Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 4. febrúar 1993

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA.

               Úrskurður
               uppkveðinn 4. febrúar 1993
               í eignarnámsmálinu nr.2/1991:

               Hafnarfjarðarkaupstaður
               gegn
               Einari Þorgilssyni og Co. h.f.
            

I.   SKIPAN MATSNEFNDAR.

   Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta ásamt matsnefndarmönnunum Ragnari Ingimarssyni, verkfræðingi, og Stefáni Tryggvasyni, bónda, en formaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. l. nr. 11/1973.

II. AÐILAR.

   Eignarnemi er Hafnarfjarðarkaupstaður og flytur Guðmundur Benediktsson, bæjarlögmaður, málið fyrir hann.

   Eignarnámsþoli er Einar Þorgilsson og Co. h.f., Strandgötu 49, Hafnarfirði, en fyrir hann flytur málið Matthías Á. Matthiesen hrl.

III. MATSBEIÐNI.

   Eignarnemi óskaði eignarnámsmats með bréfi til matsnefndar eignarnámsbóta dags. 19. mars 1991 undirrituðu af bæjarstjóranum í Hafnarfirði.

IV. ANDLAG EIGNARNÁMS OG TILEFNI.

   Eignarnámið lýtur að réttindum eignarnámsþola yfir svonefndum Einarsreit við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, en um er að ræða landspildu sem er 21.454 m2 á stærð og eignarnámsþoli hefur á erfðafestu frá eignarnema. Eignarnámsmatið lýtur ennfremur að mannvirkjum á landinu.

V. EIGNARNÁMSHEIMILD.

   Eignarnemi vísar um heimild sína til eignarnáms til 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og um beitingu hennar vísar hann til samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 12. mars 1991. Eignarnámsþoli fellst á, að lagaskilyrði fyrir framgangi eignarnámsmatsins séu uppfyllt.

VI. KRÖFUR EIGNARNEMA.

   Kröfur eignarnema eru þær aðallega að bætur vegna eignarnáms á erfðafesturéttindum og mannvirkjum verði hæfilega metnar kr. 5.000.000.-, en til vara verði þær metnar allt að kr. 18.475.204.-

VII. KRÖFUR EIGNARNÁMSÞOLA.

   Kröfur eignarnámsþola eru þær, að verðmæti réttinda yfir lóðum verði metið eigi lægra en kr. 42.908.000.-, og verðmæti bygginga kr. 55.735.000.- og verðmæti fiskreitsmannvirkja kr. 8.870.300.- eða samtals kr. 107.513.300.-. Þá krefst eignarnámsþoli málskostnaðar sér til handa úr hendi eignarnema að mati matsnefndar og virðisaukaskatts skv. lögum nr. 50/1988.

VII. MÁLSMEÐFERÐ.

   Matsbeiðni eignarnema er dags. 19. mars 1991. Formaður matsnefndar óskaði eftir nánar gögnum með bréfi 22. maí 1991 og er málið var tekið fyrir hinn 5. september 1991 lagði lögmaður eignarnema fram auk upphaflegrar matsbeiðni og fylgiskjala með henni greinargerð með fylgiskjölum. Aðilar lýstu því yfir að ekki væri ágreiningur um heimild til eignarnáms og matsnefndin taldi skilyrði fyrirtöku málsins uppfyllt. Leitað var sátta en án árangurs.

   Málið var síðan tekið fyrir 17. október 1991, 14. nóvember 1991, 9. janúar 1992 og 13. febrúar 1992, en þá lagði lögmaður eignarnámsþola fram greinargerð og fylgiskjöl nr. 14-27. Málið var síðan tekið fyrir 11. mars 1992 og þá gengið á vettvang með talsmönnum aðila og skoðaðar þær tvær lóðir, sem eignarnámsbeiðnin lýtur að svo og öll mannvirki á lóðunum. Matsnefndin gekk á mörk lóðanna og skoðaði hús utan og innan. Málið kom næst fyrir hinn 30. apríl 1992 og þá lagði lögmaður eignarnema fram skjöl nr. 28-35. Á matsfundi 7. maí 1992 lagði sami fram framhaldsgreinargerð ásamt fylgiskjali og á fundi 5. ágúst 1992 lagði lögmaður eignarnámsþola fram framhaldsgreinargerð ásamt fylgiskjölum nr. 39-48.

   Málið var að síðustu tekið fyrir til munnlegs málflutnings hinn 27. ágúst 1992 og að málflutningi loknum var málið tekið til úrskurðar.

IX. MÁLSATVIK.

   Með samningi dags. 6. september 1913, lesnum á manntalsþingi Hafnarfjarðar 15. júlí 1922, leigði eignarnemi Einari Þorgilssyni, kaupmanni á erfðafestu lóð til fiskverkunar og til þess að byggja á henni hús og önnur mannvirki, er þar að lýtur, en lóðin liggur austan megin við Reykjavíkurveg og var að stærð 6.050 m2. Þá munu aðilar hafa gert tvo nýja erfðafestusamninga hinn 4. október 1922 og náðu greindir þrír samningar til lóðar samtals að stærð 10.787,5 m2. Hinn 1. júní 1929 undirritaði eignarnemi samning við Einar Þorgilsson sem kom í stað allra framangreindra þriggja erfðafestusamninga og náði hinn nýi samningur til lands samtals að stærð 12.833 m2. Tekið er fram að lóðin sé leigð á erfðafestu "til fiskreitarlagningar, fiskverkunar og til bygginga húsa - og mannvirkja þeirra, er þar að lúta,..." Þá segir í erfðafestusamningnum að lóðin sé leigð til erfðafestu þannig að leiguliði hafi rétt til að selja og veðsetja afnotarétt sinn til lóðarinnar ásamt húsum og mannvirkjum á henni, en vilji hann selja erfðafesturétt sinn að öllu eða nokkru leyti hafi bæjarstjórnin forkaupsrétt. Leigan nam kr. 148,78 á ári. Samningurinn skyldi ganga úr gildi ef leiguliði flytti öll hús af lóðinni eða felldi þau niður á einhvern hátt og greiddi ekki lóðargjaldið. Skyldi lóðin þá falla aftur til eiganda án uppsagnar. Leigutaki skyldi setja glögg og varanleg merki um lóðina og greiða alla skatta og gjöld til hins opinbera, sem lögð kynnu að verða á erfðafestulóðir sem gjaldstofn. Önnur ákvæði, sem hér skipta máli, er ekki að finna í greindum samningi. 20. desember 1933 undirritaði bæjarstjórinn í Hafnarfirði enn erfðafestusamning við Einar Þorgilsson og leigði honum á erfðafestu lóð við hlið fyrri lóðar og er flatarmál hinnar síðari lóðar 10.666 m2. Í samningnum segir að lóðin sé leigð "til fiskreitagerðar". Þá segir og í samningnum: "heimilt er bæjarstjórninni að leggja vegi um lóðina og taka hana til bygginga eða annara afnota, ef brýn nauðsyn krefur, gegn hlutfallslegri lækkun á eftirgjaldinu og skaðabótum fyrir mannvirki þau, er fara kunna forgörðum fyrir leigutaka á þann hátt, eftir mati dómkvaddra manna." Að öðru leyti var efni samningsins samhljóða eldri samningnum frá 1929 að því breyttu að leiga er kr. 213,32 á ári og tekið er fram að það séu 4% af virðingarverði lóðarinnar eftir mati fasteignarnefndar.

   Árið 1956 skerti eignarnemi framangreint land um 2.045 m2 og greiddi skv. mati fyrir þá landskerðingu kr. 26.585.-.

   Á lóðunum hafa verið gerðar hleðslur vegna fiskreitanna og eru þær allmikið mannvirki. Að auki eru á lóðunum eftirtalin hús:

      Fiskvinnsluhús byggt 1953 og 1964 að hluta,
      vörugeymsla byggð 1942,
      fiskgeymsluhús byggt 1910,
      veiðafærageymsla byggð 1951,
      kaffihús byggt 1940,
      fiskgeymslur byggðar 1942,
      fiskverkunarhús byggt 1929.
   
   Vörugeymsla og fiskgeymslur eru járnklæddar bogabyggingar gerðar af setuliðinu árið 1942. Setuliðið notaði lóðirnar á stríðsárunum, en að stríði loknu seldi ríkissjóður Einari Þorgilssyni mannvirki þau er setuliðið hafði gert.

   Fiskvinnsluhús og veiðafærageymsla eru að hluta steypt og að hluta úr timbri og fiskgeymsluhús frá 1910 er úr timbri. Kaffihús frá 1940 er hlaðið, en fiskverkunarhús frá 1929 er steypt.

   Samtals eru húsin 13.197,- rúmmetrar og 2.436,6 fermetrar.

   Á lóðunum stendur að auki vörugeymsla byggð af setuliðinu árið 1942 og er hún eign Venusar h.f. Það hús stendur með leyfi eignarnámsþola án þess að Venus h.f. hafi nein önnur lóðarréttindi en þau sem í því felast að láta greinda vörugeymslu standa þar á lóðinni til hún gengur úr sér.

   Árið 1939 stofnaði Einar Þorgilsson hlutafélagið Einar Þorgilsson og Co. h.f. um fiskverkun sína og útgerð og tók hlutafélagið við réttindum og skyldum gagnvart eignarnema að því er varðar Einarsreit. Aðila greinir ekki á um að erfðafesturétturinn sé í höndum þess hlutafélags og að það sé eigandi fyrrtaldra mannvirkja á reitnum.

   Einar Þorgilsson og síðar Einar Þorgilsson og Co. h.f. ráku útgerð í Hafnarfirði og mikla saltfiskverkun lengst af, sem fór fram á Einarsreit. Á síðari árum hefur eignarnámsþoli þó hætt útgerð og að mestu leyti fiskverkun og hefur lítil sem engin saltfiskverkun farið fram á Einarsreit. Þó mun saltfiskur vera breiddur til þerris á Einarsreit á sumri hverju á vegum leigutaka, sem verslar með saltfisk í Hafnarfirði. Slíkt er þó í mjög smáum stíl. Sum húsanna á Einarsreit eru leigð út aðallega sem geymslur, en önnur starfsemi fer þó einnig fram í þeim. Skv. vottorði Jóns Þ. Hilmarssonar, löggilts endurskoðanda, námu húsaleigutekjur eignarnámsþola af húsunum kr. 3.378.071.- árið 1990 og kr. 3.590.174.- árið 1991. Leigutakar voru sjö árið 1990, níu árið 1991 og sjö í upphafi árs 1992. Hér er átt við brúttó leigutekjur og ekki tekið tillit til kostnaðar, svo sem fasteignagjalda og hugsanlegs viðhaldskostnaðar.

X. SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA.

   Aðalkrafa eignarnema er á því byggð, að eignarnámsþoli eigi ekki rétt til skaðabóta vegna missis erfðafesturéttindanna, enda hafi eignarnema verið heimilt að rifta erfðafestusamningunum við eignarnmámsþola. Eignarnemi rökstyður þessa afstöðu sína með því, að eignarnámsþoli sé hættur fiskvinnslu og útgerð og einu heimiluðu not hans til lóðarinnar nýtist honum ekki lengur. Þar sem hann sé hættur fiskvinnslu verði hann ekki fyrir tjóni og ekki þurfi hann að afla sér sambærilegrar aðstöðu annars staðar. Þá leggur eignarnemi á það áherslu að þurrkun á fiskreitum sé aflögð fiskverkunaraðferð. Þá byggir eignarnemi og á því, að skýrt sé tekið fram í samningnum frá 1933, að einungis skuli greiða skaðabætur fyrir mannvirki ef lóðarréttindi verða skert vegna bygginga eða annarra afnota af hálfu eignarnema. Af hálfu eignarnema er því og haldið fram að fiskreitirnir hafi ekki verið notaðir áratugum saman og stafi það af breyttum framleiðsluháttum. Þá er því haldið fram að þau mannvirki, sem heimiluð séu skv. eldri samningnum frá 1929, fullnægi ekki nútímakröfum til aðbúnaðar og hreinlætis við framleiðslu sjávarafurða, enda séu ekki fyrir hendi tilskilin leyfi fyrir slíkri starfsemi frá Ríkismati sjávarafurða. Eigi þetta jafnt við um eignarnámsþolann sjálfan og leigutaka hans. Telur eignarnemi því að við ákvörðun eignarnámsbóta beri að hafa mið af þeim mjög svo takmörkuðu afnotum sem unnt sé að hafa af lóðunum og mannvirkjunum, ef þau séu þá nokkur.

XI. SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA.

   Kröfur eignarnámsþola um bætur vegna lóðanna að fjárhæð kr. 42.908.000.- eru á því byggðar, að verðmæti hvers fermetra verði ekki metið lægra en kr. 2.000.-. Þá er því haldið fram að meðaltal endurbyggingaverðs bygginga á Einarsreit nemi kr. 222.943.000.- og miðað við að bætur skuli vera fjórðungur endurbyggingarverðs nemi þær kr. 55.735.000.-. Að auki er krafa um bætur að fjárhæð kr. 8.870.300.-vegna vegghleðslu fyrir fiskreiti og er hún byggð á áætlun Almennu verkfræðistofunnar h.f. um endurbyggingarkostnað fiskreitsins. Sú áætlun tekur mið af 250 rúmmetrum hlaðinna veggja og 820 rúmmetrum óvalinnar fyllingar og 1.180 rúmmetrum valinnar fyllingar í yfirborðsfrágang.

   Eignarnámsþoli leggur á það áherslu að við mat á bótum vegna eignarnámsins beri að taka tillit til þess að verið sé að taka eignarnámi alla útgerðar- og fiskverkunaraðstöðu eignarnámsþola, sem sé aldargamalt fyrirtæki, og um sé að ræða eignir sem notaðar hafi verið til útgerðar og fiskverkunar um áratuga skeið.

   Eignarnemi vísar til opinberra matsgerða, einkum fasteignamats, en lóðirnar og mannvirkin fyrir utan fiskreitina séu metin á kr. 66.728.000.- og það fasteignamat hafi lagt grundvöll að skattlagningu hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélags. Hver fermetri lóðar sé metin á kr. 1.747.-. Hver rúmmetri bygginga sé metin á kr. 2.200.- og hver fermetri að meðaltali á kr. 9.100.-. Brunabótamat húseignanna sé kr. 25.925.000.-.

   Þá leggur eignarnámsþoli áherslu á það að raunveruleg fasteignaverðmæti séu nýtt. Að vísu sé lóð að fasteignamati kr. 18.635.000.- ekki nýtt, en hús að fasteignamati kr.50.761.000.-.
   Þar af noti eignarnámsþoli sjálfur 1/5 hluta en í útleigu séu 4/5 hlutar. Arðsemi eignanna í útleigu sé rúmlega 8,5% sem jafngildi því sem næst raunvöxtum af spariskírteinum ríkissjóðs að verðmæti kr. 40.000.000.- miðað við árið 1991.

   Þá byggir eignarnámsþoli á því, að hafa beri hliðsjón af því verði, sem eignarnemi fái eða geti fengið fyrir hið eignarnumda. Telur eignarnámsþoli að verðmætið í hendi eignarnema þannig reiknað í lóðum undir íbúðabyggingar nemi kr. 49.932.000.-.

   Eignarnámsþoli áætlar að kostnaður við að endurbyggja álíka stórar húseignir og nú eru á Einarsreit sé kr. 222.943.000.-. Það sé sá kostnaður sem eignarnámsþoli yrði að leggja í til að skapa sér á ný sambærilega aðstöðu við þá sem hann hefur í dag. Eignarnámsþoli segir þó að núverandi byggingar séu ekki að fullu sambærilegar við þær sem yrði að byggja, en tekur fram að byggingum hafi ætíð verið vel við haldið.

   Eignarnámsþoli heldur því fram að við eignarnámið verði mikil breyting og röskun á rekstri eignarnámsþola, sem taka beri tillit til við ákvörðun bóta.

   Eignarnámsþoli hefur látið reikna út stofnverð eigna í hendi eignarnámsþola á Einarsreit skv. lögum nr. 75/1981 og nemur það kr. 103.829.503.- og er þá ekki reiknaður með hinn hlaðni saltfiskreitur. Þá hefur eignarnámsþoli lagt fram gögn um það, að einn af leigutökum hans, Friðbjörn Björnsson, fiskverkandi, hafi nú flutt úr leiguhúsnæðinu og keypt sér þess í stað fiskvinnsluhúsnæði sem er 187,7 m2 að stærð og hafi kostnaður við hvern fermetra þar numið kr. 32.000.-.

   Þá vekur eignarnámsþoli athygli á því, að eignarnemi hafi greitt Finnboga G. Sigurðssyni kr. 3.500.000.- fyrir 9.600 m2 erfðafestulóðarréttindi með hlöðu og hesthúsi fyrir 10 hesta. Telur eignarnámsþoli að sú fjárhæð yfirfærð á verðmætin í Einarsreit jafngildi kr. 179.790.608.-.

   Af hálfu eignarnámsþola eru borin fram mótmæli gegn staðhæfingum í framlögðu bréfi Ríkismats sjávarafurða til eignarnema á skj. nr. 28 þess efnis að ekki hafi verið stunduð fiskvinnsla í húsnæðinu frá 1. ágúst 1990, enda sé húsnæðið og umhverfi þess óhæft til fiskvinnslu skv. reglugerð nr. 177/1985 um búnað og hreinlæti í fiskvinnslustöðvum.

   Því er m.a. haldið fram að Friðbjörn Björnsson hafi haft munnlegt starfsleyfi til fiskverkunar í leiguhúsnæði á Einarsreit.

   Þá byggir eignarnámsþoli á því, að líta verði til þess við mat á tjóni hans, að nú hafi alllengi verið vitað um fyrirætlanir bæjaryfirvalda um skipulag á Einarsreit og hafi það haft slíka óvissu í för með sér, að eignarnámsþoli hafi ekki getað stofnað til verulegrar fiskverkunar á Einarsreit að nýju né leyft öðrum það.

XII. ÁLIT MATSNEFNDAR EIGNARNÁMSBÓTA.

   Matsnefndin hefur gengið á vettvang ásamt talsmönnum aðila og kynnt sér legu lóðanna og mannvirki á henni, þar á meðal byggingar allar að utan og innan.

   Aðilar eru sammála um að lóðin skv. eldri erfðafestusamningnum frá 1929 hafi upphaflega verið 12.833 m2 en sé núna 10.788 m2 og að stærð lóðarinnar skv. yngri lóðarleigusamningnum frá 1933 sé 10.666 m2. Þannig séu lóðir þessar nú samtals 21.454 m2.

   Sá grundvallarmunur er á réttindum erfðafestuhafa skv. yngri og eldri samningi, að með samningnum frá 1929 er erfðafestuhafa heimilað að leggja fiskreiti, verka fisk og byggja hús og mannvirki þeirra, er þar að lúta, en með síðari samningnum er erfðafestuhafa einungis heimiluð fiskreitagerð.

   Þá er og í síðari samningnum heimild til handa eignarnema að leggja vegi um lóðina og taka hana til bygginga eða annarra afnota, ef brýn nauðsyn krefur, gegn hlutfallslegri lækkun á eftirgjaldinu og skaðabótum fyrir mannvirki þau er fara kunna forgörðum fyrir leigutaka á þann hátt, eftir mati dómkvaddra manna.

   Af framangreindum ákvæðum erfðafestusamninganna leiðir, að réttur erfðafestuhafa til afnota er takmarkaður en þó mjög mistakmarkaður. Í eldri samningnum er talað um fiskreitalagningu og fiskverkun, svo og byggingu húsa og mannvirkja, en í síðari samningnum er einungis talað um fiskreitargerð. Matsnefndin telur, að erfðafestuhafi hafi fengið afnot af lóðunum til saltfiskverkunar, bæði utan húss og innan samkvæmt eldri samningi, en einungis utanhúss samkvæmt síðari samningnum. Matsnefndin telur afnot erfðafestuhafa takmarkast við heimildirnar í erfðafestusamningunum að þessu leyti, þó þannig að erfðafestuhafa hafi verið heimilt að selja og veðsetja réttindi sín, svo og til að leigja afnotin. Framsalshafar eða leigutakar hafi þó ekki getað eignast betri rétt en erfðafestuhafinn.

   Í samræmi við ofangreint telur matsnefnd að erfðafestuhafa hafi verið óheimilt að skipta lóðunum í smærri lóðir og heimila á þeim byggingar og jafnframt telur matsnefndin að öll önnur afnot en þau sem skilgreind eru í erfðafestusamningunum séu erfðafestuhafanum, eða þeim sem leiða rétt sinn frá honum, óheimil.

   Fiskverkun á reitum er nú aflögð að mestu og réttindi til að gera fiskreiti og afnot þeirra því ekki sérlega verðmæt.

   Sérhver önnur fiskverkun, sem erfðafestusamningurinn frá 1929 kann að hafa leyft, miðast við starfsemi í húsum á erfðafestulóðinni. Eins og áður er fram komið eru húsin á erfðafestulandinu gömul og sum þeirra smíðuð í allt öðrum tilgangi en til fiskverkunar. Viðhaldi húsanna er verulega áfátt og kostnaður við að koma þeim í það ástand, sem nú er krafist af fiskverkunarhúsum, yrði að áliti matsnefndarmanna verulegur.

   Matsnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu, að ekki svari kostnaði að ráðast í svo gagngerar endurbætur á húsunum á erfðafestulandinu, að þau uppfylli skilyrði nútímafiskverkunar. Matsnefndin telur hins vegar að enn megi um nokkur ár hafa afnot af húsunum til geymslu veiðarfæra og til skyldra afnota og hafa þannig af þeim nokkrar tekjur. Hins vegar telur matsnefndin, að allt viðhald húsanna yrði svo dýrt, að til að halda í horfinu myndi kostnaður nema meiru en leigutekjunum. Því telur matsnefndin rétt að miða bætur við, að næstu 8 árin megi hafa leigutekjur sambærilegar þeim, sem eignarnámsþoli hefur nú, af húsunum án þess að stofna til verulegs viðhaldskostnaðar. Matsnefndin telur rétt að miða leigutekjurnar við núverandi brúttótekjur kr. 3.500.000.- að viðbættum sparnaði vegna eigin afnota eignarnámsþola á hluta húsanna, en að frádregnum óhjákvæmilegum útgjöldum vegna útleigunnar, opinberum gjöldum og eftirlits með húsunum. Telur matsnefndin þó standi eftir nettóleiga að fjárhæð kr. 2.500.000.-á ári. Matsnefndin hefur höfuðstólsreiknað þessa fjárhæð miðað við 8ár og 6% ársvexti og nemur fjárhæðin þá kr.15.523.298.-.

   Matsnefndin telur að tjón eignarnámsþola af því að vera sviptur afnotum af hinum takmörkuðu afnotaréttindum yfir lóðunum sé lítið, en þó megi ætla að erfðafestuhafi sjálfur eða aðrir á hans vegum geti haft af lóðunum nokkur not í tengslum við fiskverkun og metur höfuðstólsreiknað verðmæti þeirra með sömu aðferð og beitt var við húsin nema kr.620.927.-.

   Matsnefndin er þeirrar skoðunar, að söluverðmæti þeirra réttinda sem eignarnámið beinist að sé lægra en bætur reiknaðar á framangreindan hátt.

   Ekki er að áliti matsnefndar unnt að leggja til grundvallar endurkaupsverðmæti sambærilegra réttinda með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram eru færð hér að framan um rétt til afnota.

   Enda þótt matsnefndinni sé ljóst, að kostnaður við reitagerðina hafi verið verulegur er þeir voru gerðir, þá hafi þeir ekki neitt verðgildi nú og því verði eignarnámsþoli ekki fyrir tjóni, þegar hann missir afnot fisreitanna. Niðurstaða matsnefndarinnar er því sú, að eignarnema beri að greiða eignarnámsþola í eignarnámsbætur kr.15.523.198.- vegna húsanna og kr.620.927.- vegna lóðarréttindanna eða samtals kr.16.144.125.-.

   Við ákvörðun bóta hefur verið lagt til grundvallar verðlag á matsdegi.
   
   Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola er höfð hliðsjón af eðlilegu framlagi lögmanns við kröfugerð og rekstur málsins og jafnframt litið til þeirra hagsmuna sem í húfi eru og eðlilegs útlagðs kostnaðar. Með ofangreint í huga ákveður matsnefndin að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 600.000.- í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til áætlaðs útlagðs kostnaðar en ekki virðisaukaskatts.
   
   Enda þótt matsnefndin ákvarði eignarnámsþola ekki virðisaukaskatt á málskostnað þá er það álit nefndarinnar að eignarnema beri að greiða eignarnámsþola slíkan skatt til viðbótar, enda verði eignarnámsþoli ekki skaðlaus að öðrum kosti.

   Eignarnemi greiði ríkissjóði kostnað af störfum matsnefndar eignarnámsbóta við málið samtals að fjárhæð kr. 578.052.-.

   MATSORÐ

   Eignarnemi, Hafnarfjarðarkaupstaður, greiði eignarnámsþola, Einari Þorgilssyni og Co. h.f., Hafnarfirði, kr. 16.144.125.- í eignarnámsbætur og kr. 600.000.- í málskostnað. Eignarnemi greiði ríkissjóði kostnað af starfi matsnefndar kr. 578.052.-.

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA

               Úrskurður
               uppkveðinn 4.febrúar 1993
               í eignarnámsmálinu nr. 7/1991:

               Keflavíkurkaupstaður
               og
               Njarðvíkurkaupstaður
               gegn
               Fiskiðjunni h.f.

I. SKIPAN MATSNEFNDAR.

   Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt matsnefndarmönnunum Ragnari Ingimarssyni, verkfræðingi, og Stefáni Tryggvasyni, bónda, en formaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. l. nr. 11/1973.

II. AÐILAR.

   Eignarnemar eru í sameiningu Keflavíkurkaupstaður og Njarðvíkurkaupstaður og flytur málið fyrir þá Vilhjálmur Þórhallsson hrl.

   Eignarnámsþoli er Fiskiðjan h.f., Hafnargötu 2, Keflavík, en fyrir hann flytur málið Jónas Aðalsteinsson hrl.

III. MATSBEIÐNI.

   Eignarnemi óskaði eignarnámsmats með bréfi til matsnefndar dags. 25. júní 1991.

IV. ANDLAG EIGNARNÁMS.

   Skv. matsbeiðni er andlag eignarnámsins hluti erfðafesturéttinda eignarnámsþola yfir lóðunum nr. 91 við Hafnargötu í Keflavík og nr. 45 við Bakkastíg í Njarðvík. Að kröfu eignarnema ber nefndinni að meta 2.380,6 fermetra spildu til peningaverðs. Tilefni eignarnámsins er lagning götu meðfram sjónum frá Bakkastíg í Njarðvík að Vesturbryggju í Keflavíkurhöfn.

V. EIGNARNÁMSHEIMILD.

   Eignarnemi vísar um heimild sína til eignarnáms til 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og staðfests aðalskipulags 1982-2000 fyrir Keflavík, Njarðvík og Keflavíkurflugvöll.

VI. KRAFA EIGNARNEMA.

   Kröfur eignarnema eru þær aðallega, að metið verði að eignarnámsþoli hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna eignarnámsins, en til vara, að eignarnámsþola verði einungis úrskurðaðar lágmarksbætur.

VII. KRÖFUR EIGNARNÁMSÞOLA.

   Af hálfu eignarnámsþola eru gerðar þær kröfur, að málið nái ekki einungis til fyrrgreindra 2.380,6 fermetra lóðar, heldur einnig til þess hluta lóðar eignarnámsþola, sem er neðan hins nýja vegar og mælist 2.458 fermetrar. Þess er krafist að greindir 4.838,6 fermetrar verði aðallega metnir á kr. 15.000.000.- en til vara á kr. 12.000.000.- auk vaxta frá 11.04.1990 til greiðsludags og málskostnaðar að skaðlausu skv. gjaldskrá LMFÍ og beri málskostnaðarfjárhæð vexti frá dagsetningu úrskurðar til greiðsludags.

VIII. MÁLSMEÐFERÐ.

   Mál þetta var fyrst tekið fyrir á fundi matsnefndar hinn 5. september 1991 og taldi matsnefndin skilyrði fyrirtöku uppfyllt. Eignarnemi lagði fram kröfugerð, greinargerð og skjöl á fundi 17. október 1991 og var í framhaldi af því leitað sátta, en án árangurs. Lögmaður eignarnámsþola lagði fram kröfugerð, greinargerð og skjöl hinn 13. febrúar 1992 og hinn 12. mars 1992 var gengið á vettvang ásamt lögmönnum aðila og málið síðan flutt munnlega og tekið til úrskurðar. Áður en úrskurður yrði lagður á málið bárust nefndinni ný gögn frá lögmönnum aðila, svo og krafa lögmanns eignarnámsþola um endurupptöku og málflutning að því er varðaði hin nýju gögn. Málið var síðan endurflutt og tekið til úrskurðar að nýju hinn 28. ágúst 1992.

IX. MÁLSATVIK.

   Eignarnámsþoli hefur á leigu lóðirnar nr. 91 við Hafnargötu í Keflavík og nr. 45 við Brekkugötu í Njarðvík skv. tveimur leigusamningum. Lóðirnar liggja saman og mynda eina heild. Þeir leigusamningar sem hér skipta máli (dags. 29/6/42 og 6/2/46) eru erfðafestusamningar með víðtækum heimildum leigutaka. Lóðirnar eru leigðar "til íbúðarhúsabygginga, ræktunar, stakkstæða og annarra húsbygginga". Þá er tekið fram að lóðirnar séu leigðar á erfðafestu "óuppsegjanlegar til óákveðins tíma með óhindraðan rétt fyrir leigutaka til að selja eða veðsetja, svo sem lóðin væri hans einkaeign, óátalið af leigusala. Þó má leigutaki hvorki selja eða veðsetja hluta af lóðinni en aðeins í heild."

   Ársleiga af lóðum þessum tveimur er kr. 64.50 og kr. 100.00 í erfðafestugjald. Leigusali var "Landeigendur Ytra-Njarðvíkurhverfis", sem hafa með sér félag. Landeigendur þessir seldu og afsöluðu hinn 16. nóvember 1990 Höfninni í Keflavík og Njarðvík 8.511,1 m2 spildu meðfram sjónum fyrir neðan lóð Fiskiðjunnar og fyrir neðan lóðirnar nr. 19-29 við Víkurbraut. Fyrir spilduna greiddu kaupendur kr. 1.500.000.-. Af greindri 8.511,1 fermetra spildu höfðu 2.380,6 m2 verið leigðir eignarnámsþola á erfðafestu og eru það þau réttindi, sem eignarnemi krefst nú mats á.

   Á lóð Fiskiðjunnar h.f. voru rekin fiskimjöls- og lýsisbræðsla allt til áramóta 1980/1981, en þá var rekstrinum hætt. Hluti húsa á lóðunum, mjölskemma, hefur verið leigð Skipaafgreiðslu Suðurnesja h.f. frá 1984 sem vörugeymslu, en önnur starfsemi fer þar ekki fram.
   Lóð eignarnámsþola er því sem næst ferhyrnd og markast hún af Hafnargötu að vestan og hinni nýju götu að austan. Þá skagar spilda austur úr syðri helming lóðarinnar og afmarkast sú spilda af sjó að norðan og austan. Skilur hinn nýi vegur spildu þessa frá aðallóðinni. Hin aðskilda spilda austan nýja vegarins mælist 2.458 fermetrar. Ekki eru nein afnot nú af spildu þessari og ekki eru upplýsingar í málinu um nein fyrri not hennar á vegum eignarnámsþola.

   Vegur sá, sem er tilefni eignarnámsins liggur á austurjaðri lóðar eignarnámsþola. Undir veginn sjálfan fara 1.522,6 m2, en að auki eru 546 m2 af Hafnargötu 91 neðan og austan nýja vegarins og 312 m2 af Brekkustíg 45 og nær eignarnámið til þeirrar spildna beggja, en ekki spildunnar að stærð 2.458 m2 sem fyrr er lýst. Á austur- mörkum lóðarinnar er nýi vegurinn sumpart á sjávarbakkanum, þ.e. þar sem sjávarbakkinn áður var, og hefur verið fyllt að hallanum með stórgrýti. Spildurnar neðan vegar (546 m2 og 312 m2) eru í fjörunni sjálfri. Spildan sem gengur austur úr lóðinni á suðurhluta hennar (2.458 m2) er óræktað land.

   Með samningi dags. 11. apríl 1990 heimilaði eignarnámsþoli eignarnema "að hefjast handa við gerð Bakkavegar yfir erfðafestulóð Fiskiðjunnar h.f.". Jafnframt lofaði eignarnemi að greiða eignarnámsþola bætur fyrir lóðarskerðinguna, sem matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði.

X.   SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA.

   Kröfur eignarnema eru á því byggðar, að eignarnámsþoli hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni við eignarnámið. Hann hafi ekki haft aðrar tekjur af eigninni frá 1980/1981 en leigu af mjölskemmunni frá árinu 1989. Starfsemi leigutakans hafi ekki liðið fyrir lagningu vegarins um lóðina. Þvert á móti sé lóðin nú aðgengilegri en fyrir lagningu vegarins. Þá er því haldið fram, að gildi lóðarinnar felist ekki í nálægðinni við höfnina, heldur hafi hún gildi sem venjuleg iðnaðar-og athafnalóð. Þá vekur eignarnemi athygli á því, að hin eignarnumda spilda sé neðst á lóðinni. Hún sé stórgrýtt og halli til sjávar. Hún sé því ekki fallin til byggingar. Að auki sé þar veðrasamt og sjór geti gengið á land.

   Eignarnemi heldur því fram, að mikið framboð sé á lóðum bæði í Njarðvík og Keflavík og eigi það jafnt við um íbúðarlóðir og lóðir til atvinnureksturs. Hins vegar hafi atvinnurekstur dregist saman á svæðinu. Hinar stóru fiskvinnslustöðvar séu flestar horfnar og flestir togaranna hafi verið seldir af staðnum. Þessi þróun birtist m.a. í útflutningstölum, sem sýni minnkandi útflutning frá staðnum.

   Eignarnemi heldur því fram, að talsvert sé af óbyggðum lóðum í grennd við lóð eignarnámsþola og sé framboð meira en eftirspurn.

   Eignarnemi telur eignarnámsþola beinlínis hafa hagnast á lagningu vegar um lóð hans. Gatan liggi um lakasta hluta hennar, en nú sé viðhorf lóðarinnar til gatna miklu hagstæðara en áður var.

   Komi til þess, að eignarnámsþola verði metnar bætur, byggir eignarnemi á því, að miða beri verðmæti erfðafesturéttarins við söluverð sambærilegra eigna.

   Eignarnemi hefur lagt fram gögn um verð ýmissa eigna í Keflavík að undanförnu til viðmiðunar, þar sem kaupverð á fermetra er mjög mismunandi, en eignarnemi vekur sérstaka athygli á því, að landeigendur hafi selt eignarnema hinn 16. nóvember 1990 8.511 m2 á kr. 176.24 hvern fermetra á sama stað við sjóinn og þar með séu taldir þeir 2.380,6 m2 sem eignarnámið nái til.

XI. SJÓNARMIÐ EIGNARMÁMSÞOLA.

   Svo sem fyrr getur krefst eignarnámsþoli þess, að eignarnámið nái einnig til 2.458 m2 spildu neðan vegarsvæðisins, sjávarmegin, og heildarspildan, 4.838,6 m2, verði metin á kr. 15.000.000,-eða til vara kr. 12.000.000,-.

   Eignarnámsþoli telur að öldungis megi jafna erfðafesturéttindum hans til lóðarinnar til fullkomins eignarréttar, enda séu afnotin ótímabundin og leigusamningur óuppsegjanlegur. Leigutaka sé heimilt að veðsetja og selja réttindi sín yfir lóðunum og í hvívetna fara með þær sem sína eign, þó þannig að hann þurfi að greiða af þeim árlegt erfðafestugjald.

   Krafan um að eignarnámið nái einnig til þeirra 2.458 m2 spildu, sem er neðar vegarins, er þeim rökum studd, að eignarnámsþoli geti nú ekki nýtt hana með eðlilegum hætti.

   Eignarnámsþoli vekur athygli á því, að hinn 30. júlí 1986 hafi Fiskiðjan h.f. selt bæjarsjóði Keflavíkur hluta lóðarinnar nr. 89 við Hafnargötu undir pósthús. Seldir hafi verið 3.441 m2 og hafi verðið verið kr. 1.054,93 fyrir hvern fermetra. Það verð framreiknað til febrúar 1992 jafngildi kr. 2.360 á fermetra. Vegna betri legu hinnar eignarnumdu spildu megi álíta hana a.m.k. 30% verðmeiri en pósthúslóðina, sem áður er vitnað til.

   Um staðsetningu lóðarinnar bendir eignarnámsþoli á, að hún sé hagkvæm vegna nálægðar við höfnina, sem hafi sérstakt gildi. Mest allur inn- og útflutningur frá Keflavík, Njarðvík og Keflavíkurflugvelli fari um höfnina. Þá séu hafnarbakkalóðir hvarvetna taldar til hinna verðmestu lóða. Með eignarnáminu séu lóðirnar ekki einungis skertar, heldur skildar frá hafnarbakkanum. Eignarnámsþoli er ósammála því sjónarmiði eignarnema, að hann hafi hagnast á vegarlagningunni. Einn helsti kostur lóðarinnar hafi verið aðgangur að sjó. Þá hafi skipting lóðarinnar með veginum skert nýtingarmöguleika eignarnámsþola.

   Um þau rök eignarnema, að miða skuli bætur við raunverulega og eðlilega nýtingu, sem eigandi hefur af lóð, þegar til eignarnáms kemur, segir eignarnámsþoli að það eigi ekki við skv. gildandi íslenskum rétti. Slík sjónarmið fari í bága við 67. gr. stjórnarskrár Íslands. Varakrafa eignarnámsþola er við það miðuð, að matsnefnd eignarnámsbóta fallist ekki á, að eignarnámið skuli einnig ná til lóðarskikans sjávarmegin við veginn.

   Eignarnámsþoli leggur og áherslu á, að skv. aðalskipulagi Njarðvíkur 1991-2011 sé stefnt að eflingu verslunar- og þjónustukjarna á mörkum Njarðvíkur og Keflavíkur. Svæðið neðan Njarðarbrautar, þ.e. þar sem mannvirki eignarnámsþola eru, sé frátekið fyrir framtíðaruppbyggingu stjórnsýslu.

XII. NIÐURSTAÐA MATSNEFNDAR.

   Matsnefnd eignarnámsbóta telur lóð eignarnámsþola liggja vel við framtíðarbyggingarþróun í Njarðvík og Keflavík, bæði með hliðsjón af hafnarsvæðinu og skipulagsáætlunum. Matsnefndin telur, að verðmæti lóðarinnar hafi aukist við lagningu vegarins á sjávarbakkanum neðan við lóðina. Unnt verði að komast að lóðinni af nýja veginum og verði það til mikilla hagsbóta og nokkurrar verðmætisaukningar. Matsnefndin telur aðgang að sjó á þessum stað ekki skipta máli um verðmæti lóðarinnar, enda hafi sá aðgangur ekki verið notaður og ekki líklegt að hann verði nokkurn tíma notaður. Matsnefndin telur ekki að sýnt hafi verið fram á slík not fram til þessa af spildunni neðan vegar, sem eignarnámsþoli krefst að eignarnámið nái einnig til.

   Matsnefndin telur að þegar afleiðingar eignarnámsins í heild hafi verið metnar komi í ljós, að lóðin sé nú betur löguð en áður. Auðvelt sé nú að girða hana af og koma í veg fyrir aðgang ókunnugra að henni. Matsnefndin telur að aðeins hluti hinnar eignarnumdu spildu gæti hafa nýst sem lóð undir byggingar eða vöru- og bílastæði, þar sem verulegur hluti spildunnar sé á og í sjávarkambinum. Í öllu falli hefði þurft að kosta miklu til í því skyni að gera þennan hluta spildunnar byggingarhæfan. Þá telur matsnefndin að spildan handa vegarins nýtist eiganda eða afnotahafa lóðarinnar ekki síður eftir lagningu vegarins en áður. Til dæmis mætti hugsa sé, að þar væri unnt að leggja bílum eða geyma vörur tímabundið, svo framarlega sem sjávargangur útiloki það ekki. Komast megi að lóðarhlutanum hvort sem er frá aðalhluta lóðarinnar yfir veginn eða frá veginum án þess að aka þyrfti inn á aðallóðina.

   Með hliðsjón af öllu ofangreindu og að teknu tilliti til verðmætisaukningar þeirrar af lóðinni vegna nýja vegarins, sem að framan hefur verið lýst, telur matsnefndin að bætur til eignar-námsþola séu hæfilega metnar kr. 2.000.000,-. Matsnefndin miðar við, að eðlilegt sé að gera ráð fyrir, að af hinni eignarnumdu spildu séu 2.000 m2 nýtanlegir sem hluti af lóðinni, ef ekki hefði komið til eignarnáms, og verðmæti hvers fermetra sé kr. 2.000,- og því sé heildarverðmæti kr. 4.000.000,-. Frá þeirri fjárhæð telur matsnefndin rétt að draga af verðmætisaukningu á lóðinni sem eftir verður, en þá verðmætisaukningu metur matsnefndin á kr. 2.000.000,-
   Kröfum eignarnámsþola um að eignarnámið nái til lóðarspildunnar sjávarmegin við veginn er hafnað. Fjárhæðir í mati þessu eru miðaðar við verðlag á úrskurðardegi og staðgreiðslu bótanna og hefur verið tekið tillit til afhendingartíma spildunnar.

   Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola er höfð hliðsjón af eðlilegu framlagi lögmanns við kröfugerð og rekstur málsins og jafnframt litið til þeirra hagsmuna sem í húfi eru og eðlilegs útlagðs kostnaðar. Með ofangreint í huga ákveður matsnefndin að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 240.000.- í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til áætlaðs útlagðs kostnaðar en ekki virðisaukaskatts.

   Enda þótt matsnefndin ákvarði eignarnámsþola ekki virðisaukaskatt á málskostnað þá er það álit nefndarinnar að eignarnema beri að greiða eignarnámsþola slíkan skatt til viðbótar, enda verði eignarnámsþoli ekki skaðlaus að öðrum kosti.

   Eignarnemi greiði allan kostnað af störfum matsnefndar eignarnámsbóta við málið samtals kr. 508.052.-.

   

   ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Keflavíkur- og Njarðvíkurkaupstaðir, greiði eignarnámsþola, Fiskiðjunni h.f., Keflavík, kr. 2.000.000,- í eignarnámsbætur og kr.240.000.- í málskostnað. Eignarnemi greiði ríkissjóði kr. 508.052.-í kostnað af störfum matsnefndar eignarnámsbóta.
MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA

               ÚRSKURÐUR
               uppkveðinn 4. febrúar 1993
               í eignarnámsmálinu nr. 4/1991:

               Landsvirkjun
               gegn
               Birni Pálssyni
               og
               Birni Björnssyni.

I.   Skipan matsnefndar.

Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur, og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls samkvæmt 2. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Aðilar.

Eignarnemi er Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, en eignarnámsþolar eru Björn Pálsson, kt. 250205-4579 og Björn Björnsson. Fyrir eignarnema fer með málið Hreinn Loftsson hdl.

Eignarnámsþolar eru báðir til heimilis að Ytri-Löngumýri, Svínavatnshreppi, A-Húnavatnssýslu. Þeir eru feðgar og er hinn fyrrnefndi þinglýstur eigandi jarðarinnar Ytri-Löngumýri, en sá síðarnefndi er ábúandi á jörðinni. Eignarnámsþolar fóru framanaf sjálfir með málið, en að lokum annaðist Jónatan Sveinsson hrl. hagsmunagæslu fyrir þá og flutti málið.

III. Matsbeiðni.

Matsbeiðni lögmanns eignarnema er dagsett 29. apríl 1991.

IV. Andlag eignarnáms og tilefni.

Tilefni eignarnáms er lagning 132 kV háspennulínu frá Blönduvirkjun að byggðalínu vestaanmegin Blöndu. Andlag eignarnáms er réttur fyrir eignarnema til að reisa 12 turnmöstur í landi Ytri-Löngumýrar, leggja 4,8 metra breiðan vegslóða meðfram háspennulínunni og halda slóðanum við og kvöð um bann við mannvirkjum á 60 metra breiðu svæði undir og til hliðar við línuna á þriggja kílómetra löngu svæði og nái kvöðin því til 18 hektara lands í landi jarðarinnar Ytri-Löngumýri.

V. Eignarnámsheimild.

Eignarnemi vísar til 18. gr. l. nr. 42/1983 um Landsvirkjun og bréfs iðnaðarráðuneytisins til Landsvirkjunar dags. 5. apríl 1991, en í síðastgreindu bréfi vísar ráðuneytið til bréfs síns til Landsvirkjunar dags. 28. mars 1984 um leyfi til Landsvirkjunar til að virkja Blöndu, en leyfið hafi náð bæði til virkjunarinnar og til byggingar flutningslínu og aðveitustöðva. Ráðuneytið heimilar í bréfinu frá 5. apríl 1991 Landsvirkjun að taka eignarnámi landsréttindi í landi Ytri-Löngumýrar og er vísað til 55. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um heimild til eignarnáms.

Af hálfu eignarnámsþola er heimild til eignarnáms ekki véfengd né heldur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun um að nota heimildina.

Matsnefnd taldi skilyrði fyrirtöku málsins uppfyllt.

VI. Kröfur eignarnema.

Eignarnemi krefst þess, að matsnefndin ákveði eignarnámsþola hæfilegar bætur vegna þeirrar kvaðar á landi jarðarinnar Ytri-Löngumýri, að um landið liggi á þriggja kílómetra kafla orkuflutningslína á 12 möstrum og 4,8 metra breiður vegslóði meðfram orkulínunni. Greind orkuflutningslína sé 132 kV háspennulína og leggist hennar vegna kvöð um byggingarbann á 30 metra svæði beggja megin línunnar eða samtals á 18 hektara svæði.

VII. Kröfur eignarnámsþola.

Af hálfu Björns Pálssonar, eiganda Ytri-Löngumýri, er gerð sú krafa, að bætur verði metnar kr. 5.423.244.- auk málskostnaðar alls, þ.m.t. málflutningslaun skv. gjaldskrá LMFÍ og virðisaukaskatts. Af hálfu eignarnámsþolans Björns Björnssonar eru ekki gerðar neinar kröfur á lokastigi málsins, enda varð sátt með honum og eignarnema um það sem þessum aðilum bar á milli.

VIII. Málsmeðferð.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir á vettvangi hinn 18. maí 1991. Var þá gengið á vettvang með aðilum og umboðsmönnum þeirra. Að því búnu var málið flutt um kröfu eignarnema um umráð lands og um þann ágreining kveðinn upp úrskurður sama dag, þar sem eignarnema voru veitt umráðin og heimilað að hefjast handa um framkvæmdir.

Málið var síðan tekið fyrir 5. september 1991, 17. október 1991, 14. nóvember 1991, 9. janúar 1992 og 25. ágúst 1992. Var þá gengið á vettvang öðru sinni, þar sem því hafði verið haldið fram af hálfu eignarnámsþola, að eignarnemi hefði farið út fyrir umráðaheimildir sínar með því m.a. að leggja vegslóða með öðrum hætti en leyft hafði verið á grundvelli uppdrátta frá eignarnema. Málið var flutt í Húnaveri í Bólstaðarhreppi og tekið til úrskurðar.

IX. Málsatvik.

Ráðherra veitti Landsvirkjun leyfi til að virkja Blöndu hinn 28. mars 1984, en áður hafði verið birt auglýsing dags. 4. ágúst 1982 um fyrirhugaða virkjun. Hinn 30. apríl 1987 veitti ráðherra Landsvirkjun leyfi til að framkvæma eignarnám á vatnsréttindum, löndum, mannvirkjum og öðrum réttindum vegna virkjunarinnar.

Hinn 10. júlí 1990, 31. október 1990 og 7. nóvember 1990 áttu fulltrúar eignarnema fund með eignarnámsþolum um bætur vegna línulagnarinnar, en ekki tókust sáttir.

Samkvæmt ákvæðum skipulagslaga fór málið fyrir byggingarnefnd Svínavatnshrepps og hreppsnefnd, en vegna ágreinings lauk þeirri málsmeðferð ekki fyrr en með úrskurði umhverfisráðuneytisins hinn 26. apríl 1991.

Eftir að matsnefnd heimilaði eignarnema umráð og framkvæmdir á jörðinni hinn 18. maí 1991 var lagður vegslóði um jörðina á þriggja kílómetra kafla, að meðaltali 4,8 metra breiður en 6-7 metra breiður að meðtöldum vegfláa. Verktakar á vegum eignarnema gættu þess ekki ætíð að fara eftir uppdráttum, sem Landsvirkjun hafði lagt fram í málinu til stuðnings umráðakröfu sinni, en ekki reyndust frávik veruleg við síðari vettvangsgönguna.

Orkuflutningslínan liggur frá stjórnstöð Blönduvirkjunar að byggðalínu við Blöndu. Þar sem línan kemur í land Ytri-Löngumýrar liggur hún til að byrja með framan til á Stóradalshálsi, sem liggur því sem næst frá norðri til suðurs vestan Blöndu. Línan beygir síðan til norðausturs niður hlíðar hálsins og síðan yfir beitiland norðan við túnið á Ytri-Löngumýri og þaðan að Blöndu þar sem hún tengist byggðalínunni. Tólf turnmöstur eru í landi Ytri-Löngumýrar og er helmingur þeirra uppi á hálsinum. Hálsinn, þar sem línustæðið liggur, er mismunandi grónir melar og er þar beitiland., sem matsnefndin telur að nýtist vel, einkum þegar líður á sumar. Landið sem línan liggur síðan um til norðausturs telst ágætis beitiland. Girðingar skipta landi milli Syðri-Löngumýrar og Ytri-Löngumýrar. Land jarðarinnar er hinsvegar ógirt til vesturs og getur fé því rásað uppá Stóradalsháls.

Turnmöstrin sem bera línuna sjást öll frá bænum að Ytri-Löngumýri.

Á Ytri-Löngumýri eru u.þ.b. 600 ær, svo og hestar.

IX. Sjónarmið eignarnema.

Eignarnemi leggur á það áherslu, að ekki sé gerð krafa um annað en takmarkaðan eignarrétt að hluta úr landi eignarnámsþola. Ekki sé krafist afhendingar eignarlands, heldur einungis takmarkaðra afnota. Afnot þessi séu í því fólgin að eignarnámsþoli verði að sætta sig við það að 12 turnstæði standi á landi hans, um landið liggi vegslóði á þriggja kílómetra kafla og um hann verði farið vegna viðhalds og viðgerða á línunni. Þá sé lagt byggingabann á 60 metra breiða spildu á þriggja kílómetra kafla undir og til hliða við línuna og nái því byggingabannið til 18 hektara lands. Ekki sé um aðrar skerðingar að ræða. Landeigandi eða ábúandi geti nýtt sér vegslóðann eftir þörfum sínum, enda stafi ekki hætta fyrir rekstur línunnar af slíkri umferð. Af hálfu eignarnema er því haldið fram að burðarvirkin, vegslóðinn og byggingabannið skerði ekki með neinum hætti búskap á jörðinni, en ekki komi til álita að beita öðrum mælikvarða en landbúnaðar á gildi landsins, enda ekki unnt að leiða líkur að öðru en landbúnaðarafnotum á jörðinni um ófyrirsjánlega framtíð.

X. Sjónarmið eignarnámssþola.

Kröfur eignarnámsþolans Björns Pálssonar eru við það miðaðar, að eignaskerðingin vegna línulagnarinnar og þess sem henni tilheyrir jafngildi því að hann sé sviptur 18 hekturum lands og það land afhent eignarnema í ótakmarkaðan tíma. Er þá átt við þá 60 metra breiðu spildu á 3 km svæði, sem byggingabannið nái til, en innan þess rýmist vegslóðinn og staurastæðin. Krefst eignarnámsþoli þess, að honum verði bættir að fullu þeir 18 hektarar, sem undir byggingabannið falla, á verði sem jafngildi markaðsverði sambærilegs lands.

Eignarnámsþoli krefst þess að bætur fyrir sex syðstu hektarana verði metnar kr. 147.441.47 fyrir hvern hektara en tvöfalt það verð fyrir hvern hinna tólf hektaranna sem jafngildir kr. 294.882.94 fyrir hvern hektara. Samtals nemur því krafa eignarnámsþola undir þessum lið kr. 4.423.244 (kr. 884.649 + kr. 3.538.595) og að auki krefst eignarnámsþoli þess, að honum verði metnar í bætur kr. 1.000.000 vegna verðrýrnunar jarðarinnar, sem hann telur stafa af sjónmengun af völdum línunnar. Samtals telur eignarnámsþoli hæfilegar bætur eiga að ákveðast kr. 5.423.244.

Eignarnámsþoli vísar til 67. gr. stjórnarskrár og XV. kafla vatnalaga nr. 15/1923, einkum 139. gr. og 140. gr. til stuðnings kröfum sínum.

Eignarnámsþoli telur að hér standi svo á, að fyrir liggi upplýsingar um gangverð slíkra réttinda, sem eignaskerðingin beinist að. Vísar eignarnámsþoli til samninga frá 1989 og 1990 milli Landsvirkjunar og eigenda og ábúenda Guðlaugsstaða annarsvegar og samnings frá 1990 milli Landsvirkjunar og hreppsnefnda Svínalækjarhrepps og Torfalækjarhrepps og bæjarstjórnar Blönduósbæjar hinsvegar. Einkum leggur eignarnámsþoli áherslu á samning eignarnema við eigendur og ábúendur Guðlaugsstaða dags. 27. apríl 1989 og telur að þar sé fjallað um afsal samskonar réttinda og eignarnám þetta tekur til. Hafi verið samið um að greiða jarðareigendum kr. 63.884,62 fyrir hvern hektara af þeim 130 hekturum , sem samningurinn náði til. Jafngildi þetta kr. 108.858,30 á verðlagi ágústmánaðar 1992. Ennfremur vísar eignarnámsþoli til samnings milli sömu aðila frá 16. janúar 1990, en þar sé annarsvegar fjallað um ótímabundin umráð og afnot samskonar réttinda og þetta eignarnámsmál snúist um. Hafi Landsvirkjun greitt fyrir 45 hektara vegna breytinga á veituleið og hinsvegar fyrir lagningu á 4 km langrar háspennulínu um land Guðlaugsstaða. Greiddar hafi verið kr. 147.441,47 fyrir hvern hektara miðað við verðlag í ágúst 1992. Í samningi Landsvirkjunar við hreppana telur eignarnámsþoli að samið sé um greiðslu á kr. 130.392,83 fyrir hvern hektara á verðlagi ágústmánaðar 1992.

Krafa um bætur vegna verðrýrnunar eru rökstuddar með því, að möstrin og línan valdi sjónmengun í landi jarðarinnar.

XI. Niðurstaða matsnefndar.

Svo sem áður segir hefur matsnefnd eignarnámsbóta farið á vettvang tvívegis og kynnt sér aðstæður allar eftir föngum. Hefur aðilum gefist kostur á að koma að sjónarmiðum sínum er gengið var á vettvang.

Ekki er ástæða til að gera grein fyrir kröfum ábúanda vegna línulagnarinnar, þar sem hann hefur gert sátt við eignarnema um hlið o.fl. og fallið frá kröfum að slíkri sátt gerðri.

Landi og landkostum þar sem línulögnin er hefur þegar verið lýst.

Á landinu eru 12 staurastæði. Hvert þeirra leggur ekki mikið landsvæði undir sig þar sem það nemur við jörðu og er fest með stögum. Vegslóðinn liggur meðfram stæðunum, en þó ekki ætíð í sömu fjarlægð og fer það nokkuð eftir aðstæðum á hverjum stað. Enda þótt ekki hafi ætíð verið farið eftir uppdrætti um staðsetningu vegslóðans, hafa breytingar ekki aukið landspjöll. Frá vegslóðanum er aðkeyrsla að hverju staurastæði og er aðkeyrslan mislöng eftir fjarlægð slóðans frá staurastæði og sumstaðar er vegur því sem næst alveg við stæðið. Vegurinn og aðkeyrslurnar eru gerðar með malarfyllingu. Vegurinn er að meðaltali 6 - 7 metra breiður að meðtöldum fláa. Ekki hafði verið sáð í þau sár sem myndast höfðu við framkvæmdirnar er matsnefnd gekk á vettvang en eignarnemi lýsti því yfir, að það yrði gert.

Matsnefndin telur að byggingabannið á 60 metra breiðu svæði undir og til hliðar við línuna hafi ekki út af fyrir sig í för með sér neitt fjárhagslegt tjón fyrir eignarnámsþolann, enda um að ræða beitarland eingöngu og ekkert sem bendir til að unnt verði að nota landið til annarra verðmeiri þarfa í fyrirsjáanlegri framtíð. Byggingabannið kemur ekki í veg fyrir að land, sem fellur undir það, verði ræktað, sé þess kostur. Matsnefndin telur því, að eignarnámsþoli verði ekki fyrir neinu tjóni vegna byggingabannsins og eigi því ekki rétt á bótum fyrir land það, sem undir bannið fellur.

Matsnefndin telur hinsvegar ljóst, að beitiland hafi rýrnað sem nemur því landi sem undir vegslóða, aðkeyrslur og staurastæði hefur farið og beri eignarnámsþola bætur fyrir það. Land þetta telur matsnefndin vera u.þ.b 2.2 hektarar að stærð og hæfilegar bætur fyrir missi afnota þess lands til frambúðar kr. 242.000 og hefur þá verið tekið tillit til þess að rúmlega eitt og hálft ár er liðið síðan eignarnemi fékk umráð og afnot landsréttindanna.

Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola úr hendi eignarnema þykir rétt að taka tillit til þess, að atvik, sem eignarnemi ber ábyrgð á, ollu því, að matsnefnd varð að fara á vettvang öðru sinni með aðilum og lögmönnum. Þá hefur verið tekið tillit til þess, að Björn Pálsson sótti fund matsnefndar í Reykjavík og lögmaður eignarnámsþola gekk á vettvang s.l. sumar og flutti málið munnlega. Með vísan til framangreinds þykir hæfilegt, að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 140.000 í málskostnað og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Eignarnemi greiði allan kostnað af starfi matsnefndarinnar skv. 11. gr. l. nr. 11/1973 um framvæmd eignarnáms, þ.m.t. ferðakostnaður, kr. 430.020.

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Landsvirkjun, greiði eignarnámsþola, Birni Pálssyni, Ytri-Löngumýri, kr. 242.000 og kr. 140.000 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kr. 430.020 í kostnað af starfi matsnefndar eignarnámsbóta.

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA
            
               
               ÚRSKURÐUR
               uppkveðinn 4. febrúar 1993
               í eignarnámsmálinu nr.3/1991:

               Landsvirkjun
               gegn
               Birgittu H. Halldórsdóttur,
               Halldóri Eyþórssyni
               og
               Sigurði Inga Guðmundssyni.

I.   SKIPAN MATSNEFNDAR.

   Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur, og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. AÐILAR.

   Eignarnemi er Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, en eignarnámsþolar eru Birgitta H. Halldórsdóttir, kt.200659-7249, Halldór Eyþórsson, kt. 120324-3659 og Sigurður Ingi Guðmundsson kt.160157-4299. Eignarnámsþolar eru allir til heimilis að Syðri-Löngumýri, Svínavatnshreppi, A-Húnavatnssýslu. Hin tvö fyrsttöldu eru feðgin og þinglýstir eigendur jarðarinnar Syðri-Löngumýrar, en Sigurður Ingi er maki Birgittu og ábúandi á jörðinni.

III. MATSBEIÐNI.

   Matsbeiðni lögmanns eignarnema er dags. 29. apríl 1991.

IV. ANDLAG EIGNARNÁMS OG TILEFNI.

   Tilefni eignarnáms er lagning 132 kV háspennulínu frá Blönduvirkjun að byggðalínu vestanmegin Blöndu. Andlag eignarnáms er réttur fyrir eignarnema til að reisa átta turnmöstur í landi Syðri-Löngumýrar, leggja 4,8 metra breiðan vegslóða meðfram háspennulínunni og halda slóðanum við og kvöð um bann við mannvirkjum á 60 metra breiðu svæði undir og til hliðar við línuna á 2,5 km löngu svæði og nær kvöðin því til 15 hektara lands í landi jarðarinnar Syðri-Löngumýri.

V.   EIGNARNÁMSHEIMILD.

   Eignarnemi vísar til 18. gr. l. nr. 42/1983 um Landsvirkjun og bréfs iðnaðarráðuneytisins til Landsvirkjunar dags. 5. apríl 1991, en í síðastgreindu bréfi vísar ráðuneytið til bréfs síns til Landsvirkjunar dags. 28. mars 1984 um leyfi til Landsvirkjunar til að virkja Blöndu en leyfið hafi náð bæði til virkjunarinnar og til byggingar flutningslínu og aðveitustöðva. Ráðuneytið heimilar í bréfinu frá 5. apríl 1991 Landsvirkjun að taka eignarnámi landsréttindi í landi Syðri-Löngumýrar og er vísað til 55. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um heimild til eignarnáms.

   Af hálfu eignarnema er heimild til eignarnáms ekki véfengd né heldur að rétt hafi verið staðið að ákvörðunum um að nota heimildina.

   Matsnefnd eignarnámsbóta telur skilyrði fyrirtöku eignarnámsins uppfyllt.

VI. KRÖFUR EIGNARNEMA.

   Eignarnemi krefst þess, að matsnefndin ákveði eignarnámsþolum hæfilegar bætur vegna þeirrar kvaðar á landi jarðarinnar Syðri-Löngumýri, að um landið liggi á 2,5 km kafla orkuflutningslína á átta möstrum og 4,8 metra breiður vegslóði meðfram orkulínunni. Greind orkuflutningslína sé 132 kV háspennulína og leggist hennar vegna kvöð um byggingarbann á 30 metra svæði beggja megin línunnar eða samtals um á um 15 hektara svæði.

VII. KRÖFUR EIGNARNÁMSÞOLA.

   Af hálfu eignarnámsþola eru gerðar þær kröfur að bætur verði metnar kr. 2.065.000,- auk málskostnaðar alls skv. 5. gr. b. gjaldskrár LMFÍ auk virðisaukaskatts á málskostnað.

VIII. MÁLSMEÐFERÐ.

   Mál þetta var fyrst tekið fyrir á vettvangi hinn 18. maí 1991. Var þá gengið á vettvang með aðilum og umboðsmönnum þeirra. Að því búnu var málið flutt um kröfu eignarnema um umráð lands og um þann ágreining kveðinn upp úrskurður sama dag, þar sem eignarnema voru veitt umráðin og heimilað að hefjast handa um framkvæmdir. Málið var síðan tekið fyrir 5. september 1991, 17. október 1991, 14. nóvember 1991, 9. janúar 1992 og 25. ágúst 1992. Var þá gengið á vettvang öðru sinni, þar sem því hafði verið haldið fram af hálfu eignarnámsþola, að eignarnemi hafi farið út fyrir umráðaheimildir sínar með því m.a. að leggja vegarslóða með öðrum hætti en leyft hafði verið á grundvelli uppdráttar frá eignarnema. Málið var flutt á Húnaveri í Bólstaðarhreppi og tekið til úrskurðar.

IX. MÁLSATVIK.

   Ráðherra veitti Landsvirkjun leyfi til að virkja Blöndu hinn 28. mars 1984, en áður hafði verið birt auglýsing dags. 4. ágúst 1982 um fyrirhugaða virkjun. Hinn 30. apríl 1987 veitti ráðherra Landsvirkjun leyfi til að framkvæma eignarnám á vatnsréttindum, löndum, mannvirkjum og öðrum réttindum vegna virkjunarinnar.

   Hinn 10. júlí 1990, 31. október 1990 og 7. nóvember 1990 átti Landsvirkjun fundi með fulltrúa eignarnámsþola um bætur vegna línulagnarinnar, en ekki náðist samkomulag.

   Málið var lagt fyrir byggingarnefnd Svínavatnshrepps svo og hreppsnefnd skv. fyrirmælum skipulagslaga en vegna ágreinings lauk þeim þætti málsins ekki fyrr en með úrskurði umhverfisráðuneytisins hinn 26. apríl 1991.

   Eftir að matsnefndin heimilaði eignanema umráð og framkvæmdir á jörðinni hinn 18. maí 1991 var lagður vegslóði um jörðina á 2,5 km kafla, að meðaltali 4,8 metra breiður, en 6-7 metra breiður að meðtöldum vegfláa. Verktakar á vegum eignarnema gættu þess ekki ætíð að fara eftir uppdráttum, sem Landsvirkjun hafði lagt fram í málinu til stuðnings umráðakröfu sinni, en ekki reyndust frávik veruleg við síðari vettvangsgönguna. Orkuflutningslínan liggur frá stjórnstöð Blönduvirkjunar að byggðalínu við Blöndu. Þar sem línan kemur í land Syðri-Löngumýrar liggur hún framan til á Stóradalshálsi, sem liggur því sem næst frá norðri til suðurs vestan Blöndu, en túnið að Syðri-Löngumýri er við rætur hálsins. Átta turnmöstur eru í landi Syðri-Löngumýrar, öll uppi á hálsinum. Hálsinn, þar sem línan hefur verið lögð, er mismunandi grónir melar og er þar gott beitiland, sem matsnefndin telur að nýtist, einkum þegar líður á sumar. Turnmöstrin, sem bera línuna, sjást öll frá bænum að Syðri-Löngumýri. Girðingar skipta landi Höllustaða að sunnan og landi Ytri-Löngumýrar að norðann frá landi Syðri-Löngumýrar. Land jarðarinnar er hins vegar ógirt til vesturs og getur fé því rásað upp á Stóradalsháls.

   Á Syðri-Löngumýri eru u.þ.b. 150 ær, kýr og hestar.

X. SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA.

   Eignarnemi leggur á það áherslu, að ekki sé gerð krafa um annað en takmarkaðan eignarétt á hluta úr landi eignarnámsþola. Ekki sé krafist afhendingar eignarlands, heldur einungis takmarkaðra afnota. Afnot þessi séu í því fólgin að eignarnámsþolar verða að sætta sig við það að átta turnstæði standi á landi þeirra. Um landið liggi vegslóði á 2,5 km kafla og um hann verði farið vegna viðhalds og viðgerða á línunni. Þá sé lagt byggingarbann á 60 metra breiða spildu á 2,5 km kafla undir og til hliðar við línuna og nái því byggingarbannið til 15 hektara lands. Ekki sé um aðrar skerðingar að ræða. Landeigandi eða ábúandi geti nýtt sér vegslóðann eftir þörfum sínum, enda stafi ekki hætta fyrir rekstur línunnar af slíkri umferð. Af hálfu eignarnema er því haldið fram að burðarvirkin, vegslóðinn og byggingarbannið skerði ekki með neinum hætti búskap á jörðinni, en ekki komi til álita að beita öðrum mælikvarða en landbúnaðar á gildi landsins, enda ekki unnt að leiða líkur að öðru en landbúnaðarafnotum á jörðinni um ófyrirsjáanlega framtíð.

XI. SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA.

   Kröfugerð eignarnámsþola er við það miðuð að land það sem byggingarbann leggst á sé 15 hektarar að stærð, það nærri byggð að af því mætti hafa margvísleg afnot sem fælu í sér mannvirkjagerð á svæðinu sem byggingarbannið nær til, svo sem bygging sumarbústaða og þess háttar. Í byggingarbanninu sé falin mikil röskun á eignarréttindum eignarnámsþolanna. Þá séu fyrirsjáanleg óþægindi vegna umferðar með tilkomu vegar þvert yfir landið og um vegslóðann munu ekki einungis fara starfsmenn Landsvirkjunar heldur einnig ýmsir aðrir, svo sem rjúpnaskyttur, jeppamenn, snjósleðamenn ofl..

   Þá vekja eignarnámsþolar athygli á því að af háspennulínunni og turnstæðunum sé veruleg óprýði enda séu mannvirkin ekkert augnayndi.

   Með hliðsjón af framangreindu telja eignarnámsþolar að bæta beri framangreinda 15 hektara eins og þeir hefðu verið teknir að fullu af eignarnámsþolum og afhentir eignarnema.

   Eignarnámsþolar telja að bætur séu hæfilega metnar kr. 1.815.000,-vegna framangreindra 15 hektara lands, en að auki telja þeir að þeim beri bætur að fjárhæð kr. 150.000,- vegna röskunar á framkvæmdatíma, kr. 100.000,- fyrir óþægindi, ónæði, fyrirhöfn og þess háttar eða samtals kr. 2.065.000,-.

   Eignarnámsþolar telja að fyrir hendi séu upplýsingar um verðmæti sambærilegs lands í kaupum og sölum og vitna þar um til samnings frá 24. maí 1990 milli Landsvirkjunar annars vegar og eigenda afréttarlands í Auðkúluhreppi hins vegar. Telja eignarnámsþolar að landeigendur hafi afsalað Landsvirkjun 80,5 hekturum lands fyrir kr. 9.351.400,- og jafngildi það tæpum kr. 130.000,- fyrir hektara í upphafi árs 1992. Í því sambandi beri að hafa í huga að samningurinn frá 1990 fjalli um afréttarland í verulegri fjarlægð frá mannabyggðum, en eignarnámsskerðingar í þessu máli lúti að landi sem liggi nánast að heimatúni jarðar eignarnámsþola.

   Þá halda eignarnámsþolar því fram að réttindi yfir landinu sem Landsvirkjun fékk skv. samningnum frá 1990 séu sambærileg þeim réttindum sem eignarnámið í landi Syðri-Löngumýrar leiði til, þ.e. ótímabundin umráð og afnot umrædds lands án þess þó að grunnrétturinn færist á milli aðila. Þá er því haldið fram að beitarafnot landsins nýtist landeigendum áfram í báðum tilvikum, þ.e. bæði í tilviki afréttarlandsins og í tilviki Syðri-Löngumýrar.
   
   Kröfur um kostnað vegna röskunar á framkvæmdatíma styðja eignarnámsþolar með því, að þeim hafi verið gert skylt að afhenda eignarnema umráð landsins árið 1991 enda þótt ekki hafi þá verið greiddar bætur. Þessu hafi eignarnámsþolar mótmælt og hafi mótmælin einkum á því byggst að sauðburður færi í hönd og framkvæmdirnar væru til þess fallnar að valda tjóni á sauðfé, svo sem vegna undanvillinga og lakari þroska. Þá hefðu framkvæmdirnar haft áhrif á hryssur og folöld með svipuðum hætti. Framkvæmdunum sé nú lokið og þær hafi gengið eðlilega fyrir sig miðað við aðstæður. Eignarnámsþolar hafi orðið að sinna búpeningi sínum meira en almennt gerist. Erfitt sé að fullyrða um lakari þroska og afurðatap en eðlilegt væri að teljast að eignarnemi greiði bætur fyrir þennan þátt sérstaklega. Gerð sé krafa um bætur að fjárhæð kr.150.000,-.

   Að lokum er því haldið fram að af hálfu eignarnámsþola hafi farið mikil vinna í málið. Fjöldi funda hafi verið haldinn bæði með fulltrúum eignarnema og öðrum landeigendum. Fyrirhöfnin hafi kostað mikinn tíma frá vinnu, fjölda símtala og veruleg fjárútlát vegna ferðakostnaðar. Af þessu hafi leitt fjárhagslegt tjón, sem þó sé erfitt að henda reiður á eins og málið er vaxið, en eignarnámsþolar telja að bætur vegna þessa séu hæfilega metnar kr. 100.000,-.
   
   Eignarnámsþolar mótmæla því að bætur miðist eingöngu við fjölda turnstæða og verði þannig ákveðnar sem einingarverð fyrir hvert turnstæði.
   Eignarnámsþolar vísa til 67. gr. stjórnarskrárinnar og laga nr.11/1973 um framkvæmd eignarnáms, svo og almennra reglna skaðabótaréttar, venju og dómafordæma.

XII. NIÐURSTAÐA MATSNEFNDAR.

   Svo sem áður segir hefur matsnefnd eignarnámsbóta farið á vettvang tvívegis og kynnt sér aðstæður allar eftir föngum. Hefur aðilum gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum að meðan gengið var á vettvang.

   Landi og landkostum þar sem línulögnin er hefur þegar verið lýst.

   Á landinu eru átta staurastæði. Hvert þeirra tekur ekki mikið landsvæði undir sig þar sem það nemur við jörðu og er fest með stögum. Vegslóðinn liggur meðfram stæðunum, en þó ekki ætíð í sömu fjarlægð og fer það nokkuð eftir aðstæðum á hverjum stað. Enda þótt ekki hafi ætíð verið farið eftir uppdráttum um staðsetningu vegslóðans þá hefur sú breyting ekki aukið landspjöll. Frá vegslóðanum er aðkeyrsla að hverju staurastæði og er aðkeyrslan mislöng eftir fjarlægð slóðans frá staurastæði og sumstaðar er vegur því sem næst alveg við stæðið. Vegurinn og aðkeyrslurnar eru gerðar með malarfyllingu. Vegurinn er 6-7 metra breiður að meðtöldum fláa. Ekki hafði verið sáð í þau sár sem myndast höfðu við framkvæmdirnar er matsnefnd gekk á vettvang, en eignarnemi lýsti því yfir að það yrði gert á hans kostnað.

   Matsnefndin telur að byggingarbannið á 60 metra breiðu svæði undir og til hliðar við línuna hafi ekki útaf fyrir sig í för með sér neitt fjárhagslegt tjón fyrir eignarnámsþolana, enda um að ræða beitarland eingöngu og ekkert sem bendir til að unnt verði að nota landið til annarra verðmeiri þarfa í fyrirsjáanlegri framtíð. Byggingarbannið kemur ekki í veg fyrir að land, sem fellur undir það, verði ræktað, sé þess kostur. Matsnefndin telur því, að eignarnámsþolar verði ekki fyrir neinu tjóni vegna byggingarbannsins og eigi því ekki rétt á bótum fyrir land það, sem undir bannið fellur.

   Matsnefndin telur hins vegar ljóst að beitiland hafi rýrnað sem nemur því landi sem undir vegslóða, aðkeyrslur og staurastæði hefur farið og beri eignarnámsþolum bætur fyrir það. Land þetta telur matsnefndin vera u.þ.b. 1,8 hektara að stærð og hæfilegar bætur fyrir missi afnota þess lands til frambúðar kr. 198.000,- og hefur þá verið tekið tillit til þess að rúmlega eitt og hálft ár er liðið síðan eignarnemi fékk umráð og afnot landsréttindanna.
   
   Matsnefndin telur ekki lagaheimild fyrir því að ákveða eignarnámsþolum bætur vegna kostnaðar við sáttaumleitanir áður en til eignarnámsmálsins kom. Þá telur matsnefndin, að ekki hafi verið sýnt fram á með rökum, að framkvæmdir eignarnema við línulögnina hafi haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir eignarnámsþola.

   Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola úr hendi eignarnema þykir rétt að taka tillit til þess, að atvik, sem eignarnemi ber ábyrgð á, olli því að matsnefnd varð að fara á vettvang öðru sinni með aðilum og lögmönnum. Þá hefur verið tekið tillit til þess, að lögmaður eignarnámsþola hefur gengið tvívegis á vettvang og flutt málið munnlega, fyrst um umráð og framkvæmdir og síðan um fjárhæð bóta. Með vísan til framangreinds þykir hæfilegt að eignarnemi greiði eignarnámsþolum kr. 140.000,- í málskostnað og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

   Eignarnemi greiði allan kostnað af starfi matsnefndarinnar skv. 11. gr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, þar með talinn ferðakostnaður, samtals kr. 430.020.

   ÚRSKURÐARORÐ.

Eignarnemi, Landsvirkjun, greiði eignarnámsþolum Birgittu H. Halldórsdóttur, Halldóri Eyþórssyni og Sigurði Inga Guðmundssyni, Syðri-Löngumýri, kr. 198.000 og kr. 140.000,- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kr. 430.020 í kostnað af starfi matsnefndar eignarnámsbóta.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta