir gögnum frá heimaríki. Í beiðni kæranda kemur þá fram að hann og kona hans hafi ætlað að ganga í hjúskap með formlegum hætti vorið 2016. Kærandi hafi hins vegar neyðst til þess að flýja áður en af því hafi orðið. Þau hafi m.a. bæði farið í blóðrannsókn í heimaríki sínu þann 18. mars 2016, en slíkt sé skylda samkvæmt lögum og þurfi að leggja fram við giftingu svo að hún sé lögleg. Gögn um að slík blóðrannsókn hafi farið fram fylgi með beiðni kæranda um endurupptöku. Kærandi telur að gögnin renni sterkum stoðum undir það að tilætlun þeirra um að ganga í hjúskap með lögformlegum hætti hafi verið raunveruleg og sönn.

Kærandi vísar í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og tekur fram að jafnvel þó að rétturinn til að dveljast í tilteknu ríki sé ekki endilega tryggður í sáttmálanum þá hvíli skylda á aðildarríkjunum til að meta brottvísanir eða synjanir á efnislegri skoðun umsókna um vernd m.a. í samhengi við 8. gr. mannréttindasáttmálans. Ef kæranda yrði brottvísað yrði það til þess að réttur barnsins til þess að umgangast föður sinn með reglubundnum hætti yrði þar með ekki tryggður. Kærandi telur að í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar skuli veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá vísar kærandi í réttindi hins ófædda barns og bendir á að íslensk stjórnvöld skuli taka sérstakt tillit til þeirrar verndar sem börn eigi rétt á samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld séu bundin samkvæmt þjóðarétti að virða. Hagsmunir barnsins séu tvímælalaust þeir að njóta samvista við báða foreldra og því beri að taka tillit til sérstakrar og viðkvæmrar stöðu kæranda við mat á því hvort mál hans skuli endurupptekið.

Í ljósi framangreinds telur kærandi að hann eigi rétt á að fá alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og að endursending hans til heimaríkis sé brot á 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Til vara telur kærandi að íslenskum stjórnvöldum sé bæði rétt og skylt að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þar sem hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu því eiginkona hans sé á landinu og hún sé ólétt af barni þeirra. Kærandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þó svo að skilyrði 37. gr. laganna séu ekki uppfyllt. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 24. ágúst 2017. Í úrskurði kærunefndar var frásögn kæranda um aðstæður hans í heimaríki, þ. á m. um uppruna hans og mögulegt áreiti, að mestu leyti lögð til grundvallar en komist að þeirri niðurstöðu, að teknu tilliti til trúverðugleikamats og upplýsinga um aðstæður í heimaríki kæranda, að áreitið næði ekki því marki að kærandi teldist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Niðurstaða kærunefndar var þá að aðstæður hans féllu heldur ekki undir 2. mgr. 37. gr. eða 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í beiðni sinni um frestun réttaráhrifa sem barst kærunefnd þann 11. september 2017 byggði kærandi m.a. á því að maki hans væri komin til landsins og hún væri ólétt að barni þeirra. Það var afstaða nefndarinnar í úrskurði hennar, dags. 26. október sl., þar sem beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað, að þessar aðstæður kæranda röskuðu ekki því mati sem fram kæmi í úrskurði nefndarinnar í máli hans. Þá var það jafnframt mat nefndarinnar að ekki hefðu skapast með þessu verulegar breyttar aðstæður sem leiða ættu til þess að rétt væri að fresta framkvæmd í máli kæranda.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar í máli hans ásamt þeim fylgigögnum sem bárust með beiðninni, en með beiðni kæranda fylgdi m.a. meðgönguskrá maka kæranda frá Heilsugæslunni Hlíðum og samskiptaseðill frá sama stað, dags. 17. nóvember 2017, þar sem m.a. kemur fram að maki kæranda hafi þá verið gengin 23 vikur. Kærunefnd áréttar að um sé að ræða ítarlegri upplýsingar um það sem þegar lá fyrir þegar afstaða var tekin til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa, þ.e. að maki kæranda sé stödd hér á landi, hún hafi sótt um alþjóðlega vernd og sé ólétt að barni þeirra. Þá eru kærandi og maki hans ekki gift.

Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda tekur kærunefnd fram að 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu kunna að setja skorður við beitingu frávísunar, sbr. 106. gr. laga um útlendinga. Þar sem kærandi og maki hans hafa einungis dvalið hér á landi um tiltölulega skamma hríð og aðeins í tengslum við umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd er það mat kærunefndar að brottflutningur kæranda myndi ekki fela í sér brot á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu hér á landi.

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. nýrra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það mat kærunefndar að ekki sé um að ræða slíkar upplýsingar að þær hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu í máli kæranda. Því sé ekki hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 24. ágúst 2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Því sé ekki hægt að fallast á endurupptöku málsins á þeim grundvelli.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.


 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

 

 

                                                                                                                                                        Anna Tryggvadóttir                                                                                        Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta