Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 21/2013. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. ágúst 2013

í máli nr. 21/2013:

Fjallasýn ehf.

Sel sf.

Jón Ingimundarson og

Guðmundur Þórarinsson

gegn

Norðurþingi

 

Með kæru 6. ágúst 2013 kæra Fjallasýn ehf., Sel sf., Jón Ingimundarson og Guðmundur Þórarinsson útboð Norðurþings auðkennt „Skólaakstur í Norðurþingi 2013-2017“. Kærendur krefjast þess að „þeir aðilar sem ekki skiluðu skilyrtum gögnum verði útilokaðir frá samningum við Norðurþing og gengið verði til samninga við bjóðendur sem skiluðu inn öllum umbeðnum gögnum“. Með bréfi 8. sama mánaðar komu fram frekari skýringar við kæruna og sú krafa að „þau tilboð sem ekki fylgdu tilskilin gögn verði dæmd ógild“. Þá var þess krafist að samningsgerð yrði stöðvuð þar til nefndin hefði úrskurðað í málinu. Varnaraðili krefst þess aðallega á þessu stigi málsins að kröfu um stöðvun samningsgerðar verði hafnað en verði litið svo á að sjálfkrafa bann við samningsgerð hafi komist á er þess krafist til vara að banninu verði aflétt.

            Í þessum hluta málsins er tekin afstaða til stöðvunar samningsgerðar um stundarsakir en úrlausn málsins að öðru leyti bíður endanlegs úrskurðar. 

I

Hinn 10. júní 2013 auglýsti varnaraðili útboð auðkennt „Skólaakstur í Norðurþingi 2013-2017“ þar sem óskað var eftir tilboðum í skólaakstur með grunnskólanemendur skólaárin 2013-2017. Úboðið náði til fjögurra akstursleiða og var heimilt að gera tilboð í eina eða fleiri leiðir. Í grein 1.1.7 í útboðsgögnum var tekið fram hvaða gögn skyldu fylgja tilboði. Þar sagði m.a. eftirfarandi:

„Bjóðendur skulu skila inn ítarlegri greinargerð varðandi eftirfarandi atriði:

·         Almennar upplýsingar um bjóðendur.

·         Nöfn eigenda og stjórnarmanna ef um fyrirtæki væri að ræða

·         Yfirlit yfir starfsmenn sem annast þjónustuna sbr. kafla 3.3.

·         Yfirlit yfir bifreiðar sem notaðar verða til að veita umbeðna þjónustu (s.s. aldur, stærð, ástand) sbr. kafla 3.1.

·         Samandregið yfirlit yfir sambærileg verkefni, unnin á s.l. 2 árum.

·         Staðfesting á að bjóðandi sé í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur.

·         Skrá yfir helstu verk og lýsing á reynslu bjóðanda í sambærilegum verkum.“

Samkvæmt grein 1.1.7 var lögð rík áhersla á að bjóðendur legðu fram með tilboðum sínum umbeðnum gögnum. Var tekið fram að bjóðendur mættu búast við því að tilboð þeirra yrðu metin ógild að öðrum kosti. Kafli 3 nefnist „Gæðakröfur“ og þar er í grein 3.1 fjallað um kröfur til þeirra bifreiða sem bjóðendur hyggjast nota, í grein 3.2 er fjallað um viðbragðstíma og í grein 3.3 um bifreiðastjóra. Ekki eru gerðar kröfur um reynslu bifreiðastjóranna.

            Kærendur voru meðal bjóðenda í tilboðinu og voru tilboð opnuð 28. júní 2013. Hinn 17. júlí 2013 tilkynnti varnaraðili að tilboðum Kristins Rúnars Tryggvasonar hefði verið tekið í leiðir 1 og 2, tilboði Guðmundar Þórarinssonar í leið 3 og tilboði SBA Norðurleiðar í leið 4. Sem fyrr segir barst kæra í málinu kærunefnd útboðsmála 6. ágúst 2013. 

II

Kærandi reisir málatilbúnað sinn á því að jafnræðis hafi ekki verið gætt þar sem sumir bjóðendur hafi ekki skilað umbeðnum gögnum með tilboðum sínum. Vísa kærendur sérstaklega til þess að skila hafi átt staðfestingu á skilum opinberra gjalda og lífeyris­greiðslna. Kærendur taka fram að þegar tilkynning um val tilboða hafi borist þeim hafi skrifstofu varnaraðila verið lokuð vegna sumarleyfa í tvær vikur og því hafi kæranda verið ómögulegt að nálgast gögn málsins fyrr en 6. ágúst.

Varnaraðili telur að kæra sé knöpp og óljós en að hann skilji kæruna þannig að gerðar séu tvær kröfur, annars vegar að tilboð Kristins Rúnars Tryggvasonar verði metið ógilt og hins vegar sé gerð krafa um stöðvun samningsgerðar. Varnaraðili skilur málatilbúnað kæranda einnig á þá leið að byggt sé á þeirri staðreynd að Kristinn Rúnar Tryggvason hafi ekki lagt fram staðfestingu á því að hann væri í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur. Varnaraðili bendir á að Kristinn Rúnar hafi ekki áður verið með rekstur fólksflutningabifreiða og honum hafi því verið ómögulegt að leggja fram frekari upplýsingar en hann gerði í tilboði sínu um ýmis atriði, svo sem skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu. Kristinn hafi þó ritað á tilboðsblað sitt upplýsingar um þessi atriði.

Varnaraðili segir að í kafla 1.1.7 í útboðsgögnum komi skýrt fram að Norðurþing áskilji sér rétt til að kalla eftir öðrum upplýsingum. Varnaraðili telur ótvírætt að hann hafi heimild til að afla nánari upplýsinga um atriði sem máli skipta eða nýrra gagna á hvaða stigi ferilsins sem er, með stoð í 53. gr. laga 84/2007. Þetta telur varnaraðili heimilt svo lengi sem jafnræði aðila sé tryggt, útboðið leiði til hagkvæmra tilboða og að nýttir séu kostir virkrar samkeppni. Varnaraðili telur að í engu sé brotið gegn jafnræði aðila þó upplýsinga um skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og lífeyrisgreiðslna sé aflað eftir opnun tilboða. Um smáatriði sé að ræða sem eigi að staðfesta yfirlýsingu bjóðanda um að hann fullnægi kröfum. Varnaraðili telur að ef fallist verði á kröfu kærenda sé í raun verið að gera nýjum aðilum erfiðara um vik að bjóða í verk enda slíkir aðilar líklegri til að gera smávægileg mistök eða leggja fram tilboð með formgalla sem auðvelt sé að laga. Varnaraðili telur að það væri andstætt því markmiði laganna að stuðla að virkri samkeppni ef slíkir bjóðendur kæmust ekki að vegna smávægilegra mistaka við tilboðsgerð.  

III

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup nr. 84/2007, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, leiðir kæra til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar ef val tilboðs er kært innan lögboðins biðtíma skv. 76. gr. laganna. Af upphaflegri kæru varð ekki ráðið hvenær tilboð voru valin í útboðinu en undir meðferð málsins hefur komið í ljós að ákvörðun þessa efnis var tekin 17. júlí sl. Samkvæmt þessu var ekki fullnægt skilyrðum fyrir sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar þegar kæra barst kæruefnd útboðsmála hinn 6. ágúst 2013. Með hliðsjón af því að samningur hefur ekki verið gerður kemur hins vegar til skoðunar krafa kærenda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir.

Í hinu kærða útboði var óskað tilboða í fjórar akstursleiðir og varnaraðili hefur valið þrjá bjóðendur til að sinna akstrinum, Kristinn Rúnar Tryggvason, Guðmund Þórarinsson og SBA Norðurleið. Af kæru verður ekki ráðið með vissu hver þessara bjóðenda er talinn hafa lagt fram ógilt tilboð að mati kærenda. Af kæru má þó ráða að kærendur telji að í einhverjum tilboðum hafi vantað staðfestingu á skilum opinberra gjalda og lífeyris­sjóðs­greiðslna. Þá verður að líta til þess að Guðmundur Þórarinsson er einn kærenda og í kæru er vísað til þess að í opnunarfundargerð komi fram að Kristinn Rúnar Tryggvason og Hlynur Bragason hafi ekki skilað öllum tilskildum gögnum. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi kemur því til skoðunar hvort tilboð nefnds Kristins hafi verið ógilt vegna þess að þar var ekki að finna skrá yfir helstu verk, lýsingu á reynslu eða staðfestingu á að hann væri í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur.

Í grein 3.1 í útboðslýsingu eru gerðar kröfur til þeirra bifreiða sem nota á í þjónustunni. Í grein 3.3 eru gerðar kröfur til bifreiðastjóra en þar eru engar kröfur gerðar um reynslu þeirra eða reynslu bjóðendanna sjálfra. Í grein 1.1.7 í útboðslýsingu kemur fram að bjóðendur skuli skila inn ítarlegum upplýsingum um tilgreind atriði, m.a. skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu bjóðanda í sambærilegum verkum. Í grein 3.1 í útboðslýsingu eru ekki gerðar kröfur til fjárhags bjóðenda. Í grein 1.1.7 kemur fram að bjóðandi skuli skila staðfestingu á því að hann sé í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur.

Framangreind ákvæði útboðsskilmála verða ekki túlkuð með íþyngjandi hætti á þá leið að þar sé gerð óundanþæg krafa um tiltekna reynslu bjóðenda eða fjárhagslega getu þeirra. Kærunefnd útboðsmála telur ekkert komið fram á þessu stigi málsins sem bendir til þess að bjóðendur hafi mátt skilja útboðsgögnin með öðrum hætti. Varnaraðili hefur upplýst að ástæða þess að Kristinn Rúnar Tryggvason skilaði hvorki staðfestingu á því að hann væri í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur, né skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu, sé sú að hann hafi ekki verið í rekstri áður. Kristni hafi þannig verið ómögulegt að skila umbeðnum gögnum með tilboði sínu.

Þar sem ekki var gerð óundanþæg krafa um að bjóðendur hefðu tiltekna reynslu af akstri eða rekstri í skólaþjónustu telur kærunefnd útboðsmála ekki líkur hafa verið leiddar að því að umrætt tilboð hafi verið í andstöðu við útboðsskilmála. Samkvæmt framangreindu telur nefndin ekki að slíkar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup. Verður kröfu kæranda um stöðvun um stundarsakir því hafnað.  

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kærenda, Fjallasýnar ehf., Sels sf., Jóns Ingimundarsonar og Guðmundar Þórarinssonar, um stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Norðurþings, á grundvelli útboðs auðkennt „Skólaakstur í Norðurþingi 2013-2017“.

 

 

Reykjavík, 16. ágúst 2013.

Skúli Magnússon

Ásgerður Ragnarsdóttir

Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta