Hoppa yfir valmynd

Nr. 129/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 129/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020007

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. janúar 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. janúar 2019, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í þrjú ár.

Af kæru kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Útlendingastofnun birti kæranda tilkynningu um hugsanlega brottvísun og endurkomubann þann 9. janúar 2019 vegna ólögmætrar dvalar hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þar var kæranda veitt tækifæri til að koma að andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar auk þess sem honum var gefinn kostur á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum innan sjö daga frests. Staðfesti kærandi móttöku tilkynningar, að hann myndi ekki leggja fram greinargerð heldur nýta sér rétt sinn til að snúa heim af sjálfsdáðum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. janúar 2019, var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til landsins í þrjú ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 29. janúar 2019. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar þann sama dag en óskaði jafnframt eftir því að brottvísun yrði framkvæmd þrátt fyrir að kærufrestur væri ekki liðinn. Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra var brottvísun kæranda framkvæmd í fylgd til Hollands og síðan út af Schengen-svæðinu þann 8. febrúar sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að við birtingu tilkynningar um hugsanlega brottvísun og endurkomubann þann 9. janúar 2019 hafi kærandi lýst því yfir að hann myndi ekki leggja fram greinargerð vegna málsins. Aftur á móti myndi hann nýta sér rétt sinn til að snúa heim af sjálfsdáðum og leggja fram staðfestingu þess efnis. Hafi stofnuninni ekki borist nein staðfesting á því að kærandi hafi yfirgefið landið og væri ákvörðun stofnunarinnar tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna um dvöl kæranda hér á landi, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu væri kærandi staddur á Íslandi. Tók stofnunin fram að kærandi hafi aldrei haft lögheimili eða dvalarleyfi hér á landi.

Af fyrirliggjandi gögnum mætti ráða að kærandi hafi dvalið á Íslandi frá 8. júní 2018 og ekki yfirgefið landið eftir þann tíma. Væri dvöl hans hér á landi því ólögmæt. Hafi að mati Útlendingastofnunar ekkert komið fram í málinu sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að heimilt væri og skylt að brottvísa kæranda frá Íslandi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til landsins í þrjú ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

IV.Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda. Þá lagði kærandi hvorki fram greinargerð né önnur gögn við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu ekki heimilt að dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Í 1. mgr. 50. gr. laganna er kveðið á um að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum er heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.

Á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Kærandi er ríkisborgari [...] og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi. Samkvæmt stimpli í vegabréfi kæranda kom hann til landsins þann 8. júní 2018 og hefur dvalið hér síðan. Hefur hann því dvalið lengur en hann hafði heimild til skv. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga og án þess að hafa dvalarleyfi, eins og áskilið er í 1. mgr. 50. gr. sömu laga. Þá gafst kæranda nægt ráðrúm til að yfirgefa landið, sbr. tilkynningu Útlendingastofnunar um fyrirhugaða brottvísun og endurkomubann, sem birt var kæranda þann 9. janúar 2019. Er skilyrðum a-liðar 1. mgr. 98. gr. og a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því fullnægt.

Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Ekkert í gögnum málsins leiðir til þess að brottvísun kæranda geti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum með hliðsjón af tengslum við landið.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, auk a-liðar 2. mgr. 98. gr. laganna. Að málsatvikum virtum verður kæranda gert að sæta endurkomubanni til landsins í 2 ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár. Þá er ljóst að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi, m.a. á ákvæðum laga um útlendinga.

Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi yfirgefið Schengen-svæðið 8. febrúar sl. og gildir endurkomubann hans til landsins því í tvö ár frá þeirri dagsetningu, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar ákvörðun um brottvísun kæranda. Endurkomubann kæranda er ákveðið 2 ár.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the applicant’s expulsion is affirmed. The Applicant shall be denied entry into Iceland for 2 years.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                    Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta