Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2009

Fimmtudaginn 12. mars 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 18. desember 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 15. desember 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning og greiðslur til kæranda í kjölfar úrskurðar fæðingar- og foreldraorlofsnefndar þann 5. júní 2008 í máli nr. 43/2006.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Vísað er í mál nr. 43/2006 er varðar greiðslur til mín úr fæðingarorlofssjóði frá árinu 2006. Á liðnu sumri barst mér greiðsla úr fæðingarorlofssjóði sem reiknaður mismunur á fæðingarstyrk er ég fékk greiddan í orlofi mínu og þess grunnstyrks sem ég hafði rétt á.

Eftir útreikninga gat ég ekki annað séð en að hvort tveggja, greiðsla höfuðstóls, vaxta sem og dráttarvaxta hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög og reglur og að sú greiðsla er barst, hafi verið of lág. Hafði ég því samband við Fæðingarorlofssjóð bréfleiðis (ódagsett bréf hér meðfylgjandi sent 5. júlí síðastliðinn). Engin svör bárust frá sjóðnum og fékk ég staðfest símleiðis að bréf mitt hafi verið móttekið þann 9. júlí síðastliðinn og að gengið yrði í málið hið fyrsta.

Í lok október hafði ég enn ekki fengið svar og sendi því ítrekun. Svar frá sjóðnum barst að lokum í bréfi dags. 7. nóvember síðastliðinn.

Í bréfi þessu og fylgiritum kemur fram sundurliðun á greiðslu er framkvæmd var í lok júní 2008. Enn á ný gat ég ekki annað séð en greiðslan hafi verið of lág og ekki sú sem ég taldi mig eiga rétt á, vextir einungis reiknaðir þann tíma er ég var heima með barni mínu eða í sex mánuði en ekki fram til greiðsludags. Auk þessa voru engir dráttavextir reiknaðir.

Eftir að svör bárust frá Fæðingarorlofssjóði hafði ég samband við Umboðsmann Alþingis á ný sem taldi rétt að ég sendi málið fyrst til æðra stjórnvalds sem ég geri hér með.

Í ljósi ofangreindra atriða óska ég eftir því að mál mitt vegna greiðslna úr sjóðnum verði tekið upp á ný og mér verði gerð skil á því hvers vegna vextir eru ekki reiknaðir fram til greiðsludags og engir dráttarvextir allan þann tíma frá því fæðingarorlof hófst.“

 

Með bréfi, dagsettu 30. janúar 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 9. febrúar 2009. Í greinargerðinni segir:

„Þann 9. júní 2008 var birtur úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála á endurupptöku í máli nr. 43/2006. Samkvæmt úrskurðinum var talið að kærandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, sbr. og 1. mgr. 2. gr., og 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Hafði kæranda áður verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en verið afgreidd með fæðingarstyrk í samræmi við 18. gr. ffl.

Í 5. mgr. 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram að hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda ber [Vinnumálastofnun] að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falla vextir niður.

Samkvæmt framangreindu eru ekki greiddir dráttarvextir af vangreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði heldur almennir vexti af skaðabótakröfum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um dráttarvexti af skaðabótakröfum er fjallað í 9. gr. vaxtalaga.

Í 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga kemur fram að kröfur um skaðabætur skulu bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Þeir skulu á hverjum tíma vera jafnháir tveimur þriðju hlutum vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. málsl. 4. gr.

Þann 12. júní 2008 var kæranda send greiðsluáætlun þar sem fram kemur leiðrétting á greiðslum hennar við að komast inn í Fæðingarorlofssjóð og útreikningur á væntanlegri greiðslu til hennar. Vaxtaútreikningur virðist hafa fallið niður við þá leiðréttingu.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 74/2008, kemur fram að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Þar sem kærandi var ekki með neinar tekjur á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. var hún afgreidd í samræmi við 6. mgr. 13. gr. ffl. með lágmarksgreiðslur sem foreldri í 50 – 100% starfi og var greitt út þann 30. júní 2008. Hækkuðu heildargreiðslur til kæranda úr X krónum í X krónur. Nam mismunur því X krónur sbr. greiðsluáætlun dags. 12. júní 2008 og launaseðill fyrir júní 2008. Þann 1. ágúst 2008 voru kæranda greiddir vextir þegar uppgötvast hafði að vaxtaútreikningur hafði fallið niður þann 30. júní. Þann 7. nóvember 2008 var kæranda sent bréf ásamt launaseðli sem sýnir leiðréttingu á greiðslu höfuðstóls og yfirliti yfir vaxtaútreikning.

Við leiðréttingagreiðslu til kæranda þann 30. júní 2008 varð kerfisvilla þannig að ekki var dregið af lögbundið lífeyrisiðgjald í samræmi við 1. mgr. 14. gr. ffl. en þar kemur fram að meðan á fæðingarorlofi stendur greiði foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 8%. Heildargreiðsla höfuðstóls til kæranda eftir leiðréttingu nam X krónur og bar kæranda því að greiða X krónur í lífeyrissjóð sem Fæðingarorlofssjóður hefur þar með ofgreitt kæranda.

Við vaxtaútreikning þann 1. ágúst 2008 var notuð röng vaxtaprósenta eða 2/3 af 18,4% prósentum þegar átt hefði að nota 2/3 af 12,3%. Vegna þessa fékk kærandi greiddar X krónur í vexti þegar hún hefði átt að fá X krónur miðað við vaxtaútreikning til greiðsludags höfuðstóls sem var 30. júní 2008 og vexti af vöxtum frá þeim degi til 1. ágúst 2008. Kærandi fékk því ofgreiddar X krónur í vexti. Heildarskuld kæranda við Fæðingarorlofssjóð nemur því samtals X krónur.

Í 2. mgr. 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, kemur fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skal niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í samræmi við framangreint var kæranda sent bréf, dags. 6. febrúar 2009 og annað 9. febrúar 2009 með lítils háttar leiðréttingu, þar sem hún er krafin um framangreinda upphæð X krónur án 15% álags þar sem ofgreiðslan var eigi kæranda um að kenna. Til skýringar á yfirliti vaxtaútreiknings, í bréfinu frá 9. febrúar 2009, þá reiknast hver greiðsla sem kærandi fékk á árunum 2006 og 2007 með vöxtum af vangreiddum rétti frá þeim degi til greiðsludags sem var 30. júní 2008 samtals X krónur. Elsta greiðslan ber því vexti í 21 mánuð og yngsta greiðslan vexti í 16 mánuði. Vaxtaprósenta er 2/3 af 12,3% eða 8,2%. Kæranda voru svo reiknaðir vextir af vöxtum frá 30. júní – 1. ágúst 2008 eða X krónur. Samtals eru því vextir til kæranda X krónur.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 12. júní 2008 og launaseðill fyrir júní 2008 ásamt bréfi, dags. 9. febrúar 2009 beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda og að kæranda beri að endurgreiða Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði ofgreidda fjárhæð að upphæð X krónur.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 13. febrúar 2009, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 11. febrúar 2009 sem síðan voru áréttaðar í bréfi dagsettu 19. febrúar 2009. Í því bréfi segir:

„Hinn 9. febrúar sl. barst mér meðfylgjandi ákvörðun fæðingarorlofssjóðs vegna fyrri greiðslna til mín úr fæðingarorlofssjóði. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að vaxtagreiðslur til mín hafi verið ofreiknaðar og auk þess hafi láðst að draga frá fjárhæðinni greiðslur í lífeyrissjóð.

Ég tel að hjá því verði ekki komist að skjóta þessari ákvörðun fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndarinnar. Í fyrsta lagi tel ég það óvenjulega stjórnsýslu af hálfu fæðingarorlofssjóðs að endurákvarða vexti svo og ákvarða greiðslur í lífeyrissjóð án þess að gefa mér færi á að tjá mig fyrir fram um þessar breytingar. Tel ég því að ómerkja beri ákvörðun stofnunarinnar á þeirri forsendu að andmælaregla hafi verið brotin. En fremur hafi sjóðurinn ekki sinnt rannsókarskyldu sem skyldi.

Verði ekki fallist á ómerkingu málsins óska ég eftir að úrskurðarnefndin endurskoði ákvörðun fæðingarorlofssjóðs en ég fæ ekki betur séð en að endurútreikningur á vöxtum stofnunarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í bréfi fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 8. gr. síðastgreindra laga þar sem fjallað er um kröfur vegna skaðabóta. Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði geta varla talist skaðabætur. Tilvísun í 5. mgr. 15. gr. til laga nr. 38/2000 verður því að skilja sem tilvísun til birtingar vaxta Seðlabanka Íslands. Það er birtingin sem slík sem verið er að vísa til en ekki bótaskyldu.

Sýnist mér í raun á þeim útreikningum sem fram koma í bréfi fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. febrúar sl. að fyrri vaxtaútreikningar sjóðsins hafi verið réttir og er hér gerð krafa um að fallist verði á það. Auk þess tel ég að greiðslur til mín hafi verið vanreiknaðar um X krónur sbr. meðfylgjandi útreikninga. Eins og þar má sjá byggist fjárhæðin á því að fæðingarorlofssjóður dró skatt frá tekjum mínum í fæðingarorlofinu er hann greiddi það sem á vantaði á fullar fæðingarorlofsgreiðslur. Í öllu fæðingarorlofinu var ég undir skattleysismörkum.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs frá 30. júní 2008 um greiðslur til kæranda í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldra-orlofsmála þann 5. júní 2008 og jafnframt ákvörðun stofnunarinnar 9. febrúar 2008 um að endurkrefja kæranda um vangoldið lífeyrissjóðsframlag og ofgreidda vexti.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála endurupptók mál kæranda nr. 43/2006 sem úrskurður hafði verið kveðinn upp í 30. janúar 2007. Úrskurður í endurupptökumálinu var kveðinn upp 5. júní 2008. Með úrskurðinum var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði felld úr gildi.

Kærandi hafði í fæðingarorlofi vegna barns sem fætt var X. september 2006 fengið greiddan fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar. Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar greiddi Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður þann 30. júní 2008 reiknaðan mismun á fjárhæð lágmarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og fæðingarstyrks sem kærandi fékk greiddar. Nam sú fjárhæð X krónur en að frádreginni staðgreiðslu X krónur. Þann 1. ágúst 2008 voru kæranda greiddir vextir að fjárhæð X krónur sem láðst hafði að greiða 30. júní 2008.

Með bréfum dagsettum 6. febrúar og 9. febrúar 2009 var kærandi síðan endurkrafinn annars vegar um ofgreidda vexti og hins vegar vangreidd iðgjöld til lífeyrissjóðs sem hafði að sögn orðið vegna kerfisvillu.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, eins og ákvæðið hljóðaði við fæðingu barns kæranda þann X. september 2006 skyldi mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skyldi miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt 6. mgr. 13. gr. ffl. er kveðið á um að greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25–49% starfi í hverjum mánuði skuli þó aldrei vera lægri en sem nemur 65.227 kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50–100% starfi í hverjum mánuði skuli aldrei vera lægri en sem nemur 91.200 kr. á mánuði. Í 7. mgr. 13. gr. er kveðið á um árlega endurskoðun fjárhæðanna.

Á viðmiðunartímabili tekjuútreiknings árin 2004 og 2005 var kærandi ekki með tekjur á innlendum vinnumarkaði. Samkvæmt því átti kærandi rétt til lágmarksgreiðslu skv. 6. mgr. 13. gr. ffl. Eru lágmarksfjárhæðir rétt tilgreindar í útreikningi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs enda má af gögnum málsins ráða að ekki er ágreiningur um þær fjárhæðir. Hins vegar telur kærandi greiðslur vera vanreiknaðar þar sem Fæðingarorlofssjóður hafi dregið skatt frá tekjum hennar í fæðingarorlofi en þann tíma hafi hún verið undir skattleysismörkum.

Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs var kærandi ekki með skattkort sitt hjá stofnuninni þegar henni var greitt úr Fæðingarorlofssjóði þann 30. júní 2008 og var því dregin af staðgreiðsla opinberra gjalda svo sem skylt er. Hafi kærandi átt ónýttan persónuafslátt tekjuárin 2006 og/eða 2007 heyrir ákvörðun um tekjudreifingu yfir á þau ár og endurgreiðslu undir valdsvið Ríkisskattstjóra.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um vangoldið lífeyrissjóðsframlag og vangoldna vexti verði ómerkt þar sem andmælaregla hafi verið brotin og að enn fremur hafi sjóðurinn ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Að mati úrskurðarnefndarinnar er eigi talin ástæða til að ómerka ákvörðun stofnunarinnar. Kærandi hefur átt þess kost að koma andmælum sínum að við meðferð málsins fyrir nefndinni og staðreyndir málsins liggja fyrir.

Kærandi krefst þess að verði ekki fallist á ómerkingu málsins þá endurskoði úrskurðarnefndin ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs þar sem endurútreikningur á vöxtum hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Telur kærandi að fyrri vaxtaútreikningar hafi verið réttir.

Í 5. mgr. 15. gr. a ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, segir að hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda beri Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama eigi við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiði til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falli vextir niður.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 skulukröfur um skaðabætur bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Þeir skulu á hverjum tíma vera jafnháir tveimur þriðju hlutum vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. málsl. 4. gr. Í þeim málslið segir að þegar greiða beri vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skuli vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. skal Seðlabankinn fyrir lok hvers mánaðar birta í Lögbirtingablaði vexti af óverðtryggðum og verðtryggðum útlánum skv. 4. gr. og vexti af skaðabótakröfum skv. 8. gr. og skal hver tilkynning lögð til grundvallar í samræmi við lög þessi næsta mánuðinn eða uns næsta tilkynning birtist.

Eins og fram er komið skulu vextir vera jafnháir skaðabótavöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma. Fyrir liggur yfirlit um vexti birta af Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum nr. 38/2001. Þar eru sérstaklega tilgreindir eins og fyrir er mælt almennir vextir óverðtryggðra lána, sbr. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001, og vextir af skaðabótakröfum skv. 8. gr. Endurútreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á vöxtum sem byggir á því að vaxtaprósenta sé 2/3 af 12,3% eða 8,2% er ekki í samræmi við vexti af skaðabótakröfum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir. Virðist sá endurútreikningur vera á misskilningi byggður. Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um ofgreidda vexti á grundvelli endurútreikningsins er því felld úr gildi.

Samkvæmt 14. gr. ffl. greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 6% meðan á fæðingarorlofi stendur. Ekki virðist vera ágreiningur um þann þátt endurkröfunnar sem varðar greiðslu kæranda í lífeyrissjóð.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um endurkröfu oftekinna vaxta sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 9. febrúar 2009 er felld úr gildi.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta