Mál nr. 10/2013. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 28. ágúst 2013
í máli nr. 10/2013:
Roja Holding ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi 11. apríl 2013 kærði Roja Holding ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um að kefjast gjalds af þátttakendum fyrir afhendingu útboðsgagna í útboði nr. 15429 „Vörubifreið fyrir Isavia“. Kærandi krafðist þess að kærunefnd útboðsmála stöðvaði innkaupaferlið þar til endanlega yrði skorið úr kæru. Þá krafðist kærandi þess að nefndin legði fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik. Að síðustu krafðist kærandi þess að nefndin úrskurðaði kæranda málskostnað.
Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með bréfi 24. apríl 2013 krafðist varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá eða hafnað. Einnig gerði varnaraðili kröfu um málskostnað. Hinn 9. maí hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu kæranda um að stöðva útboð varnaraðila. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila hinn 23. júlí sl. og krafðist þess þar að nefndin úrskurðaði gjaldtöku varnaraðila ólögmæta.
I
Þann 24. mars 2013 auglýsti varnaraðili útboð nr. 15429 „Vörubifreið fyrir Isavia“. Í auglýsingunni var óskað eftir tilboðum í eina nýja vörubifreið með sturtupalli og kom fram að útboðsgögn væru aðgengileg á heimasíðu varnaraðila. Fram kom að hægt væri að hlaða niður útboðsgögnum gegn greiðslu 3.500 króna.
Skömmu áður áttu kærandi og varnaraðili í tölvupóstsamskiptum um greiðslu samsvarandi gjalds vegna annars útboðs. Þar óskaði kærandi eftir því að fá útboðsgögn án þess að greiða fyrir þau en því hafnaði varnaraðili. Í svari varnaraðila kom fram að um almennt þjónustugjald væri að ræða sem innheimt væri af öllum sem fengju gögnin í hendur.
II
Kærandi telur lagastoð skorta fyrir innheimtu þjónustugjalda fyrir afhendingu útboðsgagna af hálfu varnaraðila. Þá ráði geðþóttaákvarðanir upphæð gjaldanna, sér í lagi með hliðsjón af því að varnaraðili innheimti ekkert gjald vegna afhendingu útboðsgagna í tveimur tilteknum útboðum. Innheimta gjaldanna sé íþyngjandi inngrip sem leggi efnahagslegar byrðar á bjóðendur. Með innheimtu gjaldanna hafi varnaraðili farið út fyrir valdheimildir sínar.
Kærandi telur gjaldtökuna brjóta gegn þeim markmiðum laga nr. 84/2007 um opinber innkaup að tryggja jafnræði, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með samkeppni og efla nýsköpun og þróun, sbr. 1. gr. laganna. Hvergi í lögunum sé að finna heimild fyrir varnaraðila til að innheimta þjónustugjöld. Geðþóttaákvarðanir varnaraðila brjóti gegn 14. gr. laganna um jafnræði og 16. gr. um bann við mismunun við veitingu sérréttar. Þá sé verklag varnaraðila ógagnsætt þar sem upphæðir gjaldanna byggi ekki á birtum gögnum og erfitt sé fyrir mögulega bjóðendur að átta sig á fyrir hvaða þjónustu gjaldið sé tekið.
Kærandi vísar til 89. gr. laga um opinber innkaup. Samkvæmt ákvæðinu skulu tekjur varnaraðila koma frá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum en ekki einkaaðilum. Gagnályktun frá ákvæðinu leiði til þess að innheimta gjaldsins af einkaaðilum sé ólögmæt. Þá sé gjaldtakan allt að einu ólögmæt þar sem óheimilt sé að taka hærra gjald fyrir þjónustu en nemur kostnaði við að veita hana, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1041/1994. Í nýrri gjaldskrá varnaraðila sé ekki að finna heimild til innheimtu þjónustugjalda. Að mati kæranda hafi skattgreiðendur þegar greitt fyrir aðgengi að útboðsgögnum með skattfé. Þá vísar kærandi til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Framkvæmd varnaraðila fullnægi ekki áskilnaði ákvæðanna.
III
Varnaraðili tekur fram að bjóðendur séu ekki krafðir um þjónustugjald á grundvelli 89. gr. laga um opinber innkaup eða á grundvelli laganna yfirhöfuð. Málefnið heyri því ekki undir valdsvið nefndarinnar og beri því að vísa málinu frá samkvæmt 3. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup. Varnaraðili telur kæruna tefja framkvæmd mikilvægra innkaupa og að kæranda hefði verið rétt að senda inn fyrirspurn samkvæmt 63. gr. laga um opinber innkaup, almenna kvörtun eða beina erindi sínu beint til fjármálaráðuneytisins.
Varnaraðili vísar til þeirrar almennu reglu að skattborgarar geti ekki vænst þess að fá gögn hjá ríkisstofnunum án endurgjalds. Kveðið sé á um gjaldtöku í 17. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs, 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Varðandi þau tvö útboð sem kærandi nefnir sem dæmi um að þjónustugjöld séu ekki innheimt í öllum útboðum segir varnaraðili málefnalegar ástæður fyrir því. Annars vegar séu útboðsgögn í sumum tilvikum á stöðluðu formi eða afrit af fyrri útboðum en hins vegar kunni að vera fyrirsjáanlegt að margir sæki gögnin og varnaraðili muni hagnast á gjaldtöku umfram kostnað við útgáfu og umsýslan með gögnin.
Varnaraðili mótmælir því að brotið sé gegn 14. gr. laga um opinber innkaup með framkvæmdinni. Jafnræði bjóðenda sé tryggt með því að allir greiði sama gjaldið. Þá telur varnaraðili að 16. gr. laganna eigi ekki við um álitaefnið.
IV
Samkvæmt 91. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup er hlutverk kærunefndar útboðsmála að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim. Ágreiningur um gjaldtöku opinberra aðila fyrir afhendingu gagna getur þar af leiðandi einungis komið til úrlausnar kærunefndar útboðsmála að því marki sem gjaldtaka er reist á reglum um opinber innkaup.
Nefndin fellst ekki á það með kæranda að tækt sé að gagnálykta frá 89. gr. laga um opinber innkaup á þá leið að varnaraðila sé fortakslaust óheimilt að taka gjald fyrir þjónustu við einkaaðila, svo sem afhendingu útboðsgagna. Þá verður ekki talið að önnur fyrirmæli laga um opinber innkaup feli í sér slíkt bann. Verður því að meta gjaldtöku varnaraðila með hliðsjón af almennum reglum við opinber innkaup, einkum reglum um jafnræði og meðalhóf.
Eins og áður greinir var kæranda unnt að hlaða útboðsgögnum niður gegn greiðslu 3.500 króna. Var því hér um að ræða fjárhæð sem fráleitt gat falið í sér hindrun við þátttöku í téðu innkaupaferli þannig að brotið væri gegn jafnræði eða lagðar óhóflegar byrðar á þau fyrirtæki sem taka vildu þátt í innkaupaferlinu. Samkvæmt þessu verður ekki talið að brotið hafi verið gegn reglum um opinber innkaup með umræddri gjaldtöku. Verður kröfum kæranda því hafnað. Það athugast að með þessari niðurstöðu er ekki tekin afstaða til þess hvort umrætt gjald hafi grundvallast á viðhlítandi lagaheimild samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar eða samræmst fyrrgreindum lögum nr. 88/1991 en um þau atriði hefur kærunefnd útboðsmála ekki úrskurðarvald líkt og áður greinir.
Kærunefndin telur ekki efni til að gera kæranda að greiða varnaraðila málskostnað.
Úrskurðarorð:
Öllum kröfum kæranda, Roja Holding ehf., vegna útboðs varnaraðila, Ríkiskaupa, auðkennt „Vörubifreið fyrir Isavia“, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.
Reykjavík, 28. ágúst 2013.
Skúli Magnússon
Ásgerður Ragnarsdóttir
Stanley Pálsson