Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 133/2012

Mánudaginn 18. ágúst 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 17. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 9. ágúst 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. ágúst 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1975. Hún býr ásamt ungum syni sínum í eigin íbúð að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu C. Íbúðin er 115,5 fermetrar og henni fylgir 22,3 fermetra bílskúr.

Kærandi starfar sem löggiltur fasteignasali. Tekjur hennar eru að meðaltali 266.840 krónur á mánuði. Einnig fær hún mánaðarlega greiddar barnabætur að fjárhæð 25.636 krónur  og meðlag að fjárhæð 24.230 krónur á mánuði. Þá fær kærandi mánaðarlega greiddar vaxtabætur að fjárhæð 41.666 krónur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 15.298 krónur. Mánaðarlegar tekjur kæranda eru því að meðaltali 373.670 krónur.

Kærandi greinir frá því að þegar hún fór í fæðingarorlof árið 2009 hafi tekjur hennar lækkað um helming. Í lok fæðingarorlofs höfðu kærandi og barnsfaðir hennar slitið samvistir. Kærandi hafði ekki tök á að snúa til fyrra starfs þar sem um vaktavinnu hafi verið að ræða og hún hafi ekki haft gæslu fyrir barnið á þeim tíma er hún hafi þurft að vinna. Þegar leiðir kæranda og barnsföður hennar skildu stóð hún því eftir atvinnulaus, skuldug og einstæð móðir.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 38.824.978 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 til 2008.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 24. mars 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði breytt þannig að umsókn hennar um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Til vara er þess krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann að taka ákvörðun að nýju.

Kærandi telur að umboðsmaður hafi staðið faglega að rannsókn og meðferð málsins en engu að síður hafi embættið óvart brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og skjöplast við ákvarðanatöku.

Kærandi bendir á að synjun umboðsmanns hafi eingöngu verið reist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sé í fyrsta lagi talað um knýjandi þörf á úrræðum til að takast á við þann vanda sem upp hafi komið vegna efnahagshrunsins haustið 2008, þ.e. atvinnuleysi, hækkun verðtryggðra lána, ófyrirséð hækkun á greiðslubyrði slíkra lána, lækkun launa, verðlækkun fasteigna og mikla verðbólgu. Í öðru lagi segi að markmið laganna sé að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum og fá til þess heimild til greiðsluaðlögunar svo fremi sem hlutaðeigandi sé ófær um að standa í skilum eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Í þriðja lagi segi í athugasemdunum að þegar afstaða sé tekin til þess hvort veita skuli einstaklingi heimild til greiðsluaðlögunar beri að meta greiðslugetu skuldara og möguleika hans til að standa í skilum. Kærandi dragi þá ályktun af hinni kærðu ákvörðun að umboðsmaður hafi fallist á þau sjónarmið kæranda að hún uppfylli þau skilyrði lge. að vera ófær um að standa í skilum við lánardrottna sína og með heimild til greiðsluaðlögunar eigi hún raunhæfa möguleika á að ráða bót á því.

Þrátt fyrir framangreint hafi umboðsmaður synjað kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og hafi í því sambandi einungis vísað til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ólíkt 1. mgr. 6. gr. lge., sem kveði á um skyldu umboðsmanns til að synja um greiðsluaðlögun, sé í 2. mgr. fjallað um heimild. Það telji kærandi að eigi að skýra henni í vil á grundvelli meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Af lestri athugasemda með 2. mgr. 6. gr. lge. fái kærandi ekki betur séð en að synjun á grundvelli ákvæðisins sé háð því skilyrði að „augljóst“ megi vera að óhæfilegt sé að veita viðkomandi heimild til greiðsluaðlögunar. Í athugasemdunum sé vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 tilvitnuðu hugtaki til skýringar, en þar hafi Hæstiréttur staðfest synjun á heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til eignastöðu skuldara á þeim tíma er til skuldbindinga var stofnað og „taldi ljóst að skuldari hafði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað“.

Kærandi telji stöðu sína allt aðra en um var fjallað í nefndum hæstaréttardómi. Kærandi hafi stofnað til helstu skuldbindinga á árunum 2007 til 2008, þ.e. áður en efnahagshrunið varð. Kærandi bendi á að í b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. sé skýrt tekið fram að líta beri til þess hvort „óhæfilegt“ sé að samþykkja greiðsluaðlögunarbeiðni vegna þess að „stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar“ og/eða að hann hafi hagað fjármálum sínum „á verulega ámælisverðan hátt“ eða tekið áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans „á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað“. Álíti kærandi að við ákvörðun sína hafi umboðsmaður skuldara ekki hugað nægilega vel að þessum lagaskilyrðum og látið undir höfuð leggjast að taka réttmætt tillit til fjárhagsstöðu kæranda 25. september 2007 er hún hafi undirgengist ólögleg lánakjör með því að undirrita veðskuldabréf frá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Í hinni kærðu ákvörðun hafi skýrt komið fram að neikvæð eignastaða kæranda samkvæmt skattframtali 2008 hafi aðeins verið 312.165 krónur. Með vísan til þessarar staðreyndar og framangreindrar umfjöllunar fer kærandi fram á að kærunefndin fallist á kröfu hennar enda sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að „óhæfilegt“ sé að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Kærandi áskilur sér rétt til að koma að nýjum málsástæðum og gögnum á síðari stigum gefi rannsókn kærunefndarinnar tilefni til þess og minnir á andmælarétt stjórnsýslulaga. Jafnframt væntir kærandi þess að kærunefndin leiðbeini henni um hvort réttmæt ástæða sé til þess að leita liðsinnis lögmanns undir rekstri málsins.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum kæranda var fjárhagur hennar eftirfarandi árin 2006 til 2010 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
Uppgefnar tekjur alls 1.164.443 13.911.409 3.517.205 3.300.591 2.175.148 606.599
Meðaltekjur á mán. (nettó) 84.393 1.080.667 229.335 240.461 208.864 163.341
Samtals afborganir*     2.697.290 3.395.989 3.388.630  
Eignir alls 1.802.500 28.427.250 50.695.000 48.960.000 42.620.000 29.620.000
· Fasteignir   27.770.000 44.470.000 43.520.000 39.920.000 27.550.000
· Ökutæki 1.802.500 182.250 5.600.000 5.040.000 2.300.000 2.070.000
· Hlutir í félögum   475.000 625.000 400.000 400.000  
Skuldir 0 28.115.085 66.114.374 74.165.431 76.551.168 69.821.194
Nettóeignastaða 1.802.500 312.165 -15.419.374 -25.205.431 -33.931.168 -40.201.194
Framfærslukostnaður** 66.300 70.400 82.100 126.500 136.800 142.600
Greiðslugeta 18.093 1.010.267 147.235 113.961 72.064 20.741

* Samtals afborganir fasteigna- og bílalána.

** Áætlaður framfærslukostnaður kæranda með rekstri bifreiðar. Ekki er gert ráð fyrir hita, rafmagni,

    síma, dagvistun o.þ.h.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 2. maí 2012 þar sem óskað var eftir upplýsingum um ástæðu fyrir lágum tekjum árið 2006. Í skriflegu en ódagsettu svarbréfi kæranda komi fram að kærandi hafi einungis haft atvinnu síðustu þrjá mánuði ársins þar sem hún hafi varið árinu fram að því til ferðalaga. Kærandi hafi selt fasteign árið 2005 og átt tæpar 8.000.000 króna þegar hún hafði greitt upp allar skuldir sínar og keypt bifreið.

Árið 2007 hafi kærandi keypt fasteign tilbúna undir tréverk fyrir 20.650.000 krónur. Hafi hún tekið lán fyrir hluta kaupverðs og hafi mánaðarlegar afborganir af því verið 140.000 krónur til 285.000 krónur á mánuði. Kærandi hafi nýtt 3.000.000 króna af eigin fé til íbúðarkaupanna en einnig hafi innrétting húsnæðisins verið fjármögnuð með peningum kæranda. Í fyrrgreindu svarbréfi kæranda komi fram að hún hafi verið í sambúð og búið endurgjaldslaust í húsnæði sem fjölskylda sambýlismannsins átti. Hafi þau þess vegna getað lagt talsvert til hliðar.

Í maí 2008 hafi kærandi keypt bifreið fyrir 5.600.000 krónur. Hafi hún greitt út 1.117.800 krónur en eftirstöðvarnar, 3.716.953 krónur, hafi hún tekið að láni. Meðalafborganir bílalánsins hafi verið 70.000 krónur til 72.000 krónur á mánuði. Á árinu 2008 hafi kærandi einnig keypt geymsluhúsnæði að verðmæti 14.870.000 krónur.

Í neðangreindri töflu sé samantekt yfir tekjur kæranda árið 2008 og greiðslubyrði helstu lána í krónum. Komi þar fram mismunur á afborgunum og nettólaunum sem sýni hvað afborganir voru hátt hlutfall af tekjum kæranda. Fyrstu sex mánuði ársins hafi greiðslubyrði helstu lána að jafnaði verið 61 til 77% af mánaðartekjum kæranda. Síðari sex mánuði ársins hafi greiðslubyrðin verið 107 til 156% af mánaðartekjum kæranda.

2008 Nettólaun Afb. Mism. Hlutfall
Janúar 229.335 140.165 89.170 61%
Febrúar 229.335 145.536 83.799 63%
Mars 229.335 142.835 86.500 62%
Apríl 229.335 176.660 52.675 77%
Maí 229.335 171.153 58.182 75%
Júní 229.335 170.815 58.520 74%
Júlí 229.335 246.297 -16.962 107%
Ágúst 229.335 258.044 -28.709 113%
September 229.335 237.065 -7.730 103%
Október 229.335 298.896 -69.561 130%
Nóvember 229.335 353.032 -123.697 154%
Desember 229.335 356.792 -127.457 156%
Árið 2.752.020 2.697.290 54.730  
Meðaltal 229.335 224.774 4.561 98%

Þrátt fyrir mikla greiðslubyrði lána árið 2008 og hlutfallslega lágar tekjur í samanburði við afborganir lána, hafi kærandi keypt geymsluhúsnæði að verðmæti 14.870.000 krónur og bifreið fyrir 5.600.000 krónur. Þrátt fyrir beiðni embættisins um að kærandi upplýsti hvaðan fjármunirnir til kaupa á geymslunni hafi komið, hafi ekki borist skýr svör.

Í eftirfarandi töflu sé samantekt fyrir tekjur kæranda árið 2009 og greiðslubyrði helstu lána í krónum. Þar komi fram mismunur á afborgunum og nettólaunum sem sýni hvað afborganir lána hafi verið hátt hlutfall af tekjum kæranda. Allt árið 2009 hafi greiðslubyrði helstu lána að jafnaði verið 104% til 134% af mánaðarlegum tekjum kæranda.

2009 Nettólaun Afb. Mism. Hlutfall
Janúar 240.461 321.033 -80.572 134%
Febrúar 240.461 263.244 -22.783 109%
Mars 240.461 250.941 -10.480 104%
Apríl 240.461 269.140 -28.679 112%
Maí 240.461 286.593 -46.132 119%
Júní 240.461 274.289 -33.828 114%
Júlí 240.461 283.291 -42.830 118%
Ágúst 240.461 296.118 -55.657 123%
September 240.461 281.730 -41.269 117%
Október 240.461 288.663 -48.202 120%
Nóvember 240.461 293.297 -52.836 122%
Desember 240.461 287.650 -47.189 120%
Árið 2.885.532 3.395.989 -510.457  
Meðaltal 240.461 282.999 -42.538 118%

Næsta tafla sýni samantekt fyrir tekjur kæranda árið 2010 og greiðslubyrði helstu lána í krónum. Þar komi fram mismunur á afborgunum og nettólaunum sem sýni hvað afborganir lána hafi verið hátt hlutfall af tekjum kæranda það ár. Allt árið 2010 hafi greiðslubyrði helstu lána að jafnaði verið 126% til 141% af mánaðarlegum tekjum kæranda.

2010 Nettólaun Afb. Mism. Hlutfall
Janúar 214.605 300.939 -86.334 140%
Febrúar 214.605 279.728 -65.123 130%
Mars 214.605 279.980 -65.375 130%
Apríl 214.605 301.732 -87.127 141%
Maí 214.605 270.567 -55.962 126%
Júní 214.605 273.219 -58.614 127%
Júlí 214.605 282.199 -67.594 131%
Ágúst 214.605 283.178 -68.573 132%
September 214.605 284.058 -69.453 132%
Október 214.605 284.531 -69.926 133%
Nóvember 214.605 270.798 -56.193 126%
Desember 214.605 277.701 -63.096 129%
Árið 2.575.260 3.388.630 -813.370  
Meðaltal 214.605 282.386 -67.781 132%

Á árinu 2011 hafi kærandi selt geymsluhúsnæðið en þrátt fyrir óskir embættisins um upplýsingar varðandi söluna og ráðstöfun andvirðisins hafi engin svör borist.

Embættið sendi kæranda bréf 2. maí 2012 og óskaði eftir upplýsingum um það hvernig kærandi hafi farið að því að greiða afborganir af lánum fram til mars 2011. Fátt hafi verið um svör hjá kæranda. Hafi hún áður nefnt í símtali að hún fengi peninga frá fjölskyldu sinni til að greiða fyrir rafmagn og hita af fasteign sinni en engin gögn hafi borist er styðji það. Þá sé óvíst hvaðan kærandi hafi fengið fjármuni til kaupa á nefndu geymsluhúsnæði.

Kærandi hafi greint frá því að hún hafi átt í sambandi við vel stæðan mann sem hafi séð um að greiða af skuldum hennar. Einnig hafi komið fram hjá kæranda að þau hafi slitið sambandi fljótlega eftir fæðingu barns þeirra í mars 2009. Verði því ekki séð hvaðan fjármunir hafi komið til að greiða af skuldum kæranda frá þeim tíma og fram í mars 2011 þegar fyrstu vanskil hafi átt sér stað á íbúðarláni kæranda. Tekjur kæranda hafi ekki dugað fyrir framfærslukostnaði og afborgunum lána árin 2010 og 2011 og ekki sé unnt að sjá hvernig hún hafi farið að því að greiða afborganirnar. Verði því að gera ráð fyrir því að kærandi hafi haft tekjur annars staðar frá.

Í tölvupósti kæranda til embættis umboðsmanns skuldara 21. maí 2012 kvað kærandi kaup á Land Cruiser bifreið árið 2007 hafa átt sér stað með 50% eigin fé. Samkvæmt upplýsingum embættisins úr skattframtölum kæranda hafi eignastaða kæranda verið neikvæð um rúmar 15.000.000 króna. Því sé alls óljóst hvaðan fjármunir hafi komið til að greiða fyrir bifreiðina. Af gögnum málsins verði ráðið að kærandi hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar þegar hún hafi keypt bifreiðina. Miðað við tekjur kæranda og framfærsluviðmið hafi laun kæranda ekki dugað fyrir afborgunum af bæði fasteigna- og bílalánum á þeim tíma.

Þá hafi engin gögn borist embættinu sem styðji það að barnsfaðir kæranda hafi í raun séð um að greiða allan framfærslukostnað auk þess að greiða af lánum kæranda. Þegar kærandi hafi keypt fasteign að B götu nr. 9 og bifreið hafi hvoru tveggja verið skráð á nafn hennar og hafi hún því mátt búast við að þurfa að standa undir þeim fjárskuldbindingum sem leitt hafi af kaupunum.

Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hafi niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur séu á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán voru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.

Með vísan til þess sem komið hafi fram sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Við meðferð málsins hjá kærunefndinni var kæranda boðið að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við málatilbúnað umboðsmanns skuldara í samræmi við andmælareglu stjórnsýslulaga. Hvorki gögn né athugasemdir bárust frá kæranda.

Kærandi óskaði leiðbeininga kærunefndarinnar um hvort ástæða hafi verið fyrir hana að leita lögmanns undir rekstri málsins hjá nefndinni. Kærunefndin telur ekkert tilefni hafa komið fram í málinu til þess.

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði breytt þannig að umsókn hennar um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Til vara er þess krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann að taka ákvörðun að nýju.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skal taka sérstakt tillit til atriða sem talin eru upp í stafliðum a til g. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Sjá má yfirlit yfir fjárhagsstöðu kæranda samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins í III. kafla hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Erlent lán 20.660.000 30.215.206 2011
 Íslandsbanki 2008 Bílalán 3.716.953 2.682.594 2010
Fagmúr ehf. 2008 Afsalsgreiðsla 6.500.000 5.927.178 2008
    Alls kr. 30.876.953 38.824.978  

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur sem fyrr segir fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. grundvallast öll á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Á meðal þeirra eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Í september 2007 keypti kærandi íbúð að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu C fyrir 29.500.000 krónur. Kaupin fjármagnaði hún að mestu leyti með lánum, þ.e. erlendu láni að fjárhæð 20.660.000 krónur og láni frá seljanda að fjárhæð 6.500.000 krónur eða alls lánum að fjárhæð 27.160.000 krónur. Eigið fjárframlag kæranda við kaupin var 3.000.000 króna. Gert var ráð fyrir að hún greiddi lánið frá seljanda fjórum mánuðum eftir afhendingu eignarinnar. Í málinu liggur fyrir að kærandi fékk greiddar slysabætur að fjárhæð 10.214.118 krónur á árinu 2007 og verður að gera ráð fyrir að hún hafi meðal annars ætlað að nota þá peninga til að greiða framangreint lán frá seljanda. Vegna galla sem upp komu á eigninni endurgreiddi kærandi aldrei lánið frá seljanda. Að sögn kæranda var eignin tilbúin undir tréverk við kaupin. Kærandi greinir frá því að hún hafi notað eigið fé til að innrétta eignina en í málinu nýtur ekki við gagna sem upplýsa hve miklu fé kærandi varði til þess.

Á árinu 2007 voru nettólaun kæranda að meðaltali um 230.000 krónur á mánuði. Samkvæmt gögnum málsins var greiðslubyrði á nefndu erlendu láni í upphafi um 130.000 krónur á mánuði. Mánaðarlegur framfærslukostnaður samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara var á þeim tíma 70.400 krónur. Samkvæmt því hefði kærandi átt að getað staðið undir afborgunum af erlenda láninu á þeim tíma er hún tók það en skuldir hennar voru ekki aðrar á þessum tíma. Að mati kærunefndarinnar verða því framangreind fasteignakaup og meðfylgjandi lántaka ekki talin valda því að ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við um úrlausn á umsókn hennar um greiðsluaðlögun.

Í janúar 2008, eða fjórum mánuðum eftir kaup kæranda á íbúðarhúsnæðinu, keypti hún geymsluhúsnæði fyrir 4.500.000 krónur. Í maí 2008 keypti hún bifreið og tók til þess bílalán að fjárhæð 3.716.953 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði bílalánsins í upphafi var 71.366 krónur. Ráðstöfunartekjur kæranda voru að meðaltali um 230.000 krónur á mánuði. Eftir kaup kæranda á bifreiðinni var greiðslustaða hennar þessi í krónum samkvæmt fyrirliggjandi gögnum:

Greiðslubyrði fasteignaláns 2.5. 176.660
Framfærslukostnaður 82.100
Alls 258.760
   
Ráðstöfunartekjur 230.000
Greiðslustaða fyrir bifreiðakaup -28.760
   
Upphafleg greiðslubyrði bílaláns 71.366
Greiðslustaða eftir bifreiðakaup -100.126

Má af þessu sjá að greiðslugeta kæranda var neikvæð um tæplega 29.000 krónur á mánuði áður en hún keypti bifreiðina en varð neikvæð um rúmar 100.000 krónur á mánuði eftir bílakaupin. Í lok árs 2008 voru skuldir kæranda alls rúmar 66.000.000 króna, en til viðbótar við ofangreind lán var um að ræða yfirdráttarlán að fjárhæð ríflega 8.000.000 króna. Eins og þegar hefur komið fram var kaupverð geymsluhúsnæðisins 4.500.000 krónur. Fasteignamat þess var 15.220.000 krónur í lok árs 2008. Sé tekið tillit til þess að kaupverð eignarinnar var mun lægra en fasteignamat hennar er ekki unnt að leggja fasteignamatið til grundvallar verðmæti eignarinnar. Eignastaða kæranda í lok árs 2008 var því neikvæð um ríflega 26.000.000 króna en ekki rúmar 15.000.000 króna eins og greinir í skattframtali.

Má af þessu ráða að kærandi var greinilega ófær um að greiða af bílaláninu þegar hún stofnaði til þess árið 2008. Þá liggur fyrir að hún átti ekki eignir á móti þeim skuldum sem hún gat ekki greitt af. Telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt framangreindu telur kærunefndin að kærandi hafi tekið lán á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Með því og yfirdráttarlánum sínum á árinu 2008 hafi hún tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta